9. desember 2014

Gatnamót og snjóhreinsun

Get ekki sagt annað en að ég sé nokkuð ánægð með snjóhreinsunina það sem af er vetri.  Það hefur nokkuð snjóað í viku eða svo og það sem ég hef þurft að fara hef ég vel komist.  Á facebook hafa menn líka verið duglegir að hrósa Reykjavíkurborg fyrir snjóhreinsunina, þó auðvitað sé alltaf hægt að gera betur.

Á sunnudaginn síðasta hjólaði ég í messu í Dómkirkjunni og þá var færðin allstaðar góð nema á gatnamótum, þau voru almennt illa skafin og erfið yfirferðar.  Þurfti allt of oft að fara af hjólinu og teyma það yfir götuna.  En nú í morgun hjólaði ég í vinnuna (sjá mynd af leið).  Þá var erfiðast, eins og svo oft áður, að komast út götuna heima og upp á Langholtsveg þar sem ég þóttist nokkuð viss um að búið væri að skafa - og það reyndist rétt hjá mér.  Nú hef ég nýlega uppgötvað að á Borgarvefsjá er hægt að sjá "lifandi gögn" sem sýna hvar búið er að skafa (valið annaðhvort stígar eða götur) og ég skoðaði það vel og vandlega í morgun, en mér til mikillar armæðu var skv. því ekkert búið að skafa neina stíga nema í úthverfum borgarinnar.  En ég ákvað að þetta hlyti að vera vitleysa (sem það var).

Allavega þá var færðin bara nokkuð góð alla leið eftir að ég var komin upp á Langholtsveginn, meira að segja gatnamót voru nokkuð hrein og þokkalega fær (þurfti ekki að stíga af hjólinu sem er mikill kostur).

Gatnamót Laugavegur/Suðurlandsbraut-Kringlumýrarbraut.  Mynd tekin sunnudaginn 7. des.  Allt annað að fara þarna um í morgun.
Leiðin sem ég hjólaði í morgun.  Var 23 mín. á leiðinni sem er bara mjög svipað og venjulega (er yfirleitt rétt undir 20 mín á góðum degi, en þá fer ég reyndar örlítið lengri leið).
Skjámynd af Borgarvefsjánni í morgun kl. 8.  Kortið sýnir gögn sem eru 2 klst. eða yngri.  Rauðu strikin eiga að sýna þar sem búið er að skafa, en í þetta skiptið var ekki alveg að marka kortið, vona að það sé undantekning því svona kort sem virkar getur hjálpað manni mikið við að velja bestu leiðina þegar færðin er ekki upp á sitt besta.

Ps. hjólateljarinn við Suðurlandsbraut er ekki að virka. Hann stóð í 8 þegar ég fór framhjá honum í gær á leiðinni heim (um kl. 16:15) og gerði það enn í morgun.  Í gær voru 2 á hjóli á undan mér og hann taldi allavega ekki mig og þann sem vær næst á undan mér og í morgun var einn á undan mér sem greinilega var ekki talinn heldur. 

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...