20. febrúar 2022

Meira um snjó

Febrúar hefur verið óvenju snjóþungur og vindasamur. Hver lægðin á fætur annari kemur yfir landið með roki og látum. Síminn minn er orðinn fullur af snjómyndum því bæði er hann fallegur en líka er hann til ama, sérstaklega þegar hann hindrar för. 

Ég ætla mér að henda hérna inn nokkrum myndum frá liðinni viku og skrifa eitthvað um það sem sést á myndunum.

---

Fyrst eru hér myndir úr innkeyrslunni hjá okkur, teknar mánudaginn 14. febrúar. Mér finnst ekki leiðinlegt að moka snjó og reyni að fara út jafn óðum og það snjóar til að moka. Reynslan hefur kennt mér að snjórinn er léttastur að moka fyrst eftir að hann hefur fallið. Það hafði snjóað hressilega um nóttina, eins og sést á ljósunum. Svo vel vildi til að ég var að vinna heima þennan dag og mokaði því innkeyrsluna í stað þess að ferðast í vinnuna. 




Svona leit þetta út seinna um daginn. Ég átti orðið í vandræðum með að finna stað til að moka snjónum á. Helsti staðurinn er hinumegin við fyrsta tréð vinstramegin á myndinni.
---
15. febrúar. Vann líka heima þennan dag, en þurfti að skreppa í Ármúlann. Ákvað að taka hjólið með þó ég ætti allt eins von á því að þurfa að teyma það mikinn hluta af leiðinni.
Hér horfi ég út götuna heima hjá mér. Merkilegt nokk þá er vel hægt að hjóla þarna þar sem snjórinn er þjappaður eftir fólk á göngu. Svolítið þvottabretti en vel fært.

---
Þessi mynd er tekin upp gangstéttina við Holtaveginn. Þarna er snjórinn í saltpækli og ekki hægt að hjóla. Þessi gangstétt er oftast illfær þegar snjór er af því það gusast alltaf af götunni upp á stíginn og drullan af götunni er þannig að bæði er leiðinlegt að ganga í því og hjóla.
---
Hér er gangstéttin við Holtaveg niður að Langholtsskóla og Laugardal. Þarna var snjórinn vel þjappaður og ágætis hjólafæri.  En takið eftir öllum bílunum. Það var bílaröð bæði upp og niður, greinilegt að mörgum börnum er skuttlað í skólann og það á ekki bara við þegar mikill snjór er. Þetta virðist vera svona alla morgna. Varla búa svona mörg börn það langt frá skólanum að þau geta ekki gengið í skólann?
---
Hér er ég við hliðina á fjölskyldugarðinum. Stígarnir skafðir og fínir.
---
Hér eru stígarnir meðfram Suðurlandsbraut. Líka skafðir og fínir.
---
Það kom mér skemmtilega á óvart að búið var að skafa bútinn upp á Suðurlandsbraut sem ég þurfti einmitt að fara. Teymdi samt hjólið þarna upp.
---
Komin upp að gatnamótunum, þau eru líka allt í lagi.
---
Það sem tekur við ekki alveg jafn skemmtilegt, en ekkert sem kemur á óvart. Gatnamótin Fellsmúli-Ármúli voru líka ömurleg, full af snjó og erfitt að komast um. Ég var samt alls ekki ein um að vera þarna fótgangandi.
---
Ekkert formlegt hjólastæði á áfangastað, en þá er bara að finna sér staur til að festa hjólið við.
---
Þegar ég kom til baka var búið að skafa götuna heima hjá mér og það var gert þannig að gangstéttin var ófær svo ég þurfti að fara götuna, en hún var líka illfær og engin leið að hjóla hana.

---
Hjólað heim úr vinnuni, miðvikudaginn 16. febrúar
Hér er ég meðfram Suðurlandsbrautinni, komin yfir Skeiðarvog og að nálgast Langholtsveg. Stígurinn bara nokkuð fínn. Ég hjóla frekar hægt þessa dagana og margir taka fram úr mér.
---
Barðavogur með Sæbraut á hægri hönd. Mjög ánægjulegt að sjá þennan bút svona vel hreinsaðann. Hann á það til að gleymast eða vera sleppt úr þó hann sé á aðalleið.
---
Og svo var yndislegt að koma á auðan stíg meðfram Sæbrautinni.

