1. október 2007

Nóg að gera um helgina.

Fór í kórferðalag austur á land á laugardagsmorgun. Flogið til Egilsstaða og þaðan farið beint að skoða Kárahnjúkavirkjunina. Landslagið þarna er hrikalegt og fallegt í senn. En ekki skil ég hvernig starfsmenn og fjölskyldur þeirra hafa farið að því að halda geðheilsu þarna uppi á veturnar. Vinnubúðirnar eru á afskaplega hráslagalegu og drungalegu svæði. Myndin er af stærstu stíflunni af þremur. Kárahnjúkurinn sjálfur er til vinstri á myndinni og glöggir menn sjá tröllkerlingu sem hefur dagað uppi á leið í hellinn sinn.

Eftir að hafa séð bæði stíflurnar og stöðvarhúsið (fengum harðkúluhatta og skærgul vesti og skrifuðum undir að við værum þarna á okkar eigin ábyrgð) var farið aftur á Egilsstaði til að sækja nokkar kórfélaga sem komu með seinna flugi. Og síðan var ekið sem leið lá á Eskifjörð og að sjálfsögðu farið beint í kirkjuna til að prófa hljóminn og ýmislegt.
Þaðan var farið á Neskaupsstað þar sem kórstjórinn býr og bauð hann í kvöldmat. Það var ekið yfir Oddskarð í svarta þoku og mikill léttir að koma inn í göngin, sem eru einbreið en vel upplýst.
Kvöldið endaði síðan með akstri til baka yfir á Eskifjörð þar sem hluti kórsins svaf á gistiheimili.
Í gærmorgun vökuðum við í blíðskaparveðri. Sólin skein og umhverfið var töfrandi fagurt. Seinni myndin er af Eskifirði, tekin frá gistiheimilinu sem er rétt fyrir utan bæinn.
Þann daginn var sungið við messu og svo tónleikar.
Á meðan á þessu stóð hjá mér var Elías heima að rífa flísarnar af sturtuveggjum og gólfi. Þá kom í ljós að veggir og gólf voru gegnsósa af vatni og er verið að þurrka það upp núna áður en hægt verður að leggja nýtt lag af flísum þar á. Því fylgir raki og lykt sem hvorutveggja er fremur hvimleitt, en vonandi tekur það ekki of langan tíma.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Falleg myndin af Eskifirði, einna helst líkust draumi:) Ég er að koma til höfuðborgarinnar á föstudaginn og ætla að eyða helginni þar með mínum ekta eiginmanni (við bara 2)Heyri í þér þegar ég kem:) Kveðja, Auður.

BbulgroZ sagði...

Váts, flott : )

Gætir ykkar á flísunum, þær eru stórhættulegar...

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...