18. október 2012

Haustið

Svakalega dimmir hratt þessa dagana.  Undanfarnar morgna hafa götuljósin verið slökkt þegar ég er á leið til vinnu (komst alltaf aðeins nær miðbænum í hvert skipti), en í morgun loguðu þau alla leiðina.  Auðvitað hefur skýjafar áhrif líka, en það er farið að verða ansi dimmt. Nýja ljósið mitt reynist vel, sem reyndar varð til þess að ég fórnaði körfunni og ég sakna hennar svolítið.  Svo eru komnar nýjar rafhlöður í afturljósið og því er ég tilbúin í skammdegið.

Það hefur líka verið frekar kalt (hitinn rétt undir frostmarki og aðeins blástur) og maður hefur þurft að klæða sig aðeins meira, hafa eitthvað um háls og höfuð.  Og svo er maður farinn að spá í það að setja nagladekkin undir hjólið.  Ég hef mætt einum og einum sem eru þegar komnir með naglana undir, enn eru þó götur og stígar þurrir og lausir við hálku.  Kannski maður setji naglana undir um helgina því ekki vil ég láta koma mér á óvart.  Líka hef ég fengið ómótsæðilegt boð um að láta gera þetta fyrir mig og ég skal viðurkenna að allt svona dútl við tæki og tól finnst mér ekki skemmtilegt.

16. október 2012

Hjálmanotkun.

Í vor tók ég þá ákvörðun að hætta að setja hjálminn á hausinn þegar ég fór út að hjóla. Þetta var gert eftir vandlega umhugsun og lestur ýmissa skrifa bæði með og á móti hjálmanotkun. Mér líður vel á hjólinu hvort sem ég er með hjálm eða ekki, reyndar eykst frelsistilfinningin við að sleppa hjálminum en það er önnur saga.

En þar sem ég er ekki vön að synda á móti straumnum var þetta erfið ákvörðun og mér fannst ég þurfa að hafa allt að því skotheld rök fyrir því hvers vegna ég gerði þetta. Nokkrir bentu mér á hættuna við það að sleppa hjálminum og margir voru hissa á þessari ákvörðun. En reynslan af því að hjóla hjálmlaus var almennt góð.  Í eitt skipti var þó galað á mig út um bílglugga að ég ætti að vera með hjálm og í annað bentu krakkar mér á það sama. Að örðu leiti fékk ég að vera í friði með þessa ákvörðun mína.

En í morgun setti ég hjálminn aftur á hausinn og það var alveg jafn skrítin tilfinning og að sleppa honum í vor. Mér finnst ég að nokkru leiti vera að svíkja sjálfa mig en ein ástæðan fyrir því að ég smellti hjálminum á hausinn er sú að hann heldur buffinu á sínum stað á hausnum og hjálpar til við að halda á mér hita.  Það var þriggja gráðu frost þegar ég lagði af stað í morgun og buff + prjónahúfa haldast illa á höfðinu og fyrir eyrunum. 

Ég upplifi hjálminn ekki lengur eins og ég gerði áður, sem öryggis-huliðshjálm.  Mér fannst áður fyrr að ég væri skynsöm að nota hjálminn og mér fannst ég öruggari með hann, en núna… hann veitir mér ekki sömu öryggistilfinningu og áður.

Og það skrítna er að mér finnst ég þurfa að hafa jafn góð rök fyrir því að smella hjálminum á hausinn eins og að sleppa honum þó ég þykist nokkuð viss um að enginn komi til með að hrópa á mig út um bílglugga af því ég er með hjálminn.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...