28. mars 2010

Grein eftir Daða.

Daði bróðir skrifaði grein sem kom í blaðinu Politiken í Danmörku.

Og hér er slóð á frétt um greinina sem birtirs á mbl.is og þar er einnig slóð á pdf skjal af greininni.
Hér er líka slóð á viðtal við Daða sem kom í fréttatíma stöðvar 2 í gærkvöldi.

23. mars 2010

Garðvinna

Fékk lánaðnn þennan fína greinakurlara og kurlaði þær greinar sem ég klippti og sagaði af birkirunnunum í febrúar og líka rótarsprota af reynitrjám. Þetta var vikrilega skemmtileg vinna og útkoman fullur ruslapoki af kurli.

Að lokum klippti ég valdar greinar af birkitrjám úr framlóðinni og setti í vatn, ætli þær nái að springa út um páskana?

19. mars 2010

Hjólafréttir

Fjöldamet ársins frá 9. febrúar slegið og tvöfaldað! Sá hvorki fleiri né færri en 10 hjólreiðamenn í morgun og var þeim ágætlega dreift yfir leiðina. En oft er það þannig að ég sé engann fyrrihluta leiðarinnar en fleiri eftir því sem nær dregur miðbænum.

15. mars 2010

Hrund og húfan

Hrund með hrikalega stóra húfu sem ég prjónaði (hélt ég væri að prjóna minni húfu fyrir Þórhall bróður í stað þeirrar sem ég gaf honum í jólagjöf en þessi er alveg jafn stór). Er núna með hugmyndir um að þæfa hana og breyta í tehettu eða allavega sjá hvernig hún kemur út sem slík. En Hrund er algjörlega að selja hana á þessari mynd, virðist smell passa á hana og er svaka flott.

10. mars 2010

Hlið

Elías er búin að hanna og smíða hlið sem mun prýða innganginn í garðinn okkar.

Fyrst var ætlunin að hafa rimlana beint upp eins og sést á einni myndinni. Svo var prófað að setja þá svona á ská og við féllum algjörlega fyrir því. Það eina sem ekki er handsmíðaða af Elíasi eru spjótin efst.

Nú á bara eftir að láta sandblása það og húða því ekki viljum við að það ryðgi.






5. mars 2010

Ný slóð

Bætti inni nýrri slóð hjá hjólabloggurum sem heitir "Hjólaðu maður". Á þeirri síðu er flipi sem heitir "Ástand stíga" og er ætlunin að halda utan um snjómokstur og færð á stígum með comment-kerfi.

3. mars 2010

Svolítið af misheppnaðri snjóhreinsun á stígum.





Hjólafréttir







Jibbí, loksins búið að skafa almennilega. Ég var næstum hætt við að hjóla í morgun því ég varla komst út götuna mína fyrir slabbi. Slabbið varð til þess að ég spólaði út í eitt. En áfram hélt ég á þrjóskunni og þegar ég komst á stíginn fyrir neðan Sæbrautina (á móti shell bensínstöðinni) þá sá ég að búið var að skafa stíginn í morgun og ekki bara það heldur var hann líka vel skafinn! Næstum ekkert slabb eða snjór á stígnum. Ég var svo hamingjusöm með það að ég tók af því mynd. (skelli henni kannski inn í kvöld).
Stígurinn hefur ekki verið svona vel skafinn síðan það byrjaði að snjóa. Meira að segja flest gatnamót voru vel skafin (ekki þessir endalausu snjóhraukar sem almennt tefja för þvert yfir síginn). Færðin versnaði þó heldur þar sem stígurinn liggur meðfram sjónum. Líklegast hefur saltið frá sjónum eitthvað með það að gera en saltslabb er eitthvað það versta sem við hjólreiðamenn lendum í. Var 5 mín fljótari í vinnuna í dag en í gær og í miklu betra skapi.

2. mars 2010

Hjólafréttir

5,69 km, ferðatími 35 mín, 9,7 km/klst meðalhraði, 18,8 km/klst hámarkshraði.

Var á ferðinni milli kl. hálf átta og átta. Ekkert búið að skafa stígana. Skv. texta á þessari síðu hjá Reykjavíkurborg á að vera búið að skafa stofnbrautir í forgang fyrir kl. 7 á morgnana. Svo eru þau með kort sem sýnir hvernig stígum er skipt niður í forgang, sjá hér. Skv. þessu korti er hlutu stíga við Sæbraut á mesta forgangi og hefði því átt að vera búið að skafa þar eða a.m.k hefði ég átt að mæta snjóhreinsitæki á leiðinni. En það var ekki.

