21. apríl 2011

Gleðilegt sumar!

Í gær skipti Elías um afturskipti og bremsur á hjólinu mínu. Ég var að verða bremsulaus og þegar við reyndum að skipta um bremsuklossana kom í ljós að bremsan var ónýt. Svo það var brunað í búð og nýjar bremsur keyptar og nýr afturskiptir en það var líka kominn tími á hann.
Það var hrikalegt að sjá drulluna sem var á öllu draslinu, þrátt fyrir að við höfum reglulega þrifið hjólið í vetur.

Af því hjólið mitt var vant við látið í gær þá fór ég á hjóli bóndans í vinnuna. Það er mikið léttara hjól en mitt og líklegast er helsti munurinn í dekkjunum þar sem það er á sléttum dekkjum, en ég er enn á nöglunum. Helsti gallinn við það er að hnakkurinn er kolvitlaust stilltur fyrir mig. Ég get hækkað hann í þá hæð sem ég vil hafa hann, en hann hallar aftur á bak sem mér finnst mjög óþægilegt. En þar sem ég ætla mér ekki að nota hjólið að staðaldri þá vorum við ekkert að breyta því.

En nú er komið sumar samkvæmt dagatalinu. Nú þegar eru nokkrar hjólaferðir í skipulagningu. Við ætlum í dagsferð í júlí þar sem við bjóðum ættingjum að koma með og ætlunin er að fara rólega yfir svo ferðin henti flestum. Við fórum á síðasta ári hringferð um Suðurnesin og heppnaðist sú ferð vel. Við erum að vona að við náum að lokka með okkur frændfólk sem ekkert endilega hjólar reglulega og sýna hvað það er bæði mikið auðveldara að hjóla en fólk almennt heldur og hvað það er gaman.

Mamma og pabbi ætla að hjóla hringinn og það er aldrei að vita nema maður hjóli einhvern spotta með þeim.

Svo er ég með ýmsar hugmyndir í kollinum sem eiga eftir að verða að hjólatúrum í sumar. Það stefnir í skemmtilegt hjólasumar!

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...