11. maí 2007

Kosningar

Fyrir þá sem ekki eru búnir að ákveða sig hvað þeir ætla að kjósa þá er þessi síða hjálpleg. Þarna svararðu nokkrum spurningum og færð svo upp prósentulega séð hvaða flokkur hentar þér best.

Vonbrigði

Á vef Orkuveitunnar er reiknivél sem reiknar út sparnað við að hjóla í stað þess að aka bíl. Þetta er sett upp í tengslum við Hjólað í vinnuna átakið sem er í gangi núna.

Að sjálfsögðu setti ég inn mína vegalengd og bíltegundina sem ég skil eftir heima. Og varð fyrir miklum vonbrigðum. Hélt ég væri að spara svo óskaplega mikið og eyða svo hrikalega miklum kaloríum. En í raun eru þetta ekki nema 130 kr (í bensínkostnað, ekki reiknað með öðrum rekstrarkostnaði við að eiga bíl) og 380 caloríur á dag.

Ég hélt þetta væri svo miklu, miklu meira í alla staði. Ég spara meiri pening á því að sleppa því að taka strætó!

Ég reiknaði út sumarið mitt frá byrjun maí til september loka og gerði ráð fyrir sumarorlofinu.
Sparnaður við að hjóla í stað þess að vera á bíl u.þ.b. kr. 10.000,-
Sparnaður við að hjóla í stað þess að taka strætó u.þ.b. kr. 20.000,- (græna- og gulakortið keypt því sumarið er frekar sundurslitið í ár).
Vá hvað það er dýrt að taka strætó.

Svo auðvitað held ég áfram að hjóla af því það er svo gaman og ég er að spara helling í strætókostnað.

8. maí 2007

"Að vera út' að aka"

Ætti frekar að vera út' að ganga.

Gangandi vegfarendur eru almennt í sínum eigin heimi, þekki þetta af eigin reynslu. Hugurinn reikar, það fer lítil hugsun í athöfnina sjálfa -að ganga- og áður en maður veit af er hugurinn kominn á flug.

Bara þessi litla staðreynd ætti að vera nóg rök til að aðskilja göngu- og hjólastíga.

Á sumum stígum er reynt að aðskilja þetta tvennt með málaðri línu, en mjög algengt er að menn misskilji línuna og eru röngu megin (mikið til túristar hefur mér fundist, greinilega finnst þeim rökréttara að hjólandi umferð fái meira pláss).

Annað sem gerist þegar við göngum og erum í okkar eigin heimi, við svingum um gangséttina.

Það ætti ekki að blanda saman gangandi og hjólandi, bíður hættunni heim. Vonandi fáum við hjólastíga flótlega sem eru aðskildir frá gangandi umferð og bílaumferð (eða allavega þannig að bílar komist auðveldlega framhjá hjólandi umferð).

Og að lokum. Setti hraðamet á hjólinu í dag. Fór í 34,7 km/klst!

6. maí 2007

Garðurinn minn



Um síðustu helgi bjó ég mér til lítinn matjurtargarð. Það tók u.þ.b. 3 klst að rista upp grasið, grjót- og rótahreinsa og stinga upp moldina. Afraksturinn er beð sem er 100x300 cm að stærð (og töluverðar harðsperrur). Niður í beðið fóru 11 kartöflur, gulrótar- og blómafræ (til skrauts).


Það kom strax í ljós að ekki er nóg að raða steinum í kringum beðið til að forða því frá átroðningi. Svo í gær kíktum við hjónin í Garðheima og keyptum þetta líka svakalega fína míni-gróðurhús sem við settum yfir beðið eftir að búði var að raka það til, bæta við gulrótar-, radísu- og kálfræjum. Nú bíður maður spenntur eftir að allt fari að spretta.


Síðan keyptum við okkur safnkassa undir garðúrgang og svona hitt og þetta úr eldhúsinu. Hefði aldrei trúað því að þetta gæti verið svona gaman. Nú dundar maður sér við að setja ávaxtaafganga, kartöfluhýði og fleira matarkyns í dollu inni í eldhúsi og rölta svo með það af og til út í safntunnu.

