Út af veðri og færð hef ég ekki hitt ömmubarnið mitt eins oft og ég hefði viljað. Þess vegna ákvað ég í gærmorgun að leggja af stað á hjólinu til að heimsækja fólkið mitt. Það var rok, 9 m/s og 18 m/s í vindhviðum skv. vegagerðinni og skafrenningur svo ég var meira en tilbúin til að hætta við ferðina og snúa við ef mér litist ekki á færð og veður. En reynslan hefur kennt mér að oft eru meiri læti í veðrinu þegar maður er innandyra en utan (eins kjánalega og það hjólmar).
Svo ég lagði af stað. Það hefur ekki snjóað síðan á fimmtudaginn svo það hefur allavega ekki bætt í snjóinn. Ferðin gekk vel alveg þar til ég kom að bútnum sem liggur frá Barðavogi niður að Sæbraut, fyrir neðan leikskólann Steinahlíð. Þar hefur eitthvað stórundarlegt átt sér stað í gærdag, því þegar ég hjólaði þar í gærmorgun var færðin fín. En á leiðinni heim var kominn snjór á stíginn eins og tæki hefði farið þarna um og hugsanlega farið utan í ruðningara og dreift snjó yfir stíginn.
Allavega þurfti ég að teyma hjólið yfir þennan stíg. En stígurinn eftir það var fínn og alveg niður að Knarrarvogi. En þá kom í ljós að nokkuð hafði skafið yfir hjólastíginn sem heiti Kelduleið skv. Borgarvefsjá svo ég fór yfir á göngustíginn. Það var enginn annar á ferðinni svo það kom ekki að sök.
Þarna hinsvegar var ég farin að finna fyrir rokinu, enda mótvindur og svæðið nokkuð bert. En leiðin upp í Grafarvog var vel fær, af og til hafði snjór fokið í litla skafla yfir stíginn sem annaðhvort var furðu auðvelt að hjóla í gegnum eða ég leiddið hjólið yfir.
Svo kem ég að hringtorginu þar sem Sævarhöfði og Naustabryggja mætast.
Myndin er tekin deginum áður svo ég vissi hverju ég átt i von á í þetta skiptið. Stígurinn er sem sagt opinn þar sem örin er á þessari mynd hér:Það er allavega betra en að þurfa að klöngrast yfir snjóbakkann sem liggur yfir stíginn sem tekur við þarna beint á móti.Hér er teljarinn á Geirsnefi, milli appelsínugulu brúnna. Hann taldi í gær 7 að fara í austur átt og 7 að fara í vesturátt (ég hef tekið út tölur um gangandi).
En það er eins og hann hafi ekki talið mig þegar ég hjólaði þarna í gær. Ég hef litað gular tölur sem eru nálægt tímanum sem ég var á ferðinni, en það er samt öfugt við í hvaða átt ég er að ferðast.
Svo er hér teljarinn við Gullinbrú. Hann taldi í gær 7 að fara í austur og 4 í vestur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli