31. janúar 2007

Margt er skrítið í heiminum.

Töluvert hefur verið skrifað um önd nokkra í blöðunum undanfarið.

Þessi önd var skotin af veiðimanni og sett í ískap. Síðan þegar átti að elda hana kom í ljós að hún var enn á lífi og þá er rokið upp til handa og fóta til að lífga hana við aftur. Lífgunartilraunir heppnuðust vel og nú er hún komin í einhverskonar friðland því hún er ófleyg og getur því ekki bjargað sér af sjálfsdáðum.

Er ekki í lagi með fólk?

23. janúar 2007

Áslákur í álögum.

Það er óskaplega gott að lesa svolítið þegar komið er upp í rúm á kvöldin, svona rétt á meðan sængin er að hitna.
Stundum vantar eitthvað að lesa og þá er farið í bókahilluna og reynt að finna eitthvað lesefni.

Þetta átti sér einmitt stað í síðustu viku. Þá er alltaf spurningin hvaða bók á að velja. Bækurnar í bókaskápnum eru mest barna- og unglingabækur, margar mjög góðar en flestar búið að lesa oftar en tvisvar eða þrisvar eins og t.d. Ronja ræningjadóttir og Bróðir minn Ljónshjarta.

En nú fannst bók sem ekki hafði verið lesin áður. Hún ber titilinn "Áslákur í álögum" eftir Dóra Jónsson. Bókin er gefin út 1952 og er saga af hortugum og frekum borgarsták sem fer í sveitina til afa og ömmu og verður þar að manni. Sveitarómantíkin er allsráðandi og lesandinn kemst að því að allir hafa gott af því að fara í sveitina og læra þar á lífið. En allra skemmtilegast er þó texti aftan á bókinni, þar stendur:

"Þetta er óvenju góð unglingasaga! Jafnaldrar Láka og Línu munu lesa hana í spretti og hrópa einum rómi: "Mættum við fá meira að heyra!""

22. janúar 2007

22. janúar 2007

Varð fyrir mjög svo taugatrekkjandi upplifun fyrir helgi. Ég fór með dóttur minni í 10-11 í Glæsibæ því það vantaði eitthvað í nesti daginn eftir. Við vorum báðar léttar í skapi og flissuðum svolítið eins og ungpíum sæmir.

Þegar við gengum út var þar maður hálfur ofan í ruslatunnu, greinilega að skipta um ruslapoka. Um leið og við göngum framhjá stendur hann upp og segir eitthvað við okkur. Við stoppum til að heyra hvað maðurinn segir því hann var greinielga að tala við okkur.
Þá stendur hann þarna, starir á okkur mjög svo illilegur á svip og hreytir í okkur ókvæðisorðum á ensku svo ljótum að ég vil ekki endurtaka þau. Okkur bregður og við svona hálfvegis frjósum og erum að ekki alveg að skilja hvað gengur hér á (höfum án efa verið ansi bjánalegar í framan). En maðurinn heldur áfram og einblína á okkur og fara með bölbænir.

Á endanum þríf ég í dóttur mína og við strunsum út, inn í bíl og af stað. Þá sjáum við að maðurinn kemur út á eftir okkur og skimar um stæðið eins og hann sé að leita að okkur eða eitthvað.

Við vorum í léttu sjokki eftir þetta. Ekki alveg að skilja hvað eiginlega geriðst eða hvað manninum gekk til. Gæti verið að hann hafi haldið okkur vera að hlæja að sér og brugðist svona illilega við?

Af einhverjum ástæðum minnti þetta mig á bókina Thinner sem ég las fyrir töluvert mörgum árum og er eftir Stephen King. Og ónotatilfinningin vildi bara ekki hverfa.

18. janúar 2007

Vetur - sumar.

Mikið andskoti er kalt úti.

Ég verð samt að vera sammála útvarpsþulinum frá í morgun að það er fínt að hafa vetur þegar það er vetur og sumar á sumrin.

Þetta er víst svolítið innbyggt í okkur Íslendingana (veit ekki með alla hina) að trúa því að ef veturinn er kaldur og snjóþungur þá verði sumarið hlýtt og gott í staðinn. Þess vegna situr maður nú og er glaður í hjarta sínu með kuldann því hann lofar því að sumarið verði gott í staðin.

11. janúar 2007

Fljótari en strætó!!!

Það er ekki oft sem það er fljótlegra að ganga heim en að taka strætó, sérstaklega þegar vegalengdin sem um ræðir er u.þ.b. 5 km. En það átti við í dag.

Á venjulegum degi er ég komin heim kl. 16.30. Í dag þegar kl. var 16.50 sat ég enn í strætó ekki komin lengra en 1 km nær heimili mínu en áður en sest var upp í strætó. Því tók ég þá ákvörðun að ég nennti þessu ekki lengur, fór út úr vagninum og lagði af stað á tveimur jafnfljótum.

Ég bjóst svo sem ekki við því að vera komin fyrr heim með þessu móti, en allavega var ég að gera eitthvað sem ekki er ógurlega niðurdrepandi og leiðinlegt (eins og að sitja í strætó).

En þegar ég kom heim var strætó enn ekki farinn framhjá mér. Og því var ég fljótari en strætó!

Ástæðan fyrir þessu öllu var auðvitað snjórinn sem kyngt hafði niður mestan part dagsins og olli töfum á allri umferð, plús það að einhver snillingur hafði lagt bílnum sínum út á götu í þröngum miðbænum svo strætó komst ekki framhjá og varð að bíða þar til eigandinn loksins kom (eftir næstum 10 mín)

10. janúar 2007

Ýmislegt að gerast


Förum í dag aftur að skoða íbúðina sem hefur komið í veg fyrir svefn. Síðan seinna í dag koma til okkar íbúðasölumenn til að meta íbúðina okkar. Eftir það förum við í bankann okkar til að vita hvað þeir telja okkur hæf til að fá lánað og þá getum við í alvörunni skipulagt framhaldið.

Við fórum í gær og skoðuðum 59 milljónkr. húsið, bara svona í gamni. Það er mjög flott, en Elías var ekki nógu hrifinn. Helsti gallinn sem ég sé við það er að umferðahávaðinn er mikill þegar verið er úti í garði og það getur hugsanlega truflað innhverfa íhugun við garðstörf (það verður að taka allt með í reikninginn). Maður tekur ekkert eftir umferðinni innandyra. En hugmyndir voru uppi um að leigutekjur af kjallaraíbúð sem fylgir gætu dregið greiðslugetu upp um nokkra tugi milljóna.

Þetta er spennandi maður.

9. janúar 2007

Góður nætursvefn

Nú er það bara svo að þessi íbúð sem við skoðuðum hefur ekki vikið úr huga mér. Hún heldur fyrir mér vöku á kvöldin og vekur mig eldsnemma á morgnana. Eina leiðin til að ná henni út úr systeminu tel ég vera að skoða hana aftur (til að úrskurða endanlega hvort hún er svefnleysisins virði eða ekki). Það er svo margt sem heillar og er spennandi við hana en líka margt sem dregur hana niður.

Best að skoða aftur og þá vonandi, vonandi get ég fengið góðan nætursvefn aftur.

5. janúar 2007

Íbúðavandræði

Það koma tímabil þar sem ég er alveg að gefast upp á þrengslunum í íbúðinni minni. Og þá fer maður að skoða fasteignaauglýsingar.

Svoleiðis tímabil hefur verið núna og í gær fórum við og skoðuðum eina íbúð sem lofaði ansi góðu. Er skráð næstum því 40 m2 stærri en okkar plús það að hún er ekki í kjallara og er með bílskúr. Auðvitað er verðið ekki neitt allt of spennandi (32 milljónir), en kannski væri hægt að toga það eitthvað niður. Þetta er það sem við höfðum í huga. Töldum jafnvel, í einfeldni okkar að þarna væri eignin fundin.

Svo skoðum við hana. Andrúmsloftið í henni er mjög gott. Þetta er timburhús og það marrar í gólfinu (mjög heimilislegt). En hún er of lítil, tilfinningin er að hún sé svipuð að stærð og sú sem við erum í. Eldhús og bað pínu, pínu lítið svefnherbergi og stofa í ágætri stærð en virkar samt voða svipað og það sem við höfum. Vonbrigðin voru gífurleg.

En síðan þá hef ég fundið draumahúsið. Einbýlishús með aukaíbúð í kjallara. Kostar ekki nema 59 milljónir!!! Er ekki einhver þarna úti tilbúinn til að fjármagna kaupin á því húsi handa mér?

4. janúar 2007

4. janúar 2007


Mamma mín á afmæli á morgun og ætlar að kaupa pizzur handa börnum sínum og barnabörnum. Þá verður farið í pakkaleik sem beðið hefur verið eftir á mínu heimili síðan á síðasta ári. En leikurinn felst í því að allir koma með pakka sem búið er að pakka inn eins spennandi og hægt er. Innhald pakkans má ekki kosta mikið enda er það lúkkið á pakkanum sem gildir hér. Síðan eru allir pakkarnir settir á mitt borð og þáttakendur skiptast á að kasta tening. Þegar einhver fær sexu má sá hinn sami velja sér pakka.

Í upphafi er ákveðið hversu lengi leikurinn á að standa yfir og eru 10 - 15 mín ágætis tímatakmörk. Þegar allir pakkar á miðju borði hafa verið valdir er komið að því að stela pökkum frá öðrum þáttakendum. Þegar svo tímatakmörk eru liðin má opna þá pakka sem maður hefur sankað að sér.


Nokkuð skemmtilegur leikur get ég sagt ykkur. Og ekki er síður skemmtilegt að pakka inn gjöfunum.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...