Nokkrar staðreyndir um hjólatúrinn:
Vegalengd: 60,2 km
Hjólatími: 3 klst og 50 mín
Ferðatími: 6 klst.
Meðalhraði: 15,7 km/klst
Hámarkshraði: 52,5 km/klst
Veður: Fínt, smá vindur, eitthvað af sól, einn rigningarskúr.
Ferðafélagar: Abelína Hulda, Halldór, Elías, Guðlaug, Adda, Þórhallur og ég.
Lögðum af stað úr bænum um kl. 9 á 2 bílum og ókum að Hvalfjarðarvegi norðanmegin. Þar fóru hjólagarpar úr bílunum og annar bíllinn fór í bæinn aftur, bílstjórinn Aðalheiður en hún ætlaði svo að koma aftur eftir hjólatúrinn og sækja hjólreiðamenn. Hinn bíllinn með kerru aftan í ferðaðist með okkur og skiptust menn á því að keyra bílinn 5-10 km á undan hópnum og hjóla svo á móti hinum.
Hjóluðum af stað kl. 10. Veðrið var fínt, svolítill mótvindur en ágætlega hlýtt. Til að byrja með var leiðin aflíðandi upp í móti. Ferðafélagar voru misvanir hjólreiðum og það dreifðist aðeins úr hópnum en við hittumst þó alltaf hjá bílnum aftur. Sumum fannst góð hvíld að fá að keyra bílinn af og til. Í botni Hvalfjarðar stoppuðum við í svolítinn tíma, fengum okkur að borða og aðeins slökuðum á, þá búin að hjóla 25 km. Þar voru flugur svolítið að stríða okkur og einhverskonar flær (þó þær væru ekki eins pirrandi og flugan).
Þriðjudagurinn varð fyrir valinu því við töldum að þá væri umferðin líklega ekki eins mikil og um helgi. Það var samt töluverð umferð og ótrúlega margir ökumenn óhræddir að aka á öfugum vegahelmingi á móti blindhæðum og beygjum til að komast fram úr okkur. Það er mesta mildi að ekki komu bílar á móti. En allt gekk vel, engin slys sem betur fer.
Fyrir ferðina hafði ég bæði verið kvíðin og full tilhlökkunar. Því ég hef oft látið mig dreyma um að hjóla þessa leið, en kvíðinn var út af því að ég hélt að kannski væri leiðin allt of erfið. Það er svo skrítið hvernig maður getur miklað hluti fyrir sér. Staðreyndin er sú að þetta var yndislega skemmtilegur túr og maður auðvitað fer á sínum hraða og eftir sinni getu.
Við ræddum það á leiðinni hvað það er mikil sind að hvað menn almennt halda að það sé erfitt aðhjóla þegar í raun er það auðvelt. Og þá vorum við ekki að tala um að fara í svona ferðir heldur bara almennt að hjóla milli staða innanbæjar. En líka vorum við sammála um að fleiri séu að átta sig á þessu og hjólreiðamönnum hafi fjölgað í höfuðborginni og svæðunum þar um kring.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli