10. júlí 2009

Safnkassinn

Jamm, í 2 daga gerðumst við Elías smiðir og smíðuðum saman safnkassa fyrir garð- og heimilisúrgang með dyggum stuðningi geitungsins Friðriks sem var séstaklega heillaður af lokafrágangi.











Og svo ein mynd af sumarblómunum í beðinu fyrir framan húsið, þau eru bara svo falleg. Ég og Eyrún völdum þau.

9. júlí 2009

Dagur 4 og 5











Eftir þessa miklu keyrslu deginum áður vorum við ekki í mikilli ferðastemningu á degi 4. Planið var að fara að Strandakirkju og svo að sjónum við Þorlákshöfn og kíkja á Eyrarbakka og Stokkseyri. En við enduðum á því að fara bara að Strandakirkju og svo beint í bústað. Við áttum líka von á gestum því Guðlaug mágkona kom með strákana og við grilluðum okkur saman kvöldmat. Krakkarnir fóru í pottinn og eftir matinn upphófst mikill eltingaleikur við kanínu sem vappaði um svæðið en við höfðum séð a.m.k. 2 kanínur á svæðinu.












Dagur 5 sem einnig var sami dagurinn og við skiluðum af okkur bústaðnum var ljómandi fínn. Við fórum hluta af gullna hringnum þ.e. kíktum við hjá Strokki og sáum hann gjósa nokkrum sinnum og fórum síðan að sjá Gullfoss. Á báðum þessum stöðum var allt morandi í ferðamönnum. Ég hef ekki komið að Gullfossi í mörg mörg ár og það hefur mikið breyst. Búið að setja upp palla og stíga út um allt virkilega snyrtilegt og flott.
Ps. minni á að hægt að sjá stærri útgáfu af myndunum með því að smella á þær.

7. júlí 2009

Dagur 3, mánudagur

Þetta var lengsti dagurinn okkar og einnig með þeim skemmtilegri. Ég var að sjálfsögðu með allskonar kort og bækur á lofti allan ferðatímann okkar (og nokkrar vikur þar á undan við að skoða og skipuleggja hvert væri gaman að fara og hvað áhugavert að skoða).





Það kemur í ljós að Hrund hafði farið á Njáluslóðir með skólanum í vor sem var einmitt á þessu svæði sem við vorum á svo við ákváðum að taka smá útúrdúr eftir að hafa heyrt söguna af því þegar Skarphéðinn Njálsson rennir sér niður hlíðar Stóru-Dímonar og heggur mann og annan (sjá mynd með texta). Stóra-Dímon (afhveru heitir það Stóra-Dímon en ekki Stóri-Dímon?) er rétt hjá Seljalandsfossi, stendur eitt á sandsléttunni með Markarfljót við hlið sér.












Eyrún plataði okkur til að labba upp hlíðarnar og við sáum ekki eftir því. Þetta er ekki erfið ganga en töluvert bratt á kafla, þar einmitt stoppuðum við aðeins og ég fékk fyrsta lofthræðslukastið. Ég hélt alltaf einu sinni að ég væri ekki lofthrædd, en ég veit það núna að þessi hræðsla blundar í mér.












Eftir þessa hressilegu göngu fórum við að og á bakvið Seljalandsfoss, sem var enn meira frískandi þar sem hressilegur úðinn vætti kinnar og kætti geð.







Svo var stefnan sett á Sólheimajökul, en hann er skriðjökull sem skríður úr Mýrdalsjökli. Jökullinn er skítugur og með sandhrúgur út um allt, en virkilega fallegur. Við fórum upp að honum og aðeins upp á jökulröndina. Stutt frá okkur var hópur að undirbúa ferð á jökulinn með leiðsögn og gæti ég trúað því að áhugavert sé að ganga á jökulinn.











Næsta stopp Vík í Mýrdal. Þá var kominn kaffitími og ég keypti mér bolla af tei (sem aumingja afgreiðsludrengurinn brenndi sig á) og við snæddum nestið okkar áður en við röltum niður að sjó.



Dyrhólaey var staður sem mig langaði á og að sjá. En þegar við komum þangað var komin þoka svo ekki sáum við mikið af gatinu sjálfu, en það er magnað að vera í þokunni. Svo örlítið rofaði til svo við gátum fengið nasasjón af útsýninu sem við vorum að missa af. Síðast þegar við komum hingað var hávaða rok og rigning svo við fórum aldrei út úr bílnum. Vonandi fáum við betra veður næst.



Á heimleiðinni stoppuðum við hjá Skógarfossi. Þá vorum við öll orðin ferðalúin og langaði helst heim í bústað í afslöppun. En Skógarfoss er tignarlegur og fallegur foss sem alltaf er gaman að sjá.

Dagur 2, sunnudagur

Þennan dag skoðuðum við Hjálparfoss, Þjóðveldisbæinn, Búrfellsvirkjun og Stöng sem er uppgröftur stórbýlis sem er fyrirmyndin að Þjóðveldisbænum.

Hjálparfoss er ótrúlega fallegur og umhverfið kringum hann líka en fossinn er umkringdur stuðlabergi. Við gengum upp hlíðina hjá fossinum og sáum hann ofanfrá líka. Hrikalegt og fallegt í senn.






Þjóðveldisbærinn var einnig áhugaverður en á annan hátt. Og það allra besta við hann var að við fengum frið fyrir flugunum sem voru ansi ágengar þarna.
Engar myndir voru teknar í eða við virkjunina en hér eru nokkrar myndir af Stöng. Liturinn á gróðrinum inni í uppgreftrinum er ótrúlegur. Manni finnst hann næstum sjálflýsandi svo ljós grænn er burkninn sem þarna sprettur um allt. Við skráðum okkur í gestabókina og það er greinilega mikill gestagangur þarna. Það er hægt að smella á myndirnar til að stækka þær og á síðustu myndinni sést gróðurinn einmitt mjög vel.




Sumarbústaðarferð.


Frábær ferð. Yndislegt land. Geggjað veður.


Já við vorum í sumarbústað í Ölfusborgum. Við ferðuðumst um suðurlandið og skoðuðum fallega landið okkar. Ég er búin að velja nokkrar myndir og reyna að vinsa úr þeim örfá sýnishorn af því sem við skoðuðum, sáum og gerðum og af því myndirnar eru fleiri en góðu hófi gegnir (þrátt fyrir svakalegan niðurskurð) þá ætla ég að skipa þeim upp í færslur eftir dögum.
Allra fyrsta daginn vorum við bara í nánasta nágreni. Kíktum aðeins í Hveragerði en þar voru blómadagar, brunuðum svo á Selfoss (því sængurfötin gleymdust heima svo við keyptum ný) og enduðum svo í bústaðnum og grilluðum í þessu líka frábæra veðri.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...