13. apríl 2012

Safnhaugur, fyrsta uppskera.

Vorið 2010 smíðuðum við okkur safnhaug (sjá hér).  Og í gær sigtaði ég fyrstu uppskeruna úr þessu safnhaug og fékk heilar12 hjólbörur af gæða mold sem mun fara í beðin okkar og næra plöntur þar.
Ég fékk þetta fína sigti í fertugs afmælisgjöf, en það er hannað og smíðað af Sigurði Grétari og er þvílík snilld.









6. apríl 2012

Sumardekkin komin undir hjólið

Það kom svo sem ekki til af góðu.  Þegar ég hjólaði heim úr vinnunni á miðvikudag (daginn fyrir páskafrí) þá var hjólið eitthvað skrítið að aftan.  Titraði og var bara undarlegt.  Ég stoppaði til að athuga hvort ég sæi eitthvað athugavert sem ég gerði ekki, en þegar ég var loksins komin heim (ég þorði ekki annað en að hjóla rólega meðan ég vissi ekki hvað var að) þá var það ljóst að ég var með sprungið afturdekk.  Það hafði bara lekið mjög hægt úr dekkinu.

Svo í gær (Skírdag) fór ég í að setja bót á slönguna og skoða dekkið því mig grunaði að glerbrot væri ástæðan fyrir loftleysinu (fann ekki glerbrot).  Og ég setti 5. bótina á slönguna og lofaði mér því að kaupa nýja slöngu og setja í stað þeirrar gömlu næst (sem ég er nokkuð viss um að ég sagði líka þegar ég setti bót nr. 4 á slönguna).  En þegar loftinu var pumpað aftur í slönguna kom í ljós að henni var ekki viðbjargandi lengur því loft lak líka meðfram ventlinum.

Jæja, þá var ekkert annað að gera en að fara í búð og kaupa nýja slöngu.  Ég passaði að hafa rétta stærð og keypti 2 slöngur (þó slangan í framdekkinu sé nýrri og ekki með bótum á þá er alltaf gott að eiga auka slöngu).  En þegar átti að setja slönguna í gjörðina kom í ljós að ég hafði gert þau mistök að kaupa slöngu með bílaventli, en sú gamla var með frönskum ventli sem er mikið grennri svo nýja slangan passaði ekki í gjörðina.  Og þá var aftur brunað í búð og rétt slanga keypt.  Og eftir allt þetta vesen ákvað ég að best væri að setja sumardekkinn strax undir í stað nagladekkjanna og losna við vinnuna að taka dekkin undan aftur og allt það sem fylgir að skipta um dekk.

Svo núna er ég komin á sumardekkin og eins gott að veðrið hagi sér og hitinn haldi sig réttu megin við frostmarkið.

1. apríl 2012

Undur lífins, fræ verða að plöntum.

Mánudaginn 26. mars setti ég fræ í mold.  Það voru fræ af spergilkáli, gulrótum (er að prófa aðferð sem útskýrð er í einni gróðurbók sem ég á), baunum og svo 3 tegundir af sumarblómum.

Strax 29.mars fór svo að sjást í fyrstu sprotana koma upp úr moldinni og í dag eru komnar plöntur hjá spergilkálinu, tveimur blómategundum og baununum (þó þær séu enn á byrjunarstigi).
Og þá er komið vandamál.  Hvað á að gera við plönturnar því herbergishitinn er of mikill, æskilegur hiti er 10°c skv. þeim bókum sem ég hef lesið mér til í.  Svo ég prófaði að henda þeim upp á háaloft beint undir þakgluggann.  Þar er kjör hitastig, en ekki alveg eins víst að birtan sé nægilega mikil.
Mér finnst alltaf jafn spennandi þegar plönturnar fara að gægjast upp úr moldinni og geri mikið af því að benda öðrum fjölskyldumeðlumum á þetta undur.
Myndin er af spergilkálinu.

29. mars 2012

Smá rúntur á hjólinu.

