30. apríl 2008

Hlaupafréttir

Á síðasta ári var skorað á mig að taka þátt í 10km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Ég tók áskoruninni og er núna að undirbúa mig undir hlaupið með því að hlaupa heim úr vinnunni. Í gær skildi ég hjólið eftir í vinnunni og skokkaði/labbaði heim. Gekk betur núna en í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta og ég var í 35 mín á leiðinni 4,5 km (sem gera 7,7 km/klst).

Í morgun skokk-labbaði ég svo aftur í vinnuna. Það er ótrúlegt hvað þolið kemur fljótt því núna var það ekki mæðin sem háði mér heldur þreyta í fótunum (þeir greinilega ekki búnir að jafna sig eftir gærdaginn).

En það sem pirrar mig mest við þetta allt saman er hversu hrikaleg rauð ég verð í framan. Tók tímann í gær eftir að ég kom heim hversu lengi andlitið er að ná eðlilegum húðlit aftur. Eftir 1 klst var næstum eðlilegum húðlit náð en þó var enn roði í kinnum. Það tók allt í allt 1 og hálfa klst þar til ekki var lengur hægt að sjá rautt.

Ætli þetta lagist með þjálfun? Eða er þetta bara eitthvað sem maður verður að lifa við?

28. apríl 2008

Rykmaurar

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að birta þessa grein sem er að finna á heimasíðu asma- og ofnæmisfélagsins.


"Rykmaurar á Íslandi
Snemma á níunda áratug síðustu aldar fóru fram rannsóknir á heysjúkdómum bænda hér á landi. Í aðdraganda þeirra rannsókna voru m.a. athugaðir hugsanlegir ofnæmisvakar í heyryki. Þá fundust einar 19 tegundir heymaura; sumar hverjar í miklu magni (13). Má gera því skóna að heymaurarnir hafi borist hingað til lands með heyi sem landnámsmenn fluttu með sér til að fóðra búpeninginn á leiðinni yfir hafið. Einnig kom í ljós að heymaurarnir voru aðal ofnæmisvaldar í sveitunum (14). Heymaurar eru náskyldir rykmaurum og ofnæmi fyrir einum þeirra, Lepidoglyphus destructor, hefur talsvert verið kannað í Reykjavík og nágrenni (15). Ofnæmi fyrir þessum heymaurum er miklu algengara en ofnæmi fyrir rykmaurum meðal sveitafólks en þetta snýst alveg við í þéttbýli (14,15).
Á síðastliðnu ári fór fram mjög víðtæk rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu í þeim tilgangi m. a. að athuga hvaða rykmaurar væru þar og í hvað miklu magni (16). Óhætt er að segja að niðurstöðurnar komu verulega á óvart. Í rúmum 210 einstaklinga fundust samanlagt 2 rykmaura. Það hefði mátt ætla að þarna hefðu átt sér stað einhver óskiljanleg mistök, því hvergi annars staðar sem leitað hefur verið að rykmauraum hefur fundist jan lítið af þeim. En það vildi svo til að úr rúmum þessara einstaklinga voru líka tekin sýni sem rannsökuð voru fyrir mótefnavökum frá rykmaurum og það fannst heldur ekki marktækt magn af þeim"

Jarðgerð

Fyrsta "uppskeran" úr jarðgerðarkassanum okkar var tekin á laugardag. Það var ótrúlega gaman að sjá og upplifa hvernig þetta virkar. Því þó maður viti að grænmeti, kaffikorgur, lauf, hey og fleira komi til með að breytast í mold með tímanum þá er magnað að sjá það í reynd.

Við keyptum fyrri endurvinnslutunnuna í fyrra vor og var hún orðin full seinnipart sumars svo við keyptum aðra.
Það var úr fyrri tunnunni sem tekið var á laugardaginn. Þá fór ég einmitt í Garðheima og keypti sigti og fötu til verksins því enn eru greinar og svona stærri hlutir sem ekki eru að fullu jarðgerð og fengu að fara aftur efst í tunnuna.

Moldin sem við höfum búið til með þessari aðferð var dökk og falleg. Það voru hvorki meira né minna en 3 og hálf fata sem kom úr tunnunni.

Ein fatan fór í matjurtargarðinn minn og hinar í beðin. Ég mæli eindregið með því að menn komi sér upp svona tunnum það fer ekki mikið fyrir þessu og það er minni lykt af þessum tunnum en af ruslatunnunum. Svo er ekki mikil vinna við þær heldur.

25. apríl 2008

25. apríl 2008

Í dag eiga foreldrar mínir 39 ára brúðkaupsafmæli. Það er ekkert smá. Til hamingju mamma og pabbi!


En svo er hér smá plöntumont og fyrirspurn.
Fyrri myndin er tekin 23. mars sl. og þá má sjá litla papriku að myndast hægramegin á plöntunni og þar sem hún greinist er eitthvað mitt á milli þess að vera blóm og paprika að myndast.
Sú seinni er tekin í morgun (25. apríl þið afsakið hvað hún er dökk). Þar er það sem var parika að myndast orðin stór og myndarleg paprika en hin er ennþá frekar lítil. Ætli sú stærri taki upp alla næringuna frá hinni áður en hún nær út í þá grein.















Og nú langar mig að fá upplýsingar frá plöntufróðu fólki. Ætli það sé óhætt að umpotta þessari plöntu? Hún er í allt of litlum potti og ég þarf orðið að vökva hana næstum daglega til að hún ofþorni ekki.

Eplatrén mín frá í fyrra eru frekar orðin væskilslega neðri hlutinn á þeim, blöðin orðin meira eða minna sölnuð. En á toppnum eru komin ný og falleg blöð.

Til hægri á myndunum báðum er svo sítrónutré. Það vex ótrúlega hægt miðað við bæði eplatrén og paprikutrén. En þeim var öllum sáð síðasta sumar.

Og að lokum. Teljarinn minn er staddur í nr. 6959 vantar bara 41 upp í 7000. Alltaf svo gaman að nálgast svona heilar tölur. Spennandi að sjá hvursu langan tíma það tekur að komast upp í þá tölu.
Ta ta ta tammm.....

21. apríl 2008

8 hjólreiðamenn

Hjólreiðamönnum fjölgar ört á morgnana nú þegar farið er að hlýna. Sá 8 í morgun. Einn á svona skrítnu hjóli þar sem hjólreiðamaðurinn liggur á bakinu, frekar fyndið að sjá.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...