10. febrúar 2010

Hjólafréttir.


Hlaupadagbókin http://hlaup.com/ er góð síða til að halda utan um hreyfingu, hvort sem það er hjól eða hlaup.

Allt síðasta ár skráði ég inn þau hlaup og hjólaferðir sem ég fór með Garmin græjuna á arminum. Það er hægt að sjá farnar vegalengdir yfir allt árið (eða einn og einn mánuð) og ég er stollt að segja að á síðasta ári var ég í 8. sæti kvenna sem skráðu inn hjólaferðir sínar (sjá meðfylgjandi mynd).
Árið 2009 hjólaði ég samtals 2.148 km og hljóp 116. Ætli ég nái að bæta við mig í ár?

9. febrúar 2010

Hjólafréttir

Fjöldamet ársins 2010, enn sem komið er. Sá hvorki fleiri né færri en 5 hjólreiðamenn í morgun!

8. febrúar 2010

Hjólafréttir.

Út af kvefi og slappleika hjólaði ég bara í vinnuna síðasta mánudag og svo ekkert það sem eftir var vikunnar. Þess vegna var einstaklega skemmtilegt að hjóla í vinnuna í morgun. Veðrið var yndislegt en samt sá ég bara einn annan hjólreiðamann á ferli.

En ég bráðum þarf að yfirfara hjólið og skipta um bremsuklossa á afturbremsunum og fleira. Líklegast þarf ég að fá mér ný tannhjól og nýja keðju, þetta endist ekki endalaust.

24. janúar 2010

Fyrsta skokk ársins

Fyrsti skokkhringur ársins. Loksins, loksins tek ég aftur fram hlaupaskóna. Þetta var fínn hringur og mér leið vel að mestu allan hringinn. Fann svolítið fyrir hlaupasting og kláða í húðinni (veit einhver af hverju maður fær þá tilfinningu, frekar óþægilegt) en varð varla móð eða þreytt í fótunum. Hlakka til að hlaupa aftur og bæta við mig kílómetrunum.

Vegalengd 2,5 km, tími 16 mín og 47 sek, pace 6,4.

Veðrið þokkalegt, smá vindur, rigning og 7 stiga hiti.

7. janúar 2010

Færð á stígum

Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að kvarta undan. Núna þegar hlýnar og snjórinn er tekinn að bráðna þá versnar það með færðina. Það er eins og hjólið fljóti á slabbinu. Ég var nokkrum sinnum við það að missa stjórn á hjólinu á leiðinni heim úr vinnunni áðan. En það slapp nú alltaf og maður neyddist til að hjóla hægar fyrir vikið.

Eins er það við öll gatnamót. Mig grunar að það sé vegna saltsins sem stráð er á göturnar. Það getur verið pínlegt, einmitt þar sem maður er mest áberandi á gatnamótunum og bílstjórara sem bíða á rauðu ljósi hafa lítið annað að gera en að glápa á blásaklaust hjólreiðafólkið, þar er mesta hættan á að missa hjólið í slabbinu og detta eða a.m.k. að þurfa að stíga niður fæti til að halda jafnvæginu. Það getur leitt til þess að bílstjórarnir fái "sönnun" fyrir því að það sé stórhættulegt að hjóla á þessum árstíma, sem er alls ekki rétt.

6. janúar 2010

Hjólaárið 2010

Spennandi ár framundan. Byrjar svolítið kalt en frostið hefur verið nálægt 10 gráðunum en nú er farið að hlýna og hitastigið farið að nálgast frostmarkið.

Markmiðið er að fara í sumar á vestfirðina í hjólaferð með vinum og ættingjum sem vilja og geta komið með. Við mamma ætlum að skipuleggja ferðina í sameiningu enda er hún farin í tilefni þess að við fyllum saman 100 árin í ár. Stefnt er á júlí mánuð og erum við farnar að setja út klær og annan búnað til að útvega húsnæði og hugmyndir að hjólaleiðum. Það er ljóst að hópurinn verður misjafn í hjólahreisti. Sumir vanir hjólamenn á meðan aðriði eru kannski að dusta rykið af hjólinu eftir einhvern tíma, en það er bara ennþá meiri áskorun að finna hjólaleiðir sem henta öllum. Við þurfum líka að hafa einhverja sem eru tilbúnir að vera bílstjórar og aka með hjólin á þá staði sem hjólað verður til og frá. Ég hlakka mikið til.
Gaman væri að fá tillögur frá einhverjum sem þekkir sig til á vestfjörðunum, sjálf hef ég ekki komið þangað síðan ég var barn.

3. janúar 2010

Prjónaárið 2009

Síðast liðið ár hefur verið dásamlegt prjóna ár. Lopinn er minn uppáhalds efniviður og það vill svo vel til að hann er vinsæll í flíkur þessa dagana.