4. maí 2007

Jæja Inga þú verður að svara og allir aðrir sem vilja líka.

1. Miðnafnið þitt:
2. Aldur:
3. Single or Taken:
4. Uppáhalds bíómynd:
5. Uppáhalds lag:
6. Uppáhaldshljómsveit:
7. Dirty or Clean:
8. Tattoo eða göt:
9. Þekkjumst við persónulega?
10. Hver er tilgangurinn með lífinu?
11. Myndiru bakka mig upp í slagsmálum?
12. Myndiru þaga yfir leyndarmáli ef það skipti mig máli?
13. Besta minningin þín um okkur?
14. Myndir þú gefa mér nýra?
15. Segðu eitthvað skrýtið um þig:
16. Myndir þú hugsa um mig ef ég væri veik/ur?
17. Getum við hist og bakað köku?
18. Hefuru heyrt kjaftasögu um mig nýlega?
19. Talaru eða hefuru talað illa um mig?
20. Finnst þér ég góð manneskja?
21. Myndir þú kerya með mér hringinn í kringum landið?
22. Finnst þér ég aðlaðandi?
23. Hverju myndiru vilja breyta í mínu fari?
24. Í hverju sefuru?
25. Kæmiru í heimsókn af tilefnislausu, bara til að chilla?
26. Myndir þú koma á stefnumót ef ég myndi bjóða þér?
27. Ef ég ætti einn dag ólifaðann, hvað myndum við gera?

27. apríl 2007

Er ekki kominn tími á hjólafréttir?


Mætti ekki nema 3 hjólurum á leið minni í vinnuna í morgun og allir í mínu eigin hverfi. Frekar öfugsnúið því venjulega eru flestir niðri í miðbæ. En svona er lífið stundum á hvolfi.


Tókst í gær að leysa úr vanda sem hefur plagaði mig lengi. Þannig er að hnakkurinn á hjólinu mínu seig alltaf niður og stoppaði svo í ákveðinni hæð c.a. 5 cm neðar er æskilegt var. Í þessari lágu stöðu var hann pikkfastur, en í bestu stöðu var hægt að snúa honum í hringi og allt.


Svo í gær þegar ég pantaði tíma fyrir hjólið í uppherslu og almennt tékk (fékk tíma eftir 2 viikur, þetta er bara eins og að panta læknatíma) og sagði frá þessum vanda mínum var strákurinn sem ég talaði við ekki að skilja þetta, en minntist eitthvað á að herða á...


U.þ.b. hálftíma síðar kveiknaði ljós (maður á auðvitað ekki að segja frá þessu en mitt heilabú er bara ekki fljótvirkara en þetta). Þannig að þegar ég kom heim var verkfærakistan tekin fram og fundinn sexkantur í viðeigandi stærð og hnakkurinn festur í bestu stöðu. Tók ekki nema 5 mín. Af hverju í ósköpunum hafði mér ekki dottið þetta í hug? Búin að vera að bölsóta þessu í hverri einustu hjólaferð.


Þá er bara eftir að leysa vandann með bleytuna í hnakknum sjálfum. Það er nefninlega saumur aftan á honum sem hleypir regnvatni bæði inn og út. Hingað til hefur það verið leyst með plastpoka (eftir fyrsta rassbleytudag í vinnunni) en það er bara svo ljótt. Ef einhver veit um einfalt og gott ráð við þessu endilega látið mig vita.

24. apríl 2007

Ný regla í tungumálinu.

Legg til að ný regla verði sett í íslenskufræðin. Hún er sú að nöfn fyrirtækja séu undanskilin beygingum í tali og skrifi manna.

Til eru fyrirtæki eins og Spölur ehf og það er bara ekkert einfalt mál að beygja þetta nafn. Það er eitthvað afkárlegt við beygja fyrirtækjanöfn. Þó nöfnin beygist eðiliega. T.d. Margt smátt ehf. Ég var að tala við þennan eða hinn frá Mörgu smáu... það passar eitthvað svo illa.

