27. mars 2007

Tónleikar sem enginn má missa af.




Kór Áskirkju flytur Jóhannesarpassíu J.S.Bach, BWv 245, í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Flytjendur eru Kór Áskirkju ásamt kammersveit
– konsertmeistari Hjörleifur Valsson.
einsöngvarar Ágúst Ólafsson barítón, Bergþór Pálsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir, messósópran.
Stjórnandi er Kári Þormar

Tónleikarnir hefjast kl: 17. báða dagana.

Miðaverð kr. 3.000.
Forsala er hjá 12 Tónum og kirkjuverði í Áskirkju.

Kór Áskirkju hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2001 þegar Kári Þormar tók við starfi organista og kórstjóra í Áskirkju.
Kórinn hefur haldið fjölda tónleika, aðalega í Áskirkju en einnig komið fram á sumartónleikum í Mývatnssveit og í Akureyrarkirkju. Síðastliðinn vetur hélt Kór Áskirkju ásamt Hljómeyki, tónleika á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju þar sem kórarnir frumfluttu hér á landi messu í G – dúr eftir Francis Poulenc og hlutu mikið lof gagnrýnanda fyrir flutningin en verkið þykir meðal kröfuhörðustu kórverka.
Árið 2004 hljóðritaði kórinn diskinn Það er óskaland íslenskt, en sá diskur hlaut einróma lof gagnrýnenda og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004.
Kór Áskirkju hefur mest fengist við a-capella tónlist en einnig kórverk fyrir hljómsveit og kór, svo sem: Messu eftir Mozart í B- dúr KV 275 – Gloriu Vivaldi og Jólaóratoríu eftir Saint Saens.

Nú ætlar kórinn, í rökréttu og metnaðarfullu framhaldi af því sem undan er gengið, að flytja eitt af stórvirkjum kirkjutónbókmenntanna, Jóhannesarpassíu J.S. Bach í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Kór Áskirkju fær til liðs við sig 18 manna kammersveit undir forystu Hjörleifs Valssonar, og einsöngvarana Ágúst Ólafson, Bergþór Pálsson, Eyjólf Eyjólfsson, Gunnar Guðbjörnsson, Jóhönnu Ósk Valsdóttur og Hallveigu Rúnarsdóttur.

23. mars 2007

Meira leikjanet.is


Rakst á enn einn frábærann leikinn á Leikjanet.is. Hann heitir Planarity.
Það sem á að gera hér er að raða bláu-punktunum þannig upp að línurnar á milli þeirra skerast ekki. Þetta hefst svona einfalt eins og á meðfygljandi mynd, en verður fljótlega töluvert snúnara.
Minnir helst á þegar leyst er úr garnaflækju. Virkar á stundum ómögulegt en er svo ótrúlega gaman þegar vel tekst til.
Áhugasömum bent á að smella á nafn leiksins hér að ofan og prófa sjálfir.

21. mars 2007

Ó MÆ GOD

Skattskýrslan maður, ég steingleymdi henni.

Úbbs, best að kíkja á þetta í dag eftir vinnu.

Ætlaði svo mikið að klára hana um helgina.

Sætuefnið Aspartam


Það er nú svo að mín tilfinning er að sætuefni séu ekki eins frábær og menn hafa haldið. Og þegar maður hefur svona tilfinningu þá er ánægjulegt að fá staðfestingu á því frá fræðingum.

Rakst á grein í gær um skaðsemi sætuefnisins Aspartam. Greinin er skrifuð af manni sem hefur menntatitilinn Osteópati, B.Sc. (hons), hvað sem það nú táknar. Og þið getið nálgast hana hér.

Það dregur örlítið úr ánægjunni hversu mikil áhersla er lögð á samsæriskenningu og finnst mér það jafnvel draga úr trúverðugleika þess sem verið er að fjalla um. Það er eitthvað við samsæriskenningar, bæði geta þær verið mjög spennandi en líka eitthvað svo klikk.

