Veit ekki hvort ég er endanlega farin yfirum. En ég hjólaði í vinnuna í morgun. Færðin var ansi misjöfn. Sumstaðar (og á flestum stígum) búið að moka, en annarsstaðar ekkert mokað síðan í gær og á 2 stöðum ekkert mokað og auðvitað hraukar hér og þar og aðallega við göturnar. Hef sjaldan þurft að teyma hjólið jafn oft og í morgun.
Sá engan annan hjólreiðamann en för í snjónum eftir einn (smá fegin að sjá að ég er ekki ein um að vera svona klikk). Var 26 mínútur í vinnuna sem er 8 mínútum lengur en í gær.
En á svona ferðalagi á hugurinn það til að fara á flug. Ég mætti einni gröfu á stígunum og þá var mér hugsað til pabba, þegar hann var á vegheflinum. Hvernig hann dreymdi fyrir peningum með snjókomu því snjór táknaði vinnu. Og það leiddi hugann að vegheflinum sem stóð útí götu og við Hörn lékum okkur í og kölluðum GullinTá. Man ekki betur en að við höfum samið lag um GullinTá a.m.k. var hefillinn uppspretta margra ævintýra.
Og svo komst ég inn á Laugaveginn sem er upphitaður og snjólaus. Náði þar 24 km/klst hraða, var augljóslega svolítið þreytt eftir barninginn við snjóinn því ég hjóla þar eins hratt og ég mögulega get, hef mest náð 28 km/klst þar í vetur.
Það er svo frábært að hjóla!
2 ummæli:
Jú enn og aftur þá er ekki leiðinlegt að hjóla í snjónum. Ég hjólaði alla vikuna og var oriðnn ansi þreyttur í vikulokin.
Sæl Bjarney.
Mér finnst þú hörkudugleg að hjóla alltaf í vinnuna og gefast ekki upp :) Hérna fyrir norðan er líka snjór og hálka en fáir á ferðinni á reiðhjólunum sínum...þeir ættu að sjá til þín :)
Skrifa ummæli