Viðraði aðeins hjólið mitt í morgun. Tók tvær myndir sú fyrr er beint á móti Glæsibæ og er ég þar að taka mynd af slóðanum sem myndast þegar fólk, gengur og hjólar styðstu leið. Vonandi fer borgin að átta sig á því að það hefur ekkert upp á sig að setja nýtt grastorf þarna yfir heldur þarf að gera þetta að alvöru stíg. Ég ætti auðvitað að senda inn ábendingu á vefinn www.rvk.is





Svo fór ég líka um Fossvogsdalinn og þar er verið að vinna að því að lengja hjólastíginn og hafa hann aðskilinn frá göngustígnum. Mér sýnist meira að segja að með því verði teknir nokkrir hlykkir af stígnum sem er gott.

Og þó ég hafi ekki tekið af því mynd þá hjólaði ég líka spottakorn í Elliðaárdalnum og þar er búið að malbika þar sem áður var möl og setja ljósastaura. En þar hef ég ekki farið um síðan á síðasta ári svo ég veit ekki hvenær þetta var gert.
Já og eitt enn, það er líka búið að klippa grenitrén við stíginn í Barðavogi þannig að þau ná ekki lengur inn á stíginn sem er til mikilla bóta. Þessar umbætur allar lofa svo sannarlega góðu.

28. mars 2012

Franskar makkarónukökur

Mér finnst gaman að baka og fyrir jól rakst ég á uppskrift af frönskum makkarónukökum sem mig langaði að spreyta mig á. En það var ekki fyrr en í dag að ég gaf mér tíma í það því það þarf að dúlla við þessar kökur.
Deginu skipti ég í þrennt til að gera þrjár útgáfur. Ein með kakói (brúnt), ein hvít og ein með rauðum lit.
Hráefni eru söxuð, þeytt og hrærð saman eftir kúnstarinnar reglum og svo þarf degið að standa í 30 mín þegar það er komið á bökunarplötuna áður en það fer í ofninn..
Samkvæmt uppskrift á að baka kökurnar í 8-10 mínútur. En þegar ég tók fyrstu plötuna út úr ofninum var fljótlega ljóst að það var of stuttur tími því þær kökur féllu allar saman (sjá mynd). Næsta plata fékk að vera fyrst í 12 mín, svo 15 og endaði í 20 mín og tókst bara ljómandi vel svo sú þriðja og síðasta var í friði í 20 mín í ofninum. Mér finnst þetta ævinlega vera raunin að tími sem gefinn er í uppskrift er of stuttur.
Kremið var líka dúlluverk, fyrst að saxa niður súkkulaði, hita rjóma og hunang, blanda saman, bæta svo köldum rjóma við og síðan að láta standa í klst í kæli. Þá tekið út og þeytt (í raun þeyttur súkkulaðirjómi namm namm).
Og hér eru svo þær kökur sem heppnuðust komnar með krem og alles. Dísætt og dásamlegt.

26. mars 2012

Hjól og vor

Það var á mánudaginn fyrir tveimur vikum sem ég hélt ég væri að leggja of seint af stað í vinnuna.
Það var svo bjart um morguninn, reyndar var hvít jörð sem gerir það að verkum að allt er bjartara. En ég var í fyrsta skipti á þessu ári á báðum áttum um hvort ég þyrfti að kveikja ljósin á hjólinu (sem ég þó gerði).

Það er órúlegt hvað birtan gefur manni mikið. Ég átta mig aldrei á því fyrr en það fer að birta hvað myrkrið liggur þungt á mér. Maður er allur einhvern vegin léttari þegar birtir. Og þá fer að kræla á lönguninni til að gera hitt og þetta eins og að fara í lengri hjólatúra, undirbúa garðinn fyrir sumarið (þó það sé enn helst til of snemmt að fara að hreinsa beðin), skipuleggja sumarfríið og fleira í þeim dúr. Vorið er skemmtilegur tími og er sem betur fer rétt handan við hornið.

Nagladekkinn fá að vera undir hjólinu enn um stund því maður veit aldrei og páskarnir eru eftir. En mikið hlakka ég til sumarsins og að geta verið léttklæddari á hjólinu. Yfirbuxurnar hafa oftar fengið hvíld undanfarna daga því hitastigið er almennt yfir frostmarki og ég hef ekki notað buff
undir hjálminn í marga daga og bara það breytir ótrúlega og mér finnst ég vera léttari á hjólinu, þó svo þetta sé allt í töskunni sem hvílir í körfunni á hjólinu tilbúið til notkunar ef á þarf að halda.

Svo er það þetta með hjálminn. Mig er svolítið farið að langa til að sleppa honum, ég hef lesið slatta af skrifum sem halda því fram að hjálmurinn veiti falskt öryggi, að hann geri aðeins gang á lítilli ferð (upp að 15 km klst, svo lengi sem hann er rétt spenntur á höfuðið). Ég hef tvisvar dottið af hjólinu (á 20 árum) og er viss um að í þau skipti hafi hjálmurinn allavega komið í veg fyrir að ég hruflist á höfði – en mundi húfa ekki gera sama gagn? Í fyrra skiptið fékk ég vægan heilahristing og eru til þeir sem halda því fram að hjálmurinn geti beinlínis valdið slíkum hristingi þar sem eðlilegar varnir höfðusins fái ekki að njóta sín. En að sama skapi hef
ég líka lesið skrif lækna sem halda því fram að hjálmurinn geti bjargað miklu. Og auðvitað vill maður hafa toppstykki ð í lagi.

24. mars 2012

Aftur laugardagshjólreiðar með LHM



Aftur var ég komin niður á Hlemm um kl. 10 í morgun með mömmu og pabba með mér í þetta skiptið.


Það var töluvert hlýrra í veðri í dag en síðasta laugardag en í staðinn meiri vindur. Eins og sést á meðfylgjandi mynd af leiðinni fórum við þvers og krus um bæinn og enduðum svo á kaffihúsi/bakaríi um hádegisbilið og fengum okkur að borða. Mér fannst heimferðin erfiðust þar sem vindur var stífur á móti alla leiðina.


En að sama skapi er gaman að hjólaferðum og að fara í hóp er ekki verra. Og alltaf finnst mér jafn undarlegt hvað maður er fljótur og vegalengdir virka styttri á hjólinu en þegar setið er í bíl (ég veit það hljómar öfugsnúið en það er mín upplifun engu að síður).

18. mars 2012

Laugardagshjólreiðar LHM


Í gær fór ég í mjög svo skemmtilegan hjólatúr um höfuðborgina. Á hverjum laugardegi yfir vetrarmánuðina eru farnar þessar ferðir (sjá nánar hér) á vegum Landsambands hjólreiðamanna. Safnast er saman á Hlemmi og vorum við 7 þennan morguninn þótt veðrið virkaði ekkert allt of spennandi áður en lagt var af stað.
Það var snjór yfir öllu og svolítill vindur sem feykti snjónum tilþrifamikið af húsþökum og gaf þá mynd að veður væri slæmt.
Við byrjuðum með vindinn í bakið og fórum í austurátt. Það var hjólað á þægilegum hraða og spjallað á leiðinni stemmingin var góð. Á meðfylgjandi mynd sést leiðin sem við hjóluðum.

Þarna hitti ég fólk sem ég hef séð og jafnvel haft samskipti við á netinu á hjólasíðum, bloggi og facebook. Gaman að því.

Ferðin endaði svo í bakaríinu í Mjódd þar sem við fengum okkur að borða áður en leiðir skildust, en ég fór fyrr en aðrir til að geta séð Eyrúnu keppa í borðtennis.

Það er ekki spurning að ég ætla aftur með í þennan hjólatúr og jafnvel að draga fólk með mér, verst að ég kemst ekki næsta laugardag.

8. mars 2012

Íslensk cycle chic síða

Ég hef svolítið verið að fylgjast með Cycle Chic síðun í útlöndum, sérsaklega frá Kaupmannahöfn. Og nú er komin íslensk síða í þessum anda. Gaman að því.
http://hjolreidar.is/cyclechic

6. mars 2012

Engin snjór

Þá er snjórinn farinn í bili og ég vona að hann komi ekki í svona miklu magni aftur í vetur.
En í staðinn fyrir snjóinn höfum við fengið umhleypinga veður. Stormur á landinu a.m.k. einu sinni í viku. En þó hefur hann verið það almennilegur (stormurinn altsvo) að koma á kvöldin og um nætur svo það hefur lítil áhrif haft á hjólamennsku.

Nú hef ég tekið þá ákvörðun að taka þátt í Bláalónsþrautinni í sumar. Ég hef einu sinni áður tekið þátt og það var erfitt og væri gaman í ljósi reynslunnar að vera örlítið betur undirbúin.

