31. mars 2006

Má ekki bregðast aðdáendum.

Þið eruð svo dásamlega dugleg að kíkja á síðuna mína, ég bara tárast.

Hitti Ingu vinkonu mína og dóttur hennar í hádeginu því við ætluðum að borða saman. Ég hafði mælt með Pizza67 í Tryggvagötu. Hef farið þangað með bræðrum mínum í hádegsihlaðborð og líkað vel. En viti menn, þó við finnum stæði beint fyrir utan og allt þá dugar það ekki til því staðurinn er þar ekki lengur. American style opnar hér stendur í glugganum. En það er ekki okkar siður að kvarta og kveina svo við bara fórum á Hlölla í staðinn og rúntuðum svo niður á höfn, fundum gott stæði þar og snæddum í rólegheitunum. Mjög svo ljúft.

30. mars 2006

Óggisslegaflott

Setti teljara á síðuna mína (alveg neðst). Núna verðið þið öll að vera dugleg að kíkja svo tölurnar hlaðist inn.

29. mars 2006

Engar hjólafréttir

Það er einhver skræfa inní mér sem er svo hrædd um að detta enn einu sinni. Og hún skipaði mér að taka strætó í vinnuna bæði í gær og í morgun - það gætu nefnilega verið hálkublettir sjáðu til. Sá samt fullt af hjólreiðamönnum sem líklegast hafa ekki þessa sömu skræfu og ég.

27. mars 2006

Hjólafréttir


Á miðvikudaginn síðasta kom tengdapabbi með hjólin okkar úr geymslu. Í gær fór ég með hjólið mitt á bensínstöð og pumpaði í dekkin (af því að fína pumpan sem ég keypti mér virkar ekki nema bara stundum) og svona almennt athugaði hvort allt virkaði eins og það á að gera.
Í morgun hjólaði ég í vinnuna. Að sjálfsögðu var ískaldur mótvindur og þolið fyrir löngu farið, þurfti að fara niður í 3 gír upp smá brekku og meðalhraðinn hefur verið ca. 10 km/klst. (meðalhraðinn síðasta sumar var 15 km/klst).

Sá ekki nema 4 aðra hjólalinga á leiðinni og einn skokkara. Því miður var ég svo upptekin af því að hjóla að ég tók ekki eftir hitastiginu en finnst líklegt að það hafi verið nálægt frostmarkinu.

25. mars 2006

Lisa Ekdal


Þegar ég frétti að Lisa Ekdal ætlaði aftur að halda tónleika hér á landi ákvað ég að láta ekki happ úr hendi sleppa. Ég missti af tónleikum hennar síðast og ætlaði ekki að gera það aftur. Mjög snemma keypti ég mér miða á besta stað í salnum (og þeim dýrasta). Svo loksins, loksins kom að tónleika deginum.

Fyrri hluti tónleikanna einkenndist af bið. Fyrst var beðið í hálftíma eftir KK og Ellen Kristjánsdóttur en þau hituðu upp fyrir Lisu og gerðu það vel þegar þau loksins komu á svið. Ætli þau hafi ekki sungið í 15-20 mín og þá tók við önnur hálftíma bið. Maður fann fyrir pirringi í salnum. Svo heyrði ég konu nokkru fyrir framan mig segja að það væri hlé. Starfsfólkið niðri hafði sagt þetta við hana þegar hún, eins og nokkuð margir fleiri fóru að pissa eða bæta á glösin hjá sér.
En svo loksins kom að því. Fyrst komu tveir strákslánar á sviðið og spiluðu á sitthvort rafmagnspíanóið. Sviðið var skemmtilega upp sett og lýsingin góð. Á bak við þau var tjald og myndin á því var eins og þau væru stödd í höll einhversstaðar. Eftir dágott forspil kom Lisa og fór að syngja. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en maðurinn við hliðina á mér fílaði það í tætlur. Síðan söng hún "Benen i kors" sem ég og stelpurnar mínar köllum stressedei og pressedei (skrifað eins og sagt). Mér fannst sérstaklega áhrifamikið þegar hún söng "Du sålde våra hjärta". Ég hef líklegast þekk u.þ.b. annað hvort lag á tónleikunum öllum og langar mikið að eignast nýjasta diskinn hennar "Pärlor av glas".
Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og hefði viljað hafa þá helmingi lengri. Var svolítið sár yfir því að hún var ekki klöppuð upp nema einu sinni. Prógrammið var vel skipulagt og rann árennslulaust í gegn engin bið meðan skipt var um hljóðfæri allir með á hreinu hvaða lag kom næst og svoleiðis.

