Í gærmorgun kl. 10 átti Eyrún að mæta í söngtíma svo ég vakti hana kl. 9. Þetta var svona pínu súr morgun þar sem hún nennti ekki á fætur og var í vandræðum með hvaða föt hún ætti að fara í og var alltaf að kalla á mig, en ég sat og sötraði teið mitt og var ekkert allt of tilbúin að hlaupa í hvert skipti sem hún kallaði. Þetta endaði með því að ég æsti mig. Loksins kom hún fram og fékk sér að borða með mér, en ennþá var óleyst málið með fötin.
Fimmtánmínútur í 10 fór hún að kvarta undan verk í vinstra auganu. Auðvitað gerði ég lítið úr verknum og kvatti hana til að klæða sig í það sem við höfðum ákveðið því nú þyrftum við að leggja af stað. En verkurinn ágerðist og ekki klæddi hún sig í. 5 mín fyrir 10 sendi ég kennaranum sms um að hún kæmi ekki í söngtímann. Stuttu seinna vaknaði Elías út af kveininu í Eyrúnu og við ákváðum að gefa henni verkjalyf, hálfa paratabs sem hingað til hefur virkað ágætlega á hana.
En verkurinn hættir ekki heldur færir sig aftur eftir höfðinu og ágerist bara. Kl. hálf ellefu er orðið ljóst að taflan virkar ekki og við hringjum í læknavaktina. Þar er okkur ráðlagt að gefa henni hinn helminginn af verkjatöflunni, en við værum velkomin á staðinn ef okkur finnst þörf á.
15 mín seinna er eina breytingin sú að verkurinn hefur versnað. Það er þá sem ég fer með hana á bráðamóttökuna í Borgarspítalanum. Okkur er vísað beint inn á stofu þar sem Eyrún leggst í rúmið. Hún er kveinandi allan tímann og greinilega með mikla verki.
Og nú tekur við skelfilegur tími.
Fyrst kemur hjúkrunarfræðingur til að mæla blóðþrýsting og hita, það er allt eðlilegt þar. Síðan eftir svolitla stund kemur læknir og skoðar hana - kannar reflexa og skoðar í augun og fleira þannig. Hann fer fram aftur. Og við bíðum. Eyrún er grátandi af verkjum, en þegar starfsfólkið kemur inn harkar hún af sér og lætur ekki sjást eins vel hversu illa henni líður. Stundum er eins og hún sé að sofna, augun verða þung en bara í smá stund. Þær stundir fannst mér óhuggulegastar.
En loksins fær hún verkjalyf (eftir að læknirninn hefur ráðfært sig við barnaspítalann). Þeir telja að þetta sé mígreni. Síðan gerist það að annar handleggurinn á henni dofnar upp, fyrst fingurnir og svo færist það upp, það kemur líka skrítin tilfinning í fótinn sömu megin. Ég fer fram og næ í starfsfólk. Þau telja þetta vera vegna oföndunar og ráðleggja henni rólega öndun. Dofinn virðist minnka en hún kvartar líka yfir svima. Þá kemur í hana mikið eyrðarleysi og hún neita að liggja, kvartar um kulda, flökurleika, hungur og að þurfa á klósettið. Eftir að hafa setið í smá stund stendur hún upp og gengur um gólfið mjög eyrðarlaus og með skrítið jafnvægi (stendur uppi en virðist að því komin að detta). Þarna var hún mjög ólík sjáfri sér, það var ekki hægt að ræða við hana og annaðhvort virkaði hún mjög þreytt eða hún heimtaði að komast heim og að fá að borða. Höfuðverkurinn virðist hafa minnkað en henni er flökurt.
Við náum sambandi við starfsfólk sem ætlar að koma með eitthvað handa henni að borða. 10 mín seinna er enginn kominn svo ég fer fram og næ á lækninn. Hann segist ætla að bjarga þessu. Ég fer aftur til Eyrúnar sem heldur áfram að vafra um gólfið. Magaverkurinn ágerist og endar með því að hún kastar upp. Fljótlega þar á eftir kemur ristaðbrauð og djús sem hún hámar í sig. Og þá er hún allt í einu verkjalaus, finnur hvorki fyrir höfuð- eða magaverk og þvílík sæla. Hún borðar eina brauðsneið á mettíma, en þá fer hún aftur að finna fyrir magaverk. Og nú vill hún virkilega komast heim. Hún borðar hálfa brauðsneið í viðbót. Stuttu seinna fáum við grænt ljóst frá lækninum (um heimferð) og hann gefur okkur upp nöfn á barnataugalæknum á barnaspítalanum til að fara með hana til ef þetta heldur áfram eða gerist aftur.
Þegar heim er komið er Elías búin að finna á netinu nákvæma lýsingu á þessu hjá henni, þrátt fyrir að við vorum ekki í símasambandi þar sem ég gleymdi símanum mínum heima. Þetta er ákv. tegund af migreni sem kallast "Cluster Headaches", eina sem passar ekki við lýsinguna er rennsli úr augum og nefi. Allt annað: hefst í auga og færir sig aftureftir höfði, dofi í líkama öðrumegin, þung drjúpandi augnlok, eyrðarleysi, flökurleiki.
Klukkan var um 2 þegar við komum heim. Ég var búin að tæma hjá mér alla orku og sofnaði og svaf til 3, Elías sofnaði með Eyrúnu og svaf til 4, Eyrún sjálf svaf til 5 en þá var hún líka svo til laus við alla verki, fann fyrir óþægindum í höfði ef hún beigði sig fram.
Fjúff þetta var erfiður dagur.
24. september 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Hjólaárið 2024 - 3.281 km
VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...
-
Bætti inni nýrri slóð hjá hjólabloggurum sem heitir "Hjólaðu maður". Á þeirri síðu er flipi sem heitir "Ástand stíga" og...
-
Var aðeins að skoða mig aftur í tímann og rakst þá á þessa mynd af nóvember kaktusinum í vinnunni hjá mér en hún er tekin árið 2010. Fyr...
-
Jamm, í 2 daga gerðumst við Elías smiðir og smíðuðum saman safnkassa fyrir garð- og heimilisúrgang með dyggum stuðningi geitungsins Friðriks...
4 ummæli:
Pjúff, ég var orðinn verulega hræddur við þessa lesningu...shit ég hélt eitt augnablik að hér væri eitthvað meiri háttar að...guði eða einhverjum sé lof fyrir að ekki var "meira" að...mundu að við eigum ágætan barnalækni hér í fjölskildunni hennar Helgu sem væri hægt að spyrja frekar út í þetta mál.
Takk fyrir það.
Við vorum líka skíthrædd sjálf. En ég ætla að panta tíma hjá öðrum hvorum þessara taugasérfræðinga og vonandi fáum við þar þær upplýsingar sem þarf.
Jamm þetta var nokkuð mögnuð lesning.
Eyrún hefur sett inn lýsingu á þessu öllu saman á sitt blogg.
Skrifa ummæli