30. apríl 2008

Hlaupafréttir

Á síðasta ári var skorað á mig að taka þátt í 10km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Ég tók áskoruninni og er núna að undirbúa mig undir hlaupið með því að hlaupa heim úr vinnunni. Í gær skildi ég hjólið eftir í vinnunni og skokkaði/labbaði heim. Gekk betur núna en í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta og ég var í 35 mín á leiðinni 4,5 km (sem gera 7,7 km/klst).

Í morgun skokk-labbaði ég svo aftur í vinnuna. Það er ótrúlegt hvað þolið kemur fljótt því núna var það ekki mæðin sem háði mér heldur þreyta í fótunum (þeir greinilega ekki búnir að jafna sig eftir gærdaginn).

En það sem pirrar mig mest við þetta allt saman er hversu hrikaleg rauð ég verð í framan. Tók tímann í gær eftir að ég kom heim hversu lengi andlitið er að ná eðlilegum húðlit aftur. Eftir 1 klst var næstum eðlilegum húðlit náð en þó var enn roði í kinnum. Það tók allt í allt 1 og hálfa klst þar til ekki var lengur hægt að sjá rautt.

Ætli þetta lagist með þjálfun? Eða er þetta bara eitthvað sem maður verður að lifa við?

28. apríl 2008

Rykmaurar

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að birta þessa grein sem er að finna á heimasíðu asma- og ofnæmisfélagsins.


"Rykmaurar á Íslandi
Snemma á níunda áratug síðustu aldar fóru fram rannsóknir á heysjúkdómum bænda hér á landi. Í aðdraganda þeirra rannsókna voru m.a. athugaðir hugsanlegir ofnæmisvakar í heyryki. Þá fundust einar 19 tegundir heymaura; sumar hverjar í miklu magni (13). Má gera því skóna að heymaurarnir hafi borist hingað til lands með heyi sem landnámsmenn fluttu með sér til að fóðra búpeninginn á leiðinni yfir hafið. Einnig kom í ljós að heymaurarnir voru aðal ofnæmisvaldar í sveitunum (14). Heymaurar eru náskyldir rykmaurum og ofnæmi fyrir einum þeirra, Lepidoglyphus destructor, hefur talsvert verið kannað í Reykjavík og nágrenni (15). Ofnæmi fyrir þessum heymaurum er miklu algengara en ofnæmi fyrir rykmaurum meðal sveitafólks en þetta snýst alveg við í þéttbýli (14,15).
Á síðastliðnu ári fór fram mjög víðtæk rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu í þeim tilgangi m. a. að athuga hvaða rykmaurar væru þar og í hvað miklu magni (16). Óhætt er að segja að niðurstöðurnar komu verulega á óvart. Í rúmum 210 einstaklinga fundust samanlagt 2 rykmaura. Það hefði mátt ætla að þarna hefðu átt sér stað einhver óskiljanleg mistök, því hvergi annars staðar sem leitað hefur verið að rykmauraum hefur fundist jan lítið af þeim. En það vildi svo til að úr rúmum þessara einstaklinga voru líka tekin sýni sem rannsökuð voru fyrir mótefnavökum frá rykmaurum og það fannst heldur ekki marktækt magn af þeim"

Jarðgerð

Fyrsta "uppskeran" úr jarðgerðarkassanum okkar var tekin á laugardag. Það var ótrúlega gaman að sjá og upplifa hvernig þetta virkar. Því þó maður viti að grænmeti, kaffikorgur, lauf, hey og fleira komi til með að breytast í mold með tímanum þá er magnað að sjá það í reynd.

Við keyptum fyrri endurvinnslutunnuna í fyrra vor og var hún orðin full seinnipart sumars svo við keyptum aðra.
Það var úr fyrri tunnunni sem tekið var á laugardaginn. Þá fór ég einmitt í Garðheima og keypti sigti og fötu til verksins því enn eru greinar og svona stærri hlutir sem ekki eru að fullu jarðgerð og fengu að fara aftur efst í tunnuna.

Moldin sem við höfum búið til með þessari aðferð var dökk og falleg. Það voru hvorki meira né minna en 3 og hálf fata sem kom úr tunnunni.

