17. mars 2011

Að berjast við vindmyllur.


Margir álíta mig stórskrítna fyrir það að hjóla til og frá vinnu allan ársins hring. Þetta er minn þriðji vetur í hjólreiðum en fyrsta veturinn bjóst ég alveg við því að gefast upp fyrir veðri og vindum, en í raun er ekki eins erfitt og menn halda að hjóla á veturnar - ef maður er rétt útbúinn. (Það sama má í raun segja með sumarið).


En það erfiðasta við vetrarhjólreiðarnar er snjórinn sem ekki er skafinn. En Reykjavíkurborg er metnaðargjörg varðandi hjólreiðar og vill gera borgina hjólavæna, það er a.m.k. það sem sagt er. Á meðfylgjandi mynd er sýnt hvernig stígar í Reykjavík eiga að vera hreinsaðir af snjó skv. áætlun. En það sem ég get ekki fundið upplýsingar um er hversu oft þetta á við. Ef það t.d. snjóar í nótt og það er skafið og svo heldur áfram að snjóa pínulítið næsta sólarhringinn og kannski skefur smá - á þá aftur að skafa á morgun?
Þetta á nefninlega við um síðasta sólarhring. Í gærmorgun hjólaði ég eftir Sæbrauinni og skv. áætluninni á að byrja á því að skafa þar frá Kringlumýrarbraut og að Hörpu (engin tímatakmörk sett þar samt sem áður), en þar var ekki búið að skafa fyrir kl. 8.
Svo ég sendi þennan póst til Reykjavíkurborgar undir heitinu "Kvörtun. Snjóhreinsun á stíg við Sæbraut":
"Skv. áætlun um snjóhreinsun stíga sem finna má á vef Reykjavíkurborgar (hér setti ég slóðina á kortið sem fylgir þessu bloggi) á að hreinsa stíginn við Sæbraut frá Kringlumýrarbraut að Hörpu á undan stígum sem hreinsaðir eru fyrir kl. 8. Það var ekki búið að hreinsa þann bút þegar ég hjólaði þar í morgun rétt fyrir 8. En okkur sem hjólum munar mikið um það að stígarnir séu hreinsaðir."

Seinna um daginn fékk ég þetta svar:
"Sæl Bjarney,við fórum út að vinna við hjólastígana kl 5,30 í morgun,
við erum með verktaka á Sæbrautini,
hann var eitthvað á eftir,
en hann var búinn að klára kl 8,30,
líklega hefur hann endað á Sæbraut. "


Svo í morgun þegar ég lagði af stað hugsaði ég mér að fara eftir Suðurlandsbrautinni þar sem sú leið er styttir en leiðin sem ég fer vanalega og yfirleitt skjólbetri. Skv. kortinu er hluti þeirrar leiðar í forgangi. En ég gafst fljótt upp á þeirri leið þar sem ekki var búið að hreinsa hana í morgun og fyrir ofan Laugardalinn safnast snjórinn mjög fljótt í skafla sem gerir stíginn ófærann. Þá tók ég þá ákvörðun að hjóla eftir Kringlumýrarbrautinni því skv. póstinum sem ég fékk í gær þá byrja þeir verulega snemma að skafa stígana og þá eru meiri líkur á því að búið væri að skafa þann stíg. En nei, því miður þá var það ekki heldur búið og leiðin var þungfær á köflum.

Eiginlega þyrfti maður að fá að vita, í svona færð, hvar byrjað er að hreinsa svo maður getir stefnt á þá stíga - ef það er nokkur möguleiki.

Aðalatriðið er þó í þessu að það er svo gaman að hjóla og að mínu mati er þetta besta leiðin til að koma sér til og frá vinnu. Það er í raun frábært að það skuli vera hægt á veturnar. En það gæti líka verið svo mikið auðveldara ef hreinsunardeildin færi eftir áætluninni sem gerð hefur verið.

2. mars 2011

Hjólafréttir

Í morgun var ég 35 mín á leið í vinnuna (þessa sömu leið hef ég verið að hjóla á rétt rúmum 20 mín undanfarið). Enda var færðin á stígunum almennt mjög slæm. Í gær var snjókoma um morguninn sem smámsaman breyttist í slyddu og síðan rigningu. Í morgun sást að snjóað hafði í nótt. Þetta leiddi til þess að færðin var afleit þar sem ekki var búið að skafa.

Það voru 5 hjólreiðamenn sem ég sá til í morgun og 3 þeirra hjóluðu á götunni þar sem maður er almennt ekki vanur að sjá hjólreiðamenn. Sá fyrsti hjólaði eftir Suðurlandsbrautinni og hinir tveir eftir Grensásveginum (í sitt hvora áttina), annar þeirra var með kerru í eftirdragi. Á nokkrum stöðum apaði ég eftir þeim þar sem ég gafst upp á að puðast eftir stígunum. En sumstaðar var þó búið að skafa.
Á myndinni sést leiðin sem ég hjólaði og hef ég litað hana eftir kúnstarinnar reglum.












