15. desember 2008

Piparkökuturninn





Í upphafi baksturs sagði ég sem svo: "Stelpur eigum við ekki bara að gera lítið og sætt piparkökuhús í ár?"

Útkoman varð svo stærsta piparkökuhús sem við höfum nokkurntíman gert.

Til samanburðar er hér mynd af húsinu sem við gerðum í fyrra.

Hrund hannaði piparkökubílinn, kemur skemmtilega út.

13. desember 2008

Snjórinn



Jæja, var að moka snjóinn. Mikið verður allt fallegt klætt hvítum snjó.


Hrund og Brandur fögnuðu próflokum í gær með því að búa til pínulítinn snjókarl. Mér skilst að Brandur hafi nú meira verið í því að veiða hendurnar af karlinum heldur en að hjálpa til, en svona eru kettir.


Hinum árlega piparkökubakstri er lokið og í dag ætlum við að skreyta og setja saman piparkökuhúsið okkar sem er með frekar óvenjulega sniði í ár, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Set inn mynd þegar það er komið saman.
Það fór svo mikið deig í piparkökuhúsið að við ákváðum að hnoða í nýtt deig til að eiga eitthvað af piparkökum til átu líka. Það endaði auðvitað þannig að við erum með allt of mikið af kökum (ef það er hægt).


Það gengur vel að hjóla í snjónum ef frá er talið óhapp sem ég varð fyrir á leiðinni heim um daginn. Þá ætlaði ég að hjóla á götunni eins og ég geri oft, nema hvað að gatan hafði verið söltuð og var snjórinn á henni orðinn n.k. saltpækill - eða drullulitað slabb. Sem betur fer var ekki umferð um götuna því ég gjörsamlega missti stjórn á hjólinu. Mér tókst að halda mér á hjólinu en það svingaði stjórnlaust um götuna og endaði ég á öfugum vegarhelmingi með mikinn hjartslátt og ónotatilfinningu. Af þessu hef ég lært að forðast saltaðar götur og passa mig extra vel þar sem ég þarf að fara yfir götur sem hafa verið saltaðar. Naglarnir hafa greinilega ekkert að segja við þessar aðstæður. Ég endaði á því að hjóla á gangséttinni sem við þessa tilteknu götu er mjög mjó en ég komst heil heim. Það er verst þar sem gangséttin er nálægt götunni og saltslabbið gusast upp á gangséttina en það getur verið mjög varasamt. Ekki datt mér í hug að saltið gæti verið svona hrikalegt.
.
En jólin nálgast og ég ætla mér að gera svakalega margt núna um helgina til að undirbúa jólin. Því eins og venjulega æðir tíminn áfram og einhvernvegin hleypur frá mér. Jólin koma nú samt þó ég hafi aldrei komist alveg yfir allt sem ég ætla mér að gera, en það er líka allt í lagi. Því það sem skiptir máli er ekki hvort búið er að þurrka úr öllum skápum og skúra öll gólf eða annað í þeim dúr.

5. desember 2008

Hitt og þetta og þó mest jólaundirbúningur



Útgáfutónleikarnir tókust vonum framar, full kirkja og góð stemming (diskurinn er til sölu hjá mér).



Svo nú er að fara að undirbúa jólin. Jóladagatalið gengur ekki vel hjá mér í ár. Er einstaklega andlaus eitthvað. Stelpurnar tóku sig til einn daginn og útbjuggu hvor fyrir aðra (án þess að hin vissi af), það kom nokkuð skemmtilega út.



Svo er það piparkökubaksturinn, ætlunin er að hnoða í deigið í dag og baka á morgun, ætli eitt stk hús verði bakað líka (set inn mynd þegar það er komið upp). Þetta er eina smákökusortin sem ég baka fyrir jólin. Aðrar smáköku hafa bara dagað uppi óétnar í fínu kökuboxi, svo það er alveg eins gott að sleppa því að baka þær. Það er svo mikið annarskonar framboð af allskonar sætindum og fíneríi. En ef Bjartur les þetta þá er mjög líklegt að eitt eða tvö kryddbrauð verði bökuð á laugardaginn og hann er velkominn til að taka eitt með sér ef hann kíkir í heimsókn ;)



Mig langar líka svo mikið til að steikja laufabrauð, hef aldrei gert það heima. Það var alltaf hittst í Vogaskóla þegar stelpurnar voru minni og laufabrauð skorið og steikt. En svo var skólaeldhúsið rifið og nokkkur ár tók að byggja nýtt og þessi hefð datt niður. Við söknum þess og því langar mig að spreyta mig á þessu heima. Sjáum til hvort eitthvað verði af því í ár.

26. nóvember 2008

Útgáfutónleikar

Þriðjudagskvöldið 2. desember klukkan 20:00 verða útgáfutónleikar í Áskirkju.

Þar fagnar Kór Áskirkju útgáfu á jóladiskinum Það aldin út er sprungið. Kórinn syngur íslensk og erlend jólalög án undirleiks undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Á disknum hljjóma perlur sem allir kannast við, í hefðbundnum sem og óhefðbundnum útsetningum, ásamt minna þekktum kórverkum.

Aðgangur er ókeypis.

10. nóvember 2008

Fréttaflutningur

Ég eins og margir aðrir var sársvekkt yfir fréttaflutningi af mótmælafundinum á laugardaginn síðasta. Mig hefur langað að skrifa eitthvað um það en ekki gefið mér tíma í það. Í staðinn hef ég sett inn hér slóðir á bloggfærslur það sem fólk lýsir óánægju sinni með fréttaflutninginn, enda var hann til háborinnar skammar.

Tilfinningin er sú að maður geti engum treyst lengur. Hver segir satt? Hverju er sagt frá og hvað skilið eftir? Og þegar Sjónvarpið tók upp á þessum ósóma líka, ja hvernig get ég treyst fréttaflutningi frá þeim eftir þetta?

Kíkið endilega á þessar færslur.

Lára Hanna Einarsdóttir - Hvert er eiginlega hlutverk fjölmiðla?

Helga Vala - Af spunasveini Rúv.

Bloggsíða Ágústs Borgþórs - Mannfjöldinn er fréttin - ekki eggjakastið

Silfur Egils - Mótmælin áðan

Jenný Anna Baldursdóttir - Mótmælum rænt um hábjartan dag

En í gærkvöldi klóraði Sjónvarpið í bakkann og birti réttlátari mynd af mótmælunum og talaði við Hörð Torfa og þann sem stóð fyrir borgarafundinum í Iðnó. Lára Hanna Einarsdóttir hefur sett það myndskeið inn á bloggið hjá sér og þetta er slóðin á færsluna hennar. Afsökunarfrétt, Einar Már og skrílslæti forsætisráðherra

31. október 2008

Reynslan af nagladekkjunum er góð.

Finn ekkert fyrir hálkunni, en veit af henni og fer þess vegna hægar yfir og varlegar í beygjur. En ég hef aldrei skrikað eða runnið til og mér finnst líklegt að ég eigi eftir að venjast vetrarhjóleiðunum aðeins betur áður en ég eyk hraðann aftur. Ég er næstum 5 mín lengur í vinnuna þessa dagana en ég var í sumar, en ég er líka með eindæmum varkár manneskja og hrædd við að detta.
Hef bara einu sinni komist yfir 30 km/klst eftir að nagladekkin fóru undir hjólið en ég finn að ég er smátt og smátt að auka hraðann aftur eftir því sem ég læri betur á dekkin.

Kuldinn er lítið sem ekkert að angra mig. Ég er í mínum venjulegu fötum, gallabuxum, bómullarbol (þó vanir hjólreiðamenn segji manni að forðast bómull því hún drekkur í sig svitann og blotnar), lopapeysu og lopasokkum. Utan yfir það er ég svo í fínu Didrikson regn/útivistarfötunum mínum sem bæði halda hita, en anda líka (kostuðuð 12 þús í útilífi í sumar). En mig vantar nýja vetlinga því mínir eru orðnir ansi götóttir og mér verður kalt á puttunum sem standa út úr götunum. En úr því verður bætt fljótlega.

Sem sagt vetrarhjóleiðarnar ganga vel og ég er svo ánægð með að geta haldið áfram að hjóla þó smá snjór og hálka sé í bænum.

30. október 2008

kjosa.is

Fyrir kosningabæra Íslendinga sem ekki eru sáttir og sælir með ráðamenn á Alþingi vil ég benda á síðuna www.kjosa.is þar sem verið er að safna undirskriftum. Listinn verður afhentur valdhöfum og fjölmiðlum 15. nóvember nk.

29. október 2008

Nýjung á bloggsíðu

Glöggir bloggskoðarar hafa tekið eftir því að skemmtilegu bloggararnir mínir hér til hægri eru núna raðaðir í röð eftir því hvenær þeir síðast skráðu færslu og eru nú upplýsingar um hversu langt er síðan síðast var bloggað.

Það var fyrir tilviljun að ég sá þennan möguleika sem kerfið býður uppá. Svo nú gildir að vera duglegur að blogga til að vera efstur á lista.

10% landsmanna styðja Davíð

Bara verð að setja þennan link hérna. Mögnuð samsetning á fréttum um skoðanakönnun sem stöð 2 gerði á fylgi Davíðs og svo viðtali við Hannes Hólmstein.

Kíkið á þetta hér (er ekki langt)

27. október 2008

Peysan sem ég prjónaði á Hrund




Uppskriftin að peysunni (og sokkunum) er í Ístex blaði nr. 14. og hún er prjónuð úr Álafoss lopa.
Gaman að segja frá því að þegar ég var á sama aldri og fyrirsætan var trefillinn keyptur sem hún hefur um hálsinn.

22. október 2008

Hjólað í snjó í fyrsta skipti


Lagði af stað næstum 10 mín fyrr en venjulega því ég vissi ekki hvernig væri að hjóla í snjó eða hvort það væri hálka.

Fór stystu leiðina og var komin 10 fyrir 8 svo það var óþarfi að leggja fyrr af stað.


En þetta var skemmtileg upplifun. Fann ekki fyrir hálku, en sá bíla spóla af stað á ljósum. Þeir gætu auðvitað hafa verið á sumardekkjunum. Svo var ég svo heppin að hafa vindinn í bakið.


Ég ætla annaðkvöld á fræðslufund hjá Íslenska fjallahjólaklúbbunum um vetrarhjóleiðar, geri ráð fyrir að koma þaðan full af visku um hvernig best er að klæða af sér kuldann og fleira slíkt.


Mætti 6 öðrum hjóleiðamönnum sem felstir voru vel búnir með ljós og svoleiðis. Kom mér satt að segja á óvart hvað þeir voru margir.

20. október 2008

Finnst ég verða að koma þessu að.

Ég fór á fundinn á Austurvelli á Laugardag. Ég varð fyrir vonbrygðum þegar ég mætti á staðinn hversu fáir voru, hélt í alvöru að Austurvöllur yrði troðfullur af fólki.
En fréttamiðlum ber ekki saman um fjöldann. Lögreglan hér taldi um 500 manns vera á staðnum er Reuters fréttastofan segir rúmlega 2.000 manns. Smella hér til að sjá fréttina frá þeim.

Hér er svo ræðan sem Þráinn Bertelsson hélt og er aftan á Fréttablaðinu í dag.

Nýir tímar
Nornaveiðar eru sport sem felst í því að finna rosknar konur sem búa einar og fleygja þeim í dýflissur og pynta þær til að játa að þær hafi mök við makt myrkranna – og brenna þær síðan á báli.

HÉR loga nógir eldar og við þurfum ekki að kveikja fleiri, og þaðan af síður er ástæða til að brenna einn né neinn á báli. Hins vegar er fullkomin ástæða til að mótmæla því að íslenska þjóðin skuli hafa verið gerð gjaldþrota fjárhagslega og siðferðislega og orðstír hennar troðinn í svaðið.

ÞAÐ er kominn tími til að krefjast þess að þeir umboðsmenn þjóðarinnar sem ýmist sváfu á verðinum ellegar slógust í lið með þeim sem fengu útrás fyrir græðgi sína með því að gera árás á eigin þjóð verði látnir axla þá ábyrgð sem þeir þiggja svo há laun fyrir að bera. Það er greinilega til lítils að eiga dóbermannvarðhund ef maður þarf svo að gelta sjálfur, jafnvel þótt dóbermann- hundurinn heiti Dabbi og allir eigi að vera hræddir við hann.

