19. september 2010

Minning. Kisinn Brandur.

Brandur er allur.

Hann kom inn í fjölskylduna okkar í september 2003 úr Kattholti. Lítill og með kvef. Það var ekki vitað hvenær hann fæddist en talið var að hann hafi verið 3-4 mánaða.

Hrund fékk hann í afmælisgjöf og fórum við saman í Kattholt til að skoða kisurnar þar. Hrund hafði nú eiginlega hugsað sér að fá sér læðu, en Brandur heillaðist af henni og þá var ekki aftur snúið.

Það voru dverghamstrar á heimilinu þegar Brandur kom og var hann gagntekinn af þeim, svo mikið svo að hamstrarnir þurftu að flytja búferlum inn í svefnherbergi. Brandur litli varð nú frekar svekktur yfir þessu.

Svo liðu árin og Brandur stækkaði og stækkaði. Hann átti kisu vini um allt hverfið og af og til komu kisur til okkar í pössun og það var ekkert vandamál, Brandur var hinn besti fóstri og tók þær að sér.

Hann vissi fátt skemmtilegra en að fara ofan í kassa og var alltaf jafn forvitinn að vita hvort hann kæmist (og við stundum að vita hvort hann kæmist uppúr aftur).

Svo fyrir rúmu ári síðan fluttum við úr Karfavoginum í Skipasundið. Það var ekki góður tími fyrir Brand, hann var ekki alveg að átta sig á þessari vitleysu að breyta um umhverfi og var alltaf að stinga af í gamla hverfið. Oftast gátum við sótt hann í Karfavoginn eða á Vogaskólalóðina en það kom fyrir að hann fannst ekki í nokkra daga jafnvel vikur.

En loksins áttað hann sig á nýja heimilinu og þá varð hann mikið rólegri en hann hafði nokkru sinni áður verið. Þegar gestir komu í heimsókn stakk hann ekki af eins og hann hafði gert þangað til heldur sat hinn rólegasti á þeim stað sem hann hafði valið sér þá og þá stundina. Menn höfðu orð á breytingunni sem orðin var á honum, jafnvel fengu sumir að klappa honum sem áður höfðu ekki fengið tækifæri til þess.

Brandi fannst gaman að leika úti í garðinum og var mikið að skottast í kringum okkur ef við vorum úti. Hann var líka námsfús sem sást best á því að þegar stelpurnar voru að læra heima vildi hann fá að lesa í bókunum líka og settist ævinlega ofan á skólabækurnar fengi hann tækifæri til þess.

Í dag varð Brandur fyrir bíl og dó samstundis. Við munum sakna hans.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...