19. febrúar 2012

Suðurlandsbraut-stígur

Svo sem ekki mikill snjór núna, en samt hefur hann náð að safnast saman á nokkrum stöðum á stígnum fyrir neðan Suðurlandsbrautina og þá er auðveldara að fara yfir á grasið þegar maður er á hjólinu.














12. febrúar 2012

Sandur og bleyta



Svona lítur bakið á jakkanum mínum út eftir að hjóla í bleytu og sandi, en það er ótrúlega mikið magn af sandi á stígunum núna eftir að snjórinn bráðnaði í burtu.

Ég er með bretti á hjólinu en það bara dugar ekki til.

28. janúar 2012

Hjólað í vinnuna miðvikudaginn 25. janúar 2012

Það hefur snjóað ansi mikið núna í janúar. Nú þegar hef ég hef ég 3x sleppt því að hjóla í vinnuna vegna veðurs eða færðar. Spurningin er oftast þessi: Get ég treyst því að búið er að skafa stíginn? Ef ekkert eða illa er skafið þá kemst ég ekki áfram á hjólinu. En hinsvegar ef það er búið að moka þá er lítið mál að hjóla. En sem sagt miðvikudaginn 25. janúar hafði snjóað um nóttina og það var pínu streð að komast út götuna hjá mér og upp á Langholtsveginn. En stíguinn niður Alfheimana var allt í lagi og svo mætti ég moksturtæki miðjavegu niður stíginn svo eftir það var dásamlegt að hjóla. Svo komst ég á stíginn við Suðurlandsbrautina en hann er í forgangsmokstri. Vinnuvélarnar höfðu greinilega farið snemma af stað um morguninn því stígurinn hafði verið skafinn (ég var á ferðinni um kl. 7.30), en þar sem það snjóaði ennþá þá var komið u.þ.b. 4cm lag af snó á stíginn. Það svo sem kom ekki að sök. Hér er svo fyrsta myndin sem ég tók á leiðinni (og þið verðið að afsaka myndgæðin en myndirnar eru teknar á símann minn). Ég hafði lagt snemma af stað því það tekur lengri tíma að hjóla í snjónum og ég vildi líka vera undir það búin að færðin væri misjöfn. En hérna stóðst ég ekki mátið að smella af því gatnamótin voru svo óvenjulega vel skafin. Engin hraukar neinstaðar að sjá og unun að hjóla yfir.Þetta er svo stígurinn sem tók við og greinilegt að gatan var skafinn eftir stíginn því snjórinn af götunni hefur farið yfir stíginn. Það er ákaflega ergilegt þegar það gerist. Þetta sést betur á næstu mynd.Á næstu mynd er ég stödd við Kringlumýrarbrautina á leiðinni niður að Sæbraut. Og hér er dæmi um ákaflega illa unnið verk. Hér mætast tveir stígar og það hefur verið mokað af stígnum hægramegin yfir stíginn hjá mér. Stundum er eins og það vanti að menn átti sig á því hvers vegna verið er að skafa stígana.Svo eru það þessi leiðinda hindrunarbrautir sem búið er að koma fyrir við allt of mörg gatnamót. Tækin greinilega komast ekki í gegnum hindrunina og þess vegna safnast snjórinn það fyrir og eina leiðin er að teyma hjólið í gegnum.En svo tók við ákaflega skemmtileg sjón. Einhverjir höfðu leikið sér að því að búa til snjókarla við eitt listaverkið sem stendur við Sæbrautina og þetta eru stærðarinna karlar.Og hér er sjálfur Múmín snáðinn. Þessa mynd tók ég á leiðinni heim.Það hafði snjóað mest allan daginn og líka blásið svo snjóinn skóf í öldur á stíginn við Sæbrautina sem greinilega hafði ekki verið skafinn aftur. En það er eitt helsta vandamálið við vetrarhjólreiðarnar að ekki er skafið aftur yfir stígana þrátt fyrir að það snjói yfir daginn. Svo þó ég komist auðveldlega í vinnuna að morgni þá get ég ekki treyst því að komast eftir sömu stígum heim aftur, eins og var raunin þennan dag og ég teymdi hjólið að Aktu-taktu þar sem Elías kom og sótti mig.

