30. júní 2014

Hjólað í júní 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 292 km, þar af 159 km til og frá vinnu og 133 km annað.  
Hjólaði 14 af 19 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók nokkra orlofsdaga.
Sá að meðaltali 18 á hjóli á dag til vinnu og 21 frá vinnu. Mest taldi ég 35 til vinnu og 36 á heimleiðinni.


Þetta meðaltal er miðað við talningu á morgnanna á leið til vinnu (kl. 7:30-8:00).  

Viðbót 7.7.2014.  Hér er svo pósturinn frá endomondo loksins kominn.  Ástæðan fyrir mismuni á km fjölda er að inni hjá endomondo er eitthvað labb líka sem ég tel ekki með í minni samantekt sem fjallar eingöngu um hjólreiðar.

27. júní 2014

Hjólakeppni hringinn í kringum landið.

Hjólreðakeppnin WOW cyclothon er að ljúka.  Öll lið eru komin í mark og aðeins einsaklingar eftir.  Enda er þetta ótrúleg þrekraun fyrir einstakling að hjóla allan hringinn á 3-4 sólarhringum.
Það hefur verið gaman að fylgjast með keppninni á netinu, þrátt fyrir tæknilega örðugleika þá hefur að mestu verið hægt að fylgjast með liðum og keppendum á Íslandskorti.
Þórhallur bróðir var fyrirliði í liði sem kallar sig Hreystimenn og voru þau í 18-20 sæti en þrjú lið tóku sig saman og hjálpuðust að og voru samferða síðustu 700 km og komu samtímis í mark.  Ég tók þessi þrjú skjáskot í gær.  Þau komu svo í mark kl. 16:45.





Eftir vinnu í gær ákvað ég að hjóla upp að Rauðavatni þar sem endamarkið var og freysta þess að verða vitni að því þegar hópurinn kæmi í mark.  Ég reiknaði út að það yrði um kl. 17 og að það tæki mig líklega 40 mín að komast þarna uppeftir.  Mér til mikilla vonbrigða fann ég ekki endamarkið en eftir að hafa þvælst fram og til baka (engar stuttar leiðir ef þú ætlar að fylgja stígakerfinu) þá náði ég engu að síður að verða vitni að því þegar hópurinn hjólaði meðfram vatninu og var það huggun harmi gegn.

Viðbót 30.6.2014:
Tók þessa mynd þegar ég sá hópinn hjóla framhjá.  Var reyndar frekar lengi að ná upp símanum og smella af svo þetta eru öftustu menn.

11. júní 2014

Gamla hjólið mitt.

Í lok maí setti ég sumardekkin undir gamla hjólið mitt.  Auðvitað settist ég upp á það og tók smávægilegan hring (hef ekki hjólað á því síðan ég fékk nýja hjólið) - og þvílíkt áfall.  Þetta hjól sem hefur verið mér tryggur ferðafélagi í 7 ár er hræðilegt, lætur illa að stjórn, er þung og mér fannst ég begja mig langt fram og vera með höfuðið niður við götu.  Mér leið verulega illa eftir þetta, hef aldrei upplifað hjól svona áður en ég hafði átt von á því að upplifa "komin heim" tilfinningu við að stíga á gamla fákinn.
Síðan þá hef ég einu sinni prófað hjólið aftur og nú ekki með sömu væntingar.  Það er enn eins og að fara á gamlan traktor en þó ekki eins slæm upplifun og síðast.  Mér finnst samt ekki spennandi að þurfa að hjóla á því næsta vetur og nú er spurningin hvað er til ráða?  Kannski ég steli hjólinu frá eiginmanninum en það er ekki eins svakalega þunglamalegt og þetta hjól.
En þó er rétt að taka fram að ég á eftir að láta yfirfara hjólið eftir veturinn og það gæti eitthvað skánað við það (vonandi).

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...