24. janúar 2010

Fyrsta skokk ársins

Fyrsti skokkhringur ársins. Loksins, loksins tek ég aftur fram hlaupaskóna. Þetta var fínn hringur og mér leið vel að mestu allan hringinn. Fann svolítið fyrir hlaupasting og kláða í húðinni (veit einhver af hverju maður fær þá tilfinningu, frekar óþægilegt) en varð varla móð eða þreytt í fótunum. Hlakka til að hlaupa aftur og bæta við mig kílómetrunum.

Vegalengd 2,5 km, tími 16 mín og 47 sek, pace 6,4.

Veðrið þokkalegt, smá vindur, rigning og 7 stiga hiti.

7. janúar 2010

Færð á stígum

Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að kvarta undan. Núna þegar hlýnar og snjórinn er tekinn að bráðna þá versnar það með færðina. Það er eins og hjólið fljóti á slabbinu. Ég var nokkrum sinnum við það að missa stjórn á hjólinu á leiðinni heim úr vinnunni áðan. En það slapp nú alltaf og maður neyddist til að hjóla hægar fyrir vikið.

Eins er það við öll gatnamót. Mig grunar að það sé vegna saltsins sem stráð er á göturnar. Það getur verið pínlegt, einmitt þar sem maður er mest áberandi á gatnamótunum og bílstjórara sem bíða á rauðu ljósi hafa lítið annað að gera en að glápa á blásaklaust hjólreiðafólkið, þar er mesta hættan á að missa hjólið í slabbinu og detta eða a.m.k. að þurfa að stíga niður fæti til að halda jafnvæginu. Það getur leitt til þess að bílstjórarnir fái "sönnun" fyrir því að það sé stórhættulegt að hjóla á þessum árstíma, sem er alls ekki rétt.

6. janúar 2010

Hjólaárið 2010

Spennandi ár framundan. Byrjar svolítið kalt en frostið hefur verið nálægt 10 gráðunum en nú er farið að hlýna og hitastigið farið að nálgast frostmarkið.

Markmiðið er að fara í sumar á vestfirðina í hjólaferð með vinum og ættingjum sem vilja og geta komið með. Við mamma ætlum að skipuleggja ferðina í sameiningu enda er hún farin í tilefni þess að við fyllum saman 100 árin í ár. Stefnt er á júlí mánuð og erum við farnar að setja út klær og annan búnað til að útvega húsnæði og hugmyndir að hjólaleiðum. Það er ljóst að hópurinn verður misjafn í hjólahreisti. Sumir vanir hjólamenn á meðan aðriði eru kannski að dusta rykið af hjólinu eftir einhvern tíma, en það er bara ennþá meiri áskorun að finna hjólaleiðir sem henta öllum. Við þurfum líka að hafa einhverja sem eru tilbúnir að vera bílstjórar og aka með hjólin á þá staði sem hjólað verður til og frá. Ég hlakka mikið til.
Gaman væri að fá tillögur frá einhverjum sem þekkir sig til á vestfjörðunum, sjálf hef ég ekki komið þangað síðan ég var barn.

3. janúar 2010

Prjónaárið 2009

Síðast liðið ár hefur verið dásamlegt prjóna ár. Lopinn er minn uppáhalds efniviður og það vill svo vel til að hann er vinsæll í flíkur þessa dagana.

Afrakstur ársins eru 3 lopapeysur, 1 skokkur á mig, næstum 10 þæfðar töskur, tátiljur, slatti af húfum, herðaslá og svo er ég að prjóna mér sjal úr einbandi (eingirni). Það getur vel verið að ég sé að gleyma einhverju en hér eru nokkrar myndir af því sem ég hef gert.












Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...