6. apríl 2012

Sumardekkin komin undir hjólið

Það kom svo sem ekki til af góðu.  Þegar ég hjólaði heim úr vinnunni á miðvikudag (daginn fyrir páskafrí) þá var hjólið eitthvað skrítið að aftan.  Titraði og var bara undarlegt.  Ég stoppaði til að athuga hvort ég sæi eitthvað athugavert sem ég gerði ekki, en þegar ég var loksins komin heim (ég þorði ekki annað en að hjóla rólega meðan ég vissi ekki hvað var að) þá var það ljóst að ég var með sprungið afturdekk.  Það hafði bara lekið mjög hægt úr dekkinu.

Svo í gær (Skírdag) fór ég í að setja bót á slönguna og skoða dekkið því mig grunaði að glerbrot væri ástæðan fyrir loftleysinu (fann ekki glerbrot).  Og ég setti 5. bótina á slönguna og lofaði mér því að kaupa nýja slöngu og setja í stað þeirrar gömlu næst (sem ég er nokkuð viss um að ég sagði líka þegar ég setti bót nr. 4 á slönguna).  En þegar loftinu var pumpað aftur í slönguna kom í ljós að henni var ekki viðbjargandi lengur því loft lak líka meðfram ventlinum.

Jæja, þá var ekkert annað að gera en að fara í búð og kaupa nýja slöngu.  Ég passaði að hafa rétta stærð og keypti 2 slöngur (þó slangan í framdekkinu sé nýrri og ekki með bótum á þá er alltaf gott að eiga auka slöngu).  En þegar átti að setja slönguna í gjörðina kom í ljós að ég hafði gert þau mistök að kaupa slöngu með bílaventli, en sú gamla var með frönskum ventli sem er mikið grennri svo nýja slangan passaði ekki í gjörðina.  Og þá var aftur brunað í búð og rétt slanga keypt.  Og eftir allt þetta vesen ákvað ég að best væri að setja sumardekkinn strax undir í stað nagladekkjanna og losna við vinnuna að taka dekkin undan aftur og allt það sem fylgir að skipta um dekk.

Svo núna er ég komin á sumardekkin og eins gott að veðrið hagi sér og hitinn haldi sig réttu megin við frostmarkið.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...