Samkvæmt nýju reglunni þá verður þetta svona: "Ég var að tala við þennan eða hinn frá Margt smátt... "

Stundum þegar hlustað er á fréttir (eða aðra sem tala "rétt") áttar maður sig ekki strax á því hvaða fyrirtæki verið er að tala um þegar búið er að snúa nafninu eftir kúnstarinnarreglum tungunnar og afbjaga þannig nöfn þeirra.

Og hana nú. Að lokum legg ég til að ibbsilonið verðu tekið úr málinu líka til að létta mér lífið.

Kv. Bjarnei

21. apríl 2007

Ahhhh...

Nú get ég andað léttar og þið hin líka. Þau undur og stórmerki gerðust að í dag keypti ég mér tvennar buxur hvorki meira né minna. Það er hin ótrúlega frábæra búð ZikZak sem á heiðurinn að því að hafa buxur í minni stærð og lengd og ekki nóg með það heldur er umrædd búð í göngufæri frá heimili mínu.

Það er ótrúlegt hvað framkvæmt er í dag.


Þetta er skemmtigarður rétt við Berlín í Þýskalandi. Þeir lofa að aldrei rigni og þar sem þetta er innandyra geta þeir líklega staðið við loforði. Hægt er að kaupa gistingu á staðum bæði í tjaldi (rúm í tjaldinu) og á hóteli. Er nokkuð annað en að skellasér. Þetta er heimasíðan þeirra.

19. apríl 2007

Gleðilegt sumar!


Í dag er fæðingardagur Gundýjar ömmu. Þá er vel við hæfi að lyfta glasi (helst fyllt með sherry eða port víni) og segja (og nú vona ég að ég fari rétt með):


Skál fyrir okkar áagrund og lukkunnar leiði.

Lifi Íslands litfríð sprund.

Húrra!

17. apríl 2007

Buxnafréttir og hjálparbeiðni

Ekki gengur vel að finna nýjar buxur í stað þeirra sem gáfu upp andann rétt fyrir helgi. Dró eldra afkvæmið með mér í Kringluna um helgina og þá var mátað og mátað. Í nokkrum búðum eru ekki seldar buxur í minni stærð (ég sem hélt ég væri svo grönn). Í einni búð fundust buxur sem pössuðu um mittið en þær voru allt of stuttar!!! Ótrúlegt!.

Rölti Laugaveginn í hádeginu og kíkti í búðina þar sem mínar fyrrverandi uppáhaldsbuxur voru keyptar. Þar voru ekki til nema 2 gerðir af buxum en verðið allt í lagi 4.999kr... en því miður passa ekki.

Svo mig vantar hjálp!!! Plís hvar er hægt að kaupa buxur í eðlilegri stærð á þokkalegu verði?

Augnfréttir

Fór til læknis í gær og þá var aftur tekin mynd af augnbotnunum. Og nú sagði læknir að eins og hann hefði haldið síðast (???talaði þá um að ekkert væri hægt að sjá) þá væri augljóst þegar myndirnar eru bornar saman að það er þroti eða bjúgur í augnbotninum. Og að hann er á undanhaldi.

Þetta er allt saman sem sagt á réttir leið og allar líkur til að ég verði næstum jafn góð og fyrir. Málið er samt að þetta skilur eftir sig ör og getur því eitthvað dregið úr sjóninni varanlega. Það er ekki þekkt afhverju þetta gerist eða hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Svo er nú það.

13. apríl 2007

NNNNEEEEeeiiiiii...


Var að taka eftir því að það er komið gat á bestu og svo til einu buxurnar mínar.


Ónei það táknar aðeins eitt, að ég verð að fara í búð og finna mér nýjar buxur.


Arghh!


Veit fátt leiðinlegra eða erfiðara verkefni. Einu sinni var það þannig að ég átti í mesta basli með að finna buxur sem væru nógu síðar en mátulegar í mittið (þ.e. ekki of víðar). Nú hefur þetta snúist við. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að finna nógu síðar buxur lengur, en þær vilja vera helst til of þröngar í mittið.