Ein fatan fór í matjurtargarðinn minn og hinar í beðin. Ég mæli eindregið með því að menn komi sér upp svona tunnum það fer ekki mikið fyrir þessu og það er minni lykt af þessum tunnum en af ruslatunnunum. Svo er ekki mikil vinna við þær heldur.

25. apríl 2008

25. apríl 2008

Í dag eiga foreldrar mínir 39 ára brúðkaupsafmæli. Það er ekkert smá. Til hamingju mamma og pabbi!


En svo er hér smá plöntumont og fyrirspurn.
Fyrri myndin er tekin 23. mars sl. og þá má sjá litla papriku að myndast hægramegin á plöntunni og þar sem hún greinist er eitthvað mitt á milli þess að vera blóm og paprika að myndast.
Sú seinni er tekin í morgun (25. apríl þið afsakið hvað hún er dökk). Þar er það sem var parika að myndast orðin stór og myndarleg paprika en hin er ennþá frekar lítil. Ætli sú stærri taki upp alla næringuna frá hinni áður en hún nær út í þá grein.















Og nú langar mig að fá upplýsingar frá plöntufróðu fólki. Ætli það sé óhætt að umpotta þessari plöntu? Hún er í allt of litlum potti og ég þarf orðið að vökva hana næstum daglega til að hún ofþorni ekki.

Eplatrén mín frá í fyrra eru frekar orðin væskilslega neðri hlutinn á þeim, blöðin orðin meira eða minna sölnuð. En á toppnum eru komin ný og falleg blöð.

Til hægri á myndunum báðum er svo sítrónutré. Það vex ótrúlega hægt miðað við bæði eplatrén og paprikutrén. En þeim var öllum sáð síðasta sumar.

Og að lokum. Teljarinn minn er staddur í nr. 6959 vantar bara 41 upp í 7000. Alltaf svo gaman að nálgast svona heilar tölur. Spennandi að sjá hvursu langan tíma það tekur að komast upp í þá tölu.
Ta ta ta tammm.....

21. apríl 2008

8 hjólreiðamenn

Hjólreiðamönnum fjölgar ört á morgnana nú þegar farið er að hlýna. Sá 8 í morgun. Einn á svona skrítnu hjóli þar sem hjólreiðamaðurinn liggur á bakinu, frekar fyndið að sjá.

28. mars 2008

Hjólað í vinnuna

Hjólaði í vinnuna í fyrsta skiptið á þessu ári. Oh, það er bara svo dásamlegt að hjóla.

26. mars 2008

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavík síðdegis spyr á visi.is: "Á Reykjavíkurflugvöllur að víkja fyrir íbúabyggð?" og svarmöguleikarnir eru þrír:
-Já, að hluta
-Já, alveg
-Nei.

Fyrir ekki svo löngu hefði ég ekki hikað við að svara þessu "já, alveg". En það var þegar eini valmöguleikinn var að flytja hann til Keflavíkur. Nú er ég á þeirri skoðun að frekar vil ég hafa hann þarna áfram heldur en að færa hann með miklum tilkostnaði í um nokkra kílómetra, annað hvort upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker. Báðir þeir möguleikar eru ómögulegir að mínu mati og þá er betra að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Svo ég vil ekki svara "já, alveg" og valda þeim misskilningi að þar með sé mér alveg sama hvert hann er fluttur.

Svarmöguleikarnir hefðu mátt vera:

-Já og flytja hann til Keflavíkur
-Já og flytja hann innan Reykjavíkur
-Nei

og þá hefði ég getað svarað án vandræða.
En það er rétt að taka fram að ég fer afar sjaldan innanlands með flugi, líklegast u.þ.b. 1x á hverjum 5 árum. Og það er svo að ég fer oftar til útlanda í flugvél heldur en innanlands og finnst það ekki tiltökumál að fara til Keflavíkur til þess.

23. mars 2008

Plöntur og vor


Mikið er vorið spennandi og skemmtilegur tími.


Sólin sést oftar og maður meira að segja finnur hita frá henni. Allar pottaplöntunar eru farnar að taka við sér. Paprikuplanta frá síðasta sumri blómstraði 4 eða 5 blómum og lofar góðri uppskeru, nú eru 3 blóm eftir og 2 paprikur farnar að myndast. Ég bjóst svo sem ekki við því að þessar plöntur lifðu af veturinn en gaf þeim tækifæri. Epla trén líta ekkert allt of vel út. Blöðin hafa svolítið skrælnað í vetur (sjá vinstra megin við paprikutrét) en það verður spennandi að fylgjast með þeim og sjá hvort þau taki við sér líka.


Pottaplanta sem við höfum átt í nokkur ár og mér finnst alltaf vera eins er farin að bæta við sig nýjum öngum (sjáið þetta ljósgræna það er allt nýtt).
Síðan setti ég fullt af sumarblómafræjum í mold og bíð spennt eftir að sjá hvort og hvenær þau láta á sér kræla.

20. mars 2008

Afsláttur af heilsuþjónustu.

Kaupþing sendi okkur bækling um daginn þar sem tilkynnt er að við séum komin í "Vöxt Gull" og þar með fáum við betri þjónustu en aðrir sem ekki eru í þessum hópi. Síðan er tíundað hvað okkur er boðið uppá.

Við erum heppin að hafa fæðst á Íslandi því hér er gott að búa.
Hvers vegna? Jú, við höfum aðgang að þjónustu sem okkur finnst orðið sjálfsögð en er það ekki allstaðar í heiminum. Öll börn fara í skóla. Heilsugæslan er aðgengileg öllum og almennt höfum við það gott.
Hvers vegna? Jú það er vegna þess að við áttuðum okkur nokkuð snemma á því að það borgar sig að hugsa um heildina. Við borgum skatta af launum okkar til að fjármagna þá þjónustu sem við teljum nauðsynlega.
Ég vil halda áfram að borga skattana mína til að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég vil að allur almenningur hafi aðgang að henni og að áfram þyki sjálfsagt að lækna þann sem er veikur án þess að hugsa um hvort viðkomandi hafi efni á að borga fyrir þjónustuna.

Þess vegna verð ég óróleg þegar tákn um annað koma fram. Og þá er ég komin aftur að bæklingnum frá Kaupþingi. Þar er mér boðin afsláttur af mánaðargjaldi af Velferðarþjónustu á vegum Heilsuverndarstöðvarinnar. Þennan afslátt fæ ég sem sagt af því ég er í þessari tilteknu þjónustu hjá bankanum mínum.

Þetta er hvorki stórvægilegt eða eitthvað sem eitt og sér grefur undan heilbrigðisþjónustunni fyrir almenning. En í mínum huga er þetta skref í þá átt að hafi maður pening geti maður greitt sig framar í röðina. Og það er skref sem ég er ekki tilbúin að taka. Þegar kemur að heilsu þá á sá veikasti að hafa forgang en ekki sá sem á mesta peninginn.

18. mars 2008

16. mars 2008



Þá hefur yngsta barnið verið fermt. Sjáið bara þennan föngulega hóp.

Hún Eyrún mín stóð sig eins og hetja í fermingarveislunni og bæði hélt smá ræður og söng fyrir gestina. Og gerði það vel.

12. mars 2008

Tilhlökkun

Bráðum kemur betri tíð

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Halldór Laxness


Litla flugan

Lækur tifar létt um máða steina.
Lítil fjóla grær við skriðufót.
Bláskel liggur brotin milli hleina.
Í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga
Ég inn um gluggann þreytti flugið mitt.
Og þó ég ei til annars mætti duga
Ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

Sigurður Elíasson

6. mars 2008

Plöntur



Litlu vitlausu haustlaukarnir mínir virðast halda, þrátt fyrir snjó og kulda að nú sé komið vor. Vonandi þola þeir veðrið sem er í boði hjá okkur.




Síðan er það aumingja plantan mín í eldhúsglugganum. Þar var nefninlega þannig einn daginn að ég þurfti að lofta vel úr eldhúsinu og galopnaði gluggann. En úti var frostgaddur og ég hafði ekki vit á því að fjarlægja plöntuna úr glugganum. Verð ég ekki bara að klippa burtu kalna hlutann?
Þessi planta hjá mér vex bara sem ein lengja, engir angar út hér eða þar. En hún hefur hingað til verið svo falleg og þrifist vel í glugganum.

3. mars 2008

Líkamsrækt

5 km frá heimili til vinnu. Ferðatími:
Með bíl 10 mín
Á hjóli 15-20
Með strætó 30-35 mín
Gangandi 45-55 mín
Hlaupandi á eftir að ná upp þoli til að reyna það, kannski eitthvað svipað og strætó?

Ég er alltaf að ákveða hluti í eitt skipti fyrir öll, en svo er nú misjafnt hver lokadagsetning er á þessum ákvörðunum...

Tók t.d. þá ákvörðun að fara nú að sprikkla heima hjá mér - ætti að geta það heima án þess að borga fyrir það eins og einhverstaðar annarsstaðar fyrir pening. Síðasti neysludagur á þeirri ákvörðun var daginn eftir.
Og nú hef ég tekið þá ákvörðun að labba heim úr vinnunni í stað þess að taka stræó.
Kostir: Byggir upp þol, fínasta hreyfing, spara mér 1 stk strætómiða á dag.
Gallar: Kem heim 15 mín seinna en ef ég tæki strætó.

Hef hingað til gert þetta ca. einusinni til tvisvar í viku, en afhverju ekki bara alla dagana? Þar til það verður hjólafært allavega.

Jæja sjáum til hver loka dagsetningin á þessari ákvörðun verður.

28. febrúar 2008

Fallin

Facebook hefur náð mér aftur.



Byrjaði allt með tölvupósti þar sem mér var tjáð að stór bróðir hefði keypt mig á Facebook. Ég auðvitað alveg bara HVAÐ???



Fór svo að skoða þetta aðeins. Þá er þetta svona meira að kaupa myndina, maður getur víst sett fleiri en eina mynd á sölulista. Engir alvöru peningar í boði, bara svona facebook viðskipti.



Síðan þá hafa nokkrir keypt myndina mína. Það er svolítið gaman að fylgjast með þessu. Fór að lokum sjálf að kaupa og á nú nokkra ættingja mína og einn gaur sem hefur keypt mig 2x.

24. febrúar 2008

Júróvisíón

Horfði á þáttinn í gær þar sem framlag Íslands til júróvisión var valið. Skemmti mér bara nokkuð vel. Hefði mátt sleppa viðtölunum við mæður flytjenda, þó þær kæmu allar vel fyrir var það einfaldlega ekki skemmtilegt eða fróðlegt. Og hvað er með þessa spurningu um hvenær fólk byrjaði að syngja? Vitið þið um einhvern sem aldrei söng neitt fyrr en hann varð 10 ára og þá allt í einu opnar munninn og út streymir þessi líka fallegi söngur?

Var að heyra u.þ.b. tvo þriðja af lögunum í fyrsta skipti og fannst þau misskemmtileg.

En svona er mitt álit:

1. In your dream eftir Davið Olgeirsson.
Skemmtilegt og grípandi lag. Mætti mín vegna alveg fara áfram. Fannst söngurinn þó ekki alveg nógu öruggur.

2. Gef mér von eftir Guðmund Jónsson í flutning Páls Rósinkrans.
Var að heyra lagið í fyrsta skipti og fannst það ekkert spes. Ég er kannski ekkert of hrifin af gospeltónlist.

3. This is my life eftir Örlyg Smára í flutningi Friðriks Ómars og Regínu Óskar.
Hmmm... þetta lag vann og þau tvö eru Eurovisionformkökur. Jú, jú allt í lagi lag. Eitt af þeim sem ég var að heyra í fyrsta skiptið. Grípandi og hressilegt. Eurovision slagari.

4. Don't wake my up eftir Möggu Stínu í flutningi Ragnheiðar Gröndal.
Ekki spurning, mitt uppáhaldslag í keppninni. Var að heyra það í fyrsta skipti líka og féll kylliflöt. Algjörlega tónlist eftir mínu höfði. Ég meira að segja kaus lagið!

