30. maí 2015

Tweed ride Reykjavík 2015

Virkilega skemmtilegur viðburður í dag, tweed ride Reykjavík.  Góð mæting þrátt fyrir rok (nokkra dropa úr lofti) og frekar kalt veður.
Menn hittust við Hallgrímskrirkju kl 14, allir fengu númer á handlegg og hjól þar sem vegleg verðlaug voru í boði fyrir best klædda karlinn og konuna og flottasta hjólið í lok viðburðarins.
Þegar allir voru komnir með númer var tekin mynd af hópnum (mönnum ráðlegt að leggja niður hjólin sín á meðan þar sem rokið var í því að fella þau).
Síðan var hjólað af stað í halarófu niður Skólavörðustíginn, aðeins í gegnum miðbæinn, safnast aftur saman við Hljómskálann áður en haldið var að Salt við Reykjavíkurflugvöll.  Þar var gott stopp og gafst mönnum tækifæri á að kaupa sér veitingar eða snæða nesti.
Eftir dágott stopp var lagt af stað aftur og aftur í miðbæinn, Snorrabraut og svo Laugaveg þar sem við vöktum töluverða athygli og voru ófáar myndir teknar af okkur af gangandi vegfarendum.  Við vorum líka dugleg að vekja á okkur athygli með því að hringja bjöllunum og brosa út að eyrum.
Skrúðreiðin endaði svo á Kex hostel þar sem boðið var upp á gúrkusamlokur og kaffi eða te.  Plús það að menn gátu keypt sér veitingar.  Þar fengu allir litla miða til að kjósa hver ætti að hljóta verðlaunin.

Pabbi var á sendisveinahjólinu sem hann keypti sér í vetur.  Hrund hafði málað fyrir hann á skilti sem er á hjólinu "Verzl. Nonna og Bubba" en það var verslun í Keflavík sem pabbi vann hjá sem sendill þegar hann var strákur og einmitt á mjög svipuðu hjóli.  Hann hafði fundið allskonar vörur til að setja í kassa framan á hjólið til að líkja eftir sendingum sem hann fór með á sínum tíma, enda vakti bæði hjólið og farmurinn eftirtekt hjá samhjólurum okkar.

Ég og mamma eigum eins hjól, sem við keyptum báðar á síðast ári.  Við hekluðum okkur pilshlífar sem við settum á hjólin í gær og vorum bara nokkuð ánægðar með afraksturinn.

Hér eru nokkrar myndir frá okkur (ég bæti svo líklega við myndum þegar ljósmyndari viðburðarins verður búinn að setja inn á síðuna).




Engin ummæli:

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...