Það er snjór yfir öllu og augljóst að Reykjavíkurborg er að spara við sig í snjómokstri. Fyrir 2 árum var vart þverfótað fyrir snjómoksturstækjum við svipaðar aðstæður, núna sér maður ekki nema eitt og eitt á stangli.
Það var búið að skafa stíginn frá Skipasundinu og niður að Holtagörðum, sem ekki hafði verið mokaður frá því byrjaði að snjóa svo það var ekkert val um annað á föstudaginn en að hjóla á götunni. En núna komst ég klakklaust niður að Sæbraut. En þá tók verra við. Þegar ég var komin yfir Sæbrautina sá ég að ekki var búið að skafa stíginn þar svo ég sá mér ekki annað fært en að hjóla á Sæbrautinni sjálfri. Gatan var auð svo það var ekki vandamál. En ég hef ekki lagt það í vana minn að hjóla á götum sem er með svona mikinn umferðaþunga og hraða. Ég hugsaði mér svo að fara upp á stíginn við fyrsta tækifæri. Veit að aðeins vestar er stígurinn á forgangi með mokstur og á að vera búið að moka fyrir kl. 8 á morgnana.
Hjá Olís bensínstöðinni tékkaði ég á stígnum, en nei hann var ófær svo ég hélt áfram á götunni, en við næstu gatnamót sá ég að stígurinn var í skárra ástandi, þó greinilegt væri að hann hefði ekki verið skafaður í morgun þar sem hann var líkt og þvottabretti, troðinn niður af duglegu fólki sem hefur notað helgina í gönguferð um borgina sína. Eitthvað var líka um hjólaför. Eftir þessum stíg truntaðist ég alveg að Höfða, en þá var ég líka komin með nóg og fór aftur upp á Sæbrautina.
Það sem kom mér mest á óvar var hversu auðvelt var að hjóla á Sæbrautinni. Ég skal viðurkenna að ég var með töluverðan hjartslátt þegar ég fór út á götuna og fyrstu bílarnir óku fram hjá mér. En það skrítna er að þeir áttu mikið auðveldara með að komast fram úr án vandræða heldur en þegar ég hjóla á götum eins og Langholtsveginum eða húsagötum almennt. Akreinarnar á Sæbrautinni hljóta að vera svona mikið breiðari heldur en á hinum götunum. Ég fékk það ekki eins sterkt á tilfinninguna að ég væri fyrir.
Þegar ég svo loksins komst í vinnuna var ég algjörlega búin. Ferðin tók mig 29 mínútur, en í vetur hef ég að meðaltali verið ca 21 mín þessa sömu leið. Á Sæbrautinni náði ég góðum hraða, en "þvottabrettið" fram að Höfða tók langan tíma að fara yfir og svo var mjög erfitt að hjóla upp Klapparstíginn þar sem hann hefur verið saltaður en lítið skafinn og þá nær hjólið mjög illa gripi og ég lenti í því að spóla töluvert. En þrátt fyrir það allt saman þá líður mér vel núna og er ánægð með að hafa farið á hjólinu. Því hvað er betra en að byrja daginn á smá púli?
Hjá Reykjavíkurborg fékk ég þau svör að stígamoksturstæki verktakanna sem skafa þennan stíg hafi bilað í morgun, en þeir ættu að vera búnir að skafa á hádegi í dag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Hjólaárið 2023 - 3.036 km
VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...
-
Var aðeins að skoða mig aftur í tímann og rakst þá á þessa mynd af nóvember kaktusinum í vinnunni hjá mér en hún er tekin árið 2010. Fyr...
-
Hjólaði samtals 231 km í mánuðinum þar af 113 til og frá vinnu. Tók mér 3 orlofsdaga í mánuðinum og var veik 2. Hjólaði 49 km á stóra hjól...
-
Mig hefur lengi langað til að prófa að þæfa ull og lét þann draum rætast þessa helgi. Ég átti plötulopa og notaði stærstu prjónana sem ég á....
1 ummæli:
Skemmtileg skrif og gott hjá þér að drífa þig í að hjóla svona í vinnuna.
Það er náttúrulega alveg sér kafli í öllu skipulagsklúðri verkfræðinga og skipulagsaðila á höfuðborgarsvæðinu hvernig hugsað er um fólk sem vill fara á milli staða öðru vísi en á bíl. Það er svo inngróið að bíllinn hafi forgang að menn virðast gera frekar eitthvað extra fyrir akandi en hjólandi/gangandi. Dæmi að skilja snjóhrauka eftir í veg fyrir hj/ga, heldur en akandi. Annað sem hefur endalaust pirrað mig er að á gangstéttum (sem hjólandi nýta líka) er sífellt tekið niður þar sem bílum er ætlað að krossa, s.s. við innkeyrslur. Það gerir það að verkum að hj/ga verða að ferðast í "bylgjum" það er fara upp og niður þessar sveigjur fyrir bílinn og í hálku er þetta sérstaklega bagalegt og hættulegt. Það er einstaklega erfitt þegar maður er með barnavagna eða kerrur að þurfa alltaf að tosa og ýta vagninum og halda þannig í hann að hann rúlli ekki bara útá götu. Það er margt að og mikið hugsunarleysi varðandi fólk sem ekki er á bíl.
En mikil dugnaðarkona ertu Bjarney
Skrifa ummæli