1. júlí 2016

Hjólað í júní 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 407 km, þar af 337 km til og frá vinnu og 70 km annað.  Í miðjum mánuðinum flutti vinnustaðurinn minn og þá tvöfaldaðist sú leið sem ég fer til vinnu.  Það hefur gengið ágætlega að hjóla.  Fyrstu 2 dagana var ég verulega þreytt eftir daginn.  En svo bættist úthaldið og mjög fljótt og ég finn ekki lengur fyrir þessari þreytu.

Hjólaði 18 vinnudaga mánaðarins til vinnu en tók 3 orlofsdaga. Sá að meðaltali 18 á hjóli á morgnana.  Mest taldi ég 25 og minnst 10.  Ég er að sjá svipað marga á hjóli á morgnana á leið minni til vinnu nú og áður.  Ég legg af stað hálftíma fyrr þar sem ég er 50 mín að hjóla í vinnuna í stað 20 mín áður, en svo er ég um 40 mín að hjóla heim.  Þetta er nefninlega að mestu upp í móti á leið í vinnu og þar af leiðandi niður í móti á heimleið.

Ég er löngu hætt að keppast við að hjóla hratt, þetta tekur bara sinn tíma og ég vil njóta þess á þægilegum hraða í nokkru öryggi frekar en að vera að keppast og taka áhættur.  U.þ.b. 1/3 af leiðinni neyðist ég til að hjóla með fram þjóðvegi 1 og svo í vegkanti, það er ekkert annað í boði svo ég viti til.  Þá hef ég klætt mig í skærgult vesti til að vera sem sýnilegust.  Á þessum vegum er umferðarhraði ansi mikill og það er óþægilegt en samt alveg gerlegt.

Ég tel mig vera búna að finna skástu leiðina, ég get farið aðeins styttri leið en þessa en þá þarf ég að fara upp ansi bratta brekku og ég geri það ef ég er í þannig stuði og fer þá leið oftast heim (þá er hækkunin ekki eins mikil þar sem ég er þá þegar hátt uppi).  Hluta leiðarinnar hjóla ég eftir "kindastíg" (þó engar séu kindurnar).  Það er í Víðidal þar sem hesthúsin eru.  Það styttir leiðina töluvert því stígurinn liggur í löngu sveig og mig grunar að "kindastígurinn" sé einmitt óskalína hjólreiðamanna.  Veit um a.m.k. einn annan á hjóli sem fer þessa leið á morgnana af því ég hef mætt henni.



Hvað ég geri svo í vetur er óljós, en það er næsta víst að ég er ekki að fara að hjóla meðfram þjóðvegi 1 í snjó, slabbi eða hálku.  En það er seinni tíma vandamál.  Núna er sumar og hlýtt og við höfum áhyggjur af því seinna.

Viðbót 4.7.2016:

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...