16. október 2012

Hjálmanotkun.

Í vor tók ég þá ákvörðun að hætta að setja hjálminn á hausinn þegar ég fór út að hjóla. Þetta var gert eftir vandlega umhugsun og lestur ýmissa skrifa bæði með og á móti hjálmanotkun. Mér líður vel á hjólinu hvort sem ég er með hjálm eða ekki, reyndar eykst frelsistilfinningin við að sleppa hjálminum en það er önnur saga.

En þar sem ég er ekki vön að synda á móti straumnum var þetta erfið ákvörðun og mér fannst ég þurfa að hafa allt að því skotheld rök fyrir því hvers vegna ég gerði þetta. Nokkrir bentu mér á hættuna við það að sleppa hjálminum og margir voru hissa á þessari ákvörðun. En reynslan af því að hjóla hjálmlaus var almennt góð.  Í eitt skipti var þó galað á mig út um bílglugga að ég ætti að vera með hjálm og í annað bentu krakkar mér á það sama. Að örðu leiti fékk ég að vera í friði með þessa ákvörðun mína.

En í morgun setti ég hjálminn aftur á hausinn og það var alveg jafn skrítin tilfinning og að sleppa honum í vor. Mér finnst ég að nokkru leiti vera að svíkja sjálfa mig en ein ástæðan fyrir því að ég smellti hjálminum á hausinn er sú að hann heldur buffinu á sínum stað á hausnum og hjálpar til við að halda á mér hita.  Það var þriggja gráðu frost þegar ég lagði af stað í morgun og buff + prjónahúfa haldast illa á höfðinu og fyrir eyrunum. 

Ég upplifi hjálminn ekki lengur eins og ég gerði áður, sem öryggis-huliðshjálm.  Mér fannst áður fyrr að ég væri skynsöm að nota hjálminn og mér fannst ég öruggari með hann, en núna… hann veitir mér ekki sömu öryggistilfinningu og áður.

Og það skrítna er að mér finnst ég þurfa að hafa jafn góð rök fyrir því að smella hjálminum á hausinn eins og að sleppa honum þó ég þykist nokkuð viss um að enginn komi til með að hrópa á mig út um bílglugga af því ég er með hjálminn.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...