21. nóvember 2013

Borgin sendi íbúum viðvörun vegna gróðurs

Í haust fengum við bréf inn um lúguna frá Reykjavíkurborg þar sem okkur er bent á að gróður af lóð okkar vaxi inn á stétt/stíg og að greinar á stórum trjám séu fyrir tækjum sem sjá um hreinsun á stígum.
Mín fyrstu viðbrögð voru að hlaupa út á götu til að skoða málið, og jú það var þarna ein grein sem slútti niður og einhverjar stungust út í gegnum grindverkið og það var líklega ástæðan fyrir þessum skrifum.  Næstu helgi fórum við og söguðum og klipptum.

Svo í gær kom annað bréf sem hefst svona:  "Í ljós hefur komið að ekki hefur verið orðið við áskorun veghaldara þess efnis að gróður sem fer yfir lóðarmörk hafi verið klipptur,..." og aðeins seinna "Því tilkynnist hér með að búast má við að gróður verði klipptur á næstunni án frekari fyrirvara á kostnað lóðarhafa..."

Og nú var mér brugðið.  Hvað í ósköpunum geta þeir verið að tala um?  Hér er mynd tekin af vefnum, ég setti gulan hring utan um greinina sem við söguðum.  Mín niðurstaða er að menn hljóta að hafa farið númeravillt.  En ekki vil ég samt greiða fyrir lóðahreinsun hjá einhverjum öðrum  svo ég hringdi í þjónustuverið hjá Reykjavíkurborg og vona að allt endi nú vel.

Ég vil í lokin taka fram að ég er ánægð með þetta framtak hjá borginni að benda íbúum á að gróður þurfi að snyrta því oft hefur maður pirrast yfir gróðri sem er að yfirtaka stíga og stéttar.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...