17. ágúst 2006

1. ágúst 2006

Til hamingju með daginn!



Bróðursonur minn er tvítugur í dag!

Hér er ein lítil saga úr minningabankanum mínum af Annel Helga. Einu sinni þegar hann var á leikskóla var haldin hátið sem hans deild tók þátt í með því að syngja nokkur lög. Öll börnin stóðu stillt og prúð í hóp uppi á sviði og sungu. Loka lagið var "Ryksugan á fullu". Þetta lag var greinilega í uppáhaldi hjá Annel sem rokkaði það upp, tók luftgitar og allt. Flottur!
Einhversstaðar á ég þennan atburð til á videóupptöku, gaman væri að grafa hana upp.

Ps. myndinni er stolið af hans eigin síðu, vona að það sé í lagi.

19. júlí 2006

13. júlí 2006

Póstlistar og hjól


Ég á það stundum til að skrá mig hér og þar í von um gróða og vinninga. Ekki langt síðan ég var á póstlista sem kallaðist Plúsinn þar sem ég fékk allskonar tilboð og svoleiðis sem einhvernvegin heilluðu mig ekki en möguleikinn á því að verða dregin út og fá vinning hélt mér við efnið í u.þ.b. mánuð en þá líka gafst ég upp á auglýsingaflóðinu og skráði mig út.

Núna er ég á póstlista hjá visir.is. En í morgun varð ég frekar móðguð út í þá. Ég var sem sagt komin með nýjan póst frá þeim þar sem spurt er hvort ég vilji fara í bíó. Jú, jú mér finnst oftast gaman í bíó svo ég smellti á "já takk" hnappinn og þá kemur upp þessi mynd hér til hliðar. Nema hvað að glöggir lesendur taka líklegast eftir því að neðst á myndinni stendur orðrétt: "VINNINGSHAFAR FÁ SENT SMS 12. JÚLÍ". Hvað er skrítið við það? Jú í dag er 13. júlí!!! Þá er að athuga hvernær pósturinn barst og það er 12. júlí kl. 23:21. Þetta er bara móðgun og nóg til þess að ég skrái mig út af þessum umrædda lista.

Svo er það hjól og aftur hjól. Mig langar í nýtt hjól og hef verið að skoða aðeins í kringum mig og reyna að afla mér upplýsinga um hvaða hjól henta mér og minni notkun. Fór í 3 hjólabúðir í vikunni til að reyna að átta mig.
-Fyrst var það GÁP sem selja Mongoose hjól þar var þjónustan hræðileg. Þrír ungir strákar við afgreiðslu sem gerðu kannaski sitt besta en einhvernvegin fékk ég það á tilfinninguna að ég væri eiginlega bara fyrir. Sá þar hjól sem mér leist ágætlega á en mig langar ekkert sérstaklega að fara þangað aftur.
-Næst fór ég í Markið, þar eru seld Giant hjól (hún Hrund mín á einmitt hjól frá þeim). Þar var líka strákur í afgreiðslunni en sá var með meiri þjónustulund og/eða reynslu. Byrjaði á því að leiða mig að dömulegasta hjóli sem ég hef nokkurn tíman séð með fótbremsum og allt. En svo öðru hjóli sem mér leist nokkuð vel á.
-Að lokum fór ég í Útilíf en eftir að hafa sveimað þar í kringum hjólin í töluverðan tíma án þess að sjá starfsmann á lausu ákvað ég að nóg væri komið og fór heim. Hjólin þar voru mörg hver með þá stærstu hnakka sem ég hef á æfi minni séð, örugglega mjög þægilegt en ákaflega eitthvað furðulegt í sjón.
Næsta skref er að fara og prófa þau hjól sem mér leist á og átta sig á því hvort þau virka fyrir mig.
Gamla hjólið mitt er Wheeler og ég vildi helst fá annað svoleiðis því það hefur reynst mér ákaflega vel, en eftir því sem ég best veit þá eru þau ekki seld hér lengur.

5. júlí 2006

Í gær og í dag

Í gær eldaði Elías þennan dýrindis kjúklingarétt með ólífum, sveppum, tómatgumsi og fleiru. Þessu fylgdi svo hvítlauksbrauð sem samanstóð af ristuðu fransbrauði og bráðnu hvítlaukssméri. Svona líka ótrúlega gott allt saman.

Í dag er ég að farast úr hvítlauksþynnku. Er með óbragð í munni og efast ekki um andardrátturinn sé eitthvað í sömu áttina. Þá er eina ráðið að japla tyggjó og annað sem getur dregið úr ósköpunum.

30. júní 2006

Nenni þessu ekki!

Það er föstudagur, hálftími eftir af vinnudeginum og sólin skín inn um gluggann.
Hvernig á maður að geta unnið við þessar aðstæður?

27. júní 2006

Hmmm???

Stundum gerast skrítnir hlutir. Ég var vitni að því fyrir 2 eða 3 árum að strætóbílstjóri opnaði hurðina hjá sér til þess að arga á hjólreiðamann að drulla sér upp á gangstétt (viðkomandi hjólaði sem sagt á götunni).
Og í gærmorgun argaði gangandi vegfarandi á mig að ég ætti að hjóla á götunni (ég var á gangstéttinni).
Þetta sýnir að engin leið er að þóknast öllum.
Skrítið samt að gera svona - arga á fólk. Hlýtur að vera uppsafnaður pirringur sem allt í einu springur.

22. júní 2006

Komin heim frá Kanada


Þetta var mjög skemmtileg ferð. Við fengum gott veður allan tímann, rigndi 2x en í annað skiptið vorum við á hátíðarkvöldverði og í hitt skiptið í rútu svo það kom ekki að sök.

Farið var yfir ótrúlegar vegalengdir á hverjum einasta degi, landið er svo stórt. Við flugum til Minnesota, gistum í Alexandriu á leiðinni til Kanada og vorum í Winnipeg í 5 nætur. Við heimsóttum við Gimli, Hecla island, Rivertown og fleiri staði, allstaðar hittum við vestur Íslendinga sem töluðu íslensku og kunnu ættjarðarlögin sem við sungum.

Ef þið hafið áhuga á að skoða fleiri myndir þá hef ég sett þær inn hér.

6. júní 2006

Hitt og þetta

Nú er sumarið komið. Skólarnir að fara í frí og við tekur letilíf hjá krökkunum sem þau hafa hlakkað til lengi (þar til vinnan hefst). Þurfa ekki að fara fram úr rúminu fyrr en þau vilja sjálf og svoleiðis. Þetta leiðir af sér að ég get sofið næstum hálftíma lengur á morgnana sem er gott. Kannski næ ég þá líka að vaka hálftíma lengur á kvöldin?!?

