28. maí 2009

Sjónin




Fór til augnlæknis í morgun. Hef átt í vandræðum með sjónina undanfarið. Á erfitt með að fókusa á t.d. tölvuskjáinn og það sem er í þeirri fjarlægð frá mér.
Kemur í ljós að nærsýnin hjá mér er að minnka. Fer úr 2,0 í 1,5 en er líka komin með smá sjónskekkju.
Svo er víst partur af þessu líka aldurinn. Augasteinninn á orðið erfiðara með það að aðlaga sig að mismunandi fjarlægðum, þ.e. augað þarf nákvæmari gleraugu til að sjá rétt.

Þá er að fara í gleraugnabúð og sannfæra starfsfólkið þar um að skipta bara út öðru glerinu, þó hitt sé rispað og svoleiðis. Það munar varla svo mikið um hálfan að það hafi áhrif á útlitið (þið vitið ef ég er með mjög sterkt á öðru en ekki hinu þá getur annað augað virst töluvert stærra en hitt).

26. maí 2009

Ferðahugur

Nú er mig farið að langa í hjólatúr eitthvað út fyrir borgina.
Keypti festingar fyrir hjól á bílinn og draumurinn er að láta karlinn keyra mig eitthvað út fyrir bæinn og sækja svo aftur á leiðarenda.

Í augnablikinu er það Þingvallaleið sem heillar, held að það sé bara nokkuð góð vegalengd að fara fyrir byrjendur í utanbæjarhjólreiðum (ef maður fer ekki á mesta annatíma). Annars væri gaman að fá tillögur um hjólaleiðir.

Árið 2007 hjólaði ég frá Blönduósi á Skagaströnd (ætlaði ekki að trúa því að það hafi ekki verið á síðasta ári) sem er ca. 21 km leið. Það gekk bara vel, mig minnir að ég hafi verið einn og hálfan tíma á leiðinni. En þá var ég ekki búin að kaupa mér Garmin græjuna svo ég er ekki með það nákvæmlega skráð. Það er nú ferð sem mætti vel endurtaka.

20. maí 2009

Smá tiltekt

Tók út þá bloggara sem ekkert hafa skrifað í langan, langan tíma. Nokkrir fleiri eru í hættu á að verða teknir út af lista, það eru þessir sem ekki hafa komið með innlegga í 5 -6 mánuði.
Koma svo bloggarar, látið heyra frá ykkur!

19. maí 2009

Vá vá vá

Þvílíkt fjöldamet sett í morgun í mínum talningum. Taldi 58 hjólreiðamenn. Gætu hafa verið fleiri en til að vera örugglega ekki að telja menn tvisvar voru vafaaðilar hafðir útundan. Nr. 49 og 50 voru Adda og Þórhallur.
Hef aldrei nokkurntíman talið svona marga. Fór Fossvogsdalinn og þar er bókstaflega krökkt af hjólreiðamönnum og gaman að segja frá að langflestir eru með hægri umferðina á tæru, þrátt fyrir ruglandi línumerkingar á stígunum. Helsti gallinn við þessa leið eru blindbeygjurnar, en þær eru nokkrar.


Og svo langar mig að monta mig svolítið af honum stóra bróður mínum. En í morgunblaðinu í gær kom mynd af honum þar sem hann tók þátt í Kópavogsþríþrautinni; 400m sund, 10 km hjólreiðar og 2.5 km hlaup. Hér eru úrslitin og varð hann í 11 sæti í karlaflokki sem er frábær árangur. Til hamingju með það Þórhallur!

15. maí 2009

Hjólafréttir

Veðrið var svo frábært í morgun að ég ákvað að fara lengstu leiðina mína í vinnuna sem er rúmir 9 km.
Mætti og sá 31 hjólreiðamenn sem er fjöldamet í mínum talningum.

14. maí 2009

Viðhorf til hjólreiða

Mér var í gær bent á það, af bílstjóra sem ók fram úr mér á Njálsgötunni að það væri fyrir löngu búið að leyfa hjólreiðamönnum að hjóla á gangstéttinni. Ég svaraði honum að það væri bara miklu betra að hjóla á götunni og fékk þá það svar að þar væri ég fyrir. Þar sem hann var þá komin fram úr mér gafst mér ekki tækifæri til að segja neitt af viti og kallaði bara NEI.

Einmitt á þessari götu eru gangstéttarnar algjörlega ónothæfir til hjólreiða. Stéttarnar eru þröngar og með þrengingum hér og þar. Húsin eru alveg upp við götuna og mjög oft er bílum lagt upp á stéttina. Hámarks hraðinn er 30 km/klst á götuni og venjulega næ ég líklega 20-25 km/klst þarna en maður þarf reglulega að hægja á út af þvergötum sem eiga forgang.
Mér finnst best þegar það er bíll fyrir framan mig því þá er augljóst að ég fer ekki hægar en hann og þá fá bílstjórar fyrir aftan mig ekki þessa tilfinningu að ég sé að hægja á þeim. En ef það er ekki bíll fyrir framan mig þá finn ég fyrir óþolinmæði bílstjóranna fyrir aftan mig. Oftast fer ég þá upp á stétt og hleypi framúr.

