17. maí 2017

Að komast til og frá vinnu á hjóli

Það er miserfitt að koma sér til og frá vinnu á hjóli.  Áður en vinnan mín flutti var það ekki mikið tiltöku mál (úr Laugardalnum og niður í bæ).  Stundum erfiðara en aðra daga út af veðri en sjaldnast ófært.  Vegalengdin mátuleg og úr nokkrum leiðum að velja.

Síðastliðið sumar flutti vinnan hinsvegar upp á Hólmsheiði.  Vegalengdin hefur tvöfaldast og er að mínu mati ófær á hjóli síðustu 4 km um leið og það er farið að rökkva á ferðatíma.

Sú leið sem ég hef oftast farið er þessi (þegar ég hjóla alla leið):
Þetta eru um 12 km og fyrstu 8 eru mjög fínir, fer um Elliðaárdalinn sem er bæði fallegur og þar eru góðir stígar. En frá Olís í Norðlingaholti hef ég farið eftir þjóðvegi 1, þar er ágætis vegöxl, en mér finnst óþægilegt að hafa bílana á fullri ferð við hliðina á mér og það er þó nokkur umferð stórra bíla (rútur og flutningabílar).  Allra síðasti búturinn finnst mér þó verstur.  Þar er ég á götunni sem er frekar þröng og liggur í hlykkjum sem hindrar útsýni. Hef velt því fyrir mér hvort það gæti verið betra að hjóla á móti umferð þennan síðasta spöl.  Þá sæi ég amk bílana sem eru að koma.  Og það er meiri umferð þarna en ég bjóst við.

Í morgun ákvað ég að prófa aðra leið.  Samstarfsmenn hafa verið að benda á að það séu allskonar leiðir um heiðina.  Ég byrjaði á að skoða "strava heatmap" sem er mjög sniðugt og sýnir hvar þeir sem nota strava (forrit sem heldur utan um hreyfingu manna) ferðast um.  Hér er svæðið mitt á umræddu korti:

Út frá þessu valdið ég mér leið í morgun og hún var þessi:

Ég er á borgarhjóli sem er 6 gíra og á mjóum dekkjum.  Þessi leið er ekki mjög heppileg fyrir það hjól, en er líklega ágætlega fær á fjallahjóli eða amk hjóli á breiðari dekkjum.  Hlekkurinn upp þarna í lokin er svo til allur á malarvegi.  Þessi leið er 2 km lengri en venjulega leiðin en það er ótvíræður kostur að losna við að hafa bílana sér við hlið.
Þessa mynd tók ég þegar ég var komin langleiðina á áfangastað:

Eftir að hafa skoðað leiðina sem ég fór á korti ákvað ég að prófa enn aðra leið heim. Eða þessa leið:
Hún virkaði styttri á kortinu en var það ekki.  Rúmir 14 km eins og leiðin sem ég fór í morgun.  Vegurinn er líka mjög grófur og hentar einstaklega illa hjólinu sem ég var á.
Svo þessi leið verður ekki farin aftur.  En ég gæti vel hugsað mér að fara hina leiðina aftur á öðru hjóli.

3. maí 2017

Í gær var hjólinu mínu stolið.

Vorið 2014 keypti ég mér sumarhjól.  Mig vantaði nýtt hjól og ætlunin var að finna eitthvað sem væri fallegt, nýttist í hjólreiðar allan ársinshring og ég væri ekki borgrandi fram á stýrið á því.  Þetta hjól uppfyllti tvennt af þessu og ég féll algjörlega fyrir því.  

Ég var búin að skoða nokkur hjól, sem voru ágæt en ekki að kveikja neistann, en það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn.  Hjólið er 8 gíra með fram og afturljósum sem knúin eru með því að hjóla.  Eini gallinn við það er að það er ekki hægt að setja nagladekk undir það, plássið milli dekkja og bretta er einfaldlega of lítið.
Hér er styttan af skáldinu Tómasi að virða fyrir sér hjólið og honum líst bara nokkuð vel á held ég.
Við tókum þátt í tweedride eitt árið.  Mamma fékk sér eins hjól og við hekluðum pilsahlífar á hjólin.
Þessa mynd hér fyrir neðan tók dóttir mín á filmumyndavél af mér og hjólinu og mér þykir verulega vænt um þessa mynd.
Og á síðasta ári keypti ég bastkörfu framan á hjólið.


En svo eftir vinnu í gær kom ég að tómum hjólagámi í Mjóddinni.  Ég hafði læst hjólinu við þessa grind, eins og ég hef reyndar gert í allan vetur (var þá á öðru hjóli).
 Lásinn hafði verið slitinn í sundur og var það eina sem var eftir af eigum mínum í hjólagámnum.

 Það er sárt þegar eigur manns eru teknar ófrjálsri hendi.  Ég hef átt gæðastundir á þessu hjóli og hef beðið þess með eftirvæntingu í allan vetur að geta hjólað á því aftur.  Ég held í vonina að hjólið finnist einhversstaðar og skili sér til baka til mín, en mér þykir það samt ólíklegt.


2. maí 2017

Hjólað í apríl 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 182 km, þar af 137 km til og frá vinnu og 45 km annað. 
Sá að meðaltali 8 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  
Hjólaði 11 af 26 vinnudögum, 5 daga var ég í fríi.
Meðalhraðinn hjá mér til vinnu fyrstu þrjá mánuði ársisn var um 13,5 km/klst en núna í apríl 14,7 km/klst.  Það munar töluvert að stígarnir eru auðir.

10. apríl 2017

Hjólað í mars 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 240 km, þar af 189 km til og frá vinnu og 51 km annað. 
Sá að meðaltali 9 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  
Hjólaði 21 af 23 vinnudögum, 2 daga var ég á námskeiði sem ég reyndar hjólaði á, en taldi ekki þá sem ég sá á leiðinni.

1. mars 2017

Hjólað í febrúar 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 178 km, þar af 172 km til og frá vinnu og 6 km annað. 
Sá að meðaltali 7 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  
Hjólaði 16 af 20 vinnudögum, 3 daga sleppti ég að hjóla vegna veðurs eða færðar og 1 dag var ég á námskeiði sem ég reyndar hjólaði á, en taldi ekki þá sem ég sá á leiðinni.  Hjólaði næstum alla dagana upp í Mjódd en fór nokkrum sinnum upp í Norðlingaholt þegar veður og færð var gott.  Febraúar með eindæmum mildur, en svo síðustu helgina féll 51 cm jafnfallinn snjór í Reykjavík (aðfararnótt sunnudagsins 26. febrúar).

Viðbót 6.3.2017:

5. febrúar 2017

Samanburður milli ára, fjöldi hjólandi í Reykjavík

Nú tókst mér að finna hjá mér skráningu á árinu 2010 í sambandi við hjólreiðar mínar og talningu á hjólandi á leið minni til vinnu.
Í skjalinu fann ég reiknivillu sem útskýrir óvenjulegt stökk í fjölda hjólandi í ágúst 2010 í línuriti sem ég setti inn fyrir stuttu.  Svo eru líka óvenju háar tölur nokkrum sinnum á því sama ári sem ég hef ekki séð síðan.  T.d. þann 17 maí 2010 skrái ég að ég hafi talið 64 á hjóli þann morgun.  1. og 2, júní taldi ég 50 og 42 og svo 24. ágúst 40.
Til samanburðar þá er stærsta talning árið 2015: 33 og 2016: 31 hjólandi á einum morgni.
Svo ég tók mig til og "lagfærði" fyrst reiknivilluna og svo þessar stóru tölur niður í 20-24 sem er mjög algengur fjöldi í talningu (fæ svo til sömu tölur út ef ég eyði talningunum alveg út).  Tel ég mig með þessu vera að fá betri samanburð milli ára.

Fyrst ber ég hér saman árið 2010 og 2015 (með þessum nýju útreikningum).  Þau ár er ég að hjóla frá sama stað og að sama stað.  Legg af stað um kl 7:40 og er komin á áfangastað fyrir kl. 8:00.  Frá Sundahverfi og niður í bæ. Vegalengd milli 4,5 og 6 km.   Tölurnar eru meðaltal hvers mánaðar á fjölda hjólandi sem ég tel þá morgna sem ég hjóla til vinnu.



Hér er sýnishorn af skráningu, tók út janúar 2010.  Smellið að myndina til að sjá stærri útgáfu af henni.