Rúntaði norður á Skagaströnd um helgina til að sjá hvernig hún vinkona mín hefur komið sér fyrir. Heillaðist algjörlega af staðnum og húsinu hennar. Veðrið var mjög gott og við fórum rúnt um plássið og það var virkilega fallegt í sólinni. Svo sátum við í garðinum og nutum sólarinnar.

Sem betur fer fór ég í gegnum Hvalfjarðargöngin áður en áreksturinn varð. Það er of dimmt í þessum göngum. Það er skrítið að við sem eigum allt þetta ódýra og umhverfisvæna rafmagn getum ekki lýst upp göngin betur. Er ekki meiri innkoma vegna ganganna en gert var ráð fyrir? Má ekki nota eitthvað af þeim peningum í lýsingu? Heyrði í fréttunum að vegna kvartana frá nokkrum vegfarendum (ekki hefur mér dottið í hug að kvarta þó ég hugsi um þetta í hvert skipti sem ég fer göngin) að þá eigi að bæta lýsingu við sitthvorn endann á göngunum. Það er bara ekki nóg. Á maður að kvarta?

Eftir viku verð ég í Kanada. Er að verða pínu spennt - mest spennandi er að vita hvort nýja vegabréfið mitt komist í mínar hendur áður en lagt verður af stað. Við lendum nefnilega í hinu mikla USA landi. Þetta kemur allt saman í ljós er líða fer á vikuna.

Í framhaldi af því er rétt að auglýsa opna æfingu sem verður í Kópavogskirkju annaðkvöld (miðvikudagskvöldið 7. júní) kl. 20.00 þar sem sungið verður yfir lögin sem flutt verða í Kanada. En á efnisskránni eru ættjarðarljóð, sálmar og aðrar íslenskar perlur.

24. maí 2006

Breytingar

Um helgina flyst ein elsta og besta vinkona mín út á land. Í staðin fyrir að geta farið til hennar á 10 mín mun það taka mig 3-4 klst að komast til hennar. Við höfum hittst vikulega í töluvert langan tíma og haft það kósí við prjónaskap, sjónvarpsgláp og kjaftagang. Mikið á ég eftir að sakna þeirra stunda.

Við höfum þekkst í hvorki meira né minna en 25 ár - vá!!!

En í staðin koma helgarferðir sem verða ekki leiðinlegar. Það verður gaman að geta prjónað alla helgina eða púslað heilt púsluspil (ekki bara að byrja eða enda). Kannski við dustum rykið af stimpildótinu. Jafnvel gönguferðir um sveitina (eða borgina) á góðviðrisdögum með nesti og nýja skó.

Já, já heimurinn ferst ekki þó eitthvað breytist...

18. maí 2006

Leyndarmál



Í trúnaði var sagt frá og loforð tekið um að það færi ekki lengra. Best væri að gaspra ekki um hlutina og maður á ekki að vera að bera svona sögur út!

Sá sem segir svona hluti gengur gegn öllu því sem hann er að segja. Einhversstaðar frá kemur vitneskjan - ekki ólíklegt að hún hafi verið sögð í trúnaði, bara okkar á milli (þið vitið).

Daginn eftir vitnast það að sama frásögnin var sögð af sama manni í 7 manna hóp. Til lítils var þá að biðja um þetta loforð.

Svona gerir maður bara ekki, nema auðvitað að heimildin sé góð og/eða manni er illa við þann sem um er rætt - ekki satt?

17. maí 2006

Regndropi.

Dropi féll af himnum og beint á nefið á mér. Þetta var fyrir nokkrum dögum síðan, ég hef hugsað um hann af og til síðan. Spáðu í því þvílíka útreikninga og pælingar hefði þurft til að gera þetta viljandi. Það var ekki beinlínis rigning, bara svona dropi og dropi á stangli. Hversu langa vegalengd var hann búin að ferðast áður en lendingu var náð? Hvaðan kemur hann upphaflega?

Segjum að maður sé í loftbelg og sleppi nokkrum dropum hverjar eru líkurnar á því að einn af þeim lendi á nefinu á manni á ferð einhversstaðar fyrir neðan?

9. maí 2006

Hjólafréttir

Það hefur orðið gríðarleg aukning á hjólreiðamönnum á götum/gangstéttum borgarinnar. Hvort sem það er nú veðrinu eða átakinu Hjólað í vinnuna að kenna, nema hvoru tveggja sé. Liðið mitt féll hratt niður listann á fyrstu dögunum vorum á fyrsta degi í 6 sæti en erum núna í 44 m.v. daga en í 25 sæti m.v. kílómetrafjölda (erum í flokkum 10-29).

Í morgun var met fjöldi hjólreiðamanna á leið minni til vinnu en talin voru alls 28 stk. Í gær voru það 22, sem þá var met ársins. Miðað við að í síðustu viku voru tölurnar 8-14 þá er þetta töluverð aukning.

Eins og þetta er nú allt saman skemmtilegt og ég gæti skrifað um þetta miklu, miklu lengri pistil þá hef ég verk að vinna og verð því miður að snúa mér að því núna. Meira seinna - ég lofa.

3. maí 2006

Á hvaða aldri ertu?

Eftir því sem ég verð eldri er erfiðara með að meta aldur fólks. Mér finnst fólk sem er eldra en ég (þá á ég við a.m.k. 10 árum eldri) allltaf verða unglegra og unglegra og þeir sem eru yngir krakkalegri og krakkalegri. En er það er aldurshópurinn plús/mínus 10 ár við minn aldur sem er svo flókinn. Ég er alltaf að reka mig á það að álíta þennan eða hinn vera "miklu eldri en ég" en svo þegar til kemur er sá eða sú jafnaldir eða jafnvel yngri. Eða sem getur verið enn pínlegra þegar maður kastar því fram "þú ert á mínum aldri" og viðkomandi er 5-10 árum yngri.

Í barnaskóla var þetta einfaldara. Þá var auðvelt að greina 1. bekking frá 2. bekkingi eða krakka úr 5 bekk. Og allir sem lokið höfðu barnaskólanum voru gamlir. Punktur og basta!

2. maí 2006



Á leiðninni í vinnuna datt mér svo margt skemmtilegt í hug að skrifa hér en núna þegar ég gef mér smá tíma þá er eins og allt sé horfið.

