Hljóp í gær 10 km í annað sinn. Nóttina fyrir ætlaði ég ekki að geta sofnað og vaknaði síðan fyrir allar aldir vegna kvíða. Fannst ég ekki hafa undirbúið mig nógu vel fyrir hlaupið og var viss um að ég væri að ofgera mér með því að hlaupa þetta í ár.
En ég var samt ákveðin í að hlaupa og sjá hvernig færi. Þorði ekki annað en að skrifa allar upplýsingar um mig aftan á keppnisnúmerið mitt sem var 3184 svona ef eitthvað færi verulega úrskeiðis og ég mundi lippast niður á miðri leið.
Upp rann hlaupadagurinn og ég hjólaði heim til Þórhalls. Klukkan var ekki orðin átta en samt voru margir á rötinu, allir í sömu átt og í hlaupagöllum (svolítið eins og uppvakningar að stefna allir á ákveðin stað, enginn fór í hina áttina). Þórhallur var við það að fara úr húsi þegar ég kom til hans, enda hljóp hann 21 km og það hlaup var ræst fyrr en mitt.
Svo kemur að því að mitt hlaup er ræst. Ég var búin að plana það að elta 60 mín blöðruna, eða allavega reyna að hanga í henni en sá það fljótlega að það gengi ekki upp. Fyrri hlutann af hlaupinu sá ég í blöðrurnar framundan (þó þær væru fyrir aftan mig í upphafi hlaups þá átti viðkomandi hlaupari greinilega auðveldara með að smegja sér á milli fólks og komast áfram heldur en ég). Hlaupið fór mjög hægt af stað vegna fjölda hlaupara. Það tók mig 3 mínútur frá því hlaupið var ræst að komast yfir byrjunarlínuna, eftir það komst meiri hreyfing á hópinn. En allt hlaupið var maður í þvögu, mikið meira en á síðasta ári þar sem hópurinn þynntist fyrr (en þá fór ég líka enn hægar yfir).
Eins og sést á myndinni þá hljóp ég nokkuð jafnt, tók eitt drykkjarstopp og hélt svo áfram. Í lokin tók ég smá endapretti en ekki mikinn. Ég náði að halda nokkuð góðum andardrætti allt hlaupið varð aldrei móð en einhversstaðar milli 8 og 9 km var ég orðin þreytt í fótunum og hefði tekið labbikafla ef það hefði verið lengri vegalengd eftir en þarna fannst mér ekki taka því.
Áhorfendur og klapplið voru hér og þar um alla brautina og ég efast ekki um að það fólk hafi haft mikil áhrif á það hversu skemmtilegt hlaupið var. Það gefur manni ótrúlegt búst að hafa þetta fólk þarna. Margir með potta og pönnur, einhverjir með bjöllur og svo raddböndin auðvitað.
Sem sagt frábært og skemmtilegt halup og ekki spurning að ég ætla aftur á næsta ári.
2 ummæli:
Já ég er líka svo stolt af þér fyrir að bæta þig um þessar mínútur, móðir mín. En ég hljóp nú líka og tíminn minn var 24:21,84 :þ
Eyrún
Glæsileg bæting frá fyrra ári þarna kæra systir. Hlakka til að hlaupa aftur að ári.
Skrifa ummæli