12. apríl 2007

Sjónin

Hvað er meira hversdagslegt og sjálfsagt en að sjá og nota augun?
Það er ekki fyrr en sjónin klikkar að maður áttar sig á því hversu miklu máli hún skiptir. En það skrítna er að þegar allt verður eðlilegt aftur þá gleymist fljótt hvernig það var að sjá ekki vel og aftur verður hversdaglegt að sjá vel. Af öllu fólki ætti ég kannski að vera meðvituð um þetta þar sem ég hef ekki nema þetta eina auga að hlaupa uppá (vegna fæðingagalla). En það er nú bara ekki þannig.

Ég er núna í þriðja skiptið að upplifa töluvert tap á sjón, sem ætti að ganga til baka eins og í hin 2 skiptin (og ég tel mig sjá betur í dag en í gær).

Þetta gerðist fyrst árið 1998. Þá var ég í nýju starfi og þurfti að taka mér viku veikindafrí. Fyrstu einkennin eru lítill blettur fyrir því sem ég horfi á. T.d. við lestur þá sé ég ekki stafinn sem ég horfi beint á en bara stafina sitthvoru megin. Síðan verð ég viðkvæm fyrir ljósi og bletturinn stækkar og verður að flekki (tilfinning svipuð því og þunn slæða sé fyrir andlitinu) Ég fór að sjálfsögðu til augnlæknis og hann taldi sig sjá bólgu í augnbotninum rétt við sjóntaugina. Hann ráðlagði algjöra hvíld og enga áreynslu á augað. Ferðir til augnlæknisins urðu svo til daglegur viðburður. Sjónin versnaði í 2-3 daga en fór þá að skána aftur.

Næst kom þetta fyrir árið 2002 eða 2003 (árið sem Anna vinkona gifti sig). Það byrjaði eins en varði nokkrum dögum lengur í þetta skiptið og sjónin varð verri. Þá fór ég til annars augnlæknis líka og hann sendi mig í æðamyndatöku á auganu. Það er gert þannig að litarefni er sprautað í æð og myndir teknar um leið og það flæðir í augað. Læknirinn taldi sig sjá leyfar eða ör eftir bólgur en ekkert meira en það. Aftur lagaðist sjónin og varð eins góð og hún hafði verið fyrir.

Svo fyrir rétt rúmri viku síðan hófst ferlið aftur. Miðvikudaginn fyrir páska áttaði ég mig á því að ég var farin að horfa fram og til baka til að sjá það sem ég var að skrifa og ákvað þá að ekki væri ráðlegt að vera í vinnunni og fór heim. Páskarnir fóru að mestu leiti í hvíld (eftir tónleikana auðvitað á skírdag og föstudaginn langa). En sjónin var alltaf jafn slæm. Á þriðjudaginn fór ég til augnlæknis og hann taldi sig aftur sjá bólgu/þrota í augnbotninum, en nú væri komið nýtt tæki sem tekur n.k. sneiðmyndir af auganu og með því væri hægt að sjá augnbotninn betur en áður. Tími var bókaður og ég fór á augndeild Landspítalans þar sem umræddar myndir voru teknar. En á þeim sést ekki neitt.
Hvað þá? Ekkert bara að bíða. Þetta hlýtur að lagast núna eins og það gerði síðast. Það á að taka myndir aftur n.k. mánudag og bera saman við hinar fyrri (sama hvort mér verður batnað eða ekki).

Ég er mætt í vinnuna því eins og ég sagði áðan þá finnst mér ég vera betri en áður og læknarnir telja að það skaði ekki sjónina að nota augað. En ég á enn erfitt með að sjá andlit í meira en 5 metra fjarlægð og að lesa smáan texta. Þó hef ég fulla trú á því að allt verð gott aftur sem fyrr. Ég bara tek því rólega og loka augunum af of til og hvíli mig.

27. mars 2007

Tónleikar sem enginn má missa af.