Á vísindavef Háskóla Íslands er eftirfarandi spurningu svarað: "Hvaða skaðleg áhrif hefur sætuefnið aspartam á líkamann?" Í svarinu kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á skaðsemi efnisins. Menn hafi verið látnir drekka 12-30 gosflöskur með efninu í, en ekki hafi komið annað fram en höfuðverkur hjá sumum. En samt er tekið fram að ekki sé vitað um langtímaáhrif neyslu á efninu. Sá sem svarar er prófessor í læknisfræði við HÍ.

Eftir lestur greinarinnar hef ég farið að lesa utan á umbúðir eins og t.d. á tyggjóinu sem ég japla og oftar en ekki er þetta Aspartam í þessum vörum. Hmmm, á maður eitthvað að fara að spekúlegar í þessu nánar???

Enn einn texta fann ég sem segir svo til það saman og prófessorinn, bara ekki eins formlega sett fram (smellið hér til að sjá). Þar hafa menn svo sett inn komment og er eitt þeira bara svo fyndið að ég smelli því hér í lokin hjá mér (samsæriskenning í sínu ýktasta formi)

"Getu þú bent mér á "allar þessar rannsóknir" eða ertu að endurtaka eitthvað sem að þú "last á internetinu". Vissuð þið líka að Rumsfeld kom því gegn að allt drykkjarvatn er flúortbætt til þess losa sig við byrgðir af flúor sem hann vissi ekki hvað hann átti að gera við, einnig er það við flúor að hann brýtur niður sjálfsvilja okkar og lætur okkur vera undirgefin núverandi BNA stjórn, það var einnig lítil kjarnorkusprengja sem að grandaði tvíburaturnunum og frímurararnir vissu af þessu og settu leynileg skilaboð á dollarann þar sem (ef að þú brýtur hann rétt samann) þú sérð turnana falla."

20. mars 2007

Kynleg vandræði

Þar sem ég er nú alin upp af henni mömmu minni þá blundar í mér kvenréttindaeitthvað og á ég það til að móðgast ógurlega til handa mínu kyni þegar á það er hallað.

En um daginn heyrði ég viðtal við háskólamann í útvarpinu og sem talaði um að í máli og ræðu væri það í raun karlkynið sem á væri hallað. Þannig er að kvenkyn í tungumálinu er nýjasta kynið. Áður var til samkyn (allt lifandi) og hvorukyn (dauðir hlutir).

Í tungumálinu í dag eru ýmis orð sem eingöngu eiga við kvenkyn, en karlmenn sitja eftir í samkyninu og eiga ekki sín eigin orð sem eingöngu vísa til þeirra sem karlkyns. Tekin voru dæmi um orð eins og "sá", "hann", "þeir", "allir".

Dæmi: "Sá hlær best sem síðast hlær" hér getur hvort sem er verið að tala um karlmenn sem kvenmenn og "Þeir sem hlustuðu... " er dæmi um það saman.

Og nú er svo komið að frásagnir geta orðið til vandræða því ekki vill maður alltaf vera að skrifa hann/hún, þeir/þær þ.e.a.s. báðr kynmyndirnar því það er bara kjánalegt. Eru karlmenn ekki sármóðgaðir yfir þessu?

Áhugasömum er bent á Víðsjá á Rás1 mánudaginn 12. mars sl.

15. mars 2007

Pöntun á vöru í síma.

Fyrirtæki: Fyrirtækið góðan dag.
Ég: Góðan dag. Bjarney heiti ég hringi frá Fyrirtækinu-sem-ég-vinn-hjá, ég ætla að panta hjá ykkur.
Fyrirtæki: Já, sæl. ...


Og nú spyr ég, hvað meinar viðkomandi þegar hann segir "sæl"? Man hann eftir mér frá því ég pantaði síðast og finnst gaman að heyra í mér aftur?
Þetta virðist vera það nýjasta í símsvörun og móttöku pantana núna.