2. janúar 2012

Hjóla- (og skokk) árið 2011

Á árinu hjólaði ég a.m.k 2.897 km og var 187 klst og 48 mínútur að því. En ég skráði ekki niður styttri snattferðir sem ég fór hjólandi.

Eins og í fyrra þá taldi ég og skráði hjá mér þá hjólreiðamenn sem ég sá á morgnana þegar ég hjólaði til vinnu. Og af því tilefni ætla ég hér að setja inn samantekt um þær tölur. Talning á sér stað milli kl. 7:30 og 8:00 þá virka daga sem ég mæti til vinnu. Yfirleitt hjóla ég meðfram Sæbrautinni frá Holtagörðum og að Hörpu og þaðan upp á Skólavörðustíg.

Mesti fjöldi hjólandi sem ég sá á einum morgni voru 32 þann 27. maí. og 12. júlí. Það er nákvæmlega helmingi færri en fjöldametið árið 2010 en almennt sá ég fleiri hjólandi á hverjum degi allt árið.

Að meðaltali sá ég þetta marga hjólreiðamenn á morgnana hvern mánuð:
Janúar – 5 á dag
Febrúar - 5 á dag
Mars - 3 á dag
Apríl - 6 á dag
Maí - 18 á dag
Júní - 10 á dag
Júlí - 11 á dag
Ágúst - 12 á dag
September - 12 á dag
Október - 8 á dag
Nóvember - 5 á dag
Desember - 2 á dag.

Bara í desember kom dagur þar sem ég sá engan hjólreiðamann á leiðinni.
Þeir voru 13 dagarnir sem ég mætti til vinnu en var ekki á hjóli, þar af hef ég merkt 5 vegna veðurs eða færðar. Hér tel ég ekki með að ég gat ekki hjólaði í næstum viku eftir að ég féll af hjólinu og meiddist á öxl (framhjólið lenti í niðurfalli sem var of djúpt og það sást ekki út af snjó. Reykjavíkurborg hækkaði niðurfallið eftir að ég lét þá vita).

Lengst var ég 37 mínútur í vinnuna (venjulegu leiðina sem er 5,7 km). Fljótust var ég rétt rúmar 15 mínútur þessa sömu leið það var 29. júlí og má gera ráð fyrir að ég hafi haft góðan meðvindi.

Samtals hjólaði ég 232 daga af árinu (þarf af 203 til og frá vinnu og smá skottúrar ekki taldir með). Að meðaltali hef ég þá hjólað 12,5 km í hverri ferð.

Síðan var ég eitthvað að berjast við að hlaupa. Mér finnst ekki eins gaman að hlaupa eins og að hjóla, en samt er gaman að finna hlaupaþolið bætast með hverju skiptinu sem maður drífur sig út. Á árinu 2011 hljóp ég samtals 140 km. Ég byrjaði hægt og rólega í mars og hljóp svo 5 km í kvennahlaupinu 4. júní og endaði síðan mitt hlaupa ár á því að hlaupa 10 km á 1 klst og 4 mín í Reykjavíkurmaraþoninu þann 20. ágúst og er bara nokkuð sátt við þann árangur.

Þessar upplýsingar get ég nálgast vegna þess að ég skrái allar mínar hjólaferðir og hlaup inn á síðuna http://www.hlaup.com/ og hún býður upp á og heldur utan um svona tölur fyrir mann. Með smá reikni kúnstum getur maður svo fundið út hitt og þetta í tengslum við það. Frábær síða að mínu mati.

Hér er svo tafla með ýtarlegri upplýsingum varðandi talningu á fjölda hjólreiðmanna á morgnana. Athugið að í júní var ég í þriggja vikna fríi frá vinnu og því er heildarfjöldi hjólandi ekki mikill þann mánuðinn.





Og að lokum

Smellið hér og sjáið samantektina fyrir árið 2010: http://skobara.blogspot.com/2011/01/hjolaari-2010.html

6. nóvember 2011

Hjólafréttir, haust/vetur.