Á miðju ári 2016 flutti vinnustaðurinn minn úr miðbænum og upp á Hólmsheiði, sem er nokkuð út fyrir þéttbýlið.  Þetta þýðir að ég er núna að hjóla í öfuga átt við það sem ég gerði áður og vegalengd og tími er aðeins annar.  Yfir sumarið hjólaði ég alla leið, sem er um 12 km en þegar fór að rökkva á morgnana þá stytti ég leiðina niður í 8 km og fékk far síðasta spölinn.  Þegar jólin nálguðust og veður urðu risjóttari hjólaði ég í Mjóddina og fékk far þaðan, þangað er um 4 km.  Ég legg fyrr af stað, er að hjóla frá 7:00 til 7:40 (eða 8:00 þegar ég hjóla alla leið).
Hér er samanburður milli 2010 og 2016:



Mér finnst að út þessum tölum megi lesa mikla fjölgun hjólandi á morgnana í Reykjavík milli þessara ára.  Þó þessi talning sé á engan hátt vísindaleg þá má leika sér að því að bera tölurnar saman.

Bætt við 16.2.2017.  Leiðin sem ég hjólaði lang, lang oftast:

2. febrúar 2017

Hjólað í janúar 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 238 km, þar af 179 km til og frá vinnu og 59 km annað. 
Sá að meðaltali 6 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 16. jan. en þá sá ég 11 og fæst 1, það var 4.. janúar. 
Hjólaði 20 af 22 vinnud-gum, 1 dag sleppti ég að hjóla vegna veðurs og hinn daginn var ég á námskeiði og það hentaði ekki að vera á hjólinu.  Hjólaði alla dagana nema einn upp í Mjódd.

VIðbót frá endomondo:

3. janúar 2017

Samanburður milli ára, fjöldi hjólandi

Mér til gamans ber ég hér saman fyrsta árið sem ég taldi og skráði niður þá sem ég sá á hjóli þá daga sem ég hjólaði til vinnu.

Hér er samanburðu á árunum 2010 (ljósblátt) sem er fyrsta árið sem ég skráði niður þá sem ég taldi og ársins 2016 (dökkblátt).
Í júlí árið 2016 fór ég að hjóla aðra leið og í allt aðra átt en áður svo tölurnar eru ekki alveg samanburðarhæfar með öllu.


þess vegna set ég hérna inn líka samanburð á árunum 2010 og 2015.  Þau ár var ég að hjóla svo til sömu leið, oftast meðfram Sæbraut, en stundum Suðurlandsbraut og af og til einhverjar útfærslur frá þeim tveimur leiðum.


Fyrir utan þetta ógurlega stökk sem verður í talningu í ágúst 2010 (sem ég hef ekki skýringu á) þá má vel lesa aukningu á hjólandi út frá þessum tölum.  Líka gaman að sjá hversu mikil áhrif átakið "Hjólað í vinnuna" hefur á fjölda hjólandi þó þeim fari fjölgandi í apríl líka.

Tala hvers mánaðar er sem sagt fundin þannig að á hverjum morgni skrái ég hjá mér hversu marga ég sé.  Eftir mánðuinn reikna ég út meðaltal hjólandi á hvern dag mánaðarins og það er talan sem fer í töfluna.

2. janúar 2017

Hjólaárið 2016

Hjólaði samtals 3.610 km á árinu.  Mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 2.868 km og 742 í aðrar ferðir.  En ég hjólaði 202 af 251 vinnudögum ársins.  Af þessum 49 vinnudögum sem ekki voru hjólaðir eru 7 vegna ófærðar eða veðurs, 2 vegna veikinda og restin er svo orlof eða aðrar ástæður.

Á miðju ári flutti vinnustaðurinn minn úr miðbænum og upp á Hólmsheiði og lengdist vegalengd til vinnu úr tæpum 6 km í u.þ.b.12 km. Það tók mig nokkurn tíma að finna bestu leiðina þarna uppeftir og voru fyrstu ferðirnar eitthvað lengri, en nú tel ég mig hafa fundið hana.  Þetta er nokkuð upp í móti á morgnan og er meðalhraðinn á þá13 til 14 km/klst en á heimleið 15 til 17 km/klst.




Þegar myrkrið skall á hætti ég að hjóla alla leið í vinnuna og lét mér nægja að hjóla upp að Olís í Norðlingaholti (u.þ.b. 8 km leið) og fá far þaðan.  Seinnihluta desember hjólaði ég svo í Mjódd (4,5 km) og fékk far þaðan.

Hér er mynd og tafla sem sýnir talningu mína á hjólandi fólki á morgnana (ég mæti til vinnu kl. 8) og samanburður milli ára.  Línuritið er af meðaltalstölum hvers mánaðar.




Árið í ár stendur út í okt., nóv. og des með fjölda hjólandi.  Líklega er það vegna þess að ég er að fara nýjar leiðir.

Hér er svo samanburður á vegalengdum sem ég hef hjólað milli ára (reyndar er eitthvað smá um labb þarna líka en það er ekki mjög mikið).


Hjólað í desember 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 199 km, þar af 184 km til og frá vinnu og 15 km annað. 
Sá að meðaltali 10 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 10. nóv. en þá sá ég 18 og fæst 2, það var á Þorláksmessu og líklega margir tekið sér frí.

Hjólaði ekki nema 15 af 21 vinnudegi, 3 daga sleppti ég að hjóla vegna veðurs, og aðra 3 daga voru aðrar ástæður og jafnvel einhverskonar leti sem spilaði þar inní.

1. desember 2016

Hjólað í nóvember 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 338 km, þar af 250 km til og frá vinnu og 88 km annað. 
Sá að meðaltali 12 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 10. nóv. en þá sá ég 19 og fæst 6 og það var í gær (30.11.2016) en ég var verulega undrandi á þvi hvað ég sá fáa þar sem veðrið var svipað og verið hefur, svo til logn og rigning..
Hjólaði 15 af 22 vinnudögum, tók 4 orlofsdaga, 1 dag sleppti ég að hjóla vegna veðurs, 1 veikindadagur og svo slappleiki eftir veikindi og ég fékk far þann daginn.

Veturinn hingað til hefur verið nokkuð mildur.  Það snjóaði þegar ég var í orlofi svo ég fékk ekki reynslu á það hvernig fyrsti snjómokstur er eftir að snjóað hefur, þ.e. hvort búið er að hreinsa leiðina sem ég fer fyrst á morgnana.  Þegar ég svo mætti aftur til vinnu var búið að skafa alla stígar.  Svo tók við stutt klakatímabil og eftir það fór aftur að rigna.  Ég vona að veturinn verði frekar mildur og ekki mikið um rok. 


1. nóvember 2016

Hjólað í október 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 249 km, þar af 240 km til og frá vinnu og 9 km annað. 
Sá að meðaltali 13 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 10. okt. en þá sá ég 22 og fæst 8 (þrjá daga mánðarins).
Hjólaði 15 af 21 vinnudegi, tók 3 orlofsdaga og 3 daga sleppti ég að hjóla vegna veðurs. 

Það hefur verið vindasamt í október og miklar rigningar.   Ég sé fyrir mér að verða að skilja hjólið eftir heima fleiri daga í vetur en áður þar sem ríkjandi mótvindur er á leiðinni sem ég fer, plús það að ég veit ekki hvernig stígarnir eru hreinsaðir af snjó og ég er hóflega bjartsýn á að það sé hreinsuð nema hluti af leiðinni sem ég fer.  Svo enda ég í Norðlingaholti sem er nokkuð hátt uppi og að öllum líkindum snjóþyngra en nirði í 104 þar sem ég bý eða í 101 þar sem ég vann áður.

Viðbót:

1. október 2016

Hjólað í september 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 428 km, þar af 318 km til og frá vinnu og 110 km annað. 
Sá að meðaltali 13 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 20. sept. en þá sá ég 20 og fæsta 19. sept. eða 7 en þann dag var rigning.
Hjólaði 20 af 22 vinnudögum, en einn daginn skildi ég hjólið eftir í vinnunni og fékk far heim vegna slagveðurs og hinn daginn var tónleikastúss og ég hjólaði á æfingar og tónleika en fór á bíl í vinnuna.

Þann 26. september skipti ég yfir á vetrarhjólið af því að ljósin á fína hjólinu mínu neita að virka.  Ég ætla mér að setja nagladekkin undir einhverja næstu daga og vera þar með undirbúin fyrir komandi vetur.

Svona er staðan mín hjá endomondo, 832 hamborgarar í kaloríubrennslu!  Þetta eru samt ekki mjög nákvæm fræði þar sem ég er t.d. ekki með púlsmæli.  Hef tekið eftir því að ef mótvindur er mikill og ég rétt sniglast áfram af þvi ég hef hreinlega ekki kraft á við vindinn þá er kaloríutalningin frekar lág því forritið veit ekki af vindinum og puðinu sem á sér stað.  Enda er þetta nú meira til gamans.




31. ágúst 2016

Hjólað í ágúst 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 333 km, þar af 288 km til og frá vinnu og 45 km annað. 
Sá að meðaltali 19 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Flesta sá ég 9. ágúst en þá sá ég 26 og fæsta 10. ágúst eða 8 en þann dag var mótvindur og mjög rigningarlegt.
Hjólaði 14 af 22 vinnudögum, tók 7 orlofsdaga og einn dag fékk ég far.

