24. september 2011

Sumarið 2011

Garðvinna hefur líklega tekið upp mestann tímann þetta sumarið. Við höfum sagað niður runna, sem eiga svo eftir að vaxa upp aftur. Tekið upp birkirunna sem voru orðnir gamlir og úr sér vaxnir og sett stiklinga af hinum runnunum niður í staðinn. Hreinsað beð sem var fullt af grasi og órækt. Smíðað girðingu. Ræktað matjurtir. Og síðast en ekki síst reitt arfa og slegið grasið.

En eitthvað hefur líka verið hjólað og það er ekki síður skemmtilegt en garðvinnan.

Í júní hjóluðum við fjölskyldan í Elliðaárdalinn í blíðskaparveðri. Dalurinn er alltaf jafn fallegur og við áttum góðan tíma saman.




Í júní lok lögðu foreldrar mínir, sem bæði eru á sjötugsaldri, af stað hringinn í kringum landið. Þau höfðu planlagt allan veturinn og verið dugleg að hjóla og byggja upp þol. Bæði fengu sér kerrur aftan í hjólin, keyptu tjald og dýnur og hvaðeina sem nauðsynlegt er að hafa með sér í svona ferð. Og svo rann upp stóri dagurinn og þau lögðu af stað snemma morguns þann 26. Júní.

Ég vildi fá að vera smá þáttakandi í þessu ferðalagi þeirra svo ég hitti þau þar sem Hvalfjarðavegurinn hefst sunnanmegin og hjólaði með þeim inn að Fossá. Veðrið var ágætt, aðeins mótvindur og smá skúrir af og til. En allir voru í góðu skapi og spenntir í upphafi ferðar. Og Hvalfjörðurinn er svo fallegur, sérstaklega á þessum hluta sem ég hjólaði með þeim.

En mikið voru hjólagarparnir óheppnir með veður næstu daga, þau fengu stöðugan mótvind svo mikinn að hann feykti þeim nokkrum sinnum af hjólunum og það var engin hvíld í að fara niður brekkur, meira að segja niður Holtavörðuheiðna þurftu þau að stíga hjólin til að komast áfram. Eftir mikinn barning við að komast á Blönduós tóku þau rútuna norður á Akureyri þar sem þau voru með húsnæði og gátu hvílt sig yfir helgi. Þegar þau höfðu svo hjólaði í Mývatnssveit sagði gigtin hjá mömmu hingað og ekki lengra og þau tóku þá erfiðu ákvörðun að segja þetta gott í bili.








Í byrjun júlí fórum við hjónin í ferð sem upphaflega átti að vera viku fjölskylduferð í bústað í Skorradal en varð á endanum eins sólarhings ferðalag okkar tveggja. Þetta var virkilega velheppnuð ferð. Við byrjuðum í Skorradal og gistum þar eina nótt. Daginn eftir pökkuðum við saman og fórum vestur á Snæfellsnes að Hallbjarnareyri. Við höfðum tekið hjólin með okkur og hjóluðum frá Hallbjarnareyri niður að tóftum við sjóinn. Gengum svo niður í fjöru, Elías var með myndavélina sína og var að prófa sig áfram með allskonar stillingar og myndefni og ég náði að tína smá blóðberg í te. Eftir að við komum til baka að Hallbjarnareyri ákváðum við að fara inn Hraunsfjörðinn. Þar ókum við eins langt og okkur fannst bíllinn komast, tókum þá niður hjólin og hjóluðum eins langt inn með firðinum og hjólin komust, skildum þau svo eftir og gengum inn að fossum tveimur sem eru í botni fjarðarins. Í bakaleiðinni stillti lóuþræll sér upp til myndatöku og leyfði Elíasi að fara ótrúlega nálægt sér áðu en hann svo lét sig hverfa. Svona ferð get ég hugsað mér að fara aftur. Láta bílinn keyra eftir stóru aðalgötunum og taka svo niður hjólið og hjóla fáfarnari leiðir. Veðrið auðvitað skemmdi ekki fyrir.













Hjólaferð fjölskyldunnar var farin seint í júlí. Með þeim ferðum, en þetta er í annað skipti sem við skipuleggjum svona ferð, erum við að vona að ættingjar sjái dásemdir hjólreiða og hversu auðvelt og gaman það er að hjóla. Þetta er dagsferð og við reynum að velja leið sem er þægileg og hentar flestum, en er samt svolítil áskorun og lengri leið en menn almennt halda að þeir geti hjólað. Ferðahraði miðast við hópinn og við stoppum hér og þar á leiðinni. Myndir og frásögn í blogginu hér á undan.


Í ágúst fórum við í gönguferð upp á Úlfarsfell. Það var skýjað en þurrt til að byrja með. Við lögðum bílnum við skógræktina og gengum eftir stíg þar sem svo leiddi okkur upp upp upp. Einhverjir voru með efasemdir um að við kæmumst sömu leið niður aftur þar sem það var svo bratt. Og svo byrjaði að dropa úr lofti og við ákváðum að fara ekki sömu leiðina niður og við fórum upp heldur fara frekar til hliðar og niður þar sem var meira aflíðandi. Þetta var hressandi og skemmtilegur dagur.





Þetta er auðvitað ekki allt sem við gerðum í sumar, hérna vantar t.d. að segja frá skemmtilegasta ættarmóti sem a.m.k. nokkrir höfðu farið á. Hjólaferð með Guðlaugu mágkonu að Gljúfrasteini. Og fleira skemmtilegt, en maður getur auðvitað ekki sagt frá öllu.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...