Ákvað að fara hring um Reykjavík með viðkomu á Seltjarnarnesi. Veðrið var gott og skapið líka. Mikið hlakka ég samt til þegar þessi hringur verður orðinn fullkominn þ.e. að hægt verði að fara þetta eftir stíg eða merktri leið allan hringinn. En á þremur stöðum er maður aðeins týndur. Ég fór hringinn réttsælis og þegar komið er framhjá flugvellinum þá beinir stígurinn manni inn í hverfið. Reyndar er þar búið að bæta leiðina þannig að málaðir hjólavísar eru á götunni og ekki er mjög flókið að finna stíginn aftur. Síðan tapast stígurinn aftur á mótum Ægissíður og Hofsvallagötu. Og svo við Granda er leiðinda kafli næstum alveg að Hörpu og ákvað ég frekar að fara í gegnum hverfið eftir Vesturgötunni.
Svo í gær hafði mágkona mín samband og þurfti ekki mikið til að sannfæra mig um að koma með sér í hjólatúr. Af því ég hafði nýlega hjólað Reykjavíkurhringinn (sem hún stakk upphaflega uppá) ákvaðum við að fara í Kópavoginn í staðinn. Veðrið lék við okkur, glampandi sól en nægur vindur til að okkur ofhitnaði ekki. Að sjálfsögðu kíktum við við hjá mömmu og pabba á Kópavogsbrautinni og fengum trakteringar að launum. Þetta var mjög gaman og erum við búnar að ákveða annan hjólatúr í næstu viku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli