27. apríl 2014

Nýtt hjól!!!

Stór dagur í mínu lífi í gær.  Lét drauminn rætast og keypti mér fallegt borgarhjól.  Af því ég er í hærri kantinum þá var ekki auðvelt að finna hjól í minni stærð.  Við hjónin vorum búin að skoða margt og mikið á netinu en ákváðum að fara í vettvangskönnun í gær.  Byrjuðum á því að fara í Reiðhjólaverzlunina Berlín.  Þar eru mjög mörg falleg hjól til sölu.  Hann átti ekki til hjól í minni stærð en ný sending var væntanleg í maí.  Næst fórum við í Kríu úti á Granda.  Þar áttu þeir eitt hjól sem passaði mér og ég fékk að prófa og það er svona dásamlega ljúft.  Svo við gerðumst kærulaus og keyptum það á staðnum.


Þetta er 8 gríra hjól (gírarnir innbyggðir í öxulinn á dekkinu) með handbremsum (V-bremsur) og dinamó ljós að framan og aftan (innbyggt í dekkið líka).  Dekkin eru mjó og slétt með endurskinsrönd allan hringinn, stýrið hátt og brettin eru með drullusokkum neðst. Bögglaberi aftan á hjólinu með körfu sem auðvelt er að taka af.

Jómfrúar ferðin var farin frá búðinni og heim þar sem ekki tókst að koma hjólinu á hjólastandinn okkar, ætlum að athuga með svona stöng sem hægt er að fá.  Annars verður gamla hjólið mitt notað sem utanbæjar- og vetrarhjól.  Þar sem ekki er hægt að setja nagladekk undir nýja hjólið án þess að taka brettin af og það er bara kjánalegt.

Er mjög sátt eftir fyrstu hjólaferðina og hlakka til að hjóla í dag og alla næstu daga.

Hér er svo mynd af fyrstu hjólaferðinni tekið af endomondo.com.

23. apríl 2014

Hjólabraut við Sæbraut

Framkvæmdir hafnar að hjólastíg meðfram Sæbraut.  Og það var glampandi sól í morgun og dásamlegt að hjóla.  Veðurspáin er mjög góð fyrir næstu daga en langtímaspá telur að það eigi enn eftir að koma næturfrost svo ég læt naglana vera undir hjólinu aðeins lengur þó það sé mjög svo freistandi að fara á sumardekkin.

16. apríl 2014

Páskahret


Fór heim á hádegi á föstudag með pest.  Mætti í vinnuna í gær (þriðjudag) en treysti mér ekki til að hjóla þar sem ég var ekki komin með fullan kraft aftur, en vonaðist til að geta hjólaði í dag.  En því miður, enn einn dagurinn sem ég stíg ekki á hjólið og það er leiðinlegt.  Ekki síst vegna þess að mig langar að ná 100% hjóli á virkum dögum til og frá vinnu.  Þeim áfanga náði ég í febrúar en núna í apríl er staðan í 50%, en það eru 6 virkir dagar eftir að mánuðinum svo ég gæti náð þessu upp í rúm 80% ef ég hjóla þá alla.  Það er eitthvað til að stefna að.

En að veðrinu, það sem sagt fór að snjóa í gærdag eftir ágætis vorveður.  Spáð rigningu eða slyddu næstu daga og einhver blástur.

7. apríl 2014

Tjaldurinn mættur.

Á leið í vinnu í
morgun, stóðst ekki mátið að smella af þeim mynd.

Vorboði, ég er þó enn á nagladekkjunum og stefni á að taka þau ekki undan hjólinu fyrr en eftir páksa.

4. apríl 2014

Útilistaverk. Veggjaskraut við Sæbraut.

Framhjá þessum vegg hjóla ég næstum á hverjum degi og hef oft hugsað hversu tilvalinn hann væri til myndskreytinga.  Menn hafa svo sem verið duglegir að spreyja tákn og annað á hann en ná ekki upp nema í takmarkaða hæð og það hefur virkar oft meira eins og krass.  Þess vegna gladdist ég að sjá þessar myndir sem komnar eru núna.
  



1. apríl 2014

Hjólað í mars

Hjólaði samtals 278 km í mánuðinum, þar af 212,7 km til og frá vinnu og 65,3 km í annað.  
Hjólaði 19 af 21 vinnudögum í mánuðinum til og frá vinnu (einn veikindadagur og spurngið afturdekk einn morguninn).
Sá að meðaltali 7 á hjóli á dag til og frá vinnu. Mest taldi ég 14 til vinnu og 17 á heimleiðinni.  Einn daginn sá ég engan annan á hjóli, það var 26. mars en þá hafði verið spáð leiðinda veðri, það er samt mjög óvenjulegt að sjá engan.  Á heimleiðinni þann sama dag sá ég einn annan á hjóli.

Nú er orðið albjart á morgnana og ekki þörf á að kveikja ljósin á hjólinu.  Fyrri part mánaðarins ríkti vetur en nú er eins og vorið sé komið og að sjálfsögðu heldur maður í þá von.  Þó er ég enn á nagladekkjunum og mun ekki taka þau undan fyrr en í lok mánaðarins þar sem ég vil ekki taka áhættuna á því að komast ekki til vinnu á hjólinu ef veðrið versnar.

Er nýlega búin að uppgötva þessa mynd inni í endomondo.com (forritið sem heldur utan um hreyfinguna hjá mér).
Þarna stendur að frá því ég hóf að skrá hjólaferðirnar mína hjá þeim (18. apríl 2014) þá hef ég brennt sem samsvarar 223 hamborgurum og hef hjólað 0,076 af leiðnni hringin í kringum hnöttinn og 0,008 af leiðinni til tunglsins.  Að meðal hraðinn hjá mér á hjólinu er 14 km/klst og ég hef samtals hjólað í 8 daga, 23 klst og 30 mín.  Allt tilgangslausar staðreyndir en samt svo gaman að vita.

Viðbót 7.4.2014
Var að fá póst frá endomondo með upplýsingum um hreyfingu í mars.  Þarna inni er mjög stuttur göngutúr sem ég fór í og útskýrir ósamræmi milli talna.

25. mars 2014

Munur á mótvindi og meðvindi 11 mín.



Í gær var ég rétt tæpar 29 mínútur að hjóla heim.  Þá var mótvindur og rigning.

Í dag fór ég sömu leið heim og var rétt um 17 og 1/2 mín á leiðinni lítill vindur og með mér, engin rigning.  Það munar um vindinn get ég sagt ykkur.

13. mars 2014

Carmina Burana eftir Carl Orff

Er að fara að flytja þetta verk um helgina.  Hérna er skemmtileg uppfærsla á því sett í leikrænan búning.  Frábært verk sem fjallar um nautnir, ástir, náttúruna, drykkju og át og fleira.  Okkar uppsetning er minni í sniðum varðandi hljóðfæri en hljómsveitin samanstendur af tveimur flyglum og slagverki allskonar.  Í dag æfum við í fyrst skipti með hljómsveit og einsöngvurum, hlakka til.

8. mars 2014

Fékk töluvpóst frá endomondo.  Inni í þessu er smávægilegt labbi/skokk.
Gaman að þessu.

6. mars 2014

Það snjóar

Svona leit hjólið út (komið inn í skúr) eftir að hjóla heim, reyndar er ég búin að banka svolítið af snjónum af.  En mesti snjórinn var þó hér heima við húsið því búið er að hreinsa stígana og göturnar sem ég ferðast eftir.

1. mars 2014

Hjólað í febrúar 2014

Hjólaði samtals 262 km í mánuðinum, þar af 216 km til og frá vinnu og 46 km í annað.  Hjólaði alla 20 vinnudagana í mánuðinum til og frá vinnu.
Sá að meðaltali 6 á hjóli á dag til vinnu og 8 á heimleið. Mest taldi ég 8 til vinnu og 24 á heimleiðinni, nei ég er ekki að misrita.  Einn daginn er nefninlega hjólahópur af ferðamönnum á sömu leið og ég á sama tíma, ef ég tel þau ekki með þá sá ég mest 16 og fæst voru það 1 til vinnu og 2 á leiðinni heim.

24. febrúar 2014

Morgunskíman

Á föstudaginn sá ég rétt móta fyrir fjöllunum þegar ég hjólaði í vinnuna.  Núna (mánudagsmorgun) sést birta á himni þar sem fjöllin eru lægst.  Þetta er allt að koma.

22. febrúar 2014

Gaman að hjóla.

Það er svo mikill munur að hjóla þessa dagana eftir að klakinn og ójafnan er farin af leiðinni sem ég hjóla.  Svo er líka ennþá bjart þegar ég hjóla heim eftir vinnu og óðum styttist í að það verði bjart líka á morgnana.  Sá móta fyrir fjöllunum í gærmorgun og það lofa góðu.

Hlakka til að taka nagladekkin undan hjólinu en það geri ég venjulega í apríl/maí ef ég man rétt.

19. febrúar 2014

Óhapp

Féll af hjólinu í gær á leiðinni heim úr vinnu.  Þetta var eins kjánalegt og það getur verið held ég.  Beið á ljósum eftir að fá grænt.  Um leið og það gerist spyrni ég af stað en á sama tíma rek ég endann á stýrinu í staur sem er við hliðina á mér með þeim afleiðingum að stýrið snýst og ég næ ekki áttum og enda í götunni.
Þetta var þó ekki alvarlegra en svo að stuttu seinna stíg ég aftur upp a hjólið og hjóla heim. En mér tókst ekki að bera fyrir mig hendurnar svo ég skrapaði götuna með andlitinu og hlaut af sár á höku og spungna vör.  Annað glerið í gleraugunum mínum rispaðist líka hressliega.  Tveir vegfarendur (annar gangandi hinn á hjóli) litu til með mér hvort allt væri ekki í lagi sem var fallega gert af þeim.

Ef þú lesandi góður skyldir lenda í einhverju svipuðu þá hef ég eftirfarandi heilræði.  Ekki æða af stað burt af staðnum, gefðu þér tíma til að ná áttum og athuga hvort þú sjálf(ur) sért í heilu lagi og hvort hjólið sé í lagi.  Fyrstu viðbrögð hjá manni er flótti (allavega hjá mér) að vilja komast sem allra fyrst í burtu en það borgar sig að taka því rólega.

10. febrúar 2014

Mig langar í þetta hjól.

Reiðhjólaverzlunin Berlín er að selja svo einstaklega fallegar hjólavörur.  Og fyrir stuttu fengu þau inn ný hjól og ég hef fundið draumahjólið mitt.  Hafið þið séð aðra eins fegurð?


1. febrúar 2014

Janúar 2014 - hjólasamantekt.

Hjólaði samtals 254,5 km í mánuðinum allt til og frá vinnu þar af 230,5 km til og frá vinnu og 24 km í annað.  Hjólaði 21 af 22 vinnudögum í mánuðinum til og frá vinnu, sleppti einum vegna jarðarfarar (þ.e. ég hjólaði ekki heim eftir vinnu og ekki í vinnuna morgunin eftir).
Sá að meðaltali 7 á hjóli á dag bæði til og frá vinnu. Mest taldi ég 14 til vinnu og 12 á heimleiðinni og fæst voru það 2 til vinnu og 1 á leiðinni heim.


Klaki var yfir öllu mestan hluta mánaðarins.  Seinni partinn var hann þó farin að láta undan og stígar orðnir að mestu auðir og þá snjóaði aftur.  En sá snjór virðist ekki ætla að stoppa lengi við.

24. janúar 2014

Brýrnar á Geirsnefi

Hjólaði loksins yfir brýrnar á Geirsnefi.  Átti leið upp á Bíldshöfða eftir vinnu og tók smá útúrdúr til að fara yfir brýrnar.
Og af því þetta er stórviðburður í mínu lífi þá vildi ég taka mynd...
En þessi var augljóslega ekki nógu góð svo ég ákvað að taka aðra og reyna nú að brosa smá...
ó nei þessi er hræðilega líka, prófa enn einu sinni...

He he... þessi fyrsta var nú ekki svo slæm eftir allt saman.

7. janúar 2014

Jibbí! Hjólateljarinn er aftur farin að telja hjól.


Viðbót:
Gleðilegt að sjá þessa tölfræði frá í gær:


Og álíka sorglegt að sjá tölfræðina frá tímabilinu þar sem mælirinn var óvirkur:

3. janúar 2014

Enn um hjólateljaran við Suðurlandsbraut

Hann hefur ekki talið eitt einasta hjól síðan um áramótin enda er enn klakabrynja yfir stígum. Sendi athugasemd til Reykjavíkurborgar í gegnum "Borgarlandið - fyrir þínar ábendingar".  Vona að brugðist verði vel við ábendingunni og klakinn hreinsaður af stígnum þó ekki sé nema bara á þessum bletti sem sér um að skynja hjólin.

1. janúar 2014

Hjólaárið 2013

Hjólaði samtals 3.114 km á árinu (smá skottúrar ekki taldir með) mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 2.348 km og 766 í aðrar ferðir.  En ég hjólaði 213 af 249 vinnudögum ársins.  Af þessum 36 vinnudögum sem ekki voru hjólaðir eru 4 vegna ófærðar, 4 vegna veikinda og restin er svo orlof eða annarskonar frí.

Hér er mynd sem sýnir talningu mína á hjólandi fólki á morgnana milli kl. 7.30 og 8 (þ.e. þegar ég hjóla til vinnu, oftast meðfram Sæbrautinni).


Og svona dreifast hjólaðir kílómetrar á mánuðina.

Og að lokum er ég með hér samanburð á talningu á hjólandi fólki milli ára: (þetta er sem sagt meðaltal talninga á vinnudag í viðkomandi mánuði)

Desember 2013

Hjólaði samtals 174 km í mánuðinum allt til og frá vinnu.  Hjólaði 16 af 20 vinnudögum í mánuðinum til og frá vinnu, sleppti fjórum dögum vegna orlofs og hátíðanna.
Sá að meðaltali 5 á hjóli á dag til vinnu og 4 frá vinnu. Mest taldi ég 12 til vinnu og 9 á heimleiðinni og fæst voru það 1 til vinnu og tvisvar sá ég engan á leiðinni heim.


Snjór var í borginni allan mánuðinn, einn morguninn var ekki búið að skafa og var ég þá 42 mín til vinnu, annars var meðal ferðatíminn í desember 26 mín.

30. desember 2013

Enn um hjólateljarann

Fór aftur framhjá teljaranum í morgun, nema hvað að það var hjólreiðamaður á undan mér og líka snjómoksturstæki.  Teljarainn taldi snjómokarann en ekki hjólin.  Það er klakabryjna yfir stígnum og mér skilst að undir stígnum sé skynjari sem skynji þrýsting en við þessar aðstæður er sem sagt verið að telja snjómoksturstæki en ekki hjól :(

27. desember 2013

Hjólateljarinn ekki að virka í dag

Hjólaði fram hjá hjólateljaranum í morgun (27. desember 2013), hann greinilega náði ekki að telja mig því skv. hjólateljaravefnum hefur enginn hjólað framhjá honum í dag.

20. desember 2013

Snjóhreinsun

Borgin hefur almennt verið að standa sig nokkuð vel við snjóhreinsun á stígum það sem af er vetri.  En á leiðinni heim í gær var þó eitthvað skrítið í gangi þar sem búið var að skafa aftur yfir stíginn (sem var bara vel hreinsaður í morgun) og skilin eftir snjórönd á miðjum stígnum.  Vélinni hefur verið ekið út og suður og í hlykki (sést ekki á þessari mynd) og stundum var hún alveg uppi á grasinu en ekkert á stígnum, en oftast að hálfu leiti á stígnum og að hálfu út á grasi.  Mjög svo furðulegt.

5. desember 2013

Nóvember 2013



Hjólaði samtals 262 km í mánuðinum. Þar af 218 til og frá vinnu og 44 í annarskonar erindi.  Hjólaði 19 af 21 vinnudegi í mánuðinum til og frá vinnu, sleppti einum degi vegna veðurs og örðum vegna veikinda.
Sá að meðaltali 8 á hjóli á dag til og frá vinnu. Mest taldi ég 14 til vinnu og 18 á heimleiðinni og fæst voru það 4 til vinnu og 3 á leiðinni heim. 

22. nóvember 2013

Saga af of sterku hjólaljósi.



Það er ekki gott að láta kalla athugasemd á sig, sérstaklega þegar hún kemur frá aðila sem átti hlut í sökinni.
Best að útskýra betur.  Í morgun var ég að hjóla í vinnuna eins og venjulega eftir stígnum við Sæbraut.  Þar eru enn leifar af málaðri línu sem aðskilur hjólandi frá gangandi (hún er að hverfa og eftir því sem ég best veit á ekki að endurnýja hana heldur á hægri umferð að gilda á stígnum).  En ég er að hjóla vinstra megin á stígnum (eins og línan segir til um) til vinnu og þarf að víkja fyrir þeim sem koma hjólandi á móti. 
Á hverju morgni mæti ég nokkrum á hjóli og hef það fyrir reglu að víkja tímanlega svo það sé skýrt að ég sjái viðkomandi og mér finnst það vera góð regla.  Undantekning er auðvitað ef gangandi eru á stígnum, þá þarf að taka sérstakt tillit til þeirra.  En það sem gerist nú í morgun er að hjól kemur á móti mér með það sterkt framljós að það útilokar sýn hjá mér og ég sé ekki tvo skokkara sem eru á stígnum á milli okkar, ekki fyrr en þeir víkja fyrir mér og fara fyrir geislann á ljósinu á hjólinu sem kemur á móti.  Ég sem sagt er búin að víkja yfir á hægri helming stígsins mjög tímanlega og það veldur því að skokkararnir fara næstum fyrir hjólið hjá þeim sem kemur á móti - til að víkja fyrir mér.  Honum bregður og skipar mér (þegar hann fer framhjá) að vera á hjólastígnum.  Augljóslega áttar hann sig ekki á því að hjólaljósið hjá honum er það sterkt að það útilokar sýn hjá þeim sem koma á móti, við sjáum hvorki fram eða aftur fyrir hjólið hjá honum.
Ég reyndi að garga eitthvað til baka, en það var ekkert vit í því (er bara ekki svona fljót að hugsa) og engin leið fyrir viðkomandi hjólara að ná út úr því þeim upplýsingum að hann er með allt of sterkt ljós fyrir innanbæjarakstur.  Eftir sat ég með vonda tilfinningu.  En get ég eitthvað lært af þessu?  Það er allavega ljóst að ég mun ekki víkja svona tímalega aftur þega ég mæti hjóli með þetta sterkt framljós.

21. nóvember 2013

Borgin sendi íbúum viðvörun vegna gróðurs

Í haust fengum við bréf inn um lúguna frá Reykjavíkurborg þar sem okkur er bent á að gróður af lóð okkar vaxi inn á stétt/stíg og að greinar á stórum trjám séu fyrir tækjum sem sjá um hreinsun á stígum.
Mín fyrstu viðbrögð voru að hlaupa út á götu til að skoða málið, og jú það var þarna ein grein sem slútti niður og einhverjar stungust út í gegnum grindverkið og það var líklega ástæðan fyrir þessum skrifum.  Næstu helgi fórum við og söguðum og klipptum.

Svo í gær kom annað bréf sem hefst svona:  "Í ljós hefur komið að ekki hefur verið orðið við áskorun veghaldara þess efnis að gróður sem fer yfir lóðarmörk hafi verið klipptur,..." og aðeins seinna "Því tilkynnist hér með að búast má við að gróður verði klipptur á næstunni án frekari fyrirvara á kostnað lóðarhafa..."

Og nú var mér brugðið.  Hvað í ósköpunum geta þeir verið að tala um?  Hér er mynd tekin af vefnum, ég setti gulan hring utan um greinina sem við söguðum.  Mín niðurstaða er að menn hljóta að hafa farið númeravillt.  En ekki vil ég samt greiða fyrir lóðahreinsun hjá einhverjum öðrum  svo ég hringdi í þjónustuverið hjá Reykjavíkurborg og vona að allt endi nú vel.

Ég vil í lokin taka fram að ég er ánægð með þetta framtak hjá borginni að benda íbúum á að gróður þurfi að snyrta því oft hefur maður pirrast yfir gróðri sem er að yfirtaka stíga og stéttar.

18. nóvember 2013

Snjór í Reykjavík


Ætlaði varla að trúa því hvað ég sá marga á hjóli í morgun.  Færðin var frekar erfið enda hafði snjóað um helgina og sumstaðar ekkert verið skafið.  Ég þurfti að snúa við  og fara til baka aftur yfir Sæbraut þar sem ég komst ekki áfram á stígnum út af snjónum, ég bara spólaði (sá þó för eftir 5 eða 6 hjól svo einhverjir geta hjólað í þessu).  Fór sem sagt aftur til baka yfir Sæbrautina og hjólaði í staðin strætó leiðina fram hjá Laugarásbíói og áfram á götunni að Íslandsbanka og fór þar yfir Sæbrautina aftur.  Stígurinn þar hafði eitthvað verið skafinn um helgina og svo þegar komið var fram hjá Kringlumýrarbrautinni var enn minni snjór, þó ekki geti ég sagt að það hafi verið greiðfært eða það væri augljóst að búið væri að skafa.  En það voru för eftir dekk af snjóruðningstæki svo það hafði einhverntíman farið þar um.

En þrátt fyrir þessa erfiðu færð sá ég 14 á hjóli.  Þar af einn ljóslausan, en flestir aðrir eru í fullum skrúða, þ.e. með ljós og í endurskinsvestum eða sambærilegu.  Ég var 12 mínútum lengur á leiðinni en venjulega (og þar sem ég er venjulega um 20 mín þá er það töluverð aukning).

Ætli borgin sé búin að breyta hreinsiáætlun út af Suðurlandsbraut-Laugavegur hjólastígnum og að nú sé hann í aðalforgang en ekki lengur stígurinn við Sæbraut frá Kringlumýrarbraut að Hörpu?

14. nóvember 2013

Ljósin á hjólinu

Núna þegar alveg er myrkvað á morgnana skipta ljósin miklu máli.  Maður sér nokkuð margar útgáfur af ljósum sem notuð eru og er það mín persónulega skoðun að blikkljós vekja mesta athygli og fyrr en stöðug ljós (þó ég sé sjálf ekki með blikkandi ljós að framan, en hugsa alltaf af ég ætti nú kannski að fá mér eitt slíkt og hafa með stöðuga ljósinu).

En það er eitt hjól sem ég mæti af og til á morgnana sem er með rautt blikkandi ljós bæði að framan og aftan og það er verulega óþægilegt að mæta því.  Af því að maður gerir ráð fyrir því að rautt blikkandi ljós sé aftan á hjóli og það ruglar skynjunina hjá manni og seinkar vitundinni um að hjólið færist að en ekki frá.  Þetta er bara vont, vona að viðkomandi fái sér hvítt ljós til að hafa framan á hjólinu fljótlega.

1. nóvember 2013

Október 2013

Hjólaði samtals 351 km í mánuðinum. Þar af 245 til og frá vinnu og 106 í annarskonar erindi (mest ferðir á kóræfingu).
Hjólaði alla 23 vinnudagana í mánuðinum til og frá vinnu.
Sá að meðaltali 11 á hjóli á dag til vinnu og 15 á heimleiðinni. Mest taldi ég 18 til vinnu og 35 á heimleiðinni og fæst voru það 3 til vinnu og 6 á leiðinni heim.  Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu margir eru enn að hjóla og hvað menn eru fljótir að draga fram hjólið um leið og hlýnar aðeins eða sólin lætur sjá sig.  En þegar ég taldi þessa 35 á heimleiðinni þá var hvorki sól eða hlýtt.  En ég fór Suðurlandsbrautina og síðan í gegnum Laugardalinn og þar voru margir á ferli, sérstaklega í Laugardalnum þar sem margir krakkar voru að fara til og frá tómstundum á hjólunum sínum.
Veturinn er genginn í garð og hitinn almennt um frostmark á morgnana.  Það er myrkur þegar ég legg af stað og þegar hitastigið er um -3° eða meira þá borgar sig að vera með tvöfalda vettlinga en það fann ég út einn morguninn þegar ég mér fannst fingurnir vera að detta af vegna kulda.  Skrítið hvernig maður virðist verða að læra þetta upp á nýtt hvert einasta haust.
Nagladekkin fóru undir hjólið að kvöldi 7. október.  Þá var spáð snjókomu daginn eftir sem gekk eftir en snjórinn var farinn seinni part dags síðan þá hefur varla verið þörf á nöglunum.  En marrið í þeim lætur aðra vegfarendur vita af því að ég er að nálgast og er það vel. Fólk virðist almennt ekki heyra í bjöllunni, kannski er ég ekki nógu ákveðin á hringingunum eða hringi ekki nógu oft?
En það er alltaf jafn yndislegt að hjóla.  Flesta daga hefur veðrið verið milt þó einhverja daga inn á milli hafi blásið hressilega.  Þá er málið að finna sér skjólbetri leið, leggja fyrr af stað og njólta þess að hafa orkuna sem þarf til að berjast á móti vindinum - nú eða njóta þess að hafa hann í bakið og láta hann ýta sér áfram.

18. október 2013

Að vera með hugann á réttum stað skiptir máli.

Varð fyrir óþægilegri upplifun í morgun þar sem ég datt svo gjörsamlega inn í minn eigin hugarheim að ég tók ekki eftir manni á hjóli sem kom á móti mér fyrr en of seint.  Sem betur fer vék hann úr vegi, en þar sem hjólareinin er vinstramegin á stígnum þegar ég hjóla í vinnuna er það mitt hlutverk að víkja fyrir þeim sem hjóla á móti.

Það er orðið ansi dimmt á morgnana og við vorum bæði með ljós á hjólinu, en eins og fyrr sagði þá var ég ekki með hugan við það sem ég var að gera.  Mér dauðbrá og veit algjörlega upp á mig skömmina, svo ef viðkomandi einstaklingur álpast inn á þetta blogg þá bið ég hann afsökunar.

Hvað ég var að hugsa um sem gleypti mig svona gjörsamlega get ég ekki munað lengur - sem er líka mjög óþægilegt.

11. október 2013

Í svona bæ langar mig að búa.

Horfið á þetta myndband (u.þ.b. 15 mín), það fjallar um bæinn Groningen í Hollandi þar sem gangandi og hjólandi eru í miklum meirihluta þeirra sem ferðast um miðbæinn.  Og það er ekki tilviljun heldur ákvörðun sem bæjaryfirvöld tóku.

http://www.amara.org/en/videos/hG6YbFt6OlVG/info/?tab=video

Virkilega áhugavert að sjá hvað hægt er að gera ef viljinn er fyrir hendi.  Þarna eru allar aðstæður í grunninn góðar en engu að síður hefur þurft áræðni til að fara alla leið og gera bæinn þannig að bíllinn er neðstur í forgangsröðinni og besta leiðin til að ferðast um bæinn er annaðhvort fótgangandi eða á reiðhjóli. 