Persónulega nota ég þetta orð ekki nema ég þekki viðkomandi eða er farin að kannast ágætlega við hann. Mér finnst pínu skrítið að nota þetta við hvern sem er.
Fyrst hélt ég að mín fötlun við að muna eftir fólki væri sökudólgurinn og remdist við að átta mig á hvern ég væri að tala við, en er nú komin á það að þetta sé almennt notað hvort sem viðkomandi man eftir mér eða ekki.

6. mars 2007

Óhreinn þvottur - hreinn þvottur.

Undur og stórmerki gerðust í gær þegar við keyptum okkur þurrkara.

Við eiginlega neyddumst til þess því það hefur ekki verið hægt að hengja upp þvott í þurrkherberginu í 2 vikur vegna klóakfnyks og báðar þvottakörfurnar okkar orðnar yfirfullar. Ekki það að við höfum eitthvað á móti þurrkurum sem slíkum, það hefur bara ekki verið þörf á honum fyrr. En þvílíkt undra tæki. Settum auðvitað prufukeyrslu í gang í gærkvöldi og handklæðin komu svona ljómandi mjúk og mátulega þurr út úr apparatinu eftir rúman klukkutíma.

Og nú verður þvegið maður minn. Þessi elska tekur 7 kg sem ætti að vera u.þ.b. 1 og 1/2 þvottavél. Þannig að 3 vélar á dag þar til allt er orðið hreynt hljómar vel í mín eyru.
Já nú er gaman að þvo.

5. mars 2007

127% hækkun

Aumingja bankinn minn er svo fátækur og illa staddur að hann þarf að hækka Tilkynninga- og greiðslugjald á láninu mínu um 127%! Á greiðsluseðlinum með gjalddaga 1.2.2007 var þetta gjald kr. 225 og er nú á seðlinum 1.3.2007 kr. 510.

Hagnaðurinn á síðast ári var auðvitað ekki nema 85,3 milljarðarkróna (eftir skatt) svo það er skiljanlegt að þetta er nauðsynleg gjaldtaka.

Ég spurðist fyrir í dag hvers vegna þetta væri. Svarið var að þjónustustigið hefði hækkað og þetta væri til að koma til móts við kostnað!!! Þjónustustig hvað???? Algjörlega óskiljanlegt að mínu mati. Mér var einnig sagt að það væri ekki nokkur leið að minnka eða komast hjá þessari gjaldtöku með því t.d. að hætta að fá seðilinn sendann heim og hafa hann bara í heimabankanum eða með einhverjum öðrum ráðum.

Ef það væri ekki svona dýrt að skipta um banka þá mundi ég gera það á stundinni. Svo skilur ríkisstjórnin ekkert í því af hverju menn skipta ekki oftar um banka hér á landi. GÆTI ÞAÐ KANNSKI HAFT EITTHVAÐ AÐ GERA MEÐ STIMPILGJÖLD OG ÞESS HÁTTAR LÁNTÖKUKOSTNAÐ? Ég bara spyr...

Rússnensk auglýsingatækni



Á skiltinu stendur að hann hafi orðið svona brúnn á því að fara á ákveðna sólbaðsstofu og menn kvattir til að prófa sjálfir.

28. febrúar 2007

Leikjanet.is

Þessi síða er auðvita bara frábær. Hef fundið þar fullt af skemmtilegum leikjum sem stytta mér stundir meðan beðið er í síma (þú ert númer 25 í röðinni...) eða bara ef manni leiðist og vill ekki gera neitt sem "þarf" að gera.

Hér eru nokkrir sem ég hef gaman að:

Grow cube er leikur þar sem rökhugsun fær að njóta sín. Leikurinn felst í því að setja rétta hluti út á kubbinn á réttum tíma. Ef allt er gert í réttri röð þá vex og blómstrar líf á kubbnum.

Mahjongg. Þessi er klassíkur. Ég er að berjast við hann um þessar mundir. Fyrst byrjaði ég á Red Dragon, full af sjálfstrausti, því ég er ógeðslega klár. En varð að játa mig ekki eins klára og ég hélt og er að berjast við Cloud-Normal eftir að hafa lokið hinum tveimur stigum á undan.

