29. september 2006

Myrkur milli 22 og 22.30, eða hvað?


Sú frábæra hugmynd að myrkva höfuðborgarsvæðið og nærsveitir varð að veruleika í gær.

Við fjölskylda höfðum mikið hlakkað til og vorum ákveðin í að fara í göngutúr um hverfið og enda uppi á göngubrú yfir Miklubrautina til að sjá þegar ljósin væru kveikt aftur.

Við vorum tilbúin rétt fyrir kl. 10. Hrund meira að segja kom heim af skólaballi til að vera með. Eyrún var mjög spennt og tók uppáhalds tækið sitt, hlaupahjólið með í för. Þegar ljósin voru slökkt stóðum við í garðinum fyrir framan húsið og sáum ljósin slokkna. En þá komu fyrstu vonbrigðin, ekki nema u.þ.b. helmingur nágrannanna hafði slökkt ljósin inni hjá sér eða útiljósin.

Jæja svo lögðum við af stað og sáum jú að menn voru að átta sig og ljós slökknuðu hér og þar í húsum í kring og myrkrið varð töluvert. T.d. heimtaði Eyrún að fá lýsingu á gangstéttina (með vasaljósi) til að sjá hvert hún væri að hlaupahjóla.

Við mættum nokkrum dökkum verum á leiðinni og allir heilsuðu (er það vegna þessara sérstöku aðstæðna eða voru bara þeir á gangi sem almennt heilsa ókunnugum sem þeir mæta á götu?). Þetta var stemming, en ótrúlegt samt hversu mikið var af ljósum. Ég hafði búist við svo til algjöru myrkri.

Hinu megin við Geldinganesið er iðnaðarsvæði, Ingvar Helgason ofl. þvíumlíkt þar voru engin ljós slökk og ekki hægt að sjá mun fyrir og eftir. Í Breiðholtinu var líka mjög mikið af ljósum, en þó hægt að sjá mun. Ég var líka svo hissa á því hversu mikil umferð var. En það er líklegast viðeigandi að bílaþjóðin njóti myrkursins í bíltúr.

Það var flott að sjá ljósin koma aftur. Við fylgdumst vel með tímanum og vorum eins tilbúin og hægt var að vera. Svo kveiknuðu þau lína eftir línu. Fyrst kom lítill blossi og svo ljós.

Það var síðan mjög gaman að ganga sömu leiðina til baka í fullri lýsingu og sjá muninn.

Á meðfylgjandi mynd eru Hrund og Eyrún standandi uppi á steini í Steinahlíð (leikskólalóð), á bak við þær eru ljósastaurar sem sjást auðvitað ekki því það er slökkt á þeim.

Hvað gerðuð þið meðan ljósin voru slökkt?

2 ummæli:

Refsarinn sagði...

Já þetta var ekki nógu gott hjá okkur. Fyrirtækin þurftu að vera með og hvað í fj. var fólk að gera í bíltúr (með háuljósin) þegar það átti að vera úti að njóta mirkursins?
Þetta þarf að endurtaka í nóvember.

BbulgroZ sagði...

Já ég stökk út með popppokann minn og slökkti inni hjá mér, en 10/11 búðin 150 metrum frá heimili mínu lýsti upp nærliggjandi svæði og svo auðvitað þeir nágrannar sem ekki tóku þátt, voru bara með öll ljós kveikt, dálítið svekktur af því ég komst ekki frá, var með sofandi dreng inni.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...