29. september 2006

Myrkur milli 22 og 22.30, eða hvað?


Sú frábæra hugmynd að myrkva höfuðborgarsvæðið og nærsveitir varð að veruleika í gær.

Við fjölskylda höfðum mikið hlakkað til og vorum ákveðin í að fara í göngutúr um hverfið og enda uppi á göngubrú yfir Miklubrautina til að sjá þegar ljósin væru kveikt aftur.

Við vorum tilbúin rétt fyrir kl. 10. Hrund meira að segja kom heim af skólaballi til að vera með. Eyrún var mjög spennt og tók uppáhalds tækið sitt, hlaupahjólið með í för. Þegar ljósin voru slökkt stóðum við í garðinum fyrir framan húsið og sáum ljósin slokkna. En þá komu fyrstu vonbrigðin, ekki nema u.þ.b. helmingur nágrannanna hafði slökkt ljósin inni hjá sér eða útiljósin.

Jæja svo lögðum við af stað og sáum jú að menn voru að átta sig og ljós slökknuðu hér og þar í húsum í kring og myrkrið varð töluvert. T.d. heimtaði Eyrún að fá lýsingu á gangstéttina (með vasaljósi) til að sjá hvert hún væri að hlaupahjóla.

Við mættum nokkrum dökkum verum á leiðinni og allir heilsuðu (er það vegna þessara sérstöku aðstæðna eða voru bara þeir á gangi sem almennt heilsa ókunnugum sem þeir mæta á götu?). Þetta var stemming, en ótrúlegt samt hversu mikið var af ljósum. Ég hafði búist við svo til algjöru myrkri.

Hinu megin við Geldinganesið er iðnaðarsvæði, Ingvar Helgason ofl. þvíumlíkt þar voru engin ljós slökk og ekki hægt að sjá mun fyrir og eftir. Í Breiðholtinu var líka mjög mikið af ljósum, en þó hægt að sjá mun. Ég var líka svo hissa á því hversu mikil umferð var. En það er líklegast viðeigandi að bílaþjóðin njóti myrkursins í bíltúr.

Það var flott að sjá ljósin koma aftur. Við fylgdumst vel með tímanum og vorum eins tilbúin og hægt var að vera. Svo kveiknuðu þau lína eftir línu. Fyrst kom lítill blossi og svo ljós.

Það var síðan mjög gaman að ganga sömu leiðina til baka í fullri lýsingu og sjá muninn.

Á meðfylgjandi mynd eru Hrund og Eyrún standandi uppi á steini í Steinahlíð (leikskólalóð), á bak við þær eru ljósastaurar sem sjást auðvitað ekki því það er slökkt á þeim.

Hvað gerðuð þið meðan ljósin voru slökkt?

27. september 2006

Gamlar myndir, en samt ekki svo gamlar

Við skönnuðum inn myndir og hér eru nokkrar. Gæðin eru svo sem ekkert til að hrópa húrra yfir (gamall skanni) en það er samt gaman að þessu.



Þórhallur og Annel Helgi, ó þeir eru bara svo sætir. Þessi mynd er tekin á ættarmóti. Helga móðursystir er á bak við þá.


Hérna eru ég og Inga vinkona þegar við vorum alveg eins. Þarna erum við í apaskinnsbuxunum sem við áttum alveg eins, vorum með alveg eins hárgreiðslu og merkilegt nokk vorum jafn háar!


Hérna eru mamma og Daði (takið eftir blaðinu sem mamma heldur á).



Og að lokum Arnar og Daði, sem á einmitt afmæli í dag. Til hamingju með daginn Daði!!!


26. september 2006

Skrítið.

Fyrir u.þ.b. viku í þegar ég var alveg að sofna fann ég fyrir þessum svakalega verk í einni tönninni þegar ég beit saman. Og ég hugsaði að ég yrði að fara til tannlæknis að láta kíkja á þetta.
Morguninn eftir - ekkert. Og ég átta mig á því að mig var að dreyma.

Næstu nótt gerist það sama og ég hugsa að þetta sé ekki hægt nú verði ég að fara til tannlæknis þó ég finni ekki neitt fyrir neinu morguninn eftir. Daginn eftir finn ég auðvitað ekki fyrir neinu og sé enga ástæðu til að fara til tannlæknis.

Svona hefur þetta gengið síðan þá. Mér finnst ég vera að sofna eða að vakna (þið vitið svona mitt á milli svenfs og vöku) og alltaf þessi verkur í sömu tönninni og alveg hræðilega sárt.

Í nótt var hann öðruvísi og mildari. En samt sem áður, enn einn tannpínudraumurinn.