Vorum í gær að skoða hótel nálægt Disneylandi í París því þangað ætlum við í sumar eftir að hafa verið viku í dýrðinni í Danaveldi. Við ætlum okkur 2 daga í garðinn og 2 daga í borgina. Þetta verður þannig að við ættum að ná að sjá þetta allra frægasta eins og Effelturninn, Monu Lisu og Notre Dam.

"Hjólað í vinnuna" hefst í dag og í fyrsta skipið tek ég þátt. Náði að skrapa saman í lágmarksfjölda hér í vinnunni (sem eru 3) og þá erum við 2 sem hjólum og 1 strætóandi. Gaman að sjá hvernig okkur gengur. Ég er nú þegar búin að hjóla 7 km í dag og á þá eftir að fara heim aftur (5 km).

28. apríl 2006

Ótrúlega góður morgunmatur

Síðan úr örófi alda hef ég fengið mér te og brauðsneið í morgunmat.

En í morgun varð breyting á og það sem ég fékk mér var svo gott að ég verð að deila því með ykkur.

Ab mjólk
Kornflex
Smátt skorið epli
Smátt skorin vínber

Fyrsta smakk er súrt (þið vitið Ab mjólkin er þannig) en svo tekur yfir þetta yndislega bragð af vínberjum og eplum og kornfelxið gefur undirtón.

Te-ið fékk svo að fylgja sem eftirmatur.

26. apríl 2006

Raunasaga úr Vogunum


Var með einhver smávegis ónot í maganum í gær. Hélt að það væri kvíði því við Elías höfðum planað að fara í ræktina saman og þar sem við höfum aldrei gert nokkuð slíkt áður var ég kvíðin. Jæja við fórum en magaverkurinn ekki og það sem verra var að hann ágerðist.
Í framhaldi af því var kvöldið miður skemmtilegt og nóttin líka. Þessu öllu saman fylgdi mikill hiti og kuldi og almenn vanlíðan sem endaði í þeim hápunkti að kastað var upp. En vellíðanin sem kom þar á eftir er ótrúleg. Hitinn og kuldinn hvarf. Maginn hætti að kvarta. Mér fannst ég svífa, einungis fyrir þær sakir að vanlíðanin var horfin og svo náði svefninn yfirhöndinni.

Í dag er ég heima, enn með smávægileg ónot í maganum og þreytu í kroppnum því ég var alltaf að vakna í nótt. Fer líklegast ekki í ræktina í dag (fengum 3gja daga reynslupassa, sem ætlunin var að nýta).

16. apríl 2006

Gleðilega páska!




Og hér kemur páskaþraut dætra minna. Ef þið viljið finna út vísbendingu um hvar páskaeggin þeirra voru falin leysið þrautina. Þetta er gert með því að lita reiti og tengja saman tölustafi.
1 = viðkomandi reitur litaður.
2 = 2 reitir litaðir báðir merktir með tölustafnum 2.
3 = 3 reitir litaðir (einn auður reitur milli tölustafanna)

Línurnar sem litaðar eru geta legið í hlykkjum en gæta þarf að fara ekki yfir línu sem áður hefur verið lituð. Góða skemmtun.

11. apríl 2006

Smellið á "hér"

Kíkið á þessa síðu hér, mér hefur alltaf fundist hún skemmtileg.

Svo ef þið hafið gaman að sudoku að þá eru hér nokkrar svoleiðis og fleiri skemmtilegar þrautir.

7. apríl 2006

Könnun á nagladekkjanotkun


Síðastliðna þrjá morgna hef ég stytt mér biðina eftir strætó með því að telja bíla eftir því hvort þeir eru á nagladekkjum eða ekki. Talningin fer þannig fram að ef bíll á nagladekkjum ekur framhjá þá er 1 ef annar án nagla kemur næst er ég aftur komin niður í 0. Talningin tók c.a. 5 mínútur í hvert skipti. Niðurstöður er þessar:

Miðvikudagur 15 fleiri á ónegldum dekkjum
Fimmtudagur 2 fleiri á ónegldum dekkjum
Föstudagur 10 fleiri á ónegldum dekkjum

Hvað má svo lesa úr þessari könnun?

Jú ég hef greinilega óskaplega gaman að því að telja...

5. apríl 2006

Hver getur unnið Elías í Buzz?

Keyptum okkur Playstation tölvu fyrir jól og leikurinn Buzz fylgdi með í kaupbæti. Þetta væri ekki fréttnæmt nema af því að Elías svoleiðis burstar okkur stelpurnar alltaf í þessum leik (tel of mikinn sálmasöng hafa truflað getu mína á þessu tónlistarsviði). Það er helst að Hrund og Eyrún hafi eitthvað í hann þegar eingöngu er farið í nýlega tónlist. Við getum illa sætt okkur við þetta og kallinn er að verða helst til of ánægður með sig, svo okkur bráðvantar einhvern til að veita honum samkeppni. Helst horfi ég til bræðra minna sérstaklega þeirra yngir þar sem þeir telja sig tónlistarlega þenkjandi (Þórhallur prúf mí rong). Legg til að sett verði upp keppni um páskana til að koma Elíasi niður á jörðina aftur.

Svo setjið ykkur í stellingar bræður ég treysti á ykkur!

4. apríl 2006

Ballettsýning ársins


Í kvöld ætlar Hrund mín að dansa ásamt öðrum nemendum í ballettskóla Eddu Scheving á vorsýningu í Borgarleikhúsinu. Það er alltaf mjög gaman að sjá þessar sýningar og hversu mikið þeim hefur farið fram frá því á síðasta ári.

Glöggir menn sjá að önnur stúlkan frá hægri á meðfylgjandi mynd er einmitt Hrund í dansi frá því á síðasta ári. Takið eftir því hvað hún ber sig vel stelpan. Ég er að rifna úr stolti og hlakka mikið til kvöldsins. Þetta eru 3 sýningar í allt á sama deginum og það er töluvert krefjandi en án efa mjög gaman líka.

2. apríl 2006

Nýr bloggari

Nú hefur yngri dóttir mín bæst í hóp bloggara. Bjóðum hana velkomna. Það væri gaman ef þið skrifuðuð eitthvað fallegt í gestabókina hennar og/eða í kommentin.

31. mars 2006

Má ekki bregðast aðdáendum.

Þið eruð svo dásamlega dugleg að kíkja á síðuna mína, ég bara tárast.