Það var upplifun að sjá hana í eigin persónu því hingað til hef ég bara séð ljósmyndir af henni og þær hafa allar verið svo allt öðruvísi en hún er (að minnsta kosti eins og ég upplifði hana).

Það var ótrúlega gaman að heyra hana syngja lögin sem ég hef bæði hlustað á og sungið með í gegnum tíðina, það eru líklegast um 5 ár frá því Daði gaf mér fyrsta diskinn hennar í jólagjöf og síðan 2 aðra.

Sem sagt virkilega skemmtileg upplifun.


22. mars 2006

Á síðustu stundu.

Einu sinni var ég stundvís og einu sinni var ég skipulögð. Þetta virðist allt vera gufað upp. Hjá mér ríkir svokallað skipulagt kaós. Jú ég veit hvað hlutirnir eru - oftast og ég veit hvenær ég þarf að gera hitt og þetta, en kem mér yfirleitt ekki til þess fyrr en á síðustu stundu.

Í gær var síðasti dagur til að skila skattframtali. Við hjónin höfum talað um það okkar á milli síðustu vikuna að drífa nú í þessu en fyrst í gær fórum við að draga fram skjölin sem til þarf og finna skattskýrsluna frá síðasta ári til að hafa upp á veflyklinum okkar. Jú, jú þetta var svo sem allt á sínum stað nema hvað að veflykillinn virkar ekki! Og hvað gerir maður þá? Jú sækir um frest og nýjan veflykil. En af hverju í ósköpunum erum við ekki löngu búin að þessu?

21. mars 2006

Fegurð



Stóð mig að því um daginn að dæma söngvara úr leik í American Idol af því hann hefur ekki lúkkið með sér. Útlitsdýrkunin hefur náð að síast inn í kollinn á mér án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Ég hef alltaf talið mig vera yfir það hafin að láta útlitið hafa áhrif á mig, en greinilega hefur eitthvað látið undan.

20. mars 2006

Sykur eða sætuefni

Það er kominn tími fyrir mig að blogga þar sem nokkuð er síðan ég setti inn bloggið hér á undan. En þá er spurningin hvað á að skrifa um.

Mig langaði að setja inn texta um það hvernig ég þoli ekki þessi sætuefni sem er troðið í allt í dag. Mér finnst þau bragðvond, eitthvað eftirbragð sem hentar mér illa. Og ég vil ekki trúa því að þau séu eitthvað betri en sykurinn, nema þú sért með sykursýki auðvitað. En svo fannst mér ég ekki hafa nóg efni í svoleiðis tuð-grein og er hætt við það.

Ok, en hvað á ég þá að skrifa um? Jú ég fer á tónleika á föstudaginn með Lisu Ekdal í Háskólabíói. Keypti miðann fyrir svo löngu síðan að ég var næstum búin að gleyma þeim. Það verður örugglega gaman, mér finnst hún frábær tónlistarmaður og lögin hennar yndisleg. Hlakka mikið til.

En þetta gengur hvorki né rekur hjá mér. Hélt að með því að skrifa bara eitthvað mundi andinn koma yfir mig, en hann er upptekinn við annað í augnablikinu svo ég segi þetta gott í þetta skiptið. Vona að dagurinn verði ykkur góður.

16. mars 2006

Erfist leikfimivanlíðan???

Þegar ég var í skóla var leikfimi sá tími sem ég kveið fyrir. Það sem ég hataði mest voru boltaleikirnir - fótbolti, handbolti, körfubolti, skotbolti... og fleiri slíkir leikir. Mér fannst hins vegar gaman þegar farið var í fimleika, klifra í köðlum og hanga eða ganga á slá eða eitthvað í þá veruna en að sjálfsögðu var það miklu, miklu sjaldnar en boltaleikirnir.