Skrítið

24. september 2006

Erfiður dagur.

Í gærmorgun kl. 10 átti Eyrún að mæta í söngtíma svo ég vakti hana kl. 9. Þetta var svona pínu súr morgun þar sem hún nennti ekki á fætur og var í vandræðum með hvaða föt hún ætti að fara í og var alltaf að kalla á mig, en ég sat og sötraði teið mitt og var ekkert allt of tilbúin að hlaupa í hvert skipti sem hún kallaði. Þetta endaði með því að ég æsti mig. Loksins kom hún fram og fékk sér að borða með mér, en ennþá var óleyst málið með fötin.

Fimmtánmínútur í 10 fór hún að kvarta undan verk í vinstra auganu. Auðvitað gerði ég lítið úr verknum og kvatti hana til að klæða sig í það sem við höfðum ákveðið því nú þyrftum við að leggja af stað. En verkurinn ágerðist og ekki klæddi hún sig í. 5 mín fyrir 10 sendi ég kennaranum sms um að hún kæmi ekki í söngtímann. Stuttu seinna vaknaði Elías út af kveininu í Eyrúnu og við ákváðum að gefa henni verkjalyf, hálfa paratabs sem hingað til hefur virkað ágætlega á hana.

En verkurinn hættir ekki heldur færir sig aftur eftir höfðinu og ágerist bara. Kl. hálf ellefu er orðið ljóst að taflan virkar ekki og við hringjum í læknavaktina. Þar er okkur ráðlagt að gefa henni hinn helminginn af verkjatöflunni, en við værum velkomin á staðinn ef okkur finnst þörf á.

15 mín seinna er eina breytingin sú að verkurinn hefur versnað. Það er þá sem ég fer með hana á bráðamóttökuna í Borgarspítalanum. Okkur er vísað beint inn á stofu þar sem Eyrún leggst í rúmið. Hún er kveinandi allan tímann og greinilega með mikla verki.
Og nú tekur við skelfilegur tími.

Fyrst kemur hjúkrunarfræðingur til að mæla blóðþrýsting og hita, það er allt eðlilegt þar. Síðan eftir svolitla stund kemur læknir og skoðar hana - kannar reflexa og skoðar í augun og fleira þannig. Hann fer fram aftur. Og við bíðum. Eyrún er grátandi af verkjum, en þegar starfsfólkið kemur inn harkar hún af sér og lætur ekki sjást eins vel hversu illa henni líður. Stundum er eins og hún sé að sofna, augun verða þung en bara í smá stund. Þær stundir fannst mér óhuggulegastar.

En loksins fær hún verkjalyf (eftir að læknirninn hefur ráðfært sig við barnaspítalann). Þeir telja að þetta sé mígreni. Síðan gerist það að annar handleggurinn á henni dofnar upp, fyrst fingurnir og svo færist það upp, það kemur líka skrítin tilfinning í fótinn sömu megin. Ég fer fram og næ í starfsfólk. Þau telja þetta vera vegna oföndunar og ráðleggja henni rólega öndun. Dofinn virðist minnka en hún kvartar líka yfir svima. Þá kemur í hana mikið eyrðarleysi og hún neita að liggja, kvartar um kulda, flökurleika, hungur og að þurfa á klósettið. Eftir að hafa setið í smá stund stendur hún upp og gengur um gólfið mjög eyrðarlaus og með skrítið jafnvægi (stendur uppi en virðist að því komin að detta). Þarna var hún mjög ólík sjáfri sér, það var ekki hægt að ræða við hana og annaðhvort virkaði hún mjög þreytt eða hún heimtaði að komast heim og að fá að borða. Höfuðverkurinn virðist hafa minnkað en henni er flökurt.

Við náum sambandi við starfsfólk sem ætlar að koma með eitthvað handa henni að borða. 10 mín seinna er enginn kominn svo ég fer fram og næ á lækninn. Hann segist ætla að bjarga þessu. Ég fer aftur til Eyrúnar sem heldur áfram að vafra um gólfið. Magaverkurinn ágerist og endar með því að hún kastar upp. Fljótlega þar á eftir kemur ristaðbrauð og djús sem hún hámar í sig. Og þá er hún allt í einu verkjalaus, finnur hvorki fyrir höfuð- eða magaverk og þvílík sæla. Hún borðar eina brauðsneið á mettíma, en þá fer hún aftur að finna fyrir magaverk. Og nú vill hún virkilega komast heim. Hún borðar hálfa brauðsneið í viðbót. Stuttu seinna fáum við grænt ljóst frá lækninum (um heimferð) og hann gefur okkur upp nöfn á barnataugalæknum á barnaspítalanum til að fara með hana til ef þetta heldur áfram eða gerist aftur.