Litirnir tákna:
Grænn: Búið að skafa stíginn og hann greiðfær
Rauður: Ekki búið að skafa og stígurinn illfær
Fjólublár: Hjólaði á götunni (með hjartað í buxunum á Miklubrautinni a.m.k.)
Þetta er í fyrsta skiptið sem ég hjóla á Miklubrautinni, en ég hef hjólað eftir Sæbraut og það var ekki eins mikið mál og ég bjóst við. Akgreinar þar eru nokkuð breiðar og ökumenn sýndu tillitsemi. En núna, þó ég hjólaði eftir strætóakgrein á Miklubrautinni þá fannst mér bílarnir vera mjög ógnandi og mér leið verulega illa. Maður finnur líka mikið fyrir menguninni af bílunum og mér leið ekki vel að anda að mér því ógeði.

20. febrúar 2011

Að eiga ekki bíl.

Chris Hrubesh býr í Atlanta, hann ákvað að hætta að eiga bíl og ferðast nú aðallega á hjóli. Með því að smella HÉR getið þið séð videó þar sem hann segir frá reynslu sinni.
Mér finnst reyndar svolítið skrítið að sjá hann hjóla á akreininni lengst til vinstri, ætli hann upplifi sig minnst fyrir þar?

7. febrúar 2011

Snjómokstur í borginni.

Ég labbaði heim úr vinnunni í dag. Veðrið var fallegt, aðeins kalt (-4°) og hefði verið betra að vera í hlífðarbuxur en göngutúrinn var bara hressandi. Í morgun lagði ég ekki í að fara á hjólinu því ég hafði tekið eftir því í gær þegar ég var á ferðinni í bílnum að stígar voru ansi misjafnlega vel skafðir.

Á fyrstu myndinni er ég að ganga frá Hlemmi. Stígurinn þar er þröngur og líklega erfitt að koma moksturstækjum á hann, enda leit hann út eins og tæki hefði verið ekið um hann en ekkert endilega neitt skafið. Svo hafa moksturstæki sem skafa götuna ausið slabbi og salti yfir stíginn (nú er ég auðvitað bara að giska) sem gerði það að verkum að á stígnum var mikið slabb og erfitt að fótasig.

Þetta skánaði töluvert þegar komið var fram hjá Fíladelfíu, þar var betur skafið og ekkert slabb á stígnum, en hann var allt of þröngur og ekki gott að mæta öðrum gangandi, hvað þá hjólandi.



Ég sé eftir því að hafa ekki tekið mynd af gatnamótunum Laugavegur-Kringlumýrarbraut því þau voru hrikaleg. Virtust ekki hafa verið skafin og hraukar af slabbkenndum snjó.

En þegar yfir þau gatnamót var komið tók við draumur þess sem ferðast um borgina gangandi eða hjólandi. Þessi stígur var virkilega vel skafinn alveg að Glæsibæ. Þvergötur vandaðar og hvergi hrauk að sjá. Sá sem skafar þarna er greinilega fagmaður á sínu sviði. Þetta var unun að sjá.


Það sama má þó ekki segja um gönguljósin sem liggja frá þessum stíg yfir Suðurlandsbrautina. Eins og sést á myndinni hefur ekkert verið skafað.



En hérna tók ég mynd af því að svona ættu þessi gatnamót að vera að mínu viti. En í raun eru þau ekki svona, hér er farið fram af kantsteini og komið beint á kantstein hinu megin. Stígurinn sem sagt liggur í sveigju niður til vinstri beggja vegna við götuna. Það er galli að þeir sem hanna stígana virðast almenn ekki nota þá og hugsa meira um útlit en hagkvæmni. Þegar ég hjóla þessa leið þá er þægilegra fyrir mig að hjóla neðan við eyjuna, það er minni sving og sveigja í þeirri leið.

Hér er ég komin að gatnamótunum hjá Glæsibæ (sést í húsið sem Hreyfing er í og svo TBR húsið þarna hægra megin), en á þarna einmitt, undir öllum snjónum er stígur sem ég ætlaði að ganga eftir í áttina heim. En hann hefur bara ekkert verið skafinn!



Svo var það stígurinn meðfram Álfheimunum. Hann var almennt ágætlega mokaður, en svo komu bútar þar sem innkeyrsur á bílastæði og það eru leiðindasvæði.


Hérna hefur moksturinn af bílastæðinu til vinstri farið yfir á gangstíginn og tækið sem mokaði stíginn ekki unnið á snjóhrúgunni.
Stígarnir eru sem sagt ansi misvel mokaðir og hreinsaðir. Sumir stígar eru í forgangi og er mokaðir fyrst, en vandamálið er að komast á þá. Hér er slóð á kort hjá Reykjavíkurborg sem sýnir forgang í snjóhreinsun stíga.