Þegar Hrund var yngri áttum við í mestu vandræðum með hana daginn fyrir leikfimidaga. Þá fékk hún magaverk og átti í vandræðum með svefninn.

Núna er það Eyrún. Reyndar ekki leikfimin heldur sundið. Og það skrítna er að hún er alltaf að suða um að fara í sund en þegar kemur að sundtímum þá er ekki lengur gaman. Og hún fær magaverk og á erfitt með að sofna kvöldið á undan.

Svo nú spyr ég, er þetta arfgengur andskoti?

Eða hef ég einhvernvegin smitað þessari tilfinningu yfir á börnin mín með framkomu eða einhverju gagnvart þessum tímum?

Nú hef ég nýlega áttað mig því að hræðsla við hunda er lærð hegðun hjá mér - því ég hef núna lært að vera ekki hrædd við hunda (guð blessi Discovery Channel). En áður en það kom til hélt ég að það væri í eðli hunda að bíta og með aganum einum væri hægt að hald þeim frá því, þess vegna mundu þeir (hundarnir) nota hvert tækifæri sem gæfist til að bíta mig ef eigendurnir pössuðu ekki upp á þá. Þessi hugmynd um hunda hlýtur að vera einhversstaðar frá komin og þar sem ég ólst ekki upp við hunda ... (foredrar mínir eru t.d. mjög hundahrætt fólk).

En nú velti ég fyrir mér er leikfimivanlíðanin líka lærð ???

14. mars 2006

Loksins að batna



Ræddi við Daða bróður um daginn og hann sagði mér frá einhverju sem kallast ísrigning og þau í Danmörku upplifðu í vetur. Ætli það hafi verið eitthvað svipað og á þessum myndum sem fylgja með blogginu mínu í dag?

Úff, hef kannski ekki alvega náð fullri orku ennþá. Ætla að halla mér aðeins aftur.

10. mars 2006

Flensan bankar uppá.

Heimili mitt er pestarbæli þessa dagana. Báðar dæturnar liggja fyrir með hátt í 40 stiga hita og hósta. Hitinn vill rokkar töluvert og ég dugleg að dæla lyfjum í þær til að halda honum niðri.

Þær hafa ekki orðið svona veikar síðan þær voru pínu litlar, allavega ekki báðar í einu. Nú er bara að bíða og sjá hvort við Elías fáum þetta ekki líka.

7. mars 2006

Kastalinn minn


Ég ætla að sýna ykkur kastalann sem mig langar svo í. Þetta er svona ævintýrakastali með kastalasýki, turnum, og allskonar skúmaskotum. Hann er til sölu og kostar ekki nema 690 þús evrur og er í Þýskalandi. Finnst ykkur hann ekki fallegur?

6. mars 2006

Strætó enn og aftur.

Ég var að enda við að senda kvörtunarbréf til Strætó. Þeir voru enn og aftur að breyta leiðarkerfinu og tóku við það í burtu eina kostinn við nýja kerfið fyrir mig.
Það sem breyttist var að leið S2 fer ekki lengur framhjá mínu hverfi og er þá í einni svipann bæði búið að taka frá mér vagninn sem fer á 10 mín fresti og líka tengingu við Kringlu og Smáralind, svo ekki sé minnst á Kópavogsbrautina mína 4 kæru.
Ég er svo pirruð og sár og svekkt og hissa að ég skuli ekki hafa tekið eftir því að þessar breytingar voru í vændum. Ég vissi að það ætti að fara að breyta kerfinu en taldi mig hafa lesið yfir og skoðað væntanlegar breytingar en samt fór þessi alveg fram hjá mér.

uss fuss puss

"ég er svo reiður, ég er svooo óskaplega reiður... " sagði annaðhvort Karius eða Baktus og nú líður mér þannig líka.

