31. október 2008

Reynslan af nagladekkjunum er góð.

Finn ekkert fyrir hálkunni, en veit af henni og fer þess vegna hægar yfir og varlegar í beygjur. En ég hef aldrei skrikað eða runnið til og mér finnst líklegt að ég eigi eftir að venjast vetrarhjóleiðunum aðeins betur áður en ég eyk hraðann aftur. Ég er næstum 5 mín lengur í vinnuna þessa dagana en ég var í sumar, en ég er líka með eindæmum varkár manneskja og hrædd við að detta.
Hef bara einu sinni komist yfir 30 km/klst eftir að nagladekkin fóru undir hjólið en ég finn að ég er smátt og smátt að auka hraðann aftur eftir því sem ég læri betur á dekkin.

Kuldinn er lítið sem ekkert að angra mig. Ég er í mínum venjulegu fötum, gallabuxum, bómullarbol (þó vanir hjólreiðamenn segji manni að forðast bómull því hún drekkur í sig svitann og blotnar), lopapeysu og lopasokkum. Utan yfir það er ég svo í fínu Didrikson regn/útivistarfötunum mínum sem bæði halda hita, en anda líka (kostuðuð 12 þús í útilífi í sumar). En mig vantar nýja vetlinga því mínir eru orðnir ansi götóttir og mér verður kalt á puttunum sem standa út úr götunum. En úr því verður bætt fljótlega.

Sem sagt vetrarhjóleiðarnar ganga vel og ég er svo ánægð með að geta haldið áfram að hjóla þó smá snjór og hálka sé í bænum.

30. október 2008

kjosa.is

Fyrir kosningabæra Íslendinga sem ekki eru sáttir og sælir með ráðamenn á Alþingi vil ég benda á síðuna www.kjosa.is þar sem verið er að safna undirskriftum. Listinn verður afhentur valdhöfum og fjölmiðlum 15. nóvember nk.

29. október 2008

Nýjung á bloggsíðu

Glöggir bloggskoðarar hafa tekið eftir því að skemmtilegu bloggararnir mínir hér til hægri eru núna raðaðir í röð eftir því hvenær þeir síðast skráðu færslu og eru nú upplýsingar um hversu langt er síðan síðast var bloggað.

Það var fyrir tilviljun að ég sá þennan möguleika sem kerfið býður uppá. Svo nú gildir að vera duglegur að blogga til að vera efstur á lista.

10% landsmanna styðja Davíð

Bara verð að setja þennan link hérna. Mögnuð samsetning á fréttum um skoðanakönnun sem stöð 2 gerði á fylgi Davíðs og svo viðtali við Hannes Hólmstein.

Kíkið á þetta hér (er ekki langt)

27. október 2008

Peysan sem ég prjónaði á Hrund




Uppskriftin að peysunni (og sokkunum) er í Ístex blaði nr. 14. og hún er prjónuð úr Álafoss lopa.
Gaman að segja frá því að þegar ég var á sama aldri og fyrirsætan var trefillinn keyptur sem hún hefur um hálsinn.

22. október 2008

Hjólað í snjó í fyrsta skipti


Lagði af stað næstum 10 mín fyrr en venjulega því ég vissi ekki hvernig væri að hjóla í snjó eða hvort það væri hálka.

Fór stystu leiðina og var komin 10 fyrir 8 svo það var óþarfi að leggja fyrr af stað.


En þetta var skemmtileg upplifun. Fann ekki fyrir hálku, en sá bíla spóla af stað á ljósum. Þeir gætu auðvitað hafa verið á sumardekkjunum. Svo var ég svo heppin að hafa vindinn í bakið.


Ég ætla annaðkvöld á fræðslufund hjá Íslenska fjallahjólaklúbbunum um vetrarhjóleiðar, geri ráð fyrir að koma þaðan full af visku um hvernig best er að klæða af sér kuldann og fleira slíkt.


Mætti 6 öðrum hjóleiðamönnum sem felstir voru vel búnir með ljós og svoleiðis. Kom mér satt að segja á óvart hvað þeir voru margir.

20. október 2008

Finnst ég verða að koma þessu að.

Ég fór á fundinn á Austurvelli á Laugardag. Ég varð fyrir vonbrygðum þegar ég mætti á staðinn hversu fáir voru, hélt í alvöru að Austurvöllur yrði troðfullur af fólki.
En fréttamiðlum ber ekki saman um fjöldann. Lögreglan hér taldi um 500 manns vera á staðnum er Reuters fréttastofan segir rúmlega 2.000 manns. Smella hér til að sjá fréttina frá þeim.

Hér er svo ræðan sem Þráinn Bertelsson hélt og er aftan á Fréttablaðinu í dag.

Nýir tímar
Nornaveiðar eru sport sem felst í því að finna rosknar konur sem búa einar og fleygja þeim í dýflissur og pynta þær til að játa að þær hafi mök við makt myrkranna – og brenna þær síðan á báli.

HÉR loga nógir eldar og við þurfum ekki að kveikja fleiri, og þaðan af síður er ástæða til að brenna einn né neinn á báli. Hins vegar er fullkomin ástæða til að mótmæla því að íslenska þjóðin skuli hafa verið gerð gjaldþrota fjárhagslega og siðferðislega og orðstír hennar troðinn í svaðið.

ÞAÐ er kominn tími til að krefjast þess að þeir umboðsmenn þjóðarinnar sem ýmist sváfu á verðinum ellegar slógust í lið með þeim sem fengu útrás fyrir græðgi sína með því að gera árás á eigin þjóð verði látnir axla þá ábyrgð sem þeir þiggja svo há laun fyrir að bera. Það er greinilega til lítils að eiga dóbermannvarðhund ef maður þarf svo að gelta sjálfur, jafnvel þótt dóbermann- hundurinn heiti Dabbi og allir eigi að vera hræddir við hann.

ÞAÐ góða við að íslenska lýðveldið skuli hafa verið lagt í rúst er að nú getur loksins hafist uppbyggingarstarf. Við getum byggt hér upp það þjóðfélag sem okkur dreymir um og við getum orðið fyrirmynd annarra þjóða – en ekki aðhlátursefni. En til þess að svo megi verða þurfum við að skipuleggja okkur upp á nýtt og standa saman um að þeir sem brugðust okkur svo hrapallega og bera ábyrgð á því hvernig komið er komi ekki nálægt því að byggja upp hið nýja óspillta, réttláta, ráðvanda og ábyrga þjóðfélag sem byggir á frelsi einstaklingsins til þeirra athafna sem ekki skaða aðra og sameiginlegri ábyrgð einstaklinganna hver á öðrum.

EF við ætlum að byggja hér upp betra þjóðfélag getur fólkið í landinu engum treyst nema sjálfu sér fyrir því verki – og allra síst stjórnmálaflokkunum sem bera ábyrgð á núverandi ástandi. Ef við ætlum að byggja hér upp nýtt þjóðfélag er mál til komið að íslenska þjóðin vakni af sínum væra blundi. Það er mál til komið að Ísland vakni. Núna. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr eru komnir nýir tímar. Það er á valdi þjóðarinnar að ákveða hvort þeir tímar verða betri eða verri en þeir sem liðnir eru."

17. október 2008

Fyrsti hjólatúr á nagladekkjum

Það var dimmt og rigning í morgun þegar lagt var af stað á nýju nagladekkjunum. Vinalegt marrið í nöglunum hljómaði eins og hinn fegursti söngur og í fyrstu var það eini munurinn á sumardekkjunum og nagladekkjunum. En þegar líður á er greinilegt að hjólið rennur ekki eins vel og áður og það þarf aðeins meira að hafa fyrir því að hjóla. Hjólið er virkar hálfum gír þyngra en áður.
En það er stöðugt og enginn aukatitringur eins og ég hafði búist við þar sem dekkin eru grófari. Hinsvegar var einnig skipt um sveifar og tannhjól svo það eru fleiri breytur en bara dekkin sem geta skekkt samanburðinn.

Mætti 5 hjólreiðamönnum. Tveir þeirra voru með svakalega flott ljós á hjólunum, þau blikkuðu en gáfu samt mjög sterka og flotta lýsingu á veginn fyrir framan. Mig grunar að þetta séu sambærileg ljós við þau sem kosta rúmlega þrjátíuþúsundkrónur í Erninum.

16. október 2008

Vetrarhjólreiðar



Jæja þá er komið að því. Það er verið að setja nagladekk undir hjólið og á nú að reyna sig við vetrarhjólreiðarnar.
.
Ég er svo ekki tilbúin að hætta að hjóla og var eiginlega farin að kvíða hreyfingaleysinu sem fylgir oft vetrinum (nema ef vel snjóar og hægt er að grípa í skófluna).
Mín dekk munu hafa 240 nagla í sér og skilst mér að það eigi að duga vel hér innanbæjar.
.
Þá er bara eftir að fá sér gott ljós til að sjá götuna og spurning hvort karfan verði að fjúka til að það komist fyrir? Þeir hjá Borgarhjólum gátu á sínum tíma fiffað fyrir mig blikkljósið á körfuna (skrítið hvað ekki er gert ráð fyrir að svona græum á hjól með körfu) en ég á eftir að finna þetta út með ljósið. Ætli ég þurfi ekki nýja vettlinga líka? Jæja við sjáum nú til.
.
Eins gott að maður gugni svo ekki á öllu saman. Hef núna tvisvar sinnum snúið við vegna hálku og verið skuttlað í vinnuna, en eftir nagladekkjaásetningu verður hálkan ekki lengur afsökun.
Verð að viðurkenna að ég hlakka til að prófa mig í snjónum og stend mig að því að vona að hann láti sjá sig allavega smá, en það borgar sig að fara varlega með óskirnar...
.
Spennandi tímar framundan.

10. október 2008

Hvað gengur á?

Nú er ég að reyna að skilja, því eftir að hafa hlustað á fréttirnar frá því í gærkvöldi koma upp ýmsar spurningar varðandi samskipti landanna Íslands og Bretlands.

Er verið að nota okkur (Íslendinga) sem blóraböggul fyrir öllu því sem illa er að fara á fjármálamarkaðinum í Bretlandi?

Skv. fréttaflutningi Sjónvarpsins í gærkvöldi eru menn algjörlea tvísaga um það sem er að gerast.

Á Íslandi er sagt að stjórnmálamenn þessara tveggja landa hafi rætt saman á góðu nótunum og í þeim viðræðum hafi verið sagt að íslenska ríkið ábyrgist innistæður Breta í bönkunum.

Á Bretlandi er hrópað að Íslendingar segist ekki ætla að standa við skulbindingar.


Hvað veldur?

Þetta er algjörlega svart og hvítt og að mínu mati mjög alvarlegar ásakanir á okkar hendur. Getur verið að íslenskir ráðamenn séu svona lélegir í ensku að misskilningur sé ástæðan?
Þó dettur manni líka í hug að hér sé pólitísk refskák. Getur það verið að af því við erum svona lítil að þá telji þeir ytra að þeir geti sagt og gert það sem þeir vilja gagnvart okkur.
Og afhverju taka menn ekki harðar á þessu hér heima og tala sínu máli þarna úti?


Gengu þessar vinsamlegu viðræður milli ráðamanna landanna kannski út á það að við tökum á okkur að vera blóraböggull ef þeir taka á sig skuldbindingarnar?

Fleiri eru að velta þessu sama fyrir sér og rakst ég þessa færslu í því sambandi.

4. október 2008

Risapúsl


Ég á brjálaða vinkonu sem keypti sér púsl sem er hvorki meira né minna en 9.000 bitar!


Nú hef ég sagt henni mörgum sinnum að hún eigi aldrei eftir að klára þetta púsl (ég meina það er 9.000 bitar). Ég sjálf hef mest púslað 3.000 bita púsl og verið lengi að því.


En svo fór ég í heimsókn til hennar um síðustu helgi og það fór nú þannig að ég átti í mestu erfiðleikum með að slíta mig frá púslinu. Váhds hvað það er skemmtilegt og spennandi. Hún hefur sér herbergi undir það og lét saga út fyrir sig krossviðarplötu sem passar undir púslið (eða átti að gera það, kom í ljós að hún var örlítið of lítil. En það verður leyst).


Nú bara verð ég að kaupa mér stærra hús svo ég geti líka púslað svona hrikalega stórt púsl.

26. september 2008

Hjólafréttir

Frábær upplifun að hjóla í vinnuna í morgun, verð bara að segja frá því.
Fyrrihluta leiðarinnar var ég í nokkuð sterkum hliðarvindi sem þó meira ýtti á eftir mér frekar en hitt. En svo eftir smávægilega beygju varð all í einu logn eða a.m.k tilfinning eins og það væri logn og hún varði alveg þar til ég mætti öðrum hjólreiðamanni sem hafði gefist upp á að hjóla móti vindinum og teymdi hjólið sitt áfram.

Ég sem sagt hafði hressilegan meðvind í morgun og þegar ég skoðaði Garmin mælitækið á áfangastað sá ég að hámarkshraðinn hjá mér í þessari ferð var 37 km/klst sem er nokkuð meira en venjulega með mikið minna streði af minni hálfu.

Lifi meðvindurinn!

24. september 2008

Hjólafréttir

Það er gaman að því hvað margir eru enn að hjóla á morgnana þrátt fyrir vind og rigningu.
Þetta eru svona 5-13 sem ég sé á leiðinni í vinnuna (þetta er orðið ósjálfrátt hjá mér að telja hjólreiðamenn).

Verst að hjólið mitt er að verða bremsulaust, en ég á tíma eftir helgi í viðgerð. Ég vildi svo gjarnan kunna þetta sjálf og hafa aðstæðu til að dúllast við að halda hjólinu við að ég tali nú ekki um að geta geymt fákinn inni á meðan hann er ekki í notkun.

Svo er það kostur við þá sem hjóla núna að þeir eru með hægri regluna á hreinu. En það er oft vandamál á sumrin þegar sem flestir eru að hjóla hvað margir fara ekki eftir þessari reglu.
Munið hægri regluna.
Það henti mig um helgina að ég var að keyra Langholtsveginn að tveir drengir komu hjólandi á móti mér á öfugum vegahelmingi! Það er ekkert að því að hjóla á götunni (þetta var á 30 km/klst hámarkshraða svæði) en þá verður engu að síður að hjóla á réttri akrein.

21. september 2008

Journey to the Center of the Earth 3D

Þrívíddarmynd, hverslags eiginlega vitleysa er þetta?

Ég sat a.m.k. heima meðan hinir fjölskyldumeðlimirnir fóru í bíó. Lítið gaman fyrir eineygða manneskju að fara á svoleiðis.

13. september 2008

Ólympíuleikar

Ólympíuleika er alltaf gaman að horfa á. Þá gefst tækifæri til að fylgjast með íþróttum sem oftast sjást ekki í sjónvarpi, a.m.k. ekki hér heima. Íþróttir eins og dýfingar, fimleikar, sund og hestaíþróttir er eitthvað sem ég hef gaman af að horfa á og ég nýt þess í botn á fjögurra ára fresti.

En nú vildi svo til að í síðustu viku lá ég veik heima og þá gafst mér tækifæri til að fylgjast með paralympics sem nú standa yfir eða ólypmíuleikum fatlaðra sem mikið er sýnt frá á BBC (þó þeir fylgist aðallega með sínu fólki og þeirra afrekum, skiljanlega). Það er alveg jafn spennandi að fyljgast með þeim og sjá allar þessar íþróttir sem ekki sjást að jafnaði í sjónvarpi eins og hjólastólakörfubolti, fótbolti blindra, kapp á hjólastólum, hjólreiðar og sund svo eitthvað sé nefnt.
Íþróttamennirnir eru flokkaðir eftir fötlun og það tekur smá tíma að átta sig á því öllu saman. Sundmenn eru t.d. flokkaðir sem S5 til S10. Því hærri tala því minni fötlun. Blindir sundmenn eru flokkaðir S11 til S13. S11 eru algjörlega blindir en S13 eru með einhverja sjón þó lítil sé.