Af því þetta er orðinn svo langur póstur þá ætla ég að segja þetta gott í bili. Á þó dágóðann slatta af myndum eftir bæði frá því í gær og fyrradag sem mig langar líka að setja hér inn. En held það sé heppilegra að gera í nýrri færslu.


13. febrúar 2022

Snjómokstur í Reykjavík, febrúar 2022

Þeir sem þekkja mig vita að ég vil helst ekki keyra bíl. Ef ég þarf að fara eitthvað þá fer ég miklu frekar á hjólinu en bílnum. Þetta er af því mér finnst leiðinlegt að keyra bíl og mér finnst gaman að hjóla. Þetta á líka við á veturnar, og ég treysti ekki bílnum í vetrarfærð. Hjólið hefur reynst mér miklu betur, er bæði stöðugra og þægilegra að nota í hálku og mátulegum snjó.

Almennt hefur snjóhreinsun batnað í Reykjavík, þegar snjóar hóflega mikið. Borgin er með áætlun sem virðist nokkurvegin halda við þær aðstæður. Það er mikill kostur að geta treyst því að ákveðin leið er hreinsuð áður en þú ferð af stað. Það var ekki þannig fyrir 10 árum síðan.

Hér má sjá kort yfir snjóhreinsun stíga tekið af borgarvefsja.is 13.02.2022:


Ég er svo heppin að komast fljótlega heiman frá mér á stíg í forgangi svo ég þarf ekki lengi að þjösnast í gegnum snjóskafla áður en ég kemst á hreinsaðan stíg. Það snjóar ekkert of oft eða mikið í borginni, en svo til á hverju ári eru nokkrir dagar þar sem snjóar þónokkuð og jafnvel nokkra daga í röð. Borgin virðist aldrei vera undir það búin varðandi snjóhreinsun á stígum. 

Hér eru myndir frá því núna í febrúar, með útskýringum. Í þessu tilviki segja myndir ekki allt en ég mun reyna að útskýra aðstæður með texta.

Mynd 1. Tekin 3. febrúar (fimmtudagur), seinnipartinn.

Þarna er ég á leiðinni úr Skeifunni upp í Grafarvog með vörur sem ég var að kaupa fyrir dóttur mína. Þarna er stígurinn vel hreinsaðu, veðrið fallegt og fínt að hjóla. 


Mynd 2. Sami dagur, sama ferð. Stígurinn hjá Bryggjuhverfinu er skafinn og ágætt að hjóla hann. Snjórinn vel þjappaður og það er greinilega töluverð umferð um þennan stíg bæði hjólandi og gangandi.


Mynd 3. Tekin 4. febrúar (föstudagur) að morgni, ég á leið til vinnu.

Þetta er stígurinn sem liggur samsíða Suðurlandsbraut. Hægra megin er göngustígurinn og hjólastígurinn er til vinsti. Hjólastígurinn er alls ekki nógu vel hreinsaður. Umferðin á móti er með næstum auðan stíg, en mín megin er snjór/slabb. Ég held að salti sé stráð yfir stíginn sem er flott ef snjórinn er vel hreinsaður af fyrst. En mín reynsla er sú að snjór og salt fer ekki vel saman. Úr því verður einhverskonar snjóleðja sem hjólið á það til að skrika í. Ef ekki næst að hreinsa snjóinn í burtu væri betra (að mínu mati) að sleppa saltinu. Það er ekki vandamál að hjóla í hreinum snjó samanber mynd 2.

Mynd 4 og 5. Tekin 6. febrúar (sunnudagur), fyrir hádegi.

Nú þurfti ég aftur að fara upp í Grafarvog til dóttur minnar. Ferðin var ekki eins skemmtileg og þegar ég fór þetta 3. febrúar. Stígurinn við Sævarhöfða var ófær og þurfti ég að fara út á götuna. Ég er ekki mjög huguð manneskja og því líður mér ekki vel við þær aðstæður. Ökumenn eiga það til að aka ansi hratt þarna. Á myndinni er ég komin af götunni við hringtorgið Sævarhöfði-Naustabryggja. Hér hefur snjónum af götunni verið mokar beint upp á stíginn svo notendur stígsins verða að klöngrast yfir snjóbunka til að komast leiðar sinnar  


Mynd 6. tekin sama dag. 
Þarna er ég á heimleið úr Grafarvoginum. Myndin sýnir stíginn sem er að mínu mati ófær á hjóli. Hann er þó skárri þarna en aðeins seinna og ég fór aftur út á götuna til að komast leiðar minnar. Augljóst er að snjór af götunni gusast upp á stíginn þegar gatan er skafin. Þar sem þetta er aðal hjólaleiðin upp í Grafarvog hefði maður haldið að það væri augljóst að halda ætti þessum stíg færum. En hann er ekki í forgangi hjá borginni. Sendi kvörtun til borgarinnar í gegnum ábendingasíðu og fékk það svar til baka að erfitt væri að halda stígnum hreinum út af því að þegar gatan er hreinsuð þá fer snjórinn upp á stíginn. Þetta finnst mér ekkert annað en léleg afsökun af borg sem ætlar sér að vera hjólaborg og vill að fólk minnki bílanotkun.

Mynd 7. Tekin sama dag.
Þarna er ég enn á heimleið en komin á stíg sem er vel hreinsaður og allt annað líf að ferðast eftir (á myndinni horfi ég til baka í átt að stígnum sem er ófær).

Mynd 8. Tekin sama dag, seinnipartinn.
Átti aftur leið upp í Grafarvog. Stígurinn með fram Sævarhöfða enn ófær en núna var búið að skafa niður ruðninginn sem fór fyrir stíginn. Af hverju stígurinn var ekki hreinsaður í leiðinni er mér fyrirmunað að skilja.

Mynd 9. Tekin 9. febrúar (miðvikudagur) að morgni.
Hér er ég á leið til vinnu. Aðfaranótt mánudags var mikil óveðursspá fyrir Reykjavík (og reyndar landið all). Ekki varð eins mikið úr veðrinu og spáð hafði verið en þó snjóaði nokkuð og rigndi líka. Á mánudaginn tók ég þá ákvörðun að labba í vinnuna. Aðfararnótt þriðjudags snjóaði líka og ákvað ég því að nota tímann til að moka innkeyrsluna hjá mér frekar en að hjóla (var að vinna heima svo ég hefði hvort sem er hjólað í hring).
En á mivikudag hjólaði ég af stað. Hér er ég með Sæbraut á vinstri hönd. Er á stígnum við Barðavog. Eins og sést þá hefur snjónum verið mokað af götunni upp á stíginn og ekki gert ráð fyrir að nokkur þurfi að komast þessa leið gangandi eða  hjólandi. Alltaf mjög pirrandi að rekast á svona vinnubrögð.

Mynd 10. Tekin sama dag.
Það sem ég ætlaði að taka mynda af hér var einstaklega vel hreinsuð stígamót. Af því að eftir Barðavoginn er ég komin á stíg sem er lang oftast vel hreinsaður, enda er hann í fyrsta forgangi (sem stígurinn við Barðavog er reyndar líka, en það virðist oft gleymast).

Mynd 11. Tekin 10. febrúar (fimmtudagur) að morgni.
Hér má sjá gatnamótin sem ég ætlaði að taka mynd af deginum áður. Þau voru ekki alveg jafn fín í dag, en samt betri en flest stígamót (gatnamót) sem maður ferðast um. Engir hraukar að hjóla í gegnum, þetta er hægt krakkar og ætti að taka til fyrirmyndar.

Mynd 12. Tekin sama dag.
Það fór að snjóa, þétt og falleg snjókoma, stóðst ekki mátið að taka mynd. Stígurinn ekkert frábær, en það slapp til.

Mynd 13. Tekin sama dag.
Hérna er ég komin af aðalstígnum. Þessi stígur er ekki saltaður, en skafinn og það er mikið betra að hjóla hann. 

Mynd 14. Tekin 11. febúar (fimmtudagur) að morgni. Winter bike to work day.
Sami stígur og á mynd 10. Ekki jafn skemmtilegt að hjóla hann í dag. Það er augljóst að tæki hefur ekið um stíginn en ekki skafið hann. Takið eftir hjólfarinu eftir hjól sem hefur farið þarna á undan mér, það ætti að vera í beinni línu en af því snjórinn er þetta djúpur og það hefur verið saltað í hann þá skrikar hjólið til. Þetta er ekki boðlegt að mínu mati á stíg sem á að vera í forgangsmokstri.

