30. maí 2015

Tweed ride Reykjavík 2015

Virkilega skemmtilegur viðburður í dag, tweed ride Reykjavík.  Góð mæting þrátt fyrir rok (nokkra dropa úr lofti) og frekar kalt veður.
Menn hittust við Hallgrímskrirkju kl 14, allir fengu númer á handlegg og hjól þar sem vegleg verðlaug voru í boði fyrir best klædda karlinn og konuna og flottasta hjólið í lok viðburðarins.
Þegar allir voru komnir með númer var tekin mynd af hópnum (mönnum ráðlegt að leggja niður hjólin sín á meðan þar sem rokið var í því að fella þau).
Síðan var hjólað af stað í halarófu niður Skólavörðustíginn, aðeins í gegnum miðbæinn, safnast aftur saman við Hljómskálann áður en haldið var að Salt við Reykjavíkurflugvöll.  Þar var gott stopp og gafst mönnum tækifæri á að kaupa sér veitingar eða snæða nesti.
Eftir dágott stopp var lagt af stað aftur og aftur í miðbæinn, Snorrabraut og svo Laugaveg þar sem við vöktum töluverða athygli og voru ófáar myndir teknar af okkur af gangandi vegfarendum.  Við vorum líka dugleg að vekja á okkur athygli með því að hringja bjöllunum og brosa út að eyrum.
Skrúðreiðin endaði svo á Kex hostel þar sem boðið var upp á gúrkusamlokur og kaffi eða te.  Plús það að menn gátu keypt sér veitingar.  Þar fengu allir litla miða til að kjósa hver ætti að hljóta verðlaunin.

Pabbi var á sendisveinahjólinu sem hann keypti sér í vetur.  Hrund hafði málað fyrir hann á skilti sem er á hjólinu "Verzl. Nonna og Bubba" en það var verslun í Keflavík sem pabbi vann hjá sem sendill þegar hann var strákur og einmitt á mjög svipuðu hjóli.  Hann hafði fundið allskonar vörur til að setja í kassa framan á hjólið til að líkja eftir sendingum sem hann fór með á sínum tíma, enda vakti bæði hjólið og farmurinn eftirtekt hjá samhjólurum okkar.

Ég og mamma eigum eins hjól, sem við keyptum báðar á síðast ári.  Við hekluðum okkur pilshlífar sem við settum á hjólin í gær og vorum bara nokkuð ánægðar með afraksturinn.

Hér eru nokkrar myndir frá okkur (ég bæti svo líklega við myndum þegar ljósmyndari viðburðarins verður búinn að setja inn á síðuna).




28. maí 2015

Geymi hjólið úti og er óróleg


Þarf þessa dagana að geyma hjólið mitt úti á meðan ég er í vinnunni.  Vegna breytinga er fullt af dóti og drasli á staðnum þar sem ég hef hjólið vanalega (en það verður vonandi fjarlægt fljótlega).  Nú er ég alltaf að kíkja út um gluggann til að fullvissa mig um að hjólið sé enn á sínum stað.
Ég hef einu sinni lent í því að hjólinu var stolið, reyndar var ég þá líka svo heppin að fá hjólið aftur einhverjum vikum seinna.  En þá hafði ég einhvernvegin í fljótfærni ekki læst hjólinu við stöng heldur hékk lásinn bara á stönginni þegar ég kom að sækja það og verndaði ekki eitt né neitt og líklega hefur einhver fótalúinn gripið tækifærið.  Hjólið skilaði sér svo til lögreglunnar sem merkilegt nokk hirta það upp ekki langt frá þáverandi heimili mínu.

Það er ótrúlega vond tilfinning að missa farartækið sitt.  Ég hefði aldrei trúað því fyrr en ég reyndi það á eigin skinni hversu óþægileg tilfinning það er.  Og gleðin var mikil þegar ég fékk það aftur.

Ps. mig langar í svona körfu framan á hjólið eins og er á hjólinu við hliðina á mínu.

25. maí 2015

Hjólað með börn í Hollandi.


Enn er síðan

BICYCLE DUTCH

með fallegan póst sem sýnir okkur hversu undursamlega einfaldur og fjölskylduvænn fararmáti hjólreiðar eru.  Það er þetta sem við eigum að stefna að og við verðum að passa okkur á því að festast ekki í hræðsluumræðunni.  Horfið á myndbandið og njótið.
Þessi kafli hjá þeim heitir Cycling with babies and toddlers og er nokkur texti og ljósmyndir með sem er þess virði að lesa og sjá.