8. október 2013

Nagladekkin komin undir hjólið

Setti nagladekkin undir hjólið í gær eftir vinnu þar sem búið var að spá snjókomu í dag.

Og það stemmdi jörð alhvít í morgun þegar ég fór á fætur, meira að segja bara nokkuð mikill snjór (hátt í 10 cm mundi ég áætla).  Lagði snemma af stað þar sem ég gerði ráð fyrir að vera lengur að hjóla.  Hvergi búið að skafa snjóinn af stígunum.  Valdi að fara Suðurlandsbrautina þar sem hún er merkt "hreinsað fyrst" á fína kortinu sem Reykjavíkurborg tekur til hvar og í hvaða röð stígar eru hreinsaðir - væri betra ef hægt væri að treysta því.
En ég hef upplifað það verra og var komin 10 mín of snemma í vinnuna.  Þegar komið er nær miðbænum eru stígar upphitaðir og þar var engan snjó að sjá.

1. október 2013

September 2013

Hjólaði samtals 258 km í mánuðinum. Þar af 212 til og frá vinnu og 46 í annarskonar erindi.
Tók einn orlofsdag en hjólaði alla hina 20 vinnudagana.
Sá að meðaltali 14 á hjóli á dag til vinnu og 16 á heimleiðinni. Mest taldi ég 31 til vinnu og 32 á heimleiðinni og fæst voru það 8 til vinnu og 5 á leiðinni heim.
September hefur verið frekar kaldur og eru húfa, vetlingar og trefill orðinn staðalbúinaður á morgnana.  Ljósin hef ég kveikt síðustu 3 morgnana en það fer svolítið eftir skýjafarinu hvort það þarf eða ekki.  Svo er ég farin að velta því fyrir mér að setja nagladekkin undir.  Hitinn á mælinum heima í morgun var 1°C og var frost um síðustu helgi svo það fer að verða tímabært.
Hér er svo línurit sem sýnir samanburð milli ára á fjölda hjólara sem ég tel að meðaltali í hverjum mánuði á morgnana á leið minni til vinnu janúar - september.
 
Í maí ár hvert hefst viðburðurinn "Hjólað í vinnun" sem greinilega kemur fólki af stað á hjólin og er gaman að sjá að næstum öll árin fer fjöldi hjólara í sömu töluna þann mánuð.  Sérkennilega dýfan í júlí árið 2010, sjálf var ég í orlofi þann mánuð og líklega þeir aðrir sem hjóla voru í fríi þá daga sem ég hjólaði.

26. september 2013

Kostnaðarsamt hjólaár.


Þetta ár hefur verið mér óvenju kostnaðarsamt hvað hjólið varðar. Í byrjun árs var alltaf að springa hjá mér og kom í ljós að naglarnir í öðru dekkinu voru farnir að stingast úr vitlausu megin.  Keypti ég mér því eitt nýtt nagladekk (hitt þarf að endurnýja líka en vonandi get ég notað það fram á næsta ár).

Svo þarf af og til að stilla og lagfæra bremsur og gírabúnað (en það kann ég ekki að gera sjálf svo þá er farið með hjólið á verkstæði).

Núna í september fékk ég nýjan hnakk, nýja afturgjörð nýjan grískipti að aftan og víra bæði í bremsur og gíra.

Allt þetta hefur kostað mig 65.840 kr og man ég ekki eftir að hafa notað svona mikinn pening í hjólið á einu ári. Þetta er svipað og kostar að kaupa kort í strætó (9 mánaðakort kostar 49.900) en ég fæ meira út úr því að hjóla en að taka strætó og sé því ekki eftir peningnum.

Á næsta ári stefni ég á að kaupa ný sumardekk þar sem þau eru orðin léleg og ég þarf líka að kaupa annað nagladekk en vonandi ekki fyrr en fyrir veturinn 2014-2015. 

4. september 2013

Ágúst 2013


Hjólaði samtals 193 km í mánuðinum. Þar af 131 til og frá vinnu og 62 í annarskonar erindi.
Var tvær vikur í orlofi en hjólaði alla hina 12 vinnudagana.
Sá að meðaltali 14 á hjóli á dag til vinnu og 16 á heimleiðinni. Mest taldi ég 25 bæði til og frá vinnu og fæst voru það 8 á báðum leiðum líka.