Hitti Ingu vinkonu mína og dóttur hennar í hádeginu því við ætluðum að borða saman. Ég hafði mælt með Pizza67 í Tryggvagötu. Hef farið þangað með bræðrum mínum í hádegsihlaðborð og líkað vel. En viti menn, þó við finnum stæði beint fyrir utan og allt þá dugar það ekki til því staðurinn er þar ekki lengur. American style opnar hér stendur í glugganum. En það er ekki okkar siður að kvarta og kveina svo við bara fórum á Hlölla í staðinn og rúntuðum svo niður á höfn, fundum gott stæði þar og snæddum í rólegheitunum. Mjög svo ljúft.

30. mars 2006

Óggisslegaflott

Setti teljara á síðuna mína (alveg neðst). Núna verðið þið öll að vera dugleg að kíkja svo tölurnar hlaðist inn.

29. mars 2006

Engar hjólafréttir

Það er einhver skræfa inní mér sem er svo hrædd um að detta enn einu sinni. Og hún skipaði mér að taka strætó í vinnuna bæði í gær og í morgun - það gætu nefnilega verið hálkublettir sjáðu til. Sá samt fullt af hjólreiðamönnum sem líklegast hafa ekki þessa sömu skræfu og ég.

27. mars 2006

Hjólafréttir


Á miðvikudaginn síðasta kom tengdapabbi með hjólin okkar úr geymslu. Í gær fór ég með hjólið mitt á bensínstöð og pumpaði í dekkin (af því að fína pumpan sem ég keypti mér virkar ekki nema bara stundum) og svona almennt athugaði hvort allt virkaði eins og það á að gera.
Í morgun hjólaði ég í vinnuna. Að sjálfsögðu var ískaldur mótvindur og þolið fyrir löngu farið, þurfti að fara niður í 3 gír upp smá brekku og meðalhraðinn hefur verið ca. 10 km/klst. (meðalhraðinn síðasta sumar var 15 km/klst).

Sá ekki nema 4 aðra hjólalinga á leiðinni og einn skokkara. Því miður var ég svo upptekin af því að hjóla að ég tók ekki eftir hitastiginu en finnst líklegt að það hafi verið nálægt frostmarkinu.

25. mars 2006

Lisa Ekdal


Þegar ég frétti að Lisa Ekdal ætlaði aftur að halda tónleika hér á landi ákvað ég að láta ekki happ úr hendi sleppa. Ég missti af tónleikum hennar síðast og ætlaði ekki að gera það aftur. Mjög snemma keypti ég mér miða á besta stað í salnum (og þeim dýrasta). Svo loksins, loksins kom að tónleika deginum.

Fyrri hluti tónleikanna einkenndist af bið. Fyrst var beðið í hálftíma eftir KK og Ellen Kristjánsdóttur en þau hituðu upp fyrir Lisu og gerðu það vel þegar þau loksins komu á svið. Ætli þau hafi ekki sungið í 15-20 mín og þá tók við önnur hálftíma bið. Maður fann fyrir pirringi í salnum. Svo heyrði ég konu nokkru fyrir framan mig segja að það væri hlé. Starfsfólkið niðri hafði sagt þetta við hana þegar hún, eins og nokkuð margir fleiri fóru að pissa eða bæta á glösin hjá sér.
En svo loksins kom að því. Fyrst komu tveir strákslánar á sviðið og spiluðu á sitthvort rafmagnspíanóið. Sviðið var skemmtilega upp sett og lýsingin góð. Á bak við þau var tjald og myndin á því var eins og þau væru stödd í höll einhversstaðar. Eftir dágott forspil kom Lisa og fór að syngja. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en maðurinn við hliðina á mér fílaði það í tætlur. Síðan söng hún "Benen i kors" sem ég og stelpurnar mínar köllum stressedei og pressedei (skrifað eins og sagt). Mér fannst sérstaklega áhrifamikið þegar hún söng "Du sålde våra hjärta". Ég hef líklegast þekk u.þ.b. annað hvort lag á tónleikunum öllum og langar mikið að eignast nýjasta diskinn hennar "Pärlor av glas".
Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og hefði viljað hafa þá helmingi lengri. Var svolítið sár yfir því að hún var ekki klöppuð upp nema einu sinni. Prógrammið var vel skipulagt og rann árennslulaust í gegn engin bið meðan skipt var um hljóðfæri allir með á hreinu hvaða lag kom næst og svoleiðis.

Það var upplifun að sjá hana í eigin persónu því hingað til hef ég bara séð ljósmyndir af henni og þær hafa allar verið svo allt öðruvísi en hún er (að minnsta kosti eins og ég upplifði hana).

Það var ótrúlega gaman að heyra hana syngja lögin sem ég hef bæði hlustað á og sungið með í gegnum tíðina, það eru líklegast um 5 ár frá því Daði gaf mér fyrsta diskinn hennar í jólagjöf og síðan 2 aðra.

Sem sagt virkilega skemmtileg upplifun.


22. mars 2006

Á síðustu stundu.

Einu sinni var ég stundvís og einu sinni var ég skipulögð. Þetta virðist allt vera gufað upp. Hjá mér ríkir svokallað skipulagt kaós. Jú ég veit hvað hlutirnir eru - oftast og ég veit hvenær ég þarf að gera hitt og þetta, en kem mér yfirleitt ekki til þess fyrr en á síðustu stundu.

Í gær var síðasti dagur til að skila skattframtali. Við hjónin höfum talað um það okkar á milli síðustu vikuna að drífa nú í þessu en fyrst í gær fórum við að draga fram skjölin sem til þarf og finna skattskýrsluna frá síðasta ári til að hafa upp á veflyklinum okkar. Jú, jú þetta var svo sem allt á sínum stað nema hvað að veflykillinn virkar ekki! Og hvað gerir maður þá? Jú sækir um frest og nýjan veflykil. En af hverju í ósköpunum erum við ekki löngu búin að þessu?

21. mars 2006

Fegurð



Stóð mig að því um daginn að dæma söngvara úr leik í American Idol af því hann hefur ekki lúkkið með sér. Útlitsdýrkunin hefur náð að síast inn í kollinn á mér án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Ég hef alltaf talið mig vera yfir það hafin að láta útlitið hafa áhrif á mig, en greinilega hefur eitthvað látið undan.

20. mars 2006

Sykur eða sætuefni

Það er kominn tími fyrir mig að blogga þar sem nokkuð er síðan ég setti inn bloggið hér á undan. En þá er spurningin hvað á að skrifa um.

Mig langaði að setja inn texta um það hvernig ég þoli ekki þessi sætuefni sem er troðið í allt í dag. Mér finnst þau bragðvond, eitthvað eftirbragð sem hentar mér illa. Og ég vil ekki trúa því að þau séu eitthvað betri en sykurinn, nema þú sért með sykursýki auðvitað. En svo fannst mér ég ekki hafa nóg efni í svoleiðis tuð-grein og er hætt við það.