3. febrúar 2011

Miðvikudagur 2. febrúar 2011


Ekki beinlínis minn happadagur.

Það hafði snjóað í nótt, loksins, og búið að spá hvassviðri á suðurlandi sem átti að færa sig yfir á vesturlandið með deginum. Þegar ég lagði af stað á hjólinu í vinnuna var hinsvegar ágætis veður og snjórinn ekki það mikill að hann tefði för á hjólinu. Það var sem sagt ekkert að færðinni og fínt að hjóla.

En ég var ekki komin langt, var að hjóla yfir gatnamótin hjá Grensásvegi og Fellsmúla þegar framhjólið fer ofan í holu og ég flýg af hjólinu og skell á gangstéttinni. Á meðfylgjandi mynd hef ég sett rauðan hring utan um hættusvæðið. En holuna sá ég ekki fyrir snjónum.
Svona holur eða misfellur eru allt of algengar í borginni okkar. En í tilefni fallsins sendi ég tölvupóst til Reykjavíkurborgar og sagði farir mína ekki sléttar og bað um að sett yrði viðvörun við holuna þar til hægt væri að gera við hana svo fleiri lentu ekki í því sama og ég. Ég hef fengið það svar að tekið sé við þessari ábendingu.
Eftir að hafa staðið upp þá lagfærði ég keðjuna á hjólinu (en hún hafði hrokkið af), sparkaði snjónum upp úr holunni og hélt svo áfram í vinnuna. Ég fann mest til í öxlinni og verkurinn ágerðist eftir því sem nær dró vinnunni. Annars var ég aðeins með smávægileg sár á öðru hnénu og einum fingri. Líklegast hefur vetrarfatnaðurinn bjargað miklu, en maður er ágætlega dúðaður á hjólinu á þessum árstíma.
Eftir vinnu ákvað ég að fara á slysavarðstofuna því öxlin var eitthvað skrítin og mér fannst það ekki lengur alveg samræmast því að ég væri bara marin eins og ég hélt í fyrstu. Eftir 2 tíma bið hitti ég lækninn sem sendi mig í röntgen og sem betur fer er ég ekki brotin, en er hinsvegar tognuð. Þetta er á svæðinu þar sem viðbeinið mætir herðablaðinu. Svo nú er að bryðja Ibufen í nokkrar vikur og láta þetta batna.
Ég gerði síðan verðsamanburð á Ibufeni 600mg, 100stk í nokkrum apótekum og hér er niðurstaðan:
kr. 2.234,- Lyf og heilsa, Glæsibæ
kr. 1.953,- Apótekið, Hagkaup Skeifunni
kr. 1.838,- Lyfjaver, Suðurlandsbraut
kr. 1.453,- Lyfja Lágmúla (já, ég var líka svakalega hissa, hélt að þetta væri dýrasta apótekið þar sem það er opið svo til allan sólarhringinn,en svona er nú það).
Nei, það kom í ljós að þessi upphæð stóðst ekki. Þegar á staðinn var komið var verðið í Lyfju kr. 2.220,- sem er frekar fúlt, en þar sem ég hafði þurft að bíða í hálftíma eftir að fá lyfið lét ég slag standa og keypti það hjá þeim eftir svolítið tuð og óánægjuröfl.

27. janúar 2011

Hjólavagninn


Nú er vagninn tilbúinn og búið að fara í fyrstu prufuferð.

Við settum fullt af drasli í töskuna sem samtals voru 13 kg að þyngt og tókum einn hring um hverfið. Hann virkaði vel, maður finnur aðeins fyrir þyngdinni og þegar farið er upp eða niður kanta þá kippir örlítið í, en ekkert sem getur talist óvenjulegt eða öðruvísi en búast mætti við.
Það var ekkert mál að beygja hvort sem ég fór frekar hratt í beygjuna eða hægt. Gat ekki fundið að hann væri að toga mig til hliðana. Svo ég er mjög bjartsýn á að hann nýtist vel.

Stefni á að hlaða endurvinnslupappir á hann í dag og hjóla niður í gám til að reyna hann frekar. Það er helst þegar hann er tómur sem maður þarf að gæta sín því hann vill skoppa, hann er það léttur.

21. janúar 2011

Nýr hjólavagn í smíðum


Hér er hann í fyrstu mátun við hjólið, eins og sést þá þarf að laga ýmislegt. Eins og t.d. að minnka bilið frá hjólinu að vagninum.
Síðan verður settur gatabotn í kerruna og stangir á hliðarnar til að halda farangrinum á sínum stað.
Dýrasti hlutinn hingað til sést ekki á myndinni en það er pinni sem gengur í gegnum miðjuna á afturhjólinu á hjólinu sjálfu, sem kerran húkkast svo uppá. En það verður mjög einfalt að tengja kerruna við hjólið og taka hana af aftur, eftir þörfum.

5. janúar 2011

Hjólafréttir - færð á stígum.


Það var heldur kalt í dag og færðin á stígnum við Sæbrautina þar sem hann liggur hvað næst sjónum var ekki góð. Í veðrinu í gær gusaðist sjór upp á stíginn og eftir sat slabb, klakahimna og steinvölur hér og þar. Slabbið var leiðinlegt yfirferðar og skrikaði hjólið helst til of mikið í því eins þar sem steinarnir voru var erfið yfirferð.
Ég sendi beiðni til Reykjavíkurborgar um að þetta væri hreinsað en fékk svör til baka að það væri ekki hægt fyrr en hitastigið færi upp fyrir frostmark. Því ákvað ég að hjóla aðra leið heim og mun ekki hjóla þessa leið meðan hún er í þessu ástandi.
Myndina tók ég á leiðinni heim í gær, en rokið vildi ekki leyfa mér að vera í friði og þess vegna er hún svona hreyfð.

2. janúar 2011

Hjólaárið 2010

Á árinu hjólaði ég samtals 2.760 km og var 165 klst og 46 mínútur að því. (Það eru 612 km meira en ég hjólaði árið 2009)

Þetta var gott hjólaár og rættust draumar um að hjóla lengri vegalengdir og að fara í dagshjólatúra með góðu fólki. Jafnframt því að það vakti upp nýja drauma um lengri ferðir og fleiri.
Við hjóluðum Hvalfjörðinn einn daginn í fínasta veðri. Og svo var skipulögð fjölskylduvænni ferð um Suðurnesin og þar vorum við næstum of heppin með veður þar sem sólin skein allan daginn og nokkrir voru sólbrenndir á eftir. En við ætlum okkur að endurtaka þann hring á árinu 2011.

Af einhverri ástæðu hef ég vanið mig á það að telja þá hjólreiðamenn sem ég sé á morgnana þegar ég hjóla til vinnu. Og af því tilefni ætla ég hér að setja inn upplýsingar um þær tölur. Talning á sér stað milli kl. 7:30 og 8:00 þá virka daga sem ég mæti til vinnu.
Mesti fjöldi hjólandi sem ég sá á einum morgni voru 64 þann 17. maí. Þá var átakið hjólað í vinnuna í hámarki og ég hjólaði um Fossvogsdalinn en þar eru alltaf mjög margir að hjóla a.m.k. á sumrin. Næst mest voru það 50 (svona til samanburðar).

Að meðaltali sá ég þetta marga hjólreiðamenn á morgnana hvern mánuð:
Janúar - 2 á dag
Febrúar - 2 á dag
Mars - 3 á dag
Apríl - 7 á dag
Maí - 17 á dag
Júní - 16 á dag
Júlí - 8 á dag (þá var ég sjálf í sumarfríi og greinilega fleiri líka)
Ágúst - 20 á dag
September - 7 á dag
Október - 6 á dag
Nóvember - 5 á dag
Desember - 2 á dag.

Bara í janúar, febrúar og desember komu dagar þar sem ég sá engann hjólreiðamann á leiðinni. Þeir voru ekki margir dagarnir sem ég sleppti að hjóla vegna veðurs, en þó einhverjir. Lengst var ég 35 mínútur í vinnuna en þá var snjór yfir öllu og ekki búið að moka stígana og ég þurfti að teyma hjólið þónokkuð því það var of þungt að hjóla. Fljótust var ég 14,36 mínútur. Það var 23. júní í góðum meðvindi.

Samtals hjólaði ég 219 daga af árinu og hef ég þá að meðaltali hjólað 12 km í hverri ferð. 146 daga hjólaði ég ekki neitt.

Ég var ekki eins dugleg að hlaupa á árinu. Hljóp ekki nema 35 km allt í allt (það eru 81 km minna en árið 2009), en takmarkið er að bæta það heilmikið á nýju ári. Og mun ég stefna á að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar.

Þessar upplýsingar get ég nálgast vegna þess að ég skrái allar mínar hjólaferðir og hlaup inn á síðuna http://www.hlaup.com/ og hún býður upp á og heldur utan um svona tölur fyrir mann. Með smá reikni kúnstum getur maður svo fundið út hitt og þetta í tengslum við það. Frábær síða að mínu mati.

31. desember 2010

Kerra fyrir hjólið

Elías smíðaði kerru til að tengja við hjólið mitt. Mamma og pabbi eru með hana í prufukeyrslu núna, eru búin að fara út í búð og kaupa í matinn og fleira. Hafa komið með ýmsar ábendingar um betrumbætur, sem er gott að fá.

Einn kosturinn við þessa kerru er að hún tekur lítið pláss í geymslu, en hún leggst saman. Þ.e. dekkið og armurinn leggjast inn á kerruna þegar hún er ekki í notkun og það fer ótrúlega lítið fyrir henni.

Hugmyndin að kerrunni kom frá mömmu og pabba því þau eru að plana að hjóla hringinn næsta sumar. Þá þurfa þau meiri farangur með sér og kerra sem dregin er eftir hjólinu gæti verið góður kostur. Þau báðu Elías um að leita eftir notaðri kerru á netinu, því svona kerrur kosta töluverðan pening nýjar út úr búð. Elías fór að leita, en fann ekki notaðar til sölu en sá hinsvegar margar gerðir og útgáfur af svona kerrum og taldi sig vel geta smíðað eina slíka. Svo hann gerði það og þetta er afraksturinn.

9. desember 2010

Vika

Nú fer þetta allt að koma, bara vika þar til Hrund kemur heim.

Það hefur verið nóg að gera í kór-stússi þessa dagana, svona af því að í augnablikinu er ég að syngja í tveimur kórum. Á sunnudaginn var aðventusamkoma í Áskirkju. Svo á þriðjudag var kóræfing þar og í gær kóræfing hjá Fílharmóníunni. Í kvöld verður líka æfing hjá Fíló, en ég kemst ekki þá og en ég fer á laugardagsæfinguna. Svo á sunnudagskvöldið eru fyrri tónleikarnir. Ég hlakka til að heyra þetta allt koma saman með einsöngvara og hljóðfæraleik. Þetta verða örugglega skemmtilegir tónleikar. En það verðu líka gott þegar þessi törn er búin.

2. desember 2010

Tvær vikur.

Eftir nákvæmleg tvær vikur verður Hrund komin heim til okkar í jólafrí. Þá verður hægt að fara að baka piparkökur. En við verðum að finna kasettutæki til að geta spilað aðal-jólalögin sem eru á spólu.

Í nótt dreymdi mig að ég var að labba heim með einhverjum, líklegast útlendingi og það hafði snjóað töluvert. Og ég hlakkaði svo til að komast heim til að moka snjóinn.

Í gær gleymdi ég að vökva Írsku jólakökuna, hún fékk því tvöfalldan skammt í dag :)

24. nóvember 2010

Aðventan

Í dag eru 3 vikur og 1 dagur þar til Hrund kemur heim í jólafrí frá París. Við erum mikið farin að hlakka til að fá hana heim aftur.

Næsta sunnudag er svo fyrsti í aðventu, þá verður lítill pappakassi tekinn niður af háaloftinu sem merktur er þessu tímabili og fyrsta jólaskrautið fær að príða húsið.
Svo fer að koma tími fyrir piparkökubakstur og í ár ætla ég að baka Írsku jólakökuna í fyrsta skipti og þarf ég að fara að drífa í því svo hún verði fín og flott fyrir jólin.

4. nóvember 2010

Fyrsti snjórinn

Og þá er ég komin í fullan vetrarskrúða. Gönguskór og ullarsokkar toppa lýsinguna á færslunni frá því í gær. Í morgun gleymdi ég ekki vettlingunum frá Eyrúnu svo ég var ansi vel búin.

Ekki var farið að skafa stígana sem ég hjólaði í morgun, annars var færðin bara nokkuð góð. Ég var u.þ.b. 3-4 mín lengur á leiðinni en undanfarna daga, það er þyngra að hjóla í snjónum.

3. nóvember 2010

Hjólafréttir - Vetrarklæðnaður

Nú er farið að verða ansi kalt. Hitastigið undir frostmarki og norðanvindurinn blæs. Mér finnst ótrúlegt hvað ég finn lítið fyrir kuldanum á leiðinni í vinnuna. Mér var örlítið kalt á fingrunum fyrri part leiðarinna, en það er af því að ég gleymdi að taka vettlingana sem Eyrún heklaði handa mér og ég hef utan yfir fingravettlingana þegar veðrið er svona kalt.
Svo beit aðeins í kinnarnar.
En svona er ég klædd á hjólinu:
Gallabuxur og regn-/útivistarbuxur frá Didrikson utan yfir. Svo er ég í bómullarbol , lopapeysu og með hálsklút út bómull og utan yfir það er regn-/útivistarjakki frá Didrikson.
Á höfðinu hef ég buff sem ég fékk í kvennahlaupinu í vor og svo hjálm þar yfir.
Ég er ekki enn komin í vetrarbúninginn á fótunum og er í sumarskónum og í bómullarsokkum en ég finn enn ekki fyrir kulda á tánum, sem mér finnst frekar skrítið því skórnir eru hálf opnir.
Fingurnir eru svo huldir með fingravettlingum úr ull og þegar svona kalt er set ég yfir þá vettlingana frá Eyrúnu, sem þó gleymdust í morgun.
Það er talað um að maður eigi ekki að vera í bómull næst sér því hún dregur í sig bleytu eins og svita og það er alveg rétt og ef ég færi lengri leið þyrfti ég að breyta þeim fatnaði en bolurinn virkar vel þessar 20 mín sem tekur mig að komast til og frá vinnu.

