3. júní 2017

Hvaða hjól á ég að fá mér?

Ég er að skoða að fá mér nýtt hjól þar sem hjólinu mínu var stolið fyrr í mánuðinum.  Hjólið þarf helst að uppfylla nokkrar kröfur eins og t.d. að hægt sé að hjóla á því allan ársins hring (verður að vera hægt að setja undir það nagladekk), að maður sitji uppréttur, að það sé fallegt, að hægt sé að vera með körfu framan á stýrinu og böglabera aftaná.
Hjólið sem ég missti uppfyllti allt þetta nema það fyrst og það var stærsti gallinn við hjólið sem að öðru leiti var svo til fullkomið.

Nú hef ég skoðað tvö hjól, annað í Hjólaspretti og hitt í Markinu.  Þau uppfylla bæði flest skilyrðin sem ég set, en svo kíkti ég inn á heimasíðu Berlinar reiðhjólaverslunar og hjólin þar eru svo falleg.

Fyrst fór ég í Hjólasprett í Hafnarfirði og þar skoðaði ég þetta hjól:

Það er á breiðari dekkjum en mitt hjól var á og það er hægt að setja undir það nagladekk.  Mér finnst það allt í lagi í útliti (en er ekki heilluð upp úr skónum).  Gírarnir eru innbyggðir og það er kostur, mig minnir að þeir séu 8, það kemur fullbúið með ljósum og bögglabera sem er líka plús.

Svo fór ég í Markið og skoðaði þetta hjól:
Það er eins með það og hjólið frá Hjólaspretti, það er fallegt en ekki að heilla mig upp úr skónum.  Dekkin eru jafn breið og á hjólinu frá Hjólaspretti og hægt að setja nagladekk undir.  Það kemur líka fullbúið með ljósum og bögglabera.

Svo er það hjólin frá Berlin:
 Þetta hjól er næstum 2x dýrara en hin hjólin, en sjáið hvað það er miklu fallegra!  Þetta er hjól sem ég er heilluð af.  Það er hægt að fá það í næstum hvaða lit sem er.  En ég á eftir að fara að skoða hjá þeim og veit ekki hvort það er hægt að setja undir þau nagladekk.

Fjöldi gíra er ekki eitthvað sem skiptir mig öllu máli, þeir verða að vera til staðar og líklega duga 8 gírar til að hjóla allan ársins hring (lendi reyndar af og til í því á veturnar að gírarnir frjósi og þá er bara hjóla á þeim eina gír), en ég veit að ég hef ekkert með 21 gír að gera.  Á vetarahjólinu (sem er 21 gíra) var ég svo til alveg hætt að nota annað en miðjutannhjólið að framan.  Fór aldrei í það léttasta og bara af og til í það þyngsta.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...