Connect2 er nokkuð skemmtilegur. Þarna er unnið í kapp við tímann og þarf að finna allar samstæður áður en tíminn rennur út (bara til að fá upp nýtt borð með því sama, er samt gaman að honum).

Jamm þetta eru sem sagt þeir leikir sem ég mæli með í augnablikinu.

Væri gaman að fá ábendingar um skemmtilega leiki.

20. febrúar 2007

Á batavegi

Jæja nú er ég öll að skríða saman. Auðvitað er kvefið enn að plaga mig, en þá er það nefspreyið sem bjargar lífinu (og skapinu).

Hérna eru nokkrar, ja, skondnar myndir. Við vonum að sjálf sögðu að enginn hafi slasast þarna.

16. febrúar 2007

Veikindi

Er á 3. ja degi í veikindum núna. Með kvefpest. Er lítið búin að gera annað en liggja uppi í sófa, snýta mér og glápa á sjónvarpið. Verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið notarlegt að gera ekkert annað og hafa góða afsökun fyrir því.

Stundum hef ég tekið mér einn og einn frídag sem á að vera bara fyrir mig í afslöppun, en einhvernvegin fara þeir í annaðhvort í samviskubit yfir því að vera ekki að setja í þvottavél eða taka til eða eitthvað annað sem nauðsynlega þarf að gera eða það er einmitt það sem þessir frídagar fara í.

Nú er ég veik og hef ekki orku í þvottavél eða þrif og ligg þess vegna bara undir sæng og slappa af.

En nú er komið nóg af svo góðu samt sem áður og kominn tími til að hrista þessa pest af sér, enda komin helgi. Það er ekkert vit í því að vera veikur um helgi.

8. febrúar 2007

Breiðasta brosið


Í gær horfði ég á sjónvarpsþátt sem ég hef gaman að. Hann kallast Heroes og er að mörgu leiti frábær.
EN það er eitt atriði sem pirrar mig við hann og marga þætti og bíómyndir í dag og þið hljótið að hafa tekið eftir þessu.
Það eru allir með svo allt of hvítar tennur.
Nú er ég ekki að segj að gular tennur séu fallegar, en þegar tennur eru orðnar óeðlilega hvítar og allir eru með þessar skjannahvítu tennur þá er eitthvað ekki í lagi.
Man eftir að hafa séð ódýrann sjónvarpsþátt (eða sjónvarpsmynd) sem átti að gerast átjánhundruð og eitthvað. Faðirinn í myndinn var pípureykingamaður og bæði húð og rödd hans gáfu til kynna reykingar svo til alla æfi. En þegar hann brosti voru tennurnar skjanna hvítar. Þetta var í svo hrópandi ósamræmi við persónuna að ég gat ekki annað en látið það pirra mig.
Mér finnst menn (og þá er ég að tala bæði um karla og konur) vera komnir yfir strikið með að hvíta tennur sínar.

7. febrúar 2007

Stimpilgjöld

Átti ekki að fella þessi gjöld niður?

Vitið þið eitthvað um málið. Ég reyndi að finna eitthvað á vefnum en fann ósköp fátt merkilegt. Það sem ég fann var t.d. framboðsræður og blogg stjórnmálamanna og svo umræðu á Alþingi frá 1984. Sem greinilega leiddi ekkert af sér.
Var ekki svo mikil umræða um þetta á síðasta ári, eða er ég að rugla?

Endilega uppfræðið mig.

6. febrúar 2007

Auðkennislykill


Þetta apparat er ekki til góðs fyrir almenning.

Menn týna, glata og skemma.
Er sem betur fer ekki farin að nota þetta heima fyrir, bara í vinnunni. En bankinn minn er stöðugt með hótanir um að nú sé byrjað að loka á almenning og að verið sé að senda þessa lykla út til viðskiptavina og bla bla bla...