Þegar heim er komið er Elías búin að finna á netinu nákvæma lýsingu á þessu hjá henni, þrátt fyrir að við vorum ekki í símasambandi þar sem ég gleymdi símanum mínum heima. Þetta er ákv. tegund af migreni sem kallast "Cluster Headaches", eina sem passar ekki við lýsinguna er rennsli úr augum og nefi. Allt annað: hefst í auga og færir sig aftureftir höfði, dofi í líkama öðrumegin, þung drjúpandi augnlok, eyrðarleysi, flökurleiki.

Klukkan var um 2 þegar við komum heim. Ég var búin að tæma hjá mér alla orku og sofnaði og svaf til 3, Elías sofnaði með Eyrúnu og svaf til 4, Eyrún sjálf svaf til 5 en þá var hún líka svo til laus við alla verki, fann fyrir óþægindum í höfði ef hún beigði sig fram.

Fjúff þetta var erfiður dagur.

20. september 2006

Hjólafréttir

Vegna fjölda áskoranna set ég hér inn hjólafréttir.

Hjólreiðamönnum á morgnana fer ört fækkandi og voru ekki taldir nema 6 á þessum fögru fararskjótum í morgun og merkilegt nokk fleira kvenfólk en karlmenn.

Síðan af því það er svo gaman að spara og svo ekki sé minnst á að græða þá læt ég fylgja hérna með hluta af klausu sem var í Fréttablaðinu í gær. Rætt var við Pálma Frey Randversson, sérfræðing í samgöngumálum hjá umhverfissviði:

"Hve mikið sparast við að hjóla 5 kílómetra í vinnu á hverjum degi?
"Ég áætla að sparnaðurinn yrði um 20 þúsund á mánuði eða 240 þúsund á ári. Síðan getur þetta líka verið spurning um að spara einn bíl á heimilinu og þá eru upphæðirnar mun hærri því rekstur á bíl kostar um 600-700 þúsund á ári.""

Ég er svolítið forvitin að vita hvernig þessar 20 þús. kr eru fengnar, ég veit að það kostar ekki þessa upphæð að taka strætó á mánuð (nema kannski ef þú borgar almennt fargjald en kaupir ekki kort). Nema verið sé að miða við bensínsparnað?

19. september 2006

Svona getur þetta verið stundum.

Ég hef ekkert að segja. Segi það nú bara samt.

(undir áhrifum frá þessari síðu sem ég fann í gegnum bloggið hennar Þorkötlu, já það er nýtt blogg þar!!!)

13. september 2006

Freyja



Sætur hundur sem Inga á. Við heimsóttum hana í júlí á þessu ári og þá leit hún svona út.

Núna er hún svona stór

11. september 2006

Afmæli.

Það vantar ekki afmælin í september það er á hreinu.

Okkur var boðið í þetta líka fína afmæli í gær. Það var haldið í Mosfellsdalnum og var bara svona skemmtilegt. Verst hvað veðrið var leiðinlegt því umhverfið bauð upp á margskonar útiveru, en það er ekki á allt kosið.

Svo á föstudaginn höldum við afmælisveislu fyrir dætur okkar báðar. Við ætlum okkur aðeins aftur í tímann og hafa kók í glerflöskum og pylsur. Nokkrir hafa stungið upp á lakkrísrörum, prins póló og súkkulaðiköku.
Ahh já afmælin í gamla daga... Muniði eftir prins póló ögnum fljótandi í kókinu? Eða lakkrísröri gegnsósa af kóki?
Já allt var betra í gamla daga.

7. september 2006

Þröngsýni þeirra sem trúa á guð og þeirra sem eru trúlausir.


Þeir sem trúa á guð virðast eiga afskaplega erfitt með að skilja að hægt sé að vera trúlaus.
Oft hafa prestar minnst á það í stólræðum sínum og lesið það úr biblíunni að trúlausir menn séu ekki nema hálfir menn og alls ekki góðir menn.

Aftan á Fréttablaðinu í dag viðrar Jón Gnarr svipaða hugmynd og orðar hana svo:

"... Það er ekki hægt að segja að Guð sé ekki til. Það er beinlínis heimskt, vegna þess að það kemur frá sjónarhóli þröngsýni, sem ekki sér heildarmyndina alla. Þar að auki er það hrokafullt og merki um vanþroska þess sem ekki getur sett sig í spor annarra, skortur á óhlutdrægri og skapandi hugsun. Ef Guð er ekki til þá er listin ekki heldur til. ..."