12. maí 2009

Vortónleikar unglingadeildar söngskóla Sigurðar Demetz

Í gærkvöldi söng Eyrún á vortónleikunum. Hún stóð sig virkilega vel. Tónleikarnir voru tvískiptir, klassísklög í fyrrihluta og sungið í hljóðnema á seinnihluta, en á milli sungu allar stelpurna í kór og líka í lokin.

Þetta voru allt stelpur og sungu þær flestar tvö einsöngslög og svo allar í kórlögunum. Þær voru greinilega komnar mis langt í náminu og margar áttu erfitt með að standa fyrir faman alla gestina og syngja, en allar komust þær vel frá sínu og stóðu sig vel. Tónleikarnir voru vel sóttir og þurfti að bæta við sætum til að allir kæmust fyrir.

Lögin sem Eyrún söng voru Brátt mun birtan dofna og lagið úr Anastasiu sem hún hefur sungið nokkrum sinnum áður, en það lag var valið með svolítið litlum fyrirvara og því náðist ekki að undirbúa og finna nótur að undirspili fyrir undirleikarana að spila svo hún notaði upptöku sem við Arnar bróðir settum saman fyrir Eyrúnu þegar hún söng lagið á Árshátíð unglingadeildar Vogaskóla fyrr í vor.

Bæði lögin voru virkilega fallega sungin hjá henni.

10. maí 2009

Tátiljur




Var að prjóna mér þessar tátiljur. Finnst þær bara nokkuð sætar.
Uppskriftin er í sokkabókinni sem Þórhallur gaf mér í jólagjöf.

8. maí 2009

Myrkur 29. september 2006

Munið þið eftir því þegar öll götuljós voru slökkt í hálftíma í september 2006?

Mikið vildi ég að það væri endurtekið. Í þessari færslu er ég að skrifa mína upplifun á því að ganga um hverfið með enga götulýsingu. Helsti gallinn var að margir íbúar slökktu ekki hjá sér ljósin. Og ég var líka hissa á fjöldanum sem ákváð að fara í bíltúr þennan hálftíma.

En þetta var frábært framtak sem mætti vel endurtaka (þó ekki fyrr en í haust þegar myrkrið er komið aftur).

7. maí 2009

Hjólað í vinnuna


Átakið Hjólað í vinnuna hófst í gær. Veðrið var ótrúlega gott þá miðað við að undanfarna daga var rok og rigning. En í gær skein sólin og vindinn hafði lægt töluvert. Enda var krökkt af hjólandi og gangandi þegar ég fór heim í gær.
Það reynir svolítið á þolinmæðina þegar menn fara ekki eftir hægri-umferðar-reglunni. En í morgun voru allir með hana á hreinu sem flýtir fyrir og auðveldar alla umferð.

18 hjólreiðamenn sáust á og við stígana við Miklubraut í morgun. Það eru 4 fleiri en þegar ég skráði þessa færslu.

6. maí 2009

Vorsýning, Klassíski listdansskólinn







Verð bara að segja frá þessu því maður er að springa af monti og stolti af frumburðinum. Á sunnudaginn var vorsýning Klassíska listdansskólans í Borgarleikhúsinu og þar kom fram (meðal fjölda annara frambærilegra dansara) hún Hrund mín. Vinkona henna Halldóra var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir sem ég nappaði af facebook, vona að hún fyrirgefi mér það. Við eigum svo fleiri myndir heima sem ég gæti vel átt til að skella hér inn líka, en þar var Eyrún á myndavélinni og náði ótrúlega góðum myndum miðaða við fjarlægð frá sviði.

5. maí 2009

Sumarið er komið

Því ég er komin á sumardekkin!!!!!!

Og ekki seinna vænna þar sem átakið Hjólað í vinnuna hefst á morgun.

Fékk skemmtilega aðstoð á leið í vinnuna í morgun í mótvindi og rigningu. Hjólreiðamaður sem var að taka fram úr mér býður mér að hjóla með sér þe. hann sá um að kljúfa vindinn og ég hjólaði við afturdekkið hjá honum. Það munaði ótrúlega um það og um stund var ég næstum í logni. Þurfti þó að hafa mig alla við að halda í við hann en við áttum skemmtilegt spjall um hjólreiðar í leiðinni.
Þetta er í annaðskiptið sem mér býðst svona aðstoð en síðast var ég á heimleið við svipaðar veðuraðstæður. Það var fyrir meira en ári síðan, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort um sama manninn sé að ræða...
Að minnstakosti þakka ég honum kærlega fyrir hjálpina í morgun.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...