12. maí 2015

"The Idaho Stop”

Rakst á þessa áhugaverðu grein á Hjóladagblaðinu er varðar relgur vegfaranda gagnvart umferðarljósum.  Hér er slóðin á greinina sjálfa.

Í Idaho var reglum varðandi umferðarljós breytt árið 1982 hvað varðar hjólandi umferð skv. greininni.  Fyrir hjólandi er rautt ljós eins og stöðvunarskylda og stöðvunarskylda eins og biðskylda.  Þ.e. þegar hjólandi koma að ljósastýrðum gatnamótum og mæta rauðu ljósi þá skulu þeir stoppa og athuga hvort umferð sé um gatnamótin, ef svo er ekki mega þeir halda áfram yfir.  Eins er með stöðvunarskylduna þar skulu hjólandi hægja á sér, en ef óhætt er að halda áfram meiga þeir það án þess að vera að brjóta lög.  Þetta hefur reynst vel í Idaho og ég er nokkuð viss um að þetta mundi virka vel hér hjá okkur líka.

Greinahöfundur ákvað að gera tilraun í sínum heimahögum sem eru í Seattle, hann ákvað að hafa þrjá mánuði sem reynslutíma.  Um árangurinn getið þið lesið í greininni.

(Hef áður póstað um sama efni, sjá hér)

6. maí 2015

Fyrsti dagur átaksins Hjólað í vinnuna

Og fjöldamet ársins slegið á fyrsta degi, sá 33 á hjóli í morgun.
Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér:  Hjólað í vinnuna

Ég tek ekki þátt í ár og hef ekki gert síðan 2009 að ég held, þó ég hjóli til og frá vinnu alla daga allt árið um kring.  Aðstæður eru þannig að samstarfsmenn eru lang flestir í vaktavinnu á 12 tíma vöktum og fæstir búa það nálægt vinnustaðnum að þeim finnist það heppilegt að hjóla.
En ég er mjög ánægð með þetta átak og er ekki í nokkrum vafa um að það hafi hjálpað mögum að yfirstíga fordóma gagnvart hjólreiðum (fordómar s.s. að ekki sé hægt að hjóla hér vegna veðurs, eða það eru of margar brekkur) og hafa séð að veðrið er alltaf verra þegar þú situr inni í bíl, maður er fljótur að hjóla sér til hita sé kalt úti (og lærir fljótt hvernig best er að klæða sig).
Nú er spennandi að sjá hvort fjöldametið verði aftur slegið næstu daga.


1. maí 2015

Hjólað í apríl 2014 (og smá labb)

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 219 km, þar af 163 km til og frá vinnu og 56 km annað.  

Hjólaði 15 af 18 vinnudögum mánaðarins til vinnu, páskarnir voru í þessum mánuði og því eru svona fáir vinnudagar.  Apríl mánuður var töluvert skemmtilegri en mars og þónokkuð bjartari.  Um miðjan mánuðinn skipti ég af vetrarhjólinu yfir á sumarhjólið og vona að ég þurfi ekki meira á vetrarhjólinu að halda í bili.  Hitastigið helur sig í kringum frostmarkið en seinni part mánðarins hefur sólin skinið og það munar svo ótrúlega mikið um hana blessaða.

Sá að meðaltali 10 á hjóli á dag til og frá vinnu. Mest taldi ég 19 til vinnu og 20 á heimleiðinni.

Meðalferðahraði í mánuðinum var 15,6 km/klst til vinnu og 15 km/klst heim.  Og meðal ferðatími var 21 mín til vinnu og 19 mín heim.  Hraðinn hefur aukist með betri færð, en ég er samt hætt að keppast um hraðann og finnst þessi hraði sem ég er á núna vera fínn.  Áður átti ég til að pirra mig á því þegar einhver tók fram úr mér og fór þá í keppnisgírinn, líklegast hef ég róast með aldrinum og kippi mér ekki upp við þetta lengur.

Í mánuðinum fór ég í kórferðalag til Lissabon þar sem nokkuð var um labb, aðallega um miðbæinn.  Því miður kveikti ég ekki alltaf á endomondo þegar við fórum út og því vantar mig þegar við fórum upp að kastala heilags Georgs, en hann er ansi hátt uppi og hefði verið gaman að sjá hæðarmuninn.  En Lissabon er ansi hæðótt borg og finnst mér allar brekkur hér stuttar og flatar í samanburði, enda sá maður ekki mikið af hjólum í hæðunum en eitthvað af þeim í notkun niðri í bæ.

Bætt við 5.5.2015, póstur frá endomondo:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...