Hvað er meira hversdagslegt og sjálfsagt en að sjá og nota augun?
Það er ekki fyrr en sjónin klikkar að maður áttar sig á því hversu miklu máli hún skiptir. En það skrítna er að þegar allt verður eðlilegt aftur þá gleymist fljótt hvernig það var að sjá ekki vel og aftur verður hversdaglegt að sjá vel. Af öllu fólki ætti ég kannski að vera meðvituð um þetta þar sem ég hef ekki nema þetta eina auga að hlaupa uppá (vegna fæðingagalla). En það er nú bara ekki þannig.
Ég er núna í þriðja skiptið að upplifa töluvert tap á sjón, sem ætti að ganga til baka eins og í hin 2 skiptin (og ég tel mig sjá betur í dag en í gær).
Þetta gerðist fyrst árið 1998. Þá var ég í nýju starfi og þurfti að taka mér viku veikindafrí. Fyrstu einkennin eru lítill blettur fyrir því sem ég horfi á. T.d. við lestur þá sé ég ekki stafinn sem ég horfi beint á en bara stafina sitthvoru megin. Síðan verð ég viðkvæm fyrir ljósi og bletturinn stækkar og verður að flekki (tilfinning svipuð því og þunn slæða sé fyrir andlitinu) Ég fór að sjálfsögðu til augnlæknis og hann taldi sig sjá bólgu í augnbotninum rétt við sjóntaugina. Hann ráðlagði algjöra hvíld og enga áreynslu á augað. Ferðir til augnlæknisins urðu svo til daglegur viðburður. Sjónin versnaði í 2-3 daga en fór þá að skána aftur.
Næst kom þetta fyrir árið 2002 eða 2003 (árið sem Anna vinkona gifti sig). Það byrjaði eins en varði nokkrum dögum lengur í þetta skiptið og sjónin varð verri. Þá fór ég til annars augnlæknis líka og hann sendi mig í æðamyndatöku á auganu. Það er gert þannig að litarefni er sprautað í æð og myndir teknar um leið og það flæðir í augað. Læknirinn taldi sig sjá leyfar eða ör eftir bólgur en ekkert meira en það. Aftur lagaðist sjónin og varð eins góð og hún hafði verið fyrir.
Svo fyrir rétt rúmri viku síðan hófst ferlið aftur. Miðvikudaginn fyrir páska áttaði ég mig á því að ég var farin að horfa fram og til baka til að sjá það sem ég var að skrifa og ákvað þá að ekki væri ráðlegt að vera í vinnunni og fór heim. Páskarnir fóru að mestu leiti í hvíld (eftir tónleikana auðvitað á skírdag og föstudaginn langa). En sjónin var alltaf jafn slæm. Á þriðjudaginn fór ég til augnlæknis og hann taldi sig aftur sjá bólgu/þrota í augnbotninum, en nú væri komið nýtt tæki sem tekur n.k. sneiðmyndir af auganu og með því væri hægt að sjá augnbotninn betur en áður. Tími var bókaður og ég fór á augndeild Landspítalans þar sem umræddar myndir voru teknar. En á þeim sést ekki neitt.
Hvað þá? Ekkert bara að bíða. Þetta hlýtur að lagast núna eins og það gerði síðast. Það á að taka myndir aftur n.k. mánudag og bera saman við hinar fyrri (sama hvort mér verður batnað eða ekki).
Ég er mætt í vinnuna því eins og ég sagði áðan þá finnst mér ég vera betri en áður og læknarnir telja að það skaði ekki sjónina að nota augað. En ég á enn erfitt með að sjá andlit í meira en 5 metra fjarlægð og að lesa smáan texta. Þó hef ég fulla trú á því að allt verð gott aftur sem fyrr. Ég bara tek því rólega og loka augunum af of til og hvíli mig.
12. apríl 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Hjólaárið 2023 - 3.036 km
VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...
-
Var aðeins að skoða mig aftur í tímann og rakst þá á þessa mynd af nóvember kaktusinum í vinnunni hjá mér en hún er tekin árið 2010. Fyr...
-
Hjólaði samtals 231 km í mánuðinum þar af 113 til og frá vinnu. Tók mér 3 orlofsdaga í mánuðinum og var veik 2. Hjólaði 49 km á stóra hjól...
-
Jamm, í 2 daga gerðumst við Elías smiðir og smíðuðum saman safnkassa fyrir garð- og heimilisúrgang með dyggum stuðningi geitungsins Friðriks...
3 ummæli:
Vona að þetta gangi yfir frænka. Ég held að ég myndi fá létt panic attack ef ég lenti í svona löguðu.
Úff maður, þetta er ferlegt...
En í guðsbænum farðu vel með þig. Það verður reyndar aldrei nógu oft sagt við mann að fara varlega þegar eitthvað er að manni og venjulegast hlustar maður ekkert á þetta...en það ert þú sem skiptir máli í þessu ekki fanghelsið eða eitthvað annað. Fara sér hægt, slaka á...
Takk fyrir drengir. Ég tek lífinu eins rólega og ég mögulega get (og vil) þessa dagana.
Skrifa ummæli