22. ágúst hætti ég að hjóla alla leið, þ.e. ég hjóla upp að Olís í Norðlingaholti og fæ far þaðan.  Þetta geri ég af því að sólin er svo lágt á lofti og ég er hrædd um að hún blindi bílstjóra þannig að þeir sjái mig ekki í vegkantinum.  Það er áhætta sem ég er ekki tilbúin að taka.  Draumurinn er auðvitað að geta komist þetta á aðskildum stíg og þurfa ekki að hjóla meðfram þjóðvegi 1 og svo Nesjavallaleið í framhaldi, en það er fjarlægur draumur er ég hrædd um.

Hér er svo til gamans samantekt á heildar hreyfingu minni frá því ég hóf að nota endomondo.



Og til enn frekari skemmtunar set ég her  fyrstu svona myndina sem ég setti inn á bloggið mitt. Það var í 1. apríl 2014 en ég hóf að nota endomondoið ári fyrr, eða í apríl 2013.  Eins og sjá má þá hafa tölurnar aðeins breyst og örlítið bæst í vegalengdina umhverfis jörðina og til tunglsins.



19. ágúst 2016

Mynd af mér og hjólinu

Dóttir mín, Hrund Elíasdóttir, tók þessa mynd af mér og hjólinu mínu á filmumyndavélina sína.

3. ágúst 2016

Hjólað í júlí 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 347 km, þar af 230 km til og frá vinnu og 117 km annað. Sá að meðaltali 14 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  Áður en ég fór að hjóla þessa leið bjóst ég við að sjá mikið fleiri á hjóli, en málið er að ég legg af stað svo snemma og er á ferð um Elliðaárdalinn fyrir hálf átta og þá eru ekki margir aðrir farnir af stað.  Eða ég held að það sé ástæðan.  Flesta sá ég 5. júlí en þá sá ég 22 og fæsta 21. og 22. júlí eða 8 (hvorn daginn fyrir sig) en þá daga var grenjandi rigning.
Hjólaði 10 af 21 vinnudegi, tók 10 orlofsdaga og einn dag var ég á bíl vegna jarðarfarar.




Hér fyrir ofan er skýrsla frá endomondo.  Þar sést hversu mikla hreyfingu ég hef skráð í júlí mánuði.  Eins og sést þá labbaði ég örlítið og fór í tvo hjólatúra sem voru ekki samgöngutengdir þ.e. ég hjólaði bara eitthvað út í buskann til að hjóla en ekki til að koma mér á ákveðinn áfangastað.

1. júlí 2016

Hjólað í júní 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 407 km, þar af 337 km til og frá vinnu og 70 km annað.  Í miðjum mánuðinum flutti vinnustaðurinn minn og þá tvöfaldaðist sú leið sem ég fer til vinnu.  Það hefur gengið ágætlega að hjóla.  Fyrstu 2 dagana var ég verulega þreytt eftir daginn.  En svo bættist úthaldið og mjög fljótt og ég finn ekki lengur fyrir þessari þreytu.

Hjólaði 18 vinnudaga mánaðarins til vinnu en tók 3 orlofsdaga. Sá að meðaltali 18 á hjóli á morgnana.  Mest taldi ég 25 og minnst 10.  Ég er að sjá svipað marga á hjóli á morgnana á leið minni til vinnu nú og áður.  Ég legg af stað hálftíma fyrr þar sem ég er 50 mín að hjóla í vinnuna í stað 20 mín áður, en svo er ég um 40 mín að hjóla heim.  Þetta er nefninlega að mestu upp í móti á leið í vinnu og þar af leiðandi niður í móti á heimleið.

Ég er löngu hætt að keppast við að hjóla hratt, þetta tekur bara sinn tíma og ég vil njóta þess á þægilegum hraða í nokkru öryggi frekar en að vera að keppast og taka áhættur.  U.þ.b. 1/3 af leiðinni neyðist ég til að hjóla með fram þjóðvegi 1 og svo í vegkanti, það er ekkert annað í boði svo ég viti til.  Þá hef ég klætt mig í skærgult vesti til að vera sem sýnilegust.  Á þessum vegum er umferðarhraði ansi mikill og það er óþægilegt en samt alveg gerlegt.