27. október 2010

Fyrsti dagur í hálku

Í dag var héla á götum og gangstéttum þegar ég lagði af stað í vinnuna. Núna var ég glöð að vera komin á nagladekkinn, þó ég hafi verið farið að hugsa að ég hefði verið of fljót á mér að setja þau undir.

Ég sá 5 aðra hjólreiðamenn í morgun en ég gat ekki heyrt að nokkur þeirra væri á nagladekkjum þannig að það eru margir sem eru óhræddir við hálkuna.

Veturinn leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við hann. Vonandi verða stíga mokaðir nógu snemma þegar snjórinn lætur sjá sig því það er eitt af því erfiðasta sem ég lendi í að hjóla í miklum snjó. Það er ansi þungt. Þá er kári vinur minn viðráðanlegri þó hann eigi til að blása ansi stíft.

11. október 2010

Hjólafréttir.

Komin á nagladekkin og tilbúin undir veturinn, þó hann hafi lítið látið á sér kræla þetta haustið. Htitnn 10°c þegar ég lagði af stað í vinnuna í morgun.
Alltaf svolítið skritið að hjóla fyrst á nöglunum en mér líkar vel við brakið í þeim því það lætur aðra vegfarendur vita þegar ég kem aftan að þeim.

26. september 2010

Hjartadagshlaupið


Í morgun hlupum við pabbi í Hjartadagshlaupinu 5 km. Það var rok og rigning allan tímann. Til að byrja með var vindurinn í bakið, svo á móti en endaði sem meðvindur.
Við fórum þetta á 36 mín skv. minni garmin græju en ég er ekki búin að sjá úrslitin og hvaða tíma við erum skráð með þar. Myndin er tekin fyrir hlaupið og Kristinn er þarna með okkur en hann hljóp 10 km.


Það var nú bara þónokkur hópur að hlaupa þrátt fyrir veðrið og ég er mjög ánægð með að hafa farið með pabba í þetta. Það er svo ótrúlega gaman að hlaupa í svona hlaupum. Þegar ég hef verið að puðast þetta ein í hverfinu eru 3 km alveg meira en nóg. Og þess vegna m.a. svaf ég frekar illa í nótt þar sem ég taldi mig varla geta hlaupið þetta í dag og í þessu veðri. En það er bara allt annað að hlaupa með einhverjum.
En ég verð samt að viðurkenna að núna er ég ansi orkulaus og ekki til í mikið erfiðara verkefni en að sitja í sófanum og prjóna.

19. september 2010

Minning. Kisinn Brandur.

Brandur er allur.

Hann kom inn í fjölskylduna okkar í september 2003 úr Kattholti. Lítill og með kvef. Það var ekki vitað hvenær hann fæddist en talið var að hann hafi verið 3-4 mánaða.

Hrund fékk hann í afmælisgjöf og fórum við saman í Kattholt til að skoða kisurnar þar. Hrund hafði nú eiginlega hugsað sér að fá sér læðu, en Brandur heillaðist af henni og þá var ekki aftur snúið.

Það voru dverghamstrar á heimilinu þegar Brandur kom og var hann gagntekinn af þeim, svo mikið svo að hamstrarnir þurftu að flytja búferlum inn í svefnherbergi. Brandur litli varð nú frekar svekktur yfir þessu.

Svo liðu árin og Brandur stækkaði og stækkaði. Hann átti kisu vini um allt hverfið og af og til komu kisur til okkar í pössun og það var ekkert vandamál, Brandur var hinn besti fóstri og tók þær að sér.

Hann vissi fátt skemmtilegra en að fara ofan í kassa og var alltaf jafn forvitinn að vita hvort hann kæmist (og við stundum að vita hvort hann kæmist uppúr aftur).

Svo fyrir rúmu ári síðan fluttum við úr Karfavoginum í Skipasundið. Það var ekki góður tími fyrir Brand, hann var ekki alveg að átta sig á þessari vitleysu að breyta um umhverfi og var alltaf að stinga af í gamla hverfið. Oftast gátum við sótt hann í Karfavoginn eða á Vogaskólalóðina en það kom fyrir að hann fannst ekki í nokkra daga jafnvel vikur.

En loksins áttað hann sig á nýja heimilinu og þá varð hann mikið rólegri en hann hafði nokkru sinni áður verið. Þegar gestir komu í heimsókn stakk hann ekki af eins og hann hafði gert þangað til heldur sat hinn rólegasti á þeim stað sem hann hafði valið sér þá og þá stundina. Menn höfðu orð á breytingunni sem orðin var á honum, jafnvel fengu sumir að klappa honum sem áður höfðu ekki fengið tækifæri til þess.

Brandi fannst gaman að leika úti í garðinum og var mikið að skottast í kringum okkur ef við vorum úti. Hann var líka námsfús sem sást best á því að þegar stelpurnar voru að læra heima vildi hann fá að lesa í bókunum líka og settist ævinlega ofan á skólabækurnar fengi hann tækifæri til þess.