Mikið hefur verið sýnt frá sundinu enda eiga bretar marga góða sundmenn og þeir hafa unnið til nokkurra gullverðlauna á þessu móti. Við eigum einn sundmann á mótinu Eyþór Þrastarson en hann er flokkaður sem S11, en því miður hef ég ekki séð hann í keppni. Eyþór komst áfram í úrslit og varð þar áttundi í mark. Frábær árangur, hann jafnvel bætti sitt eigið met í undankeppninni. Ég hef séð nokkrar keppnir þar sem blindir synda en þeir eru með hjálparmenn á báðum bökkum sem halda á stöngum til að pikka í sundmanninn þegar hann kemur að bakkanum til að láta vita hvenær bakkanum er náð. Hvernig er annað hægt en að dást að þessu fólki? Eða handalausu sundmennirnir sem þurfa að skella höfðinu í bakkann til að staðfesta að þeir séu komnir í mark.


Miklar væntingar voru til íþróttamannsins David Weir en hann hefur staðið sig mjög vel undanfarið í kappi á hjólastólum. Honum hefur ekki tekist að næla í gullverðlaun á þessu móti ennþá en er komin með eitt silfur og eitt brons. Hann mun keppa í dag í 400m vegalengd, verður spennandi að sjá hvort hann nær gullinu þar.
Shelly Woods keppir í sömu íþrótt og er flokkuð sem T54 eins og Weir. Það gekk mikið á í 5.000 m keppninni því þegar keppendur áttu ekki nema rétt rúmann hring eftir verður árekstur sem leiðir til þess að 6 keppendur detta úr keppni. Shelly Woods kemur önnur í mark og er afhent silfurverðlaunin. Ekki löngu seinna er ákveðið að afturkalla verðlaunin og að keppnin verði endurtekin. En Shelly lætur það ekki á sig fá og vinnur bronsið í endurtekinni keppni.




Svo er það hlauparinn Oscar Pistorius sem margir þekkja vegna þess að hann sóttist eftir að komast á ólympíuleikana og keppa með ófötluðum, en áhöld voru um það hvort hann hefði forskot fram yfir aðra hlaupara þar sem hann notast við gerfifætur frá Össuri. Ég sá hann keppa í 100 m hlaupi þar sem magnað var að sjá hvernig hann náði að sigra á síðustu sekúndu. En hann var frekar hægur af stað en náði svo upp góðum spretti alveg í bláendann á hlaupinu.



Mér finnst synd og skömm hvað lítið er sýnt frá þessum leikum í sjónvarpi almennt. Ekki bara vegna þess að þarna eru frábærir íþróttamenn heldur líka til að sýna okkur sem ekki þekkjum af eigin raun hversu lítil hindrun fötlunin er þegar kemur að íþróttum og gefa okkur tækifæri til að horfa framhjá fötluninni og sjá einstaklingana.

11. september 2008

Eninga meninga...

Fékk í gær bréf frá bankanum um nýja greiðsluáætlun á greiðsluþjónustunni. Enn og aftur umtalsverð hækkun, en við höfum ekki gert neina breytingu á því sem verið er að borga.

Það sem er í greiðslu hjá okkur er: Sími, rafmagn, fasteignagjöld, ruv, húsfélagið og lánið af íbúðinni.

árið 2006-7, greiddum við kr. 58.000,-
árið 2007-8, kr. 62.500,- hækkun um 4.500 á mánuði eða 7,8% hækkun
árið 2008-9, kr. 79.000,- núna hækkun um 16.500 á mánuði eða 26,4% hækkun!

Sama tímabil hækkuðu launin mín um 9% milli fyrstu tveggja tímabilanna og um 16,9% milli seinni tveggja. Miðað við þetta eru tekjurnar okkar að skerðast töluvert.