Afrakstur ársins eru 3 lopapeysur, 1 skokkur á mig, næstum 10 þæfðar töskur, tátiljur, slatti af húfum, herðaslá og svo er ég að prjóna mér sjal úr einbandi (eingirni). Það getur vel verið að ég sé að gleyma einhverju en hér eru nokkrar myndir af því sem ég hef gert.












16. desember 2009

Tónleikar á aðventunni.

Í gær fór ég á tvenna tónleika. Fyrst í hádeginu í Íslensku Óperuna að sjá og heyra Óp-hópinn syngja jólalög og svo um kvöldið í Söngskóla Sigurðar Demetz að hlusta á jólatónleika unglingadeildarinnar.

Eyrún söng eitt einsöngslag í gærkvöldi. Það var Þá nýfæddur Jesú, og hún gerði það virkilega vel. Sá hjá henni mikla framför frá síðustu tónleikum bæði í öryggi í framkomu og í röddinni. Eins stóðu hinar stelpurnar sig vel. Þær sungu nokkur kórlög og mér finnst alltaf gaman að heyra lög sungin sem maður söng sjálfur í kór í gamladaga.

Í kvöld mun svo Hörn frænka stíga aftur á svið með Sópranós en þær verða með tónleika í Hafnarhúsinu. Ég kemst því miður ekki sjálf á þá tónleika, en ég veit að þeir sem fara munu hafa gaman að.

10. desember 2009

Viðbót við óskalistann

- Silfurkórinn jólalög (þessa gömlu góðu sem við áttum á plötu hér í denn).
- Anton berg konfekt.
- Hekkklippur
- Hjólbörur
- Sláttuvél
- Garðslanga
- Standur fyrir garðslöngu
- fleir garðáhöld sem ég man ekki eftir í augnablikinu

7. desember 2009

Óskalisti

Einu sinni bjó maður sér til óskalista fyrir hver jól. Hér er listi yfir ýmislegt sem mig langar í.

- Skóflu til að moka snjó (mín er með allt of stuttu skafti).
- Hnoðskál. Annaðhvort aðra hrærivélaskál eða keramikskál, sá eina brúna í Pipar og Salt sem mér líst ansi vel á.
- Buxur
- Peysur og/eða boli
- Bjöllu á hjólið. Þoli ekki bling, bling bjölluna sem ég er með en það var ekki önnur til í búðinni þegar ég keypti hana.
- Jólaplötu með Mahalia Jackson svo ég geti bakað Írsku-jólakökuna næsta ár.
- Inniskór til að nota í vinnunni.

Þetta er svona það sem ég man eftir núna.

16. nóvember 2009

Biluð tæki.


Uppþvottavél og þvottavél farnar með viku millibili.
Þvottavélin var svo sem tifandi tímasprengja þannig séð, vél sem við fengum notaða frá ömmu Elíasar og tengdapabbi taldi hana vera farna að slaga hátt í 30 árin í notkun sem er nú bara ansi gott. Svo það var alveg kominn tími á nýja þvottavél.
Uppþvottavélin var unglamb miðað við hana, ekki nema 9 ára.
Það hefði þó verið betra að hafa lengri tíma á milli bilana á vélum. Nú erum við með krosslagða fingur og vonum að fleiri heimilistæki fari ekki að gefa sig.

6. nóvember 2009

Alltaf að gleyma einhverju

Argh!
Gleymdi að taka með mér afganginn af kvöldmatnum í gær til að borða í hádeginu í dag. Fæ í staðin samloku, ekki góð skipti.

3. nóvember 2009

Brandur

Kötturinn hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan við fluttum. Hann hefur stungið af fljótlega eftir að við höfum gefið honum leyfi til að fara út og þá hefjast reglulegar ferðir okkar heimilismanna í Karfavoginn því við vitum að þangað leitar hann. Tvisvar hefur hann verið týndur í heila viku, og það sést á honum því hann er orðin ansi horaður.

Núna hefur verið slegið met því hann hefur haldið sig heima í rétt rúma viku. Enda hefur hann svo sem ekki fengið mörg tækifæri til að stinga af. Við höfum farið með honum út eftir vinnu og skóla í u.þ.b. klst á dag og hann hefur ekki farið langt. Í gær eftir vinnu opnaði ég lúguna hans og hann fékk að fara út einn. Og hann skilaði sér inn aftur. Lúgunni var svo læst aftur um kvöldmat.

Í morgun var stigið stórt skref því ég opnaði lúguna hans og í dag er hann frjáls að fara inn og út eins og honum listir. Stóra spurningin er hvort hann muni nota frelsið til að stinga af einu sinni enn.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...