30. apríl 2009

Hjólafréttir

Var næstum búin að láta keyra á mig í morgun. Sökin var jöfn milli mín og bílstjórans mundi ég halda og við sluppum bæði ósködduð svo við reynum bara að læra eitthvað af þessu.

Sá löggu á mótorhjóli hjóla á gangstétt, hélt það væri bannað. Fyrst taldi ég hann ætla að fyljgast með morgunumferðinni á gatnamótunum Suðurlandsbrautar/Laugarvegs og Kringlumýrarbrautar en svo hélt hann bara áfram stíginn að Listhúsunum! Abbababb.




8 hjólreiðamenn fyrir utan mig í morgun og meirihluti karlmenn.

27. apríl 2009

Eftir kosningar

Þá er viðburðarrík helgi yfirstaðin.

Ég tók aðra moltutunnuna okkar í gegn. Náði úr henni 2 (stórum) fötum af mold sem ég setti í matjurtarbeðið. Uppskar ógurlegar harðsperrur í óæðri endanum og er enn að eiga í því. Það var ansi misskipt í tunnunni of blautt sumsstaðar og annarsstaðar skrauf þurrt. Í miðjunni var síðan góður millivegur. Ég þarf líklegast að vera duglegri að hræra í tunnunni. Á stefnuskránni er að gera þetta sama við hina tunnuna líka.

Síðan var kosið og það er nóg búið að blaðra um það svo ég hef ekki fleiri orð um það nema að ég er ágætlega sátt við útkomuna, en nú er að sjá hvernig spilað verður úr og hverskonar stjórn verður mynduð.

Foreldrar mínir áttu svo 40 ára brúðkaupsafmæli á laugardaginn. Í tilefni dagsins var okkur boðið í grillveislu. Veðrið lék við okkur, þó það hefði kólnað þegar leið á daginn.

Í gær setti ég svo niður í garðinn 11 kartöflur, 3 raðir af gulrótarfræjum, 3 raðir af kálfræjum og 3 raðir af radísufæjum. Vona að kuldinn í nótt hafi ekki náð að bíta, en ég er með plast yfir garðinum sem vonandi hefur náð að halda einhverjum hita á jarðveginum.

Í morgun 8 hjólreiðamenn og meirihlutinn kvenfólk. Fór Sæbrautina.

17. apríl 2009

Skemmtilegur dagur í gær.

Eftir vinnu í gær fór ég með samning á faseignasölu, já við erum búin að setja íbúðina okkar á sölu. Sjáum hvað gerist.

Síðan fórum við Hrund og keyptum okkur skó. Mér finnst skór sem kosta meira en 5 þús kall of dýrir, en þannig fór nú samt að við keyptum okkur báðar of dýra skó af því verðmatið hjá mér er greinilega brenglað.

Eftir skókaup fórum við öll fjölskyldan á Pizza-Hut Sprengisandi og fengum okkur að borða. Þjónustan þar var alveg hreint frábær og manni fannst maður vera á fínasta veitingastað. Vonandi verður Alexander aftur þjónninn okkar næst þegar við förum þangað.

Södd og sæl eftir fínustu máltíð fór ég svo á námskeið í ræktun matjurta hjá Endurmenntun Háskólans. Við vorum rétt að komast í gír að tala um motlugerð þegar tíminn var búinn en ég er áhugasöm um jarðgerð og finnst fátt skemmtilegra en að búa til eitthvað nytsamlegt úr svo til engu. En kennarinn lofaði að halda áfram með þá umræðu í seinni tímanum.
Ég var einmitt að kraka í jarðgerðarkössunum okkar um páskana og ætla mér að halda því áfram við fyrsta tækifæri. Því núna er einmitt rétti tíminn til að stinga upp matjurtargarðinn og setja í hann næringu (nýju fínu moldina sem hefur verið að myndast síðast liðið ár eða svo).
Svolítið fyndið að fara á námsekiðið með ekki stærri en 3 m2 matjurtargarð en draumurinn er að eingast nýjan garð á nýjum stað, svolítið stærri og geta ræktað fleiri tegundir. Hingað til hef ég sett niður ca. 11 kartöflur, tvær raðir af gulrótum og tvær af radísum og tvær af salati. Bara nokkuð gott fyrir svona lítinn garð.

Es. 7 hjólreiðamenn, fór Suðurlandsbrautina.

16. apríl 2009

Hjólafréttir

14 hjólreiðamenn í morgun og sá fjórtándi var engin önnur en Adda mágkona (má maður segja mágkona þó fólk sé ekki gift?). Glimrandi gaman að hitta hjólreiðamann sem maður þekkir.

Fór Hringbrautina í dag, en það hef ég ekki gert í langan tíma. Sá einn hjólreiðamann sem ég þekki frá gamalli tíð en stúlkan sú var með mér í barnakór fyrir nokkrum árum (lesist a.m.k. 20 ár) síðan. Við höfum verið að hjólast á undanfarin 3 ár eða svo.

Er með vott að harðsperrum í handleggjunum eftir skokkið í gær (hvaða bull er það eiginlega?). Þarf greinilega að styrkja handleggsvöðvana fyrst þeir þola ekki smá skokk.

15. apríl 2009

Skokk

Fórum saman hjónin lítinn skokkhring. Hann var ekki nema rétt rúmur einn og hálfur kílómetri en þar sem þetta eru fyrstu skokktilburðir ársins erum við nokkuð ánægð með árangurinn.

Veðrið var dásamlegt og við blöðruðum svo til alla leiðina sem var líka gaman. Það sem mér finnst skrítnast er að ég er meira þreytt í höndunum en fótunum eftir hreyfinguna. Eitthvað finnst mér það öfugsnúið.

Hjólafréttir

Það hefur aldeilis bæst í hjólaflóruna undanfarið. Vegna veikinda og páska hef ég ekki hjólað í næstum 2 vikur. Fjöldi hjólreiðamanna á morgnana hefur tvöfaldast á þeim tíma og sá ég í gær 7 og í morgun 10.

Var ekki nema 16 mín á leiðinni, hlakka til að fara af nagladekkjunum því það ætti að vera léttara að hjóla án þeirra. Er samt búin að bíta það í mig að skipta ekki fyrr en í lok apríl.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...