Samt var hægt að hjóla á stígunum í dag þar sem þeir voru skafðir í gær og í dag hefði ég ekki lagt í að hjóla á Sæbrautinni þar sem svolítið var af snjó á götunni og þið vitið hvað bílar geta verið stórhættulegir við svoleiðis aðstæður.

Einn hjólreiðamaður tók fram úr mér á leiðinni og stakk mig af. Sá för í snjónum eftir þrjá í viðbót, svo ég er ekki ein um þessa bilun. Vildi bara að Reykjavíkurborg stæði sig betur í mokstrinum.

Til sambanburðar við tölurnar hér að ofan þá var þessi sama leið farin 10.2.2010: 5,76 km, ferðatími 18 mín, meðalhraði 19,11 km/klst.

1. mars 2010

Hjólaborgin Reykjavík

Það er snjór yfir öllu og augljóst að Reykjavíkurborg er að spara við sig í snjómokstri. Fyrir 2 árum var vart þverfótað fyrir snjómoksturstækjum við svipaðar aðstæður, núna sér maður ekki nema eitt og eitt á stangli.

Það var búið að skafa stíginn frá Skipasundinu og niður að Holtagörðum, sem ekki hafði verið mokaður frá því byrjaði að snjóa svo það var ekkert val um annað á föstudaginn en að hjóla á götunni. En núna komst ég klakklaust niður að Sæbraut. En þá tók verra við. Þegar ég var komin yfir Sæbrautina sá ég að ekki var búið að skafa stíginn þar svo ég sá mér ekki annað fært en að hjóla á Sæbrautinni sjálfri. Gatan var auð svo það var ekki vandamál. En ég hef ekki lagt það í vana minn að hjóla á götum sem er með svona mikinn umferðaþunga og hraða. Ég hugsaði mér svo að fara upp á stíginn við fyrsta tækifæri. Veit að aðeins vestar er stígurinn á forgangi með mokstur og á að vera búið að moka fyrir kl. 8 á morgnana.

Hjá Olís bensínstöðinni tékkaði ég á stígnum, en nei hann var ófær svo ég hélt áfram á götunni, en við næstu gatnamót sá ég að stígurinn var í skárra ástandi, þó greinilegt væri að hann hefði ekki verið skafaður í morgun þar sem hann var líkt og þvottabretti, troðinn niður af duglegu fólki sem hefur notað helgina í gönguferð um borgina sína. Eitthvað var líka um hjólaför. Eftir þessum stíg truntaðist ég alveg að Höfða, en þá var ég líka komin með nóg og fór aftur upp á Sæbrautina.

Það sem kom mér mest á óvar var hversu auðvelt var að hjóla á Sæbrautinni. Ég skal viðurkenna að ég var með töluverðan hjartslátt þegar ég fór út á götuna og fyrstu bílarnir óku fram hjá mér. En það skrítna er að þeir áttu mikið auðveldara með að komast fram úr án vandræða heldur en þegar ég hjóla á götum eins og Langholtsveginum eða húsagötum almennt. Akreinarnar á Sæbrautinni hljóta að vera svona mikið breiðari heldur en á hinum götunum. Ég fékk það ekki eins sterkt á tilfinninguna að ég væri fyrir.

Þegar ég svo loksins komst í vinnuna var ég algjörlega búin. Ferðin tók mig 29 mínútur, en í vetur hef ég að meðaltali verið ca 21 mín þessa sömu leið. Á Sæbrautinni náði ég góðum hraða, en "þvottabrettið" fram að Höfða tók langan tíma að fara yfir og svo var mjög erfitt að hjóla upp Klapparstíginn þar sem hann hefur verið saltaður en lítið skafinn og þá nær hjólið mjög illa gripi og ég lenti í því að spóla töluvert. En þrátt fyrir það allt saman þá líður mér vel núna og er ánægð með að hafa farið á hjólinu. Því hvað er betra en að byrja daginn á smá púli?

Hjá Reykjavíkurborg fékk ég þau svör að stígamoksturstæki verktakanna sem skafa þennan stíg hafi bilað í morgun, en þeir ættu að vera búnir að skafa á hádegi í dag.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...