29. júní 2007

Símaskráin á pappírsformi


Óskaplega er hún nú úrelt greiið. Prófaði af ganni mínu að fletta aðeins í henni. Sjá hvort ég gæti fundið hana vinkonu mína sem býr úti á landi (já Inga það ert þú - og þú ert ekki í kránni).

Hef aldrei skilið af hverju þarf að skipta upp landinu í svæði. Það bara flækir málin. Betra væri að hafa alla í einni súpu og svo getur hvert svæði fyrir sig gefið út bækur af sínu svæði ef þeir vilja hafa það svoleiðis. Þoli ekki þá sjaldan ég þarf að fletta upp í þessari blessuðu bók að byrja á því að finna landsvæðið sem umræðir og svo þar undir bæinn/kaupstaðinn og þá loksins er hægt að leita eftir nafni.

Sem betur fer er til vefur sem heitir ja.is

28. júní 2007

Keðjuverkun (Critical Mass)

Rakst á þetta á bloggi sem ég skoða af og til. Ákvað að skella þessu hér inn.

Allir sem vettlingi, hjóli, hjóla/línuskautum eða hjólabrettum geta valdið mæta í Glæsibæ fyrir klukkan 12 á hádegi á föstudaginn. Fréttatilkynning hér:

Keðjuverkun eða Critical Mass er viðburður sem vanalega er haldinn seinasta föstudag í hverjum mánuði í borgum og bæjum víðsvegar um heiminn þar sem reiðhjólafólk, og jafnvel hjólabretta-, hjólaskauta- og línuskautafólk fjölmenna göturnar.

Hver hefur sínar ástæður fyrir því að vera með en algengt er að fólk vilji vekja athygli á hjólum sem samgöngumáta í stað bíla og fá fleiri til að hjóla. Eða einfaldlega hjóla saman og skemmta sér í góðra vina hópi.

Fyrsta „keðjuverkunin“ á Íslandi verður haldin föstudaginn 29. júní kl. 12. Hjólað verður frá Glæsibæ að Ráðhúsinu um Laugaveg. Áætlunin er að halda atburðinn mánaðarlega.

27. júní 2007

Gamlir kunningjar

Fór fram hjá gömlum kunningja í gær morgun.


Þannig var að í nokkur ár hjóluðum við á móti hvort öðru á hverjum morgni. Þetta var þegar ég hjólaði alltaf Suðurlandsbrautina. Við vorum farin að heilsast svona á öðru ári (við Íslendingar erum ekkert of fljót að hleypa öðru fólki að).

Síðan kom að því að of margir voru farnir að hjóla þessa leið og kominn var tími til að finna aðra leið. Þá fór ég að hjóla Miklubrautina (eða dekkjasprengileiðina vegna allra glerbrotanna sem voru á þeirri leið). Það skemmtilega var að þessi kunningi minn, sem ég hef í mesta lagi sagt "Góðan daginn" við hafði greinilega fengið sömu hugmynd og var farin að hjóla þessa sömu leið. Svo enn hjóluðum við á móti hvort öðru og heilsuðumst.

Það kom svo að því eftir ótrúlega margar dekkjasprengingar að ég fékk nóg af umræddri leið. Á síðasta ári fór ég lang oftast Sæbrautina (5 km) og stundum Nauthólsvíkina (10 km, þegar ég er í extra góðu hjólastuði) eða Suðurlandsbrautina (4,5 þegar ég er löt) og ég man ekki til þess að hafa hjólað á móti manninum á síðasta ári.

En í gærmorgun var ég stemmd fyrir Miklubrautina og viti menn - þarna var hann. Við náðum hvorugt að átta okkur fyrr en akkúrat á þeirri sekúndu sem við mættumst, en það var eitthvað svo gaman að rekast svona á gamlan kunningja.

22. júní 2007

Er einhver sem veit...

Matjurtargarðurinn gengur glimrandi vel. Fengum okkur í gær salat með radísum og káli úr garðinum. Grænmeti bragðast alltaf best þegar maður ræktar það sjálfur.

En nú er spurningin. Á að hafa plastið yfir garðinum í allt sumar eða er kominn tími til að taka það af?

Nú eru kartöflugrösin vel sprottinn og farin að nálgast toppinn á "gróðurhúsinu" en gulræturnar eru ekki nærri tilbúnar þó grösin af þeim líti ágætlega út. Radísurnar eru eins og fyrr sagði lengra á veg komnar og kálið er alveg hægt að nota þó það eigi líklega eftir að stækka töluvert meira.

Er ekki einhver fróður þarna úti sem getur sagt mér til?