Í dag varð Brandur fyrir bíl og dó samstundis. Við munum sakna hans.

31. ágúst 2010

Brandur




Brandur var bitinn, lílegast af öðrum ketti. Í gær fór hann á dýraspítalann og þar var sárið hreinsað og saumað. Hann kom svo heim í morgun með kraga eins og sést á myndunum. Þeta þarf hann að vera með í 10 daga.

23. ágúst 2010

Fleiri hjólafréttir


Á heimleið í dag prófaði ég að hjóla Hverfisgötuna og er það í fyrsta skipti eftir að hún var gerð að hjólavænni götu. Ég varð fyrir miklum vonbrygðum og fannst alls ekki gott að hjóla hana eins og hún er núna. Ekki nema bara akkúrat þegar ég var á grænmáluðu strimlunum.
Það sem er að (að mínu mati) er að af og til þarf að fara inn á götuna sjálfa, þar sem þrengingar eru og á gatnamótum. Mér fannst það óþægilegt og stressandi. En ég stefni þó að því að hjóla þetta aftur því það er kannski ekki alveg að marka svona í fyrsta skiptið.
Annað; Á einum stað kom hjólandi vegfarandi á móti mér á græna strimlinum. Er það ekki misskilningur hjá viðkomandi hjólreiðamanni? Eiga hjólreiðamenn ekki að halda sig hægramegin á götunni?

Í morgun var ég næstum búin að hjóla beint í veg fyrir akandi umferð.

Þannig er að ég hjóla eftir Sæbrautinni í átt að miðbænum. Þar sem stígurinn endar við Hörpu tónlistarhús fer ég yfir á ljósunum.

Í allt sumar hafa ljósin verið þannig stillt að ljósið verður rautt á þá sem fara beint og svo kemur beygjuljósið (fyrir þá sem aka Sæbrautina) eftir það verður grænt fyrir þá sem fara þvert yfir Sæbrautina.

Og í morgun kem ég aðvífandi einmitt þegar beygjuljósið er orðið rautt og ætla beint yfir (eins og ég hef gert svo oft áður) en þá er búið að breyta ljósunum. Og rétt áður en ég er komin út á akveiginn er bíl ekið beint fyrir mig. Mér krossbrá og nauðhemlaði og rétt náði að stöðva í tæka tíð.

Það er sem sagt búið að breyta ljósunum þannig að það kemur ekki grænt ljós fyrir þá sem fara þvert nema bíll bíði á ljósunum eða að stutt er á hnappinn.
Mikið svakalega brá mér. Þarna hefði ég svo auðveldlega getað endað sem klessa á götunni. Af hverju ætli ljósunum sé breytt svona? Er sumar- og vetrartímar á umferðaljósunum?

21. ágúst 2010

Reykjavíkurmaraþon

Ég og Eyrún hlupum 3 km í Reykjavíkurmaraþoninu í dag. Ljómandi fínt hjá okkur, tókum líka þennan flotta endasprett þar sem ég reyndi eins og ég gat að ná Eyrúnu sem allt í einu fann einhverja aukaorku og þvílíkt spretti úr spori.

24. júlí 2010

Hjólaferð um suðurnesin.






Þetta er rétt hjá Eyrúnu ég ætlaði að skrifa texta með myndinni. Við sem sagt fórum í þessa skemmtilegu hjólaferð í frábæru veðri. Vorum 24 allt í allt (ef ég man rétt) þar af 3 sem sátu í barnasætum.


Nokkrar staðreyndir um ferðina:
Heildarvegalengd: 27 km. (Keflavík-Sandgerði 11,5 km, Sandgerði-Garðskagaviti 6,5 km, Garðskagaviti-Keflavík 9 km)

Hjólatími (tíminn ekki stoppaður í styttri stoppum): 1 klst og 57 mínútur.

Meðalhraði: 14 km/klst

Við höfum bíl með kerru með okkur alla leið. Honum var ekið nokkra kílómetra á undan og beið svo. Það kom sér vel því sumir, sérstaklega af yngrikynslóðinni urðu ansi þreyttir. Enda ekki skrítið þar sem litlu hjólin þarf að stíga hraðar en þau stærri.


Á leiðinni eru engar brattar brekkur, aðeins aflíðandi. En sú lengsta og brattasta af þeim var strax í upphafi. Við hófum og enduðum hjólreiðarnar við Duus hús í Keflavík.


Í Sandgerði fengum við okkur að borða og skoðuðum svo Fræðasetrið sem er náttúrugripasafn og hluti af því er innréttað eins og var í skipinu Pourquoi pa? og er það mjög svo áhugavert að upplifa og sjá. Það var mótvindir þegar við hjóluðum frá Sandgerði og út á Garðskaga og nokkrir voru þarna farnir að finna til þreytu, enda voru ferðalangar mjög mis vanir hjólreiðum, en tilgangur ferðarinn var ekki að fara hratt yfir og við stoppuðum af og til og hér og þar og fengum þá fræðslu frá Hildi móðursystur um landið og söguna en hún er einstaklega fróð um þetta landsvæði.