Ég tel mig vera búna að finna skástu leiðina, ég get farið aðeins styttri leið en þessa en þá þarf ég að fara upp ansi bratta brekku og ég geri það ef ég er í þannig stuði og fer þá leið oftast heim (þá er hækkunin ekki eins mikil þar sem ég er þá þegar hátt uppi).  Hluta leiðarinnar hjóla ég eftir "kindastíg" (þó engar séu kindurnar).  Það er í Víðidal þar sem hesthúsin eru.  Það styttir leiðina töluvert því stígurinn liggur í löngu sveig og mig grunar að "kindastígurinn" sé einmitt óskalína hjólreiðamanna.  Veit um a.m.k. einn annan á hjóli sem fer þessa leið á morgnana af því ég hef mætt henni.



Hvað ég geri svo í vetur er óljós, en það er næsta víst að ég er ekki að fara að hjóla meðfram þjóðvegi 1 í snjó, slabbi eða hálku.  En það er seinni tíma vandamál.  Núna er sumar og hlýtt og við höfum áhyggjur af því seinna.

Viðbót 4.7.2016:

21. júní 2016

Hjólað á nýja vinnustaðinn

Þriðji vinnudagurinn á nýjum stað.  Vegalengdin 12,7 km sem er 7 km lengri leið en ég hjólaði áður til vinnu og frá.  Ég finn vel fyrir því.  Er mjög svo orkulaus eftir vinnudaginn en treysti því að ég þurfi aðeins að ná upp betra  þreki og þoli.  Ég hef prófað nokkrar útfærslur af leiðinni og held ég sé búin að finna skástu leiðina.  Þetta er svolítið mikið upp í móti á morgnana og þá niður í móti á heimleiðinni (sem er gott því ég er ferskari fyrst á morgnana).

Í morgun var mótvindur og ég fór nokkuð strembna leið (þ.e. langar brekkur) og ég tók hressilega á því.  Sú leið er ágæt til að fara heim en ég held það borgi sig að sleppa síðustu brekkunni og taka frekar aðeins krók á morgnana.

Ég þarf að hjóla u.þ.b. 4 km á þjóðvegi 1 sem er ekki góð skemmtun en sem betur fer er góð vegöxl.  En ég vildi svo gjarnan geta sleppt síðustu 5 km og spurning hvort maður reyni ekki að finna leið til að það sé hægt.


1. júní 2016

Hjólað í maí 2016

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 349 km, þar af 233 km til og frá vinnu og 117 km annað.  Fór nokkrum sinnum lengri leiðina heim til að æfa mig.  Vinnustaðurinn minn flytur í júní og þá næstum tvöfaldast sú leið sem ég mun fara til vinnu.  Draumurinn er að halda áfram að hjóla og ætti það að vera gerlegt í sumar, en líklega ekki í vetur.  Við sjáum til.

Hjólaði alla 20 vinnudaga mánaðarins til vinnu. Sá að meðaltali 19 á hjóli á morgnana.  Mest taldi ég 31 og minnst 3 (þann dag var grenjandi rigning og rok og kom þá berlega í ljós að ég þarf að fá mér nýjar regnbuxur).
Notaði sumarhjólið mest allan mánuðinn, þá tvo daga sem ég gerði það ekki var ég að fara með hjól dótturinnar og vetrarhjólið á verkstæði til að láta skipta yfir á sumardekkin og yfirfara hjólin eftir veturinn.

Hér er samantekt frá endomondo:


Meðal ferðatími til vinnu er kominn niður í 20 mín í maí.  En svona hefur þetta verið það sem af er árinu.

Í vinnu Heim
Janúar 23 mín 27 mín
Febrúar 23 mín 26 mín
Mars 22 mín 23 mín
Apríl 21 mín 22 mín
Maí 20 mín 22 mín

Átakið "Hjólað í vinnuna" var á tímabilinu 4.5.2016 til og með 24.5.2016.  Þá er alltaf aukning á hjólandi, en mín tilfinning er sú að hún hafi ekki verið eins afgerandi og síðustu ár.
En þegar ég ber saman árin þá sést að menn hafa farið fyrr að stað að hjóla í ár og er aprílmánuður (og febrúar) að slá met skv. mínum talningum, en ég hef skráð hjá mér fjölda hjólandi sem ég sé á leið til vinnu síðan 2010. (Ef smellt er á myndina má sjá hana betur).


En nú er komið að lokum.  Því eins og fyrr segir er vinnan mín að flytja og þá mun ég ekki lengur hjóla þessa sömu leið (fer oftast Sæbraut en Laugardal og Suðurlandsbraut ef veður og færð eru  þannig að þær leiðir henta betur).  En þá hefst nýr kafli og ný talning líkega.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...