2. ágúst 2013

Júlí 2013

Hjólaði samtals 188 km í mánuðinum. Þar af 140 til og frá vinnu og 48 í annarskonar erindi (þar á meðal hjólatúr um Suðurnesin).
Var tvær vikur í orlofi en hjólaði alla hina 13 vinnudagana.
Sá að meðaltali 17 á hjóli á dag til vinnu og 25 á heimleiðinni. Mest taldi ég 20 á leið til vinnu og 43 á heimleiðinni (17. júlí). Og fæst voru það 11 á leið til vinnu og 9 á heimleið.

16. júlí 2013

Hjólaferð um Reykjanes, 13. júlí 2013

Hringurinn endurtekinn frá árinu 2010.  Vorum aðeins færri á ferð núna og veðrið kannski ekki alveg eins gleðilegt, en gaman var nú engu að síður.  Það rigndi ekki á okkur svo nokkru nam nema á síðasta spottanum frá Garði í Keflavík en allir voru vel klæddir og undirbúnir fyrir slíkt svo það kom ekki að sök.  Hér eru fræknu hjólagarparnir
Eins og síðast lögðum við af stað frá Duushúsum í Keflavík og hjóluðum þaðan í Sandgerði þar sem við snæddum nesti og skoðuðum áhugavert safn sem þar er.  Síðan var hjólað að Garðskagavita þar sem aftur var smá stopp og síðan aftur að Duushúsum.  Leiðin er samtalst um 27 km og að mestu á jafnsléttu þ.e. einungis eru aflíðandi brekkur.

1. júlí 2013

Júní 2013

Hjólaði samtals 318 km í mánuðinum.  Þar af 205 til og frá vinnu og 113 í annarskonar erindi.  Á árinu hef ég hjólað samtals 1.689 km.
Tók mér einn orlofsdag en hjólaði alla hina 18 vinnudagana.
Sá að meðaltali 17 á hjóli á dag til vinnu og 18 á heimleiðinni.  Mest taldi ég 35 á leið til vinnu (25. júní) og 41 á heimleiðinni (24. júní).  Og fæst voru það 3 á leið til vinnu (rigning og rok) og 5 á heimleið sama dag (18. júní).

Hjólateljari var settur upp við  Suðurlandsbraut og hef ég núna hjólað 3x framhjá honum.  Ég og Hrund vorum samferða í vinnuna 2x í síðustu viku og fórum þá í fyrsta skipti framhjá teljaranum (gerðum okkur smá útúrdúr til þess).  Morguninn eftir fórum við aftur framhjá teljaranum og vorum samsíða, þá tald hann okkur sem einn hjólara (borgar sig ekki að hjóla hlið við hlið fram hjá honum).  Á heimleiðinni gleymdum við að fylgjast með hjólateljaranum þegar við fórum fram hjá honum þar sem við vorum á kafi í skemmtilegum samræðum.

26. júní 2013

Gróðurmyndir úr garðinum, júní 2013

Fyrst er það villigróðurinn.  Þessi blóm finnst mér einstaklega falleg en það þarf svolítið að passa upp á að þau yfirtaki ekki garðinn svo dugleg eru þau að fjölga sér.



 Næst eru það matjurtir.  Fyrst spregilkálsplöntur, svo ertur og að lokum kartöflugrös.  Þær eru allar nokkurnegin á byrjunarstigi ennþá en það verður spennandi að fylgjast með þeim vaxa og dafna.




Hér er svo bóndarósin alveg við það að springa út, en það eru 7 knúbbar á henni í ár.

24. júní 2013

Fyrsti hjólateljarinn í Reykjavík

Hann er staðsettur við Suðurlandsbraut rétt áður en komið er að Kringlumýrarabrautinni sé maður á leið vestur í bæ.
 
Það er virkilega gleðiefni að búið er að setja upp einn slíkann hér hjá okkur og vona ég að þeim fjölgi og verði víðar um borgina og nágranna bæi í framtíðinni.  Hef ég bætt við slóð undir liðnum "Áhugaverðar síður" þar sem hægt er að sjá stöðuna á mælinum og línurit sem sýnir tölurnar unandfarna daga.
 
Eini gallinn er að tæki snýr ekki rétt að mínu mati.  Það ætti að snú á móti þeim sem kemur eftir stígnum svo tölurnar sjáist betur (þarf þá að vera með tölum báðu megin) eins og er á myndinni hér fyrir neðan sem tekin er í Kaupmannahöfn.

Í morgun gerði ég mér sértsaklega ferð bakvið okkar tæki til að athuga hvort tölur væru aftan á því líka, en svo er ekki.  Þó get ég ekki betur séð en að það sé skjár og allur möguleiki á því að hafa tölur báðu megin.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...