Jæja, var að moka snjóinn. Mikið verður allt fallegt klætt hvítum snjó.
Hrund og Brandur fögnuðu próflokum í gær með því að búa til pínulítinn snjókarl. Mér skilst að Brandur hafi nú meira verið í því að veiða hendurnar af karlinum heldur en að hjálpa til, en svona eru kettir.
Hinum árlega piparkökubakstri er lokið og í dag ætlum við að skreyta og setja saman piparkökuhúsið okkar sem er með frekar óvenjulega sniði í ár, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Set inn mynd þegar það er komið saman.
Það fór svo mikið deig í piparkökuhúsið að við ákváðum að hnoða í nýtt deig til að eiga eitthvað af piparkökum til átu líka. Það endaði auðvitað þannig að við erum með allt of mikið af kökum (ef það er hægt).
Það gengur vel að hjóla í snjónum ef frá er talið óhapp sem ég varð fyrir á leiðinni heim um daginn. Þá ætlaði ég að hjóla á götunni eins og ég geri oft, nema hvað að gatan hafði verið söltuð og var snjórinn á henni orðinn n.k. saltpækill - eða drullulitað slabb. Sem betur fer var ekki umferð um götuna því ég gjörsamlega missti stjórn á hjólinu. Mér tókst að halda mér á hjólinu en það svingaði stjórnlaust um götuna og endaði ég á öfugum vegarhelmingi með mikinn hjartslátt og ónotatilfinningu. Af þessu hef ég lært að forðast saltaðar götur og passa mig extra vel þar sem ég þarf að fara yfir götur sem hafa verið saltaðar. Naglarnir hafa greinilega ekkert að segja við þessar aðstæður. Ég endaði á því að hjóla á gangséttinni sem við þessa tilteknu götu er mjög mjó en ég komst heil heim. Það er verst þar sem gangséttin er nálægt götunni og saltslabbið gusast upp á gangséttina en það getur verið mjög varasamt. Ekki datt mér í hug að saltið gæti verið svona hrikalegt.
.
En jólin nálgast og ég ætla mér að gera svakalega margt núna um helgina til að undirbúa jólin. Því eins og venjulega æðir tíminn áfram og einhvernvegin hleypur frá mér. Jólin koma nú samt þó ég hafi aldrei komist alveg yfir allt sem ég ætla mér að gera, en það er líka allt í lagi. Því það sem skiptir máli er ekki hvort búið er að þurrka úr öllum skápum og skúra öll gólf eða annað í þeim dúr.
2 ummæli:
Sæl og blessuð ;)
Þú hefur verið heppnari en ég...En ertu búin að prófa að gera laufabrauðið? Þú verður að lofa mér að vita hvernig gekk með það :)
Kveðja, Auður.
Enn er ekki búið að steikja laufabrauð.
Miðað við hvað tíminn líður finnst mér líklegt að það verði ekkert af því í ár...
jæja við sjáum til
Skrifa ummæli