Og nú hef ég ekki tekið með í reikninginn matvörur eða fatnað en við vitum öll að þau útgjöld hafa hækkað töluvert undanfarið.

Ætli maður neyðist ekki til að herða sultarólina um eitt gat eða svo.

5. september 2008

Klukk

Van De Irps klukkaði mig og að sjálfsögðu bregst maður fljótt og vel við.

Fjögur störf sem ég hef unnið við um ævina:
1. Unglingavinnan
2. Skógrækt Reykjavíkur. Kynntist þar skemmtilegu fólki sem leiddi til góðrar vináttu og til þess að ég hitti manninn minn.
3. Skrifstofustarf hjá malbikunarfyrirtæki. Alin upp til að sinna því starfi, var bara pínulítil þegar ég byrjaði að raða fylgiskjölum í ávísanaröð, ofsa skemmtilegt (ég er ekki að grínas mér fannst það gaman).
4. Skrifstofan þar sem ég er núna. Afleiðing af uppeldisstarfinu?

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
1. Dirty Dancing. Hverjum finnst sú mynd ekki skemmtileg? Sá hana 3x í bíó á sínum tíma og þori loksins að viðurkenna það.
2. 50 first dates. Kemur mér alltaf í gott skap.
3. The Scarlet Pimpernel með Jane Seymour. Ég er greinilega svolítið fyrir rómantískar myndir.
4. Fifth element og fleiri góðar með Bruce Willis.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
1. Dog Whisperer. Eins og ég er lítið fyrir hunda í alvörunni þá hef ég mjög gaman að því að sjá þá (og eigindurnar) kennda rétta siði.
2. Life on earth. Held ég fái ekki leið á þessum þáttum.
3. Friends. Virðist heldur ekki fá leið á þeim.
4. How I met your mother.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
1. Danmörk... Nokkrum sinnum
2. Frakkland. Þó mestur tíminn hefði verið í Disney landi. Get vel hugsað mér að fara þangað aftur.
3. Snæfellsnes. Alltaf fallegt, alltaf gaman
4. Elliðaárdalurinn.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan Blogg:
1. mbl.is
2. visir.is
3. fjallahjolaklubburinn.is (kanski ekki daglega, en nokkuð oft)
4. uuu... eiginlega bara blogg sem ég svo skoða daglega.

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
1. Harry Potter. Hef lesið allar bækurnar bæði á íslensku og ensku.
2. Bróðir minn ljónshjarta
3. Dagbók Önnu Frank
4. Ronja Ræningjadóttir

Fjórir Bloggarar sem ég klukka:
1. Eyrún
2. Auður
3. Inga
4. Arnar

2. september 2008

Haustið

Haustið er spennandi tími því það er svo margt að gerast. Skólarnir að byrja og flestallir tilbúnir að takast á við námið (hvað sem svo verður þegar líða tekur á veturinn). Kórinn fer aftur af stað í æfingar, þó það verði ekki alveg strax í þetta skiptið, en þið getið hlakkað til því við munum gefa út disk fyrir jólin með jólatónlist.

En afhverju ætli haustútgjöldin komi mér alltaf svona á óvart?
Þetta er á hverju hausti, nýjar skólabækur, nýjir leikfimiskór og úlpur orðnar of litar. Vetlingar týndir eða ónýtir og fleira þvíumlíkt.


Ég var þó undirbúin fyrir annríkið á þessum tíma, sem er reyndar minna en venjulega. Kórinn ekki byrjaður að æfa, stelpurnar orðnar það stórar að ekki er eins mikið um afmælisveisluhald og áður. Og jafnvel minna fyrir því haft.
En það er samt púsluspil að koma öllu fyrir innan hvers dags og á hverjum degi eitthvað skipulagt sem þarf að gerast eða undirbúa.
Á morgun (3. sept) á t.d. Eyrún afmæli og þá verður eitthvað gert til að gleðja hana. Mæli með því að þið sendið henni afmæliskveðju á bloggið hennar: http://www.eyrun-virgo.blogspot.com/

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...