1. febrúar 2007

Uppgötvun

Var að fatta að ekki þarf lengur að vera með óskaplegt vesen til að kommenta hjá öðrum. Nóg að nota "Google/Blogger, Sign with your Google Account".

Þvílíkur léttir!

31. janúar 2007

Margt er skrítið í heiminum.

Töluvert hefur verið skrifað um önd nokkra í blöðunum undanfarið.

Þessi önd var skotin af veiðimanni og sett í ískap. Síðan þegar átti að elda hana kom í ljós að hún var enn á lífi og þá er rokið upp til handa og fóta til að lífga hana við aftur. Lífgunartilraunir heppnuðust vel og nú er hún komin í einhverskonar friðland því hún er ófleyg og getur því ekki bjargað sér af sjálfsdáðum.

Er ekki í lagi með fólk?

23. janúar 2007

Áslákur í álögum.

Það er óskaplega gott að lesa svolítið þegar komið er upp í rúm á kvöldin, svona rétt á meðan sængin er að hitna.
Stundum vantar eitthvað að lesa og þá er farið í bókahilluna og reynt að finna eitthvað lesefni.

Þetta átti sér einmitt stað í síðustu viku. Þá er alltaf spurningin hvaða bók á að velja. Bækurnar í bókaskápnum eru mest barna- og unglingabækur, margar mjög góðar en flestar búið að lesa oftar en tvisvar eða þrisvar eins og t.d. Ronja ræningjadóttir og Bróðir minn Ljónshjarta.

En nú fannst bók sem ekki hafði verið lesin áður. Hún ber titilinn "Áslákur í álögum" eftir Dóra Jónsson. Bókin er gefin út 1952 og er saga af hortugum og frekum borgarsták sem fer í sveitina til afa og ömmu og verður þar að manni. Sveitarómantíkin er allsráðandi og lesandinn kemst að því að allir hafa gott af því að fara í sveitina og læra þar á lífið. En allra skemmtilegast er þó texti aftan á bókinni, þar stendur:

"Þetta er óvenju góð unglingasaga! Jafnaldrar Láka og Línu munu lesa hana í spretti og hrópa einum rómi: "Mættum við fá meira að heyra!""

22. janúar 2007

22. janúar 2007

Varð fyrir mjög svo taugatrekkjandi upplifun fyrir helgi. Ég fór með dóttur minni í 10-11 í Glæsibæ því það vantaði eitthvað í nesti daginn eftir. Við vorum báðar léttar í skapi og flissuðum svolítið eins og ungpíum sæmir.

Þegar við gengum út var þar maður hálfur ofan í ruslatunnu, greinilega að skipta um ruslapoka. Um leið og við göngum framhjá stendur hann upp og segir eitthvað við okkur. Við stoppum til að heyra hvað maðurinn segir því hann var greinielga að tala við okkur.
Þá stendur hann þarna, starir á okkur mjög svo illilegur á svip og hreytir í okkur ókvæðisorðum á ensku svo ljótum að ég vil ekki endurtaka þau. Okkur bregður og við svona hálfvegis frjósum og erum að ekki alveg að skilja hvað gengur hér á (höfum án efa verið ansi bjánalegar í framan). En maðurinn heldur áfram og einblína á okkur og fara með bölbænir.

Á endanum þríf ég í dóttur mína og við strunsum út, inn í bíl og af stað. Þá sjáum við að maðurinn kemur út á eftir okkur og skimar um stæðið eins og hann sé að leita að okkur eða eitthvað.

Við vorum í léttu sjokki eftir þetta. Ekki alveg að skilja hvað eiginlega geriðst eða hvað manninum gekk til. Gæti verið að hann hafi haldið okkur vera að hlæja að sér og brugðist svona illilega við?

Af einhverjum ástæðum minnti þetta mig á bókina Thinner sem ég las fyrir töluvert mörgum árum og er eftir Stephen King. Og ónotatilfinningin vildi bara ekki hverfa.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...