Það er svo margt að gera þessa dagana. Mikið um breytingar. Báðar stelpurnar mínar útskrifuðust nú í vor, önnur úr grunnskóla og hin úr menntaskóla. Báðar svo yndislega frábærar og dásamlegir einstaklingar.
Hrund er að fara til Parísar á dansnámskeið í fjórar vikur, hún sem hefur aldrei verið í burtu frá okkur lengur en í viku í senn. Og allt stefnir í að hún fari svo út aftur í haust í meira dansnám. Eyrún er ekki búin að fá svör frá framhaldsskólunum sem hún sótti um svo það er enn óljóst hvort hún kemst inn í þá. Inntöku reglur breyttust, tilgangurinn með breytingunni var að reyna að koma öllum í framhaldsskóla í haust sem sækja um, nema hvað að þær takmarka einnig að krakkarnir komist í aðra skóla en sína hverfaskóla. En við sjáum hvað verður.
Mánudag og þriðjudag tók ég mér frí frá vinnu. Á mánudaginn fór ég í fjöruferð með nornunum í fjölskyldunni. Tilgangurinn að hittast og kíkja á plöntulífið í fjörunni. Við hittumst upp á Kjalarnesi heima hjá Minnu sem býr þar í paradís rétt við sjóinn. Sólin skein í heiði og við áttum yndislega stund hlaupandi léttfættar um ströndina og tánum aðeins díft í sjóinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli