Af því að ég trúi á og treysti okkar frábæru veðurfræðingum þá hjólaði ég ekki í vinnuna í gær sem leiddi til þess að ég tók strætó heim kl. 16.
Á biðstöðinni var allt krökkt af norður Írum sem voru meira en lítið í góðu skapi. Höfðu greinilega farið á pöbbinn og skemmt sér þar í nokkurn tíma, allavega nokkrir þeirra. Og það vildi ekki betur til en svo að þeir tóku sama vagn og ég. Og alla leiðina frá Lækjartorgi að Laugardalslaug (og strætó fer auðvitað ekki beinustu leið) sungu þeir stuðningslög og voru með kvatningarhróp. Það fól meðal annars í sér hopp, að standa upp, klappa saman lófum og berja í rúður.
Það má samt ekki misskilja það þannig að þeir hafi verið með skrílslæti beinlínis þ.e. þeir voru ekki að ógna okkur fáu íslensku hræðum sem voru í vagninum. Heldur var stemmingin hjá þeim svona gífurleg fyrir leikinn. Ég stóðst ekki mátið og tók upp svolítið af söngnum hjá þeim. En því miður hef ég ekki þá tækni að geta tekið upptökuna úr símanum mínum og sett inn hér, en áhugasamir geta haft samband og þá er aldrei að vita nema ég leyfi einum og einum að heyra.
1 ummæli:
Gastu ekki sungið með þeim? Get samt ímyndað mér að það hafi verið fjör og öl í þeim :)
Skrifa ummæli