Við Garðskagavita tókum við okkur góða og langa hvíld. Fengum okkur aftur að borða og lögðumst/settumst á grasið og höfðum það notarlegt. Nokkrir vildu komast upp í vitann, en til að gera það þarf að fá lykil í þjónustumiðstöðinni. Enginn fær að fara upp í vitann sem er yngri en 18 ára nema í fylgd því vitinn getur verið varasamur ef menn fara ekki gætilega. En það var vel þess virði að fara upp í vitann því útsýnið efst úr honum er frábært.


Við lögðum af stað á hádegi og vorum komin aftur til Keflavíkur kl. 18. Svo allt í allt var þetta 6 klst ferðalag. En það var virkilega gaman og ferðafélagarnir skemmtilegir. Svona ferð verður endurtekin, það er bara eftir að finna út hvert við förum næst.


9. júlí 2010

Hjólafréttir


Ég og Eyrún hjóluðum í heimsókn í Kópavoginn og heim aftur. Veðrið var dásamlegt, glampandi sól og svolítill vindur a.m.k. af og til. Fórum fyrst Kópavogsdalinn en þar eru stigar upp og niður og út og suður í beygjur og bugður. Það hentaði Eyrúnu ekki vel.

Á heimleið fórum við Fossvogsdalinn og hann hentaði okkur betur. Breiðari stígar og beinni. Vorum sérstaklega hrifnar af hjólastígnum.

7. júlí 2010

Hjólaferð um Hvalfjörð.



Nokkrar staðreyndir um hjólatúrinn:
Vegalengd: 60,2 km
Hjólatími: 3 klst og 50 mín
Ferðatími: 6 klst.
Meðalhraði: 15,7 km/klst
Hámarkshraði: 52,5 km/klst
Veður: Fínt, smá vindur, eitthvað af sól, einn rigningarskúr.
Ferðafélagar: Abelína Hulda, Halldór, Elías, Guðlaug, Adda, Þórhallur og ég.




Lögðum af stað úr bænum um kl. 9 á 2 bílum og ókum að Hvalfjarðarvegi norðanmegin. Þar fóru hjólagarpar úr bílunum og annar bíllinn fór í bæinn aftur, bílstjórinn Aðalheiður en hún ætlaði svo að koma aftur eftir hjólatúrinn og sækja hjólreiðamenn. Hinn bíllinn með kerru aftan í ferðaðist með okkur og skiptust menn á því að keyra bílinn 5-10 km á undan hópnum og hjóla svo á móti hinum.


Hjóluðum af stað kl. 10. Veðrið var fínt, svolítill mótvindur en ágætlega hlýtt. Til að byrja með var leiðin aflíðandi upp í móti. Ferðafélagar voru misvanir hjólreiðum og það dreifðist aðeins úr hópnum en við hittumst þó alltaf hjá bílnum aftur. Sumum fannst góð hvíld að fá að keyra bílinn af og til. Í botni Hvalfjarðar stoppuðum við í svolítinn tíma, fengum okkur að borða og aðeins slökuðum á, þá búin að hjóla 25 km. Þar voru flugur svolítið að stríða okkur og einhverskonar flær (þó þær væru ekki eins pirrandi og flugan).
Þriðjudagurinn varð fyrir valinu því við töldum að þá væri umferðin líklega ekki eins mikil og um helgi. Það var samt töluverð umferð og ótrúlega margir ökumenn óhræddir að aka á öfugum vegahelmingi á móti blindhæðum og beygjum til að komast fram úr okkur. Það er mesta mildi að ekki komu bílar á móti. En allt gekk vel, engin slys sem betur fer.
Fyrir ferðina hafði ég bæði verið kvíðin og full tilhlökkunar. Því ég hef oft látið mig dreyma um að hjóla þessa leið, en kvíðinn var út af því að ég hélt að kannski væri leiðin allt of erfið. Það er svo skrítið hvernig maður getur miklað hluti fyrir sér. Staðreyndin er sú að þetta var yndislega skemmtilegur túr og maður auðvitað fer á sínum hraða og eftir sinni getu.
Við ræddum það á leiðinni hvað það er mikil sind að hvað menn almennt halda að það sé erfitt aðhjóla þegar í raun er það auðvelt. Og þá vorum við ekki að tala um að fara í svona ferðir heldur bara almennt að hjóla milli staða innanbæjar. En líka vorum við sammála um að fleiri séu að átta sig á þessu og hjólreiðamönnum hafi fjölgað í höfuðborginni og svæðunum þar um kring.

6. júlí 2010

Borð á pallinn.

Og þegar pallurinn er kominn þá vantar borð. Svo það er smíðað úr afgöngum af gamla og nýja pallinum.


Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...