Ok, en hvað á ég þá að skrifa um? Jú ég fer á tónleika á föstudaginn með Lisu Ekdal í Háskólabíói. Keypti miðann fyrir svo löngu síðan að ég var næstum búin að gleyma þeim. Það verður örugglega gaman, mér finnst hún frábær tónlistarmaður og lögin hennar yndisleg. Hlakka mikið til.

En þetta gengur hvorki né rekur hjá mér. Hélt að með því að skrifa bara eitthvað mundi andinn koma yfir mig, en hann er upptekinn við annað í augnablikinu svo ég segi þetta gott í þetta skiptið. Vona að dagurinn verði ykkur góður.

16. mars 2006

Erfist leikfimivanlíðan???

Þegar ég var í skóla var leikfimi sá tími sem ég kveið fyrir. Það sem ég hataði mest voru boltaleikirnir - fótbolti, handbolti, körfubolti, skotbolti... og fleiri slíkir leikir. Mér fannst hins vegar gaman þegar farið var í fimleika, klifra í köðlum og hanga eða ganga á slá eða eitthvað í þá veruna en að sjálfsögðu var það miklu, miklu sjaldnar en boltaleikirnir.

Þegar Hrund var yngri áttum við í mestu vandræðum með hana daginn fyrir leikfimidaga. Þá fékk hún magaverk og átti í vandræðum með svefninn.

Núna er það Eyrún. Reyndar ekki leikfimin heldur sundið. Og það skrítna er að hún er alltaf að suða um að fara í sund en þegar kemur að sundtímum þá er ekki lengur gaman. Og hún fær magaverk og á erfitt með að sofna kvöldið á undan.

Svo nú spyr ég, er þetta arfgengur andskoti?

Eða hef ég einhvernvegin smitað þessari tilfinningu yfir á börnin mín með framkomu eða einhverju gagnvart þessum tímum?

Nú hef ég nýlega áttað mig því að hræðsla við hunda er lærð hegðun hjá mér - því ég hef núna lært að vera ekki hrædd við hunda (guð blessi Discovery Channel). En áður en það kom til hélt ég að það væri í eðli hunda að bíta og með aganum einum væri hægt að hald þeim frá því, þess vegna mundu þeir (hundarnir) nota hvert tækifæri sem gæfist til að bíta mig ef eigendurnir pössuðu ekki upp á þá. Þessi hugmynd um hunda hlýtur að vera einhversstaðar frá komin og þar sem ég ólst ekki upp við hunda ... (foredrar mínir eru t.d. mjög hundahrætt fólk).

En nú velti ég fyrir mér er leikfimivanlíðanin líka lærð ???

14. mars 2006

Loksins að batna



Ræddi við Daða bróður um daginn og hann sagði mér frá einhverju sem kallast ísrigning og þau í Danmörku upplifðu í vetur. Ætli það hafi verið eitthvað svipað og á þessum myndum sem fylgja með blogginu mínu í dag?

Úff, hef kannski ekki alvega náð fullri orku ennþá. Ætla að halla mér aðeins aftur.

10. mars 2006

Flensan bankar uppá.

Heimili mitt er pestarbæli þessa dagana. Báðar dæturnar liggja fyrir með hátt í 40 stiga hita og hósta. Hitinn vill rokkar töluvert og ég dugleg að dæla lyfjum í þær til að halda honum niðri.

Þær hafa ekki orðið svona veikar síðan þær voru pínu litlar, allavega ekki báðar í einu. Nú er bara að bíða og sjá hvort við Elías fáum þetta ekki líka.

7. mars 2006

Kastalinn minn


Ég ætla að sýna ykkur kastalann sem mig langar svo í. Þetta er svona ævintýrakastali með kastalasýki, turnum, og allskonar skúmaskotum. Hann er til sölu og kostar ekki nema 690 þús evrur og er í Þýskalandi. Finnst ykkur hann ekki fallegur?

6. mars 2006

Strætó enn og aftur.

Ég var að enda við að senda kvörtunarbréf til Strætó. Þeir voru enn og aftur að breyta leiðarkerfinu og tóku við það í burtu eina kostinn við nýja kerfið fyrir mig.
Það sem breyttist var að leið S2 fer ekki lengur framhjá mínu hverfi og er þá í einni svipann bæði búið að taka frá mér vagninn sem fer á 10 mín fresti og líka tengingu við Kringlu og Smáralind, svo ekki sé minnst á Kópavogsbrautina mína 4 kæru.
Ég er svo pirruð og sár og svekkt og hissa að ég skuli ekki hafa tekið eftir því að þessar breytingar voru í vændum. Ég vissi að það ætti að fara að breyta kerfinu en taldi mig hafa lesið yfir og skoðað væntanlegar breytingar en samt fór þessi alveg fram hjá mér.

uss fuss puss

"ég er svo reiður, ég er svooo óskaplega reiður... " sagði annaðhvort Karius eða Baktus og nú líður mér þannig líka.

Og svo fékk ég svar frá Strætó sem er eftirfarandi (og ekki til þess fallið að gera mig kátari á nokkurn hátt):
Sæl Bjarney,

Frá því að nýtt leiðakerfi Strætó var tekið í gagnið í júlí á síðastliðnu ári hefur Strætó bs safnað saman athugasemdum, ábendingum og skoðunum farþega, bílstjóra og annarra sem hafa haft skoðun á málefnum Strætó bs. Í gær voru framkvæmdar breytingar á leiðakarfinu sem er ætlað að koma til móts við megnið af þessum athugasemdum og ábendingum og er því um margvíslega þjónustubót að ræða. Leiðakerfi almenningssamgangna verður alltaf málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða. Það er von okkar að sem flestir finni ásættanlegar lausnir fyrir sig í þessu breytta leiðakerfi.

Með kveðju frá Strætó bs.

Ég segi nú bara það sama og áðan uss puss fuss

3. mars 2006

Klukk

Hún Inga vinkona mín klukkaði mig og nú er að standa sig:
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Kópavogur
Reykjavík
Kaupmannahöfn (2,5 mán)
Reykjavík
Fjórar eftirminnilegar bækur:
Mómó
DaVinci lykillinn
Veröld Soffíu
Bróðir minn ljónshjarta
Fjórar góðar bíómyndir:
Mulan Rouge
Scarlet pimpernail
Castaway
A little trip to heaven
Fjórir uppáhalds sjónvarpsþættir:
House
Monk
30 days
Star trek Voyager
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Álaborg
Boston
London
Snæfellsnes
Fjórir uppáhalds veitingastaðir:
Skólabrú
Lækjarbrekka
Caruso
Pizza-Hut
Fernt matarkyns í uppáhaldi:
Smjörsteiktar kartöflur (með nauta snitzeli)
Kjúklingasalatið á Caruso
Franskur kartöfluréttur sem Elías eldaði
Subway bræðingur

Ég klukka og skora á: Arnar bróðir og Þorkötlu frænku að halda þessu áfram.

2. mars 2006

Hmm, fimmtudagur

Í gær lék ég kórstjóra. Það er nokkuð merkileg reynsla. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég leik þennan leik, en í fyrsta skiptið var fyrir áramótin. Ég sem sagt leysti af kórstjórann minn á einni æfingu þar sem hún skrapp á skíði til útlanda.

Nú hef ég verið í kór svo til alla mína æfi og ætti því að þekkja svolítið til, amk get ég gagnrýnt þá kórstjóra sem ég hef sungið hjá og fundið að ýmsu. En þegar maður svo stendur fyrir framan hópinn og á að stjórna sjálfur - þá er allt svo allt öðruvísi og töluvert mikið erfiðara. Það er ekki eins einfalt og maður heldur að hlusta á allar raddirnar og heyra út hvort einhver er að syngja vitlaust, það er ekki svo auðvelt að átta sig á því hvort flestir séu búnir að ná línunum sínum nógu vel til að geta sungið með öllum hinum röddunum.
Það er svo ótrúlega margt sem þarf að taka eftir og vera meðvitaður um.

En jafnframt var þetta mjög gaman og ég get vel hugsað mér að gera meira af þessu.

1. mars 2006

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang...

En samt er öskudagur.
Hvað var gert á öskudaginn í (mína) gamla daga? Ég man eftir öskupokunum og títuprónum sem hægt var að begja, það er ekki hægt að gera við títuprjóna nútímans þeir bara brotna. Ég man eftir að hafa saumað öskupoka og spennuni við að reyna að næla þeim í einhverja saklausa borgara. Líklegast hef ég þó aldrei haft áræði í annað en að næla þeim í mömmu og pabba í mesta lagi.

Ég á lítið minningarbrot af þessum degi úr Keflavíkinni. Þannig var að ég er í bíl með Melkorku og Þorkötlu og Siggi Þorkels var við stýrið. Ég man ómögulega hvert við vorum að fara nema það að Siggi þurfti að skjótast til að hitta einhverja menn. Það náðist að næla í hann poka áður en hann hljóp út úr bílnum og inn í eitthvað hús. Og Þetta fannst mér óumræðilega fyndið að þarna skildi skólastjórinn fara á fund með öskupoka hangandi á bakinu ha ha ha...

28. febrúar 2006

Þriðjudagur

Jú í dag er lundin léttari. Gærdagurinn léttist líka með hverjum tímanum sem leið og það fór þannig að ég labbaði heim eftir vinnu. Veðrið var fallegt eins og það er í dag og hitastigið þannig að það hentaði vel til göngu.

Á eftir ætlar hún Eyrún mín að kíkja til mín í vinnuna og hjálpa til við skrifstofustörfin, það er jú vetrarfrí í skólanum. Ég hef enn ekki náð að nýta þessi vetrarfrí þeirra í eitthvað sniðugt og skemmtilegt. Man aldrei eftir að plana frí hjá mér í kringum þetta.

27. febrúar 2006

Mánudagur enn og aftur

Nema hvað að í dag er bolludagur - til hamingju með daginn bollur!!!

Og í gær át ég yfir mig af bollum og á enn fullan ísskáp af þeim... en ég kemst örugglega yfir það í dag og fæ mér fleiri í kvöld, thí hí.

Engar hjólafréttir í dag þar sem ég var of þreytt í morgun til að telja. Enda er ég frekar fúl út í allt þetta fólk sem hefur hjólin heima hjá sér yfir vetrarmánuðina svona bara ef verðrið skildi nú vera gott. Og ég hef ekki látið verða af því að sækja hjólið mitt til að taka þátt í þessum vetrar (en þó vorveðurs) hjólreiðum. Mér líður þó örlítið betur með þetta í dag þar sem það hefur kólnað og ísing var yfir vegum og gangstígum í morgun.

jamm og já og svo er nú það. Mánudagur enn og aftur.

26. febrúar 2006

Að setja inn myndir á bloggið

Fyrst er smellt á myndatáknið.


Og þá kemur upp þessi mynd:
Hér er smelllt á "Browse" takkann og ein mynd sótt í einu. Ef þú ætlar að setja fleiri en eina mynd inn í einu þá er smellt á "add another image" og við það kemur upp ný lína.

Og þá er komið að því að færa myndirnar inn á bloggið með því að smella á "Upload image"

Þetta getur tekið svolítinn tíma svo það er um að gera að vera þolinmóður.