Og svo fékk ég svar frá Strætó sem er eftirfarandi (og ekki til þess fallið að gera mig kátari á nokkurn hátt):
Sæl Bjarney,

Frá því að nýtt leiðakerfi Strætó var tekið í gagnið í júlí á síðastliðnu ári hefur Strætó bs safnað saman athugasemdum, ábendingum og skoðunum farþega, bílstjóra og annarra sem hafa haft skoðun á málefnum Strætó bs. Í gær voru framkvæmdar breytingar á leiðakarfinu sem er ætlað að koma til móts við megnið af þessum athugasemdum og ábendingum og er því um margvíslega þjónustubót að ræða. Leiðakerfi almenningssamgangna verður alltaf málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða. Það er von okkar að sem flestir finni ásættanlegar lausnir fyrir sig í þessu breytta leiðakerfi.

Með kveðju frá Strætó bs.

Ég segi nú bara það sama og áðan uss puss fuss

3. mars 2006

Klukk

Hún Inga vinkona mín klukkaði mig og nú er að standa sig:
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Kópavogur
Reykjavík
Kaupmannahöfn (2,5 mán)
Reykjavík
Fjórar eftirminnilegar bækur:
Mómó
DaVinci lykillinn
Veröld Soffíu
Bróðir minn ljónshjarta
Fjórar góðar bíómyndir:
Mulan Rouge
Scarlet pimpernail
Castaway
A little trip to heaven
Fjórir uppáhalds sjónvarpsþættir:
House
Monk
30 days
Star trek Voyager
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Álaborg
Boston
London
Snæfellsnes
Fjórir uppáhalds veitingastaðir:
Skólabrú
Lækjarbrekka
Caruso
Pizza-Hut
Fernt matarkyns í uppáhaldi:
Smjörsteiktar kartöflur (með nauta snitzeli)
Kjúklingasalatið á Caruso
Franskur kartöfluréttur sem Elías eldaði
Subway bræðingur

Ég klukka og skora á: Arnar bróðir og Þorkötlu frænku að halda þessu áfram.

2. mars 2006

Hmm, fimmtudagur

Í gær lék ég kórstjóra. Það er nokkuð merkileg reynsla. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég leik þennan leik, en í fyrsta skiptið var fyrir áramótin. Ég sem sagt leysti af kórstjórann minn á einni æfingu þar sem hún skrapp á skíði til útlanda.

Nú hef ég verið í kór svo til alla mína æfi og ætti því að þekkja svolítið til, amk get ég gagnrýnt þá kórstjóra sem ég hef sungið hjá og fundið að ýmsu. En þegar maður svo stendur fyrir framan hópinn og á að stjórna sjálfur - þá er allt svo allt öðruvísi og töluvert mikið erfiðara. Það er ekki eins einfalt og maður heldur að hlusta á allar raddirnar og heyra út hvort einhver er að syngja vitlaust, það er ekki svo auðvelt að átta sig á því hvort flestir séu búnir að ná línunum sínum nógu vel til að geta sungið með öllum hinum röddunum.
Það er svo ótrúlega margt sem þarf að taka eftir og vera meðvitaður um.

En jafnframt var þetta mjög gaman og ég get vel hugsað mér að gera meira af þessu.

1. mars 2006

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang...

En samt er öskudagur.
Hvað var gert á öskudaginn í (mína) gamla daga? Ég man eftir öskupokunum og títuprónum sem hægt var að begja, það er ekki hægt að gera við títuprjóna nútímans þeir bara brotna. Ég man eftir að hafa saumað öskupoka og spennuni við að reyna að næla þeim í einhverja saklausa borgara. Líklegast hef ég þó aldrei haft áræði í annað en að næla þeim í mömmu og pabba í mesta lagi.

Ég á lítið minningarbrot af þessum degi úr Keflavíkinni. Þannig var að ég er í bíl með Melkorku og Þorkötlu og Siggi Þorkels var við stýrið. Ég man ómögulega hvert við vorum að fara nema það að Siggi þurfti að skjótast til að hitta einhverja menn. Það náðist að næla í hann poka áður en hann hljóp út úr bílnum og inn í eitthvað hús. Og Þetta fannst mér óumræðilega fyndið að þarna skildi skólastjórinn fara á fund með öskupoka hangandi á bakinu ha ha ha...

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...