7. júní 2007

Endurnýjun lagna

Það er svo skemmtilegt núna að verið er að klæða afrennslislögnina hjá okkur. Þetta hefur gengið svona upp og ofan. Aðalvandamálið er þó samskiptaleysi milli verktaka og verkkaupa.

Samþykkt var að fara í þessar framkvæmdir á húsfundi. Verð gefið upp og sagt að verktaki gæti hafið störf svo til strax. Einnig var tilkynnt að einn dag væri ekki hægt að nota vatn í búðunum því þann dag væri verið að blása n.k. hulsu inn í lögnina til klæðningar, en auðvitað fengjum við að vita það með fyrirvara.

Jú, jú gott og blessað. Það er ljóst að kominn var tími á þessar framkvæmdir. Lagnirnar voru í upphafi stíflaðar af möl, sem ver hreynsuð út til að hægt væri að mynda lagnirnar. Og sagt að ef ekkert væri aðgert mundu þær fyllast aftur með tíð og tíma.

En nú líður og bíður og ekkert gerist.

Síðan einn daginn hringja dæturnar í mig og er mikið niðri fyrir, verið er að grafa upp beðið okkar fyrir framan hús. Enginn látinn vita, bara mætt á staðinn og hafist handa.

Og þannig var það líka í gærmorgun, þegar einn nágranninn bankaði uppá og sagði að í dag ætti að klæða lögninga og ekki mætti nota vatn þann daginn! Þetta var um kl. 8.30, og fengum við hálftíma frest til að bursta tennur og annað nauðsynlegt áður en vatnsbannið tæki gildi.
Þetta var nú helst til of stuttur fyrirvari að okkar mati. En auðvitað viljum við að þessu verki ljúki sem fyrst svo við tuðum bara okkar á milli.

Í gær var mikill dagur. Hrund að ljúka grunnskólanum og um kvöldið var heljarinnar útskriftarveisla á vegum skólans í sal hér í hverfinu. Nýbygginging er ekki að fullu tilbúin til að taka við svona hófi. Hún fékk líka að vita að hún hefur fengið inngöngu í Klassísla listdansskólann næsta vetur. Við seldum hornsófann okkar (í gegnum Barnaland.is) og við flúðum húsið vegna vatnsbanns og fnyks af völdum þessarar lagnaklæðningar.

Fnykurinn er eitthvað í átt við bensínlykt, en bara ágengari. Og á endanum ákváðum við að ekki væri hægt að sofa í þessu og fengum að kúra á dýnum hjá tengdaforeldrunum.

Eitthvað bilaði hjá lagnamönnum í gær og þeir náðu ekki að ljúka verkinu, en ætla að koma í dag og vonandi gengur allt vel 0g við getum farið að lifa eðlilegu lífi aftur.

1. júní 2007

Hjólafréttir

Fyrir ári síðan hófst tilraunaverkefnið "Að hjólin eru bílarnir - fyrir fullorðna". Þar sem þáttakendur skuldbundu sig til að fara alfarið eftir umferðarreglum á hjólfákum sínum.

Þetta var erfiðara en leit út í fyrstu. Að bíða á rauðu ljósi þegar engin umferð er á götunni virkar oft kjánalega þegar setið er á hjólfák, sérstaklega þegar aðrir hjólreiðamenn þeysa framhjá. Einnig uppgötvaðist það að sum ljós breytast ekki hversu lengi sem beðið er, nema bíll komi og bíði líka. Eins og þau ljós eru sniðug, fyrir bílaumferð þar sem umferð er róleg þá eru þau hundleiðinleg fyrir hjólreiðamann sem vill fara eftir umferðarreglunum.

Síðan er það þetta að hjóla ekki á móti einstefnu. Þetta er ómögulegt þurfi viðkomandi að fara fram hjá Hlemmi frá vestri til austurs. Þar þurftu þáttakendur ætíð að brjóta reglur leiksins.

Og nú þegar verkefnið er yfirstaðið er niðurstaðan sú að það borgar sig enganvegin fyrir hjólreiðamenn að fara eftir þessum reglum, nema við miklar umferðagötur. Og það að fara ekki eftir reglunum styttir hjólreiða tímann um 1 mín á hvern farinn km.

En þó er beygur í mönnum yfir því að með þessu sé verið að ala upp það að reglur meigi brjóta. Og í gærmorgun þegar vitnaðist að bíll fór yfir á rauðu ljósi þar sem engin önnur bílaumferð var á svæðinu gat hjólreiðamaðurinn ekki annað en hugsað; "Ætli ökumaðurinn sé hjólreiðamaður?"

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...