Mynd 12. Tekin sama dag.
Hér er ég á stígnum meðfram Suðurlandsbraut, á svipuðum stað og mynd 3 er tekin. Hér er aftur göngustígur til hægri og hjólastígur til vinstri. Helmingurinn af hjólastígnum er auður, hinn helmingurinn ekki. Hjólaði á móti umferð og skipti um hjólarein þegar einhver kom á móti. Þetta er einfaldlega bara ekki nógu vel gert.

Í lokin eru hér slóðir á pósta sem ég hef skrifað um sjó og snjóhreinsun í gegnum tíðina:

Jan 2015 Færðin
 

1. febrúar 2022

Hjólað í janúar 2022

Hjólaði samtals 195 km í mánuðinum þar af 138 til og frá vinnu. Hjólaði alla vinnudaga mánaðarins.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 4 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 8 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 8 á hjóli en fæstir voru 2.

Heildar talning í mánuðinum var: 94 á hjóli, 23 á hlaupahjóli og 162 gangandi.

Til gamans má geta þess að ég ók bíl 1x þennan mánuð (var farþegi í bíl líklega 4x). 

Það er svo mikill misskilningur að það sé ekki hægt að hjóla í Reykjavík allan ársins hring. Sérstaklega núna þegar (a.m.k. það sem af er vetri) er hægt að treysta því að stígar séu snjóhreinsaðir skv. áætlun. Nú tala ég augljóslega aðeins um þá stíga sem ég ferðast um. En það er ekki svo mörg ár síðan að ég var alltaf tuðandi í borginni út af því að stígur sem átti að vera í forgang og búið að hreinsa áður en ég lagði af stað til vinnu var ennþá fullur af sjó og því illfær. Hjólaði einu sinni á Sæbrautinni af því stígurinn var gjörsamlega ófær, bæði gangandi og hjólandi því snjónum hafði verið rutt af götunni upp á stíginn. Ég hafði ekki gaman að þeim hjólatúr.Við höfum náð miklum framförum undanfarinn áratug og við ættum bara að bæta í og gera enn betur.

Svona lítur Strava hitikortið mitt út núna:


og það sem af er þessu ári:



22. janúar 2022

Hvenær er veðrið of vont til að hjóla?

Veðurspáin fyrir daginn í dag er ekki skemmtileg. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir um landið, þó við hér á höfuðborgarsvæðinu sleppum við þær, eins og sjá má á þessari mynd frá Veðurstofunni:


Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið hjómar svona í dag:


Ég nota líka vef vegagerðarinnar til að sjá hvernig vindarnir blása og hversu hressilega. Eins og sjá má á þessari mynd þá  getur slegið í hressilegar vindkviður:


Og þá vaknar spurningin, á ég að fara út að hjóla eða ekki? Ég fer næstum alla daga ársins út að hjóla. Á virkum dögum er það til og frá vinnu, en um helgar fer ég oftast einhvern smá hring. Það er svo gott að fá hreyfinguna og komast aðeins út úr húsi.
Mín reynsla er að veðrið er aldrei (sjaldnast) eins slæmt og það lítur út á veðurspám. Hér áður fyrr lét ég þessar upplýsingar stoppa mig, en núna fer ég oftast út þrátt fyrir spár og veðurútlit (get alltaf snúið við ef mér líst ekki á blikuna) og lang, lang oftast (og eiginlega alltaf) er veðrið ekki eins svakalegt og það lítur út á þessum síðum. 

Í dag valdi ég leiðina út frá vindátt. Fór hringinn rangsælis til þess að þegar ég hefði vindinn á fangið þá væri líka gróður og byggingar að draga úr vindinum fyrir mig. Og svo var ég með vindinn í bakið á opnari svæðum, eins og meðfram Miklubraut.



Að lokum eru hér nokkrar tölulegar upplýsingar um ferðina. Meðalhraði 13,6 km/klst sem er aðeins undir algengasta meðalhraða hjá mér.
Þetta var fínn túr og ég er ánægð með að hafa farið af stað.


1. janúar 2022

Nytjahjól - cargobike

Það brjálaðast og besta og skemmtilegasta sem ég gerði á þessu ári var að kaupa mér nytjahjól (sjá færslu um það hér).