23. febrúar 2006

Gagnrýni á tónleikana í mogganum

Samfelld unaðsstund

TÓNLIST Hallgrímskirkja Frönsk og íslenzk verk fyrir kór a cappella eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Debussy, Báru Grímsdóttur og Poulenc. Kór Áskirkju og Hljómeyki. Stjórnandi: Kári Þormar. Sunnudaginn 19. febrúar. Kórtónleikar Ríkarður Ö. Pálsson LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju efndi til kórtónleika án undirleiks á sunnudag, er voru að vanda vel sóttir. Fór hvort tveggja saman forvitnilegt viðfangsefni og vænlegir flytjendur þar sem einn reyndasti og einn yngsti kammerkór landsins komu fram sem einn hópur. Í ljósi árangurs hins eftirtektarverða akureyrska kammerkórs Hymnodiu á Myrkum músíkdögum aðeins rúmri viku áður er von að maður spyrji hvort íslenzkur kammerkórsöngur, er tók hraustlega við sér laust fyrir síðustu aldamót, hafi nú hafið nýja sókn er gæti á endanum jafnvel leyst stóru blönduðu kórana af hólmi. A.m.k. hefur lengi þrengt illþyrmilega að stærri miðlinum miðað við ástand fyrri áratuga, meðan áhugasöngvarar hafa í vaxandi mæli flykkzt í karla- og kvennakórana. Eftir ýmsu að dæma lítur því út fyrir að stórum blönduðum kórum fari senn fækkandi á móti fjölgun kammerkóra, er með tilstyrk æ menntaðri söngvara eiga auðveldara með að sérhæfa sig í erfiðum verkefnum. Meðal neikvæðari hvata kammerkóra má auðvitað telja króníska karlaeklu. Enda tókst jafnvel ekki einu sinni hér að fullskipa í tenór (10- 8-5-8), er háði svolítið fullum heildarhljómi. Það var hins vegar nánast eini dragbíturinn á frammistöðu kóranna tveggja, því hljómgæði hverrar raddar fyrir sig voru óhikað í úrvalsflokki, og í markvissri og sveigjanlegri mótun stjórnandans fékkst hið bezta úr hverri í undragóðri samblöndun. Gerði það, ásamt ósviknu gæðamarki viðfangsefna, tónleikana að einni samfelldri unaðsstund – og er þá vægt til orða tekið. Fjórar kórperlur Þorkels Sigurbjörnssonar – Til þín, Drottinn, Legg ég nú bæði líf og önd, Heyr himna smiður og Englar hæstir – er jafnvel í miðlungsflutningi hafa yljað landsmönnum um hjartarætur, náðu hér virkilega að blómstra. Þ.á.m. hin næstsíðasttalda – þrátt fyrir óvenjuhratt tempó sem raunar fór henni betur en fyrst hefði mátt ætla. Túlkun hinnar rytmískt líflegu tónsetningar Hildigunnar Rúnarsdóttur á Drottinsfagnandi 150. Davíðssálmi hefði, ásamt kraftmestu stöðunum í ljóðrænum Trois chansons Debussys (einkum í Quant j’ai ouy la tambourin) að vísu mátt létta ögn af fáguninni til ágóða fyrir beinskeyttari lífsgleði, en listileg mótunin lét þó hvergi að sér hæða. Hér fór seiðandi smíð er þyldi jafnvel enn meira slagverk en handsymbala Steefs van Oosterhout. Vinsæl Guðsmóðurlög Báru Grímsdóttur, María Drottins liljan og erkismellurinn Ég vil lofa eina þá, steinlágu eins og sagt er. Loks var komið að „munkinum með götustráksinnrætið“, skv. sjálfslýsingu Francis Poulencs. Einlæg hómófónísk mótetta hans Salve Regina (1941) skartaði, líkt og fleira undangengið, skemmtilega víðfeðmri dýnamík og næmari textatúlkun en gengur og gerist í hérlendum kórsöng. Lokaverkið, 16 mín. löng Credo-laus Messa Poulencs í G-dúr (1935), var kröfuharðasta atriði dagsins, m.a. fyrir krómatískt djarfa hljómabeitingu, auk þess sem mikið var lagt á einsöngvara og smærri sönghópa (einkum í háttlægum kvenröddum), en í óþvingaðri túlkun kóranna var samt engu líkara en að flest væri þeim kálfskinn eitt. Sérstaklega bar Agnus Dei lokaþátturinn yfirbragð innblásins frumleika, enda nánast eins og mannshugurinn næði þar þyngdarlausri „satori“ alsælu í eftirminnilega ómsætri meðferð kóranna. Þar sem fyrr mátti og heyra bráðfallegan smáhóp- og einsöng. Er vonandi á engan hallað þó sérstaklega sé tilgreint íðiltært sólóframlag Hallveigar Rúnarsdóttur, er í Kyrie og Agnus Dei jafnaðist á við það fegursta sem maður hafði nokkru sinni heyrt frá þeirri frábæru seiðkonu efstu upphæða.

Ekkert að gerast

Óskaplega er mikil deyfð yfir blogginu þessa dagana. Og þá spyr maður sig hvað er það sem veldur? En það er fátt um svör.

Svo við hættum að spá í því og hugsum um eitthvað skemmtilegt, eins og að bolludagur er í nánd...

17. febrúar 2006

Raunir strætóferðalangs

Fór til tannlæknis í gær og tók strætó. Nei ér eg ekki að kvarta yfir leiðarkerfinu og yfirleitt ganga þessar strætóferðir mínar nokkuð hnökralaust fyrir sig. Nema hvað að það voru óvenju margir í strætó í þetta skiptið og fljótlega eftir að ég kem í vagninn sest fyrir aftan mig maður sem lyktar svona svakalega illa. Þetta var sambland af andfýlu vegna illra hirtra tanna, tóbaksreyks og vottur af áfengi þið vitið svona daginn eftir ilmur (eftir nokkurra daga stífa drykkju). Þeir sem til þekkja vita að þess lags blanda getur verið ansi þung í nös.

Þegar ég hélt að ég gæti ekki haldið þetta út lengur berst til mín annarskonar lykt sem kemur úr öðru líkamsopi en sú fyrri. Sú er svo svakaleg að mér finnst ég ekki geta andað lengur.
Fyrstu viðbrögð voru þau að reyna að halda niðrí mér andanum eins lengi og mögulegt er og freista þess að ná að halda andanum yfir verstu kviðuna. En það dugði ekki til og þið vitið hvernig þetta er þegar maður hefur haldið niðrí sér andan um í einhvern tíma, þá þarf maður nottla að anda duglega á eftir...

Og þegar þessi hrina var yfirstaðin tók við fyrri ilmur sem var þó að því leitinu skárri að það henni fylgdi ekki þessi ógurlega köfnunartilfinning eins og hinni.

Sem sagt eins sú mesta hryllingsstrætóferð sem ég hef upplifað lengi.

15. febrúar 2006

Frönsk og íslensk kórtónlist í Hallgrímskirkju


Næstkomandi sunnudag kl 17.00 munu kammerkórarnir Hljómeyki og Kór Áskirkju halda saman tónleika í Hallgrímskirkju á vegum listvinafélags kirkjunnar. Á efnisskrá verður frönsk og íslensk kórtónlist eftir Claude Debussy, Francis Poulenc, Báru Grímsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur og Þorkel Sigurbjörnsson. Þar á meðal verður eitt kröfumesta kórverk síðustu aldar, Messa í G-dúr eftir Poulenc og er þetta í fyrsta sinn sem verkið er flutt hér á landi.

Hljómeyki er fyrir löngu orðinn einn af þekktustu kammerkórum landsins. Hann var stofnaður árið 1974 og hefur frumflutt fjölmörg íslensk tónverk á Sumartónleikum í Skálholti síðastliðin 20 ár. Kórinn hefur þar að auki gefið út 4 geislaplötur með verkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur og Jón Nordal og mun á næstunni gefa út geisladisk með tónlist Hildigunnar Rúnarsdóttur.
Þrátt fyrir að vera stofnaður mun síðar eða árið 2001, hefur Kór Áskirkju einnig vakið töluverða athygli á undanförnum árum fyrir forkunnarfagran söng. Árið 2004 var geisladiskur kórsins, Það er óskaland íslenskt, tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna í flokki klassískrar tónlistar.
Stjórnandi kóranna á tónleikunum verður Kári Þormar organisti Áskirkju og stjórnandi Kórs Áskirkju. Aðgangseyrir er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir aldraða og öryrkja.