ÞAÐ góða við að íslenska lýðveldið skuli hafa verið lagt í rúst er að nú getur loksins hafist uppbyggingarstarf. Við getum byggt hér upp það þjóðfélag sem okkur dreymir um og við getum orðið fyrirmynd annarra þjóða – en ekki aðhlátursefni. En til þess að svo megi verða þurfum við að skipuleggja okkur upp á nýtt og standa saman um að þeir sem brugðust okkur svo hrapallega og bera ábyrgð á því hvernig komið er komi ekki nálægt því að byggja upp hið nýja óspillta, réttláta, ráðvanda og ábyrga þjóðfélag sem byggir á frelsi einstaklingsins til þeirra athafna sem ekki skaða aðra og sameiginlegri ábyrgð einstaklinganna hver á öðrum.

EF við ætlum að byggja hér upp betra þjóðfélag getur fólkið í landinu engum treyst nema sjálfu sér fyrir því verki – og allra síst stjórnmálaflokkunum sem bera ábyrgð á núverandi ástandi. Ef við ætlum að byggja hér upp nýtt þjóðfélag er mál til komið að íslenska þjóðin vakni af sínum væra blundi. Það er mál til komið að Ísland vakni. Núna. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr eru komnir nýir tímar. Það er á valdi þjóðarinnar að ákveða hvort þeir tímar verða betri eða verri en þeir sem liðnir eru."

17. október 2008

Fyrsti hjólatúr á nagladekkjum

Það var dimmt og rigning í morgun þegar lagt var af stað á nýju nagladekkjunum. Vinalegt marrið í nöglunum hljómaði eins og hinn fegursti söngur og í fyrstu var það eini munurinn á sumardekkjunum og nagladekkjunum. En þegar líður á er greinilegt að hjólið rennur ekki eins vel og áður og það þarf aðeins meira að hafa fyrir því að hjóla. Hjólið er virkar hálfum gír þyngra en áður.
En það er stöðugt og enginn aukatitringur eins og ég hafði búist við þar sem dekkin eru grófari. Hinsvegar var einnig skipt um sveifar og tannhjól svo það eru fleiri breytur en bara dekkin sem geta skekkt samanburðinn.

Mætti 5 hjólreiðamönnum. Tveir þeirra voru með svakalega flott ljós á hjólunum, þau blikkuðu en gáfu samt mjög sterka og flotta lýsingu á veginn fyrir framan. Mig grunar að þetta séu sambærileg ljós við þau sem kosta rúmlega þrjátíuþúsundkrónur í Erninum.

16. október 2008

Vetrarhjólreiðar



Jæja þá er komið að því. Það er verið að setja nagladekk undir hjólið og á nú að reyna sig við vetrarhjólreiðarnar.
.
Ég er svo ekki tilbúin að hætta að hjóla og var eiginlega farin að kvíða hreyfingaleysinu sem fylgir oft vetrinum (nema ef vel snjóar og hægt er að grípa í skófluna).
Mín dekk munu hafa 240 nagla í sér og skilst mér að það eigi að duga vel hér innanbæjar.
.
Þá er bara eftir að fá sér gott ljós til að sjá götuna og spurning hvort karfan verði að fjúka til að það komist fyrir? Þeir hjá Borgarhjólum gátu á sínum tíma fiffað fyrir mig blikkljósið á körfuna (skrítið hvað ekki er gert ráð fyrir að svona græum á hjól með körfu) en ég á eftir að finna þetta út með ljósið. Ætli ég þurfi ekki nýja vettlinga líka? Jæja við sjáum nú til.
.
Eins gott að maður gugni svo ekki á öllu saman. Hef núna tvisvar sinnum snúið við vegna hálku og verið skuttlað í vinnuna, en eftir nagladekkjaásetningu verður hálkan ekki lengur afsökun.
Verð að viðurkenna að ég hlakka til að prófa mig í snjónum og stend mig að því að vona að hann láti sjá sig allavega smá, en það borgar sig að fara varlega með óskirnar...
.
Spennandi tímar framundan.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...