Oft er ég sammála því sem Jón segir en ekki í dag.

Ég trúi ekki á guð. Ég reyni að virða þá sem trúa, þó ég geti ómögulega skilið trúna. Ég er ein af fáum Íslendingum sem mæta reglulega í messu en það hefur ekki dugað til að frelsa mig eða fengið mig til að skilja trúna á guð.
Hvers vegna trúir fólk á guð? Ég bara veit ekki.
Hvers vegna er fólk trúlaust? Af því að trúin er svo út í hött.

6. september 2006

Speki dagsins.

Alveg eins og maður á ekki að fara svangur í matvörubúð á ekki að fara í of þröngum buxum í buxnabúð.

5. september 2006

Draumur hjólreiðamanns

Mér fanns sem ég væri á nýja hjólinu mínu að hjóla í vinnuna í kolniða myrkri. Það var svo dimmt að ekki sást fram fyrir stýrið.
Og þá fannst mér sem yfir mig kæmi óþol og ergelsi yfir að hafa ekki keypt lukt á hjólið til að vísa vegin við svona aðstæður.
Einnig hafði ég sterka tilfinningunni fyrir því að gatan væri stráð glerbrotum, enda fór líka svo að það sprakk á framdekkinu. Ég vissi að ég væri með bætur og nýju pumpuna mína en engu að síður var þetta frekar óheppilegt.

Hver getur ráðið þennan draum?

4. september 2006

Afmælisveisla.


Afmælisveislan tókst vonum framar. Við fengum draumaveður og þess vegna var farið út um leið og búið var að snæða veisluföng.

Á myndinni sjáið þið afmælisbarnið fyrir framan veisluborðið (það tekur ekki nema klst að setja þessar krullur í hana bæ þe vei).

Við buðum upp á kornflexkökur, snúða, súkkulaðiköku, pavlou (marens kaka), kók, sprite, vatn, klaka með rifsberjum í og það sem sló algjörlega í gegn, frosin rifsber sem virkuðu eins og klaki (og var líka frábærlega flott í glasi). Og það er gaman frá því að segja að Pavloan og Pæjukakan (súkkulaðikaka) passa svo vel saman því í aðra þeirra fara 8 eggjahvítur og í hina 7 eggjarauður.

Síðan var farið í hvern leikinn á fætur öðrum t.d. spiladans (allir dansa í miðjunni og þegar tónlistin stoppar fara menn í hornin (hvert horn merkt t.d hjarta, spaði, tígull og lauf) og þá er dregið spil - t.d. spaði. Þeir sem eru í spaðahorninu detta þá út. Svo höfðum við getraun sem var þannig að glerkukka var fyllt af glerperlum og menn áttu að giska á hversu margar perlur væru í krukkunni.

Þetta var fyrsta afmæli sem við höldum þar sem veitt voru verðlaun. Það er eitthvað sem ég hef alltaf verið mikið á móti, og aumingja Eyrún hefur þurft að líða fyrir því þetta viðgengst í flestöllum afmælum í bekknum. Svo ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og hafa verðlaun. En auðvitað svindlaði ég smá því á endanum voru allir komnir með verðlaun þó þau væru ekki eins. Við sem sagt slúttuðum veislunni á því að spila Bingó og það var þar sem allir fengu verðlaun.

1. september 2006

Blogghringurinn

Ákvað að breyta út af venjulegum blogghring, sem annars er að verða eitt af morgunrútínunum hjá mér. Mínir nánustu bloggarar hafa verið óduglegir í sumar en eru þó að vakna til lífsins einn og einn. Nokkrir eru dottnir eða að detta úr hringnum mínum og fá ekki heimsókn nema 1x í viku eða sjaldnar, vona samt að þeir fari að taka við sér því þeir eru skemmtilegir skrifarar, sem er ástæðan fyrir því að ég kíki enn inn til þeirra.

Fór í smá ævintýraferð þar sem ég fiktaði mig áfram með hinn og þennan likinn. Það getur verið gaman sérstaklega ef maður hefur smá tíma (sem ég hef nú kannski ekki, er svolítið að stelast).
Það er gaman að sjá hvað bloggið er fjölbreytilegt. Rakst svo sem ekki á neitt extra áhugavert í þetta skiptið.

En vonandi fara allir hinir sofandi bloggarar í blogghringnum mínum að vakna og skrifa og skrifa því þá er svo gaman hjá mér að skoða og skoða.
Vil jafnfram þakka þeim sem eru vaknaðir því án þeirra hefði áhuginn líklegast dofnað algjörlega og horfið.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...