14. febrúar 2006

Stressvika framundan

Svaf frekar illa í nótt. Það er svo mikið að gera hjá mér í þessari viku. Ekki bara er verið að undirbúa tónleikana (í Hallgrímskirkju á sunnudag kl. 17. Kór Áskirkju og sönghópurinn Hljómeyki sameina krafta sína kostar kr. 2.000 inn) og aukaæfingar út um allt, heldur er líka allskonar annað. Þrjá daga í þessari viku þarf ég að hætta fyrr í vinnunni annarsvegar til að sinna skólastarfi (er í foreldraráði) og svo á ég tíma hjá tannlækni (er með skemmd og það þarf að bora) Fyrir utan þetta venjulega skuttl hingað og þangað með börnin í ballett og söng o.þ.h.

Það er þannig hjá mér að þegar svona margt er í gangi í einu að þá hamast heilinn við að muna þetta allt saman (þó ég sé búin að skrifa það kirfilega niður í Bókina) og raða niður hvernig best sé að leysa og sniða þetta inn í almenna dagskrá fjölskyldunnar. Það getur leytt af sér of-hugsun og þá er voðinn vís. Útkoman getur verið slæmur svefn, höfuðverkur og jafnvel vöðvabólga. Fyrstu einkennin eru að koma í ljós ...

Það verður gott að geta slappað af í næstu viku.

12. febrúar 2006

Fleiri myndir

Hrund hefur svolítið gert af því að taka svona fallegar myndir og hér eru nokkrar í viðbót sem teknar voru síðasta sumar












10. febrúar 2006

Góðan og blessaðan daginn!



Það er orðið hlýtt aftur, svaka fínt!
hmm ég hef eiginlega ekkert að segja, en stefnan er að koma brosköllunum aðeins neðar og vonandi úr augsýn. Er satt að segja komin með svolítið leið á þeim (kemst upp um mig er alltaf að kíkja á bloggið).

Hrund tók þessar myndir sem fylgja hér með. Ég hef alltaf verið einstaklega hrifin af sjávarmyndinni. Við létum stækka hana og hangir hún núna inni í stofu hjá okkur, virkilega fín mynd. Það er eitthvað svo einstaklega heillandi við sjóinn, finnst ykkur ekki?

9. febrúar 2006

Broskallar

Sko hér varði ég löngum tíma í að reyna að setja inn leiðbeiningar um hvernig best sé að koma brosköllum inn á bloggið, en til þess þarf að setja langa romsu á HTML máli sem bloggið mitt vildi ekki skilja að ætti ekki að lesa sem HTML. Þannig að ég gafst upp.
En til er síða sem hefur slóðina http://www.clicksmilies.com/ hún hefur að geyma margskonar broskalla og hefur hún flokkað þá í grúbbur, en það virkar ekki að nota slóðina beint þaðan það vantar fullt.

Kannski einhver þarna úti sé jafn klár og hann Elías minn til að finna þetta út sjálf(ur).

7. febrúar 2006

Skemmtileg ópera

Fór að sjá Öskubusku í Íslensku Óperunni. Skemmti mér svona glimrandi vel. Þetta er fjörug og létt ópera fyrir alla fjölskylduna. Fólk var þarna með pínulítilbörn sem voru bara nokkuð stillt, eitt barnið geyspaði stórum í eitt skiptið, en það var bara fyndið.
Ég ætla að sjá óperuna fljótlega aftur með stelpunum mínum því ég efast ekki um að þær hafi gaman að þessu líka.
Tónlistin er auðmeltanleg þó ekkert lagið væri sérlega grípandi að mínu mati þ.e. ég kom ekki sönglandi út af sýningunni.
Ég er sammála gagnrýnanda Moggans í dag.

6. febrúar 2006

Þetta kann ég!!!

Margir voru mjög undrandi að sjá hversu klár ég get verið þegar ég setti inn link í comment við blogg frænku minna Kolbrúnar í síðustu viku. En ég er ekki þannig að ég vilji vera sú eina sem get gert þetta svo hér er slóð inn á síðu sem kennir hvernig hægt er að gera allskonar svona töfrabrögð: http://www.web-source.net/html_codes_chart.htm/ kíkið endilega á þetta aldrei að vita nema þið sjáið eitthvað sem þið getið notað.
En þó ég sé ótrúlega klár þá tekst mér ekki að láta slóðina opnast þar sem ég vil. Það sem þið getið gert er eitt af tvennu. Smellið á slóðina sem ég gef upp og veljið HTML codes eða takið afrit af slóðinni og skellið inn í vafrann ykkar.
Og fyrst ég er svona gjafmild að gefa upp þessar upplýsingar langar mig að athuga hvort einhver hér úti kunni þau fræði að setja inn broskarla í bloggið og er tilbúinn til að opinbera þá kunnáttu hér. Það væri vel þegið :)

2. febrúar 2006

Það helsta í lífi mínu þessa dagana

Jú ég er að fá í mig hálsbólgu og kvef, líklegast hefur Eyrún smitað mig því hún liggur núna heima í svona veikindum litla skinnið. En ég verð að ná þessu úr mér fyirr næstu viku því þá verða stífar æfingar í Áskirkjukór, við erum að undirbúa tónleika með örðum kór sem verða núna í febrúar (betur auglýst síðar).

Svo er Kanadaferðin í sumar farin að pota sér inn í meðvitundina. Ég er að fara í mitt fyrsta kórferðalag til útlanda síðan ég hætti í barnakórnum hér um árið. Reyndar verður ekki farið fyrr en í júní, en í fyrradag borgaði ég staðfestingargjaldið og þá er það einhvernvegin orðið áþreifanlegra.

Í fyrradag áttaði ég mig á því hvað kókakóla skipar stóran sess í lífi mínu. Þann daginn sleppti ég því að sötra þennan 1/2 líter sem ég geri venjulega í kringum hádegisbilið og viti menn kl. 20 var ég að leka niður af þreytu og sleni. Ótrúlegt hvað lítið drukk hefur mikil áhrif. Lærði af þessu að sleppa aldrei úr kóksopanum mínum :)

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...