3. febrúar 2015

Snór og kuldi

Það sem af er vetri hefur verið óvenju vetrarlegt (ef svo má segja).  Framan af var hann mildur og í nóvember var vorlegt en svo 30. nóv brast á með óveðri og síðan þá hefur hver stormurinn á fætur öðrum komið yfir landið og snjó varla tekið upp.

Í gær þegar ég hjólaði heim var kalt (mótvindur) en umhverfið yndislega fallegt.  Sólin skein á skjannahvíta Esju og Akrafjall og hafið var blágrátt og allt vann þetta saman við að skapa mikla fegurð.  Svo ég stoppaði og tók mynd, en hún nær þó enganvegin að fanga fegurðina.

Í morgun var 10 stiga frost, en alveg stillt.  Bætti legghlífum við hlífðarfötin mín.  Mér varð kalt á tánum enda er ég svolítið  að pjattrófast og hjóla í skóm sem eru lítið fóðraðir og ekkert rúm fyrir auka sokka, en það hefur sloppið til því ég er ekki að hjóla nema í um 20 mín.  Mér varð um tíma líka aðeins kalt á fingrunum, þó er ég í tvöföldum vettlingum (ullarvettlingar úr barnaull) innanundir og lopavettlingar (létt lopi) utanyfir.  Þetta hefur reynst mér vel í vetur en það var einstaklega kalt í morgun.  Um hálsinn hef ég kraga sem ég prjónaði úr einbandi og hún hefur reynst mér einstaklega vel í svona kulda til að hafa fyrir vitunum.  Áður var ég með buff (er ekki viss úr hvaða efni, gæti verið bómulblanda) og það stíflaðist alltaf út af andgufum og frosti.  Einbandið er það gisið að það stíflast ekki en heldur samt vel hita.  Undir lopahúfunni er ég svo með buff (svona venjulegt) því það hleypir ekki vindi í gegn eins og húfan.  Í morgun sá ég engan annan á hjóli.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...