Kór Áskirkju flytur Jóhannesarpassíu J.S.Bach, BWv 245, í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Flytjendur eru Kór Áskirkju ásamt kammersveit
– konsertmeistari Hjörleifur Valsson.
einsöngvarar Ágúst Ólafsson barítón, Bergþór Pálsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir, messósópran.
Stjórnandi er Kári Þormar

Tónleikarnir hefjast kl: 17. báða dagana.

Miðaverð kr. 3.000.
Forsala er hjá 12 Tónum og kirkjuverði í Áskirkju.

Kór Áskirkju hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2001 þegar Kári Þormar tók við starfi organista og kórstjóra í Áskirkju.
Kórinn hefur haldið fjölda tónleika, aðalega í Áskirkju en einnig komið fram á sumartónleikum í Mývatnssveit og í Akureyrarkirkju. Síðastliðinn vetur hélt Kór Áskirkju ásamt Hljómeyki, tónleika á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju þar sem kórarnir frumfluttu hér á landi messu í G – dúr eftir Francis Poulenc og hlutu mikið lof gagnrýnanda fyrir flutningin en verkið þykir meðal kröfuhörðustu kórverka.
Árið 2004 hljóðritaði kórinn diskinn Það er óskaland íslenskt, en sá diskur hlaut einróma lof gagnrýnenda og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004.
Kór Áskirkju hefur mest fengist við a-capella tónlist en einnig kórverk fyrir hljómsveit og kór, svo sem: Messu eftir Mozart í B- dúr KV 275 – Gloriu Vivaldi og Jólaóratoríu eftir Saint Saens.

Nú ætlar kórinn, í rökréttu og metnaðarfullu framhaldi af því sem undan er gengið, að flytja eitt af stórvirkjum kirkjutónbókmenntanna, Jóhannesarpassíu J.S. Bach í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Kór Áskirkju fær til liðs við sig 18 manna kammersveit undir forystu Hjörleifs Valssonar, og einsöngvarana Ágúst Ólafson, Bergþór Pálsson, Eyjólf Eyjólfsson, Gunnar Guðbjörnsson, Jóhönnu Ósk Valsdóttur og Hallveigu Rúnarsdóttur.

23. mars 2007

Meira leikjanet.is


Rakst á enn einn frábærann leikinn á Leikjanet.is. Hann heitir Planarity.
Það sem á að gera hér er að raða bláu-punktunum þannig upp að línurnar á milli þeirra skerast ekki. Þetta hefst svona einfalt eins og á meðfygljandi mynd, en verður fljótlega töluvert snúnara.
Minnir helst á þegar leyst er úr garnaflækju. Virkar á stundum ómögulegt en er svo ótrúlega gaman þegar vel tekst til.
Áhugasömum bent á að smella á nafn leiksins hér að ofan og prófa sjálfir.

21. mars 2007

Ó MÆ GOD

Skattskýrslan maður, ég steingleymdi henni.

Úbbs, best að kíkja á þetta í dag eftir vinnu.

Ætlaði svo mikið að klára hana um helgina.

Sætuefnið Aspartam


Það er nú svo að mín tilfinning er að sætuefni séu ekki eins frábær og menn hafa haldið. Og þegar maður hefur svona tilfinningu þá er ánægjulegt að fá staðfestingu á því frá fræðingum.

Rakst á grein í gær um skaðsemi sætuefnisins Aspartam. Greinin er skrifuð af manni sem hefur menntatitilinn Osteópati, B.Sc. (hons), hvað sem það nú táknar. Og þið getið nálgast hana hér.

Það dregur örlítið úr ánægjunni hversu mikil áhersla er lögð á samsæriskenningu og finnst mér það jafnvel draga úr trúverðugleika þess sem verið er að fjalla um. Það er eitthvað við samsæriskenningar, bæði geta þær verið mjög spennandi en líka eitthvað svo klikk.

Á vísindavef Háskóla Íslands er eftirfarandi spurningu svarað: "Hvaða skaðleg áhrif hefur sætuefnið aspartam á líkamann?" Í svarinu kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á skaðsemi efnisins. Menn hafi verið látnir drekka 12-30 gosflöskur með efninu í, en ekki hafi komið annað fram en höfuðverkur hjá sumum. En samt er tekið fram að ekki sé vitað um langtímaáhrif neyslu á efninu. Sá sem svarar er prófessor í læknisfræði við HÍ.

Eftir lestur greinarinnar hef ég farið að lesa utan á umbúðir eins og t.d. á tyggjóinu sem ég japla og oftar en ekki er þetta Aspartam í þessum vörum. Hmmm, á maður eitthvað að fara að spekúlegar í þessu nánar???

Enn einn texta fann ég sem segir svo til það saman og prófessorinn, bara ekki eins formlega sett fram (smellið hér til að sjá). Þar hafa menn svo sett inn komment og er eitt þeira bara svo fyndið að ég smelli því hér í lokin hjá mér (samsæriskenning í sínu ýktasta formi)

"Getu þú bent mér á "allar þessar rannsóknir" eða ertu að endurtaka eitthvað sem að þú "last á internetinu". Vissuð þið líka að Rumsfeld kom því gegn að allt drykkjarvatn er flúortbætt til þess losa sig við byrgðir af flúor sem hann vissi ekki hvað hann átti að gera við, einnig er það við flúor að hann brýtur niður sjálfsvilja okkar og lætur okkur vera undirgefin núverandi BNA stjórn, það var einnig lítil kjarnorkusprengja sem að grandaði tvíburaturnunum og frímurararnir vissu af þessu og settu leynileg skilaboð á dollarann þar sem (ef að þú brýtur hann rétt samann) þú sérð turnana falla."

20. mars 2007

Kynleg vandræði

Þar sem ég er nú alin upp af henni mömmu minni þá blundar í mér kvenréttindaeitthvað og á ég það til að móðgast ógurlega til handa mínu kyni þegar á það er hallað.

En um daginn heyrði ég viðtal við háskólamann í útvarpinu og sem talaði um að í máli og ræðu væri það í raun karlkynið sem á væri hallað. Þannig er að kvenkyn í tungumálinu er nýjasta kynið. Áður var til samkyn (allt lifandi) og hvorukyn (dauðir hlutir).

Í tungumálinu í dag eru ýmis orð sem eingöngu eiga við kvenkyn, en karlmenn sitja eftir í samkyninu og eiga ekki sín eigin orð sem eingöngu vísa til þeirra sem karlkyns. Tekin voru dæmi um orð eins og "sá", "hann", "þeir", "allir".

Dæmi: "Sá hlær best sem síðast hlær" hér getur hvort sem er verið að tala um karlmenn sem kvenmenn og "Þeir sem hlustuðu... " er dæmi um það saman.

Og nú er svo komið að frásagnir geta orðið til vandræða því ekki vill maður alltaf vera að skrifa hann/hún, þeir/þær þ.e.a.s. báðr kynmyndirnar því það er bara kjánalegt. Eru karlmenn ekki sármóðgaðir yfir þessu?

Áhugasömum er bent á Víðsjá á Rás1 mánudaginn 12. mars sl.

15. mars 2007

Pöntun á vöru í síma.

Fyrirtæki: Fyrirtækið góðan dag.
Ég: Góðan dag. Bjarney heiti ég hringi frá Fyrirtækinu-sem-ég-vinn-hjá, ég ætla að panta hjá ykkur.
Fyrirtæki: Já, sæl. ...


Og nú spyr ég, hvað meinar viðkomandi þegar hann segir "sæl"? Man hann eftir mér frá því ég pantaði síðast og finnst gaman að heyra í mér aftur?
Þetta virðist vera það nýjasta í símsvörun og móttöku pantana núna.

Persónulega nota ég þetta orð ekki nema ég þekki viðkomandi eða er farin að kannast ágætlega við hann. Mér finnst pínu skrítið að nota þetta við hvern sem er.
Fyrst hélt ég að mín fötlun við að muna eftir fólki væri sökudólgurinn og remdist við að átta mig á hvern ég væri að tala við, en er nú komin á það að þetta sé almennt notað hvort sem viðkomandi man eftir mér eða ekki.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...