Þá er kominn nóvember. Orðið dimmt á morgnana og stundum seinnipartinn ef það er þungbúið. Við í Reykjavík höfum enn ekki séð snjó, enda nægir að hafa slíkt yfir jólahátíðina (að mínu mati). Í byrjun október fór ég að kveikja ljósin á hjólinu á morgnana.
Nagladekkinn fóru undir hjólið 16. október en aðeins 1x eða 2x hefur verið þörf á þeim síðan þá. Hitastigið sveiflast frá allt að 10°hita og niður í 5 stiga frost og það hefur rignt töluvert.

Í haust byrjun átti ég í erfiðleikum með framljós á hjólið. Af því ég er með körfu á hjólinu þá takmarkar það þau ljós sem ég get notað. Við höfum prófað allskona mix við að festa ljósin undir körfuna, en bæði hefur það gengið illa og líka hef ég verið óheppin með þau ljós sem ég hef keypt.
En nýjasta ljósið er á hjálminum. Það er keypt í Hagkaup fyrir slikk og er sagt vera hjálmaljós, nema hvað að þegar átti að festa það á hjálminn þá var því enganvegin viðkomið á einfaldan hátt. Elías gafst þó ekki upp og þræddi böndin á ljósinu í gegnum hjálminn þannig að það situr á sínum stað. Fyrst átti ég í vandræðum því hjálmurinn vildi síga ofan í augu út af þyngdinni á ljósinu en lausnin á því var að herða betur á hjálminum og síðan hefur það ekki verið vandamál.

Hjólreiðamönnum sem ég sé og mæti á morgnana hefur eitthvað fækkað eftir að fór að kólna og dimma. En þó gæti líka verið að ég hreinlega sjái ekki alla því allt of margir eru ljóslausir á morgnana. Einn morguninn hjólaði ég á eftir einum slíkum og það kom nokkrum sinnum fyrir að hann hvarf mér sjónum, ekki af því hann væri kominn svo langt á undan mér heldur af því ég sá hann hreinlega ekki í myrkrinu, það var mjög óþægilegt.

En almennt leggst ágætlega í mig að það sé kominn vetur og ég hlakka til að takast á við það sem hann mun bjóða uppá.

24. september 2011

Sumarið 2011

Garðvinna hefur líklega tekið upp mestann tímann þetta sumarið. Við höfum sagað niður runna, sem eiga svo eftir að vaxa upp aftur. Tekið upp birkirunna sem voru orðnir gamlir og úr sér vaxnir og sett stiklinga af hinum runnunum niður í staðinn. Hreinsað beð sem var fullt af grasi og órækt. Smíðað girðingu. Ræktað matjurtir. Og síðast en ekki síst reitt arfa og slegið grasið.

En eitthvað hefur líka verið hjólað og það er ekki síður skemmtilegt en garðvinnan.

Í júní hjóluðum við fjölskyldan í Elliðaárdalinn í blíðskaparveðri. Dalurinn er alltaf jafn fallegur og við áttum góðan tíma saman.




Í júní lok lögðu foreldrar mínir, sem bæði eru á sjötugsaldri, af stað hringinn í kringum landið. Þau höfðu planlagt allan veturinn og verið dugleg að hjóla og byggja upp þol. Bæði fengu sér kerrur aftan í hjólin, keyptu tjald og dýnur og hvaðeina sem nauðsynlegt er að hafa með sér í svona ferð. Og svo rann upp stóri dagurinn og þau lögðu af stað snemma morguns þann 26. Júní.

Ég vildi fá að vera smá þáttakandi í þessu ferðalagi þeirra svo ég hitti þau þar sem Hvalfjarðavegurinn hefst sunnanmegin og hjólaði með þeim inn að Fossá. Veðrið var ágætt, aðeins mótvindur og smá skúrir af og til. En allir voru í góðu skapi og spenntir í upphafi ferðar. Og Hvalfjörðurinn er svo fallegur, sérstaklega á þessum hluta sem ég hjólaði með þeim.

En mikið voru hjólagarparnir óheppnir með veður næstu daga, þau fengu stöðugan mótvind svo mikinn að hann feykti þeim nokkrum sinnum af hjólunum og það var engin hvíld í að fara niður brekkur, meira að segja niður Holtavörðuheiðna þurftu þau að stíga hjólin til að komast áfram. Eftir mikinn barning við að komast á Blönduós tóku þau rútuna norður á Akureyri þar sem þau voru með húsