Samfelld unaðsstund
TÓNLIST Hallgrímskirkja Frönsk og íslenzk verk fyrir kór a cappella eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Debussy, Báru Grímsdóttur og Poulenc. Kór Áskirkju og Hljómeyki. Stjórnandi: Kári Þormar. Sunnudaginn 19. febrúar. Kórtónleikar Ríkarður Ö. Pálsson LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju efndi til kórtónleika án undirleiks á sunnudag, er voru að vanda vel sóttir. Fór hvort tveggja saman forvitnilegt viðfangsefni og vænlegir flytjendur þar sem einn reyndasti og einn yngsti kammerkór landsins komu fram sem einn hópur. Í ljósi árangurs hins eftirtektarverða akureyrska kammerkórs Hymnodiu á Myrkum músíkdögum aðeins rúmri viku áður er von að maður spyrji hvort íslenzkur kammerkórsöngur, er tók hraustlega við sér laust fyrir síðustu aldamót, hafi nú hafið nýja sókn er gæti á endanum jafnvel leyst stóru blönduðu kórana af hólmi. A.m.k. hefur lengi þrengt illþyrmilega að stærri miðlinum miðað við ástand fyrri áratuga, meðan áhugasöngvarar hafa í vaxandi mæli flykkzt í karla- og kvennakórana. Eftir ýmsu að dæma lítur því út fyrir að stórum blönduðum kórum fari senn fækkandi á móti fjölgun kammerkóra, er með tilstyrk æ menntaðri söngvara eiga auðveldara með að sérhæfa sig í erfiðum verkefnum. Meðal neikvæðari hvata kammerkóra má auðvitað telja króníska karlaeklu. Enda tókst jafnvel ekki einu sinni hér að fullskipa í tenór (10- 8-5-8), er háði svolítið fullum heildarhljómi. Það var hins vegar nánast eini dragbíturinn á frammistöðu kóranna tveggja, því hljómgæði hverrar raddar fyrir sig voru óhikað í úrvalsflokki, og í markvissri og sveigjanlegri mótun stjórnandans fékkst hið bezta úr hverri í undragóðri samblöndun. Gerði það, ásamt ósviknu gæðamarki viðfangsefna, tónleikana að einni samfelldri unaðsstund – og er þá vægt til orða tekið. Fjórar kórperlur Þorkels Sigurbjörnssonar – Til þín, Drottinn, Legg ég nú bæði líf og önd, Heyr himna smiður og Englar hæstir – er jafnvel í miðlungsflutningi hafa yljað landsmönnum um hjartarætur, náðu hér virkilega að blómstra. Þ.á.m. hin næstsíðasttalda – þrátt fyrir óvenjuhratt tempó sem raunar fór henni betur en fyrst hefði mátt ætla. Túlkun hinnar rytmískt líflegu tónsetningar Hildigunnar Rúnarsdóttur á Drottinsfagnandi 150. Davíðssálmi hefði, ásamt kraftmestu stöðunum í ljóðrænum Trois chansons Debussys (einkum í Quant j’ai ouy la tambourin) að vísu mátt létta ögn af fáguninni til ágóða fyrir beinskeyttari lífsgleði, en listileg mótunin lét þó hvergi að sér hæða. Hér fór seiðandi smíð er þyldi jafnvel enn meira slagverk en handsymbala Steefs van Oosterhout. Vinsæl Guðsmóðurlög Báru Grímsdóttur, María Drottins liljan og erkismellurinn Ég vil lofa eina þá, steinlágu eins og sagt er. Loks var komið að „munkinum með götustráksinnrætið“, skv. sjálfslýsingu Francis Poulencs. Einlæg hómófónísk mótetta hans Salve Regina (1941) skartaði, líkt og fleira undangengið, skemmtilega víðfeðmri dýnamík og næmari textatúlkun en gengur og gerist í hérlendum kórsöng. Lokaverkið, 16 mín. löng Credo-laus Messa Poulencs í G-dúr (1935), var kröfuharðasta atriði dagsins, m.a. fyrir krómatískt djarfa hljómabeitingu, auk þess sem mikið var lagt á einsöngvara og smærri sönghópa (einkum í háttlægum kvenröddum), en í óþvingaðri túlkun kóranna var samt engu líkara en að flest væri þeim kálfskinn eitt. Sérstaklega bar Agnus Dei lokaþátturinn yfirbragð innblásins frumleika, enda nánast eins og mannshugurinn næði þar þyngdarlausri „satori“ alsælu í eftirminnilega ómsætri meðferð kóranna. Þar sem fyrr mátti og heyra bráðfallegan smáhóp- og einsöng. Er vonandi á engan hallað þó sérstaklega sé tilgreint íðiltært sólóframlag Hallveigar Rúnarsdóttur, er í Kyrie og Agnus Dei jafnaðist á við það fegursta sem maður hafði nokkru sinni heyrt frá þeirri frábæru seiðkonu efstu upphæða.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Hjólaárið 2023 - 3.036 km
VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...
-
Var aðeins að skoða mig aftur í tímann og rakst þá á þessa mynd af nóvember kaktusinum í vinnunni hjá mér en hún er tekin árið 2010. Fyr...
-
Hjólaði samtals 231 km í mánuðinum þar af 113 til og frá vinnu. Tók mér 3 orlofsdaga í mánuðinum og var veik 2. Hjólaði 49 km á stóra hjól...
-
Jamm, í 2 daga gerðumst við Elías smiðir og smíðuðum saman safnkassa fyrir garð- og heimilisúrgang með dyggum stuðningi geitungsins Friðriks...
3 ummæli:
Nennti nú ekki að lesa þetta en geri ráð fyrir að þú sért að fá góða dóma þarna systir góð. Ég gratulera
Tek undir orð Refsarans : )
Já þetta er ansi langt og hann er lengi að komast að aðalatriðinu. Ég var að spá í að setja inn styttir útgáfu, en það þýddi að ég þyrfti að lesa allt yfir aftur og ég bara nennti því ekki.
En það sem skiptir máli kemur líka fram í fyrirsögninni hjá honum.
Skrifa ummæli