5. Ho, ho, ho we say hey, hey, hey eftir Barða Jónsson.
Get sagt að ég var mjög fegin að þetta lag fer ekki út.

6. Hvað var það sem þú sást í honum eftir Magnús Eiríksson í flutningi Baggalúts.
Krúttlegt lag og krúttlegur flutningur. Svolítið gamaldags og eitt af þessum lögum sem manni finnst maður hafa heyrt áður og getur sungið með við fystu hlustun.

7. Núna veit ég eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur í flutningi Magna og Birgittu Haukdal.
Að mínu mati var þetta lag þarna bara út af flytjendunum. En ég var að heyra þetta lag líka í fyrsta skitpið, kannski batnar það eftir því sem maður heyrir það oftar.

8. Hvar ertu nú eftir Dr.Gunna í flutningi Dr. Spock.
Úff. Flipp og húmor. Sniðugt sjó, en ekki skemmtilegt lag. Líka mjög fegin að þetta lag fór ekki áfram.

16. febrúar 2008

Leitinni lokið.


Enn og aftur kemur barnaland.is til bjargar. Setti inn auglýsingu í gær þar sem ég óskaði eftir hamstrabúri og fékk svar í gærkvöldi. Núna er búrið komið heim og nýr meðlimur í fjölskylduna, dverghamsturinn Loppa.

7. febrúar 2008

Snjómokstur.

Það er sem mig minni að ég hafi áður skrifað um ástríðu mína á snjómokstri hér á skobara. Ef nokkkur snjókorn falla af himun er ég komin út með skófluna að moka.

Það hafa gefist nokkur tækifæri nú í vetur til að halda skóflunni á lofti, en þó verður að segjast að hingað til hafa "gæðin" á snjónum ekki verið sem best þ.e. snjórinn er helst til of léttur í sér og fýkur svo til strax aftur til baka yfir það sem mokað var (sem mætti ætla að væri ánægulegt því það þýðir meiri mokstur en ánægjan felst í því að sjá mun fyrir og eftir).

Svo í morgun... ahhh í morgun.... Fallegur snjór yfir öllu, þykkur, lokkandi...

Einmitt sama daginn og ég hef enga orku nema til að skipta um stöð í sjónvarpinu. Ég þarf að hýrast inni með hita, beinverki, kvef og hálsbólgu. Ó mig auma.

6. febrúar 2008

Þjónustugjald smjónustugjald

Það var nú bara þannig að ég var í minni venjubundinni heimsókn í heimabankann fyrir vinnuna þegar augun rekast í það að búið er að draga heilar níutíukrónur af reikningnum í þjónustugjald.

Þar sem ég er einlægur mótmælandi hverskonar óþarfa gjalda tók ég upp símtólið og hringdi í bankann. Stúlkan sem ég talaði við taldi líklegast að þetta væri kostnaður vegna sendinga á kvittunum en ekki vildi ég kannast við að hafa beðið um kvittanasendingu svo hún ætlaði að athuga þetta betur og hafa svo aftur samband. Sem hún og gerði en hafði enn enga skýringu á þessu gjaldi. Þá fór ég fram á að gjaldið yrði bakfært. Stúlkugreiið hafði greinilega ekki heimild til að veita slíkan afslátt af ósanngjörnum gjöldum svo hún ætlaði að kanna málið enn frekar.

Í morgun fékk ég aftur upphringingu þar sem mér er tjáð að gjaldið verði endurgreitt inn á reikninginn, en enn og aftur engin skýring gefin á því hvers vegna í upphafi þetta var dregið af reikningnum.

Hvursu margir ætli láti svona gjaldtöku fram hjá sér fara?

1. febrúar 2008

Endurfundir.

Er að fara að hitta þetta fólk og fleiri á morgun. Verður gaman að sjá hvort við höfum breyst svo mikið að maður þekkist ekki aftur.

Ætlum að skoða gömlu skólana okkar en það eru orðin nokkur ár síðan ég steig fæti þangað inn.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...