Mikið hlakka ég til þegar ég get farið að nota það aftur. Keypti ekki nagladekk undir það, þó ég sé alvarlega að hugsa um það, svo hjólatúrar á því bíða þess að það sé örugglega engin hálka.

Ég skal viðurkenna að áður en ég fékk þetta hjól var ég með nokkra fordóma gagnvart rafmagnshjólum, fannst þau pínulítið svindl. En ég hef algjörlega læknast af því og sé hversu mikil snilld þau eru. Allt í einu geta allir hjólað. Brekkur og vindur hafa engin áhrif þegar þú getur nýtt mótorinnn til að fletja út brekkurnar og lægja vindinn (tilfinningin er þannig allavega).

Eini gallinn við þetta hjól sem ég keypti mér er að boxið tekur mest 60 kg, sem útilokar flesta fullorðna í að vera farþegar hjá mér. En hver veit, kannski í framtíðinni á ég eftir að uppfæra í hjól sem tekur meiri þyngd.

Hér eru nokkrar myndir af hjólinu, mér og uppáháldsferðafélaganum:

Hér er ég nýbúin að kaupa gripinn, sést kannski hversu hamingjusöm er ég er með hann.



Hér er ég með uppáhalds farþegann og við að leggja af stað í einhver ævintýri.

Þessa mynd tók ég í prufu hjólatúr í leikskólann hjá uppáhaldsfarþeganum. Ferðin var farin á frídegi og tilgangurinn að athuga hvernig gengi að hjóla þangað með það í huga að fara seinna og sækjann í skólann. Var ekki ánægð að sjá þessa kerru lagða yfir stéttina sem fyrir er þröng og leiðinleg. En ég þurfti þarna að fara niður kantsteininn, sem er nokkuð hár.


Hér má sjá uppáhalds farþegann skoða hvernig keðjan og pedalarnir virka.


Við keyptum svo hlíf yfir boxið til að vernda farþegann og farangurinn enn betur

Hjólaði 163 km á þessu hjóli frá því það var keypt í ágúst. Gleymdi samt að setja strava af stað í allra fyrsta hjólatúrnum sem var frá búðinni og heim. Sú vegalengd er samt ekki nema rétt rúmur kílómeter.










Hjólaárið 2021 - tölfræðin.

Hjólaði samtals 2.566 km á árinu. Mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 1.397 km og 1.169 í aðrar ferðir.
En ég hjólaði 207 af 254 vinnudögum ársins.  Af þessum 47 vinnudögum sem ekki voru hjólaðir eru enginn vegna ófærðar eða veðurs (sem er aðeins óvenjulegt, venjulega eru 1-2 dagar í þeim flokki á ári), 13 vegna veikinda eða heimavinnu og restin er svo orlof eða aðrar ástæður.

2021 var fyrsta árið frá 2017 þar sem ég var í fastri vinnu utan heimilis og því hófst aftur talning á hjólandi og gangandi á morgnana á leið minni til vinnu. Einnig bætti ég við því að telja þá sem ferðast á hlaupahjóli/rafskútum sem er nýlegur ferðamáti í borginni.
Leiðin til og frá vinnu er styttri núna en hún var áður og er það aðal ástæðan fyrir styttri heildarvegalengd á þessu ári í samanburði við önnur ár.

Svona lítur árið 2021 í meðaltalstölum yfir þá sem ég sé á hjóli í hverjum mánuði. Línuritið er nokkuð klassískt. Tekur gott stökk í maí þegar átakið "Hjólað í vinnuna" stendur yfir. Eins er mjög algengt að línan fari upp í ágúst, en hún fer óvenju langt niður í júlí.


Hér er samanburður á talningu á hjólandi á árunum 2010 (fyrsta árið sem ég skrái tölurnar niður), 2015 og 2021.


Hér eru tölurnar í töflu:


Hér er svo línurit sem sýnir mesta og minnsta fjölda í talningu hvers mánaðar. 
Aðeins einu sinni gerðist það að ég sá engan annan á hjóli. Það var núna í desember, milli jóla og nýars og tel ég ástæðuna vera þá að margir tóku sér frí eða voru að vinna heima.


og síðan eru hér tafla og línurit sem sýnr meðaltal talningar eftir ferðamáta.
Það kom mér á óvart að sjá að hlaupahjólin duttu ekki alveg út í vetrarmánðunum.



Að lokum er svo hitakortið fyrir árið og samantekt frá Strava. Athugið að í vegalengdatölunni eru líka gönguferðir.





18. desember 2021

Hjólað fyrir jól

Desember hófst með kuldakasti. Fyrstu tvær vikurnar var snjór og frost. Svo fór að rigna og veðurspáin sýnir ekki annað en rigningu áfram og spáð er rauðum jólum.

Strava hefur tekið saman skráða hreyfingu á árinum sem er að líða og hér er niðustaðan úr því (tekið saman 17. desember 2021):


Eitthvað smá brot af þessu er labb, en hjólið er mitt aðal samgöngutæki og því er þetta mest hjólreiðar. Ég mun svo gera mína eigin samantekt þegar árið er liðið.

Strava bætti við möguleikanum að skrá hjólaferðina sem samgöngur (commute) á árinu og var ég fyrst voða dugleg að bæta því við, en þar sem svo til allar mínar ferðir eru samgöngur þá fannst mér of mikið vesen að vera alltaf að bæta því við. Vonandi getur maður í framtíðinni haft samgöngur sem aðalval og þá frekar merkt sérstaklega ef ferðin er ekki þannig. 

Hjólið fékk jólaskreytingu í gær. Aðal ástæðan fyrir því er að í vinnuni var efnt til jólaljósagöngu (jólaballið var fellt niður út af covid og úr varð mjög skemmtilegur göngutúr, fundum jólasveina og allt) við Hafravatn og við keyptum okkur rafhlöðudrifin jólaljós til að skreyta okkur með. 

Svo eftir gönguna fannst mér tilvalið að setja eina seríuna á hjólið. Nú eru þessi ljós ekki ætluð til útinotkunar, en ég pakkaði rafhlöðu pakkanum inn í plast og hjólið er ekki haft úti nema í þau skipti sem ég skrepp inn í búð eða slíkt. Vona að ljósin endist allavega fram að jólum. Ljósin virðast allavega kæta aðra vegfarendur því tveir einstaklingar, sem ég þekki ekki neitt, minntust á hvað hjólið væri fallegt og jólalegt og öll fórum við brosandi frá þeim samskiptum.


8. desember 2021

Varð vitni að því í morgun þegar ekið var á hjólandi vegfaranda

Viðkomandi var rétt á undan mér að gatnamótum Skeiðarvogs og Sæbrautar. Ég er appelsínugula örin, sá sem ekið var á er græna örin og bíllinn er bláa örin. Græni var rétt á undan mér að götunni og ekki annað að sjá en að ökumaður bílsins væri að stoppa fyrir þeim græna og ég rétt á eftir velti fyrir mér hvort viðkomandi hleypi mér yfir líka þegar ökumaður tekur af stað og ekur á afturdekkið á hjólinu með þeim afleiðingum að hjólið dettur. Sem betur fer voru allir á lítilli ferð og ekki leit út fyrir að skemmdir eða meiðsli hafi átt sér stað. En slíkt kemur þó oft ekki í ljós fyrr en nokkru seinna.



En hvers vegna gerðist þetta? Það sem ég held að hafi gerst er að ökumaður bílsins hafi alls ekkert verið að stoppa fyrir okkur á hjólunum, heldur verið að fylgjast með hvort bíll væri að koma frá Kleppsmýrarvegi og í raun aldrei athugað hvort einhver væri að fara yfir götuna frá stígnum.

Þessar fráreinar sem hleypa ökumönnum framhjá ljósum eru stórhættulegar fyrir okkur sem ekki ferðumst í bíl. Borgin hefur verið að eyða þeim út (við litla hrifningu margra en við sem hjólum/göngum erum ánægð), en það er samt allt of mikið af þessu ennþá.

4. desember 2021

Hjólað í nóvember 2021

Hjólaði samtals 160 km í mánuðinum þar af 110 til og frá vinnu. Hjólaði 17 af 22 vinnudögum. Tók mér 3 daga í orlof og 2 veikindadaga.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 7 á hjóli, 2 á hlaupahjóli og 12 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 12 á hjóli en fæstir voru 3.

Heildar talning í mánuðinum var: 116 á hjóli, 40 á hlaupahjóli og 211 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum). En kortið hefur lítið breyst frá október þar sem ég hjóla mest alltaf sömu leiðina til og frá vinnu og svo í heimsókn til dóttur.


Það svo ánægjulegt að segja frá því breyting hefur orðið á snjóhreinsun á leiðinni sem ég fer frá því ég skrifaði þessa færslu 20. nóvember sl.: 

Fyrsti snjórinn. Sjóhreinsun á minni leið.

Búturinn sem ég kvarta undna að sé undanskilinn snjóhreinsun hefur nú verið hreinsaður og fær sömu þjónustu og aðrar aðalleiðir. Mjög svo ánægjuleg breyting.

20. nóvember 2021

Fyrsti snjórinn. Sjóhreinsun á minni leið.

Fyrsti almennilegi snjórinn féll aðfararnótt 18. nóvember.

Breytingin sem hefur orðið á stígakerfi og snjóhreinsun frá því ég hóf að hjóla á veturnar árið 2008 (sjá hér) er stórkostleg. Þvílíkar framfarir. Og þegar nýji sóparinn var tekinn í notkun (held fyrir tveimur árum) varð að mér finnst bylting. Ef maður kemst fljótt á aðalstíg þá er ekkert mál að hjóla þó snjór liggi yfir öllu.  

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá hluta af leiðinni sem ég hjóla til vinnu, merkt með svörtum punktum. Þetta er stígur sem liggur samsíða Sæbraut (byrjar efst og endar neðst) og begir svo og fylgir Suðurlandsbraut. Stígurinn samsíða Sæbraut er sameiginlegur stígur gangandi og hjólandi. Frá staðnum þar sem merkt er Mynd 3 eru stígarnir aðskildir. Setti líka 3 fjólubláa depla og þeir tákna ljósastaura sem eru ljóslausir. Sendi athugasemd til borgarinnar og fékk þau svör að ábendingin hafi verið áframsend til Orku Náttúrunnar. Verður áhugavert að sjá hvort eitthvað verði gert, hef ekki góða reynslu af því að senda þeim ábendingar. Fékk á síðasta ári svar frá þeim vegna ábendinga á þá leið að farið væri reglulega um stígana og ljós lagfærð ef þurfa þykir - og svo gerðist ekki neitt í langan tíma (sjá hér). 


Rauð lína liggur frá Skeiðarvogi að þar sem stendur mynd 3. Hún táknar bút af stígnum sem ekki var hreinsaður fyrir kl. 8. En á borgarvefsja.is má sjá áætlun borgarinnar um hreinsun á stígum og þar er þessi leið sett í fyrsta forgang eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.



Mynd 1. Dásamlega vel hreinsaður stígur. Búið að skafa, salta og líklega sópa líka. Allavega ekki snjóarða á stígnum:


Mynd 2. Stígbúturinn sem er litaður rauður á efsta kortinu. Engin snjóhreinsun hefur átt sér stað. Það var samt allt í lagi að hjóla þetta í þetta skiptið þar sem snjórinn er ekki mjög mikill:



Mynd 3. Stígamót. Stígurinn hægra megin vel hreinsaður, stígur vil vinstri ekki hreinsaður. Báðir þessir stígar eru í forgangi og á að vera lokið við hreinsun á þeim kl. 7:30 skv. korti á borgarvefsjá:


Síðasta myndin sýnir að mér finnst metnaðarleysi hjá þeim sem sér um stígahreinsunina. Þetta var svona allsstaðar þar sem göngu og hjólastígarnir lágu nálægt hvort öðrum. Greinilegt var að hjólastígurinn var hreinsaður á undan. Svo þegar farið er að hreinsa gögnustíginn fer snjórönd yfir á hjólastíginn og skemmir fyrir annars frábærri hreinsun:


 

2. nóvember 2021

Hjólað í október 2021

Hjólaði samtals 188 km í mánuðinum þar af 144 til og frá vinnu. Hjólaði 21 af 21 vinnudögum.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 10 á hjóli, 3 á hlaupahjóli og 11 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 19 á hjóli en fæstir voru 2.

Heildar talning í mánuðinum var: 215 á hjóli, 59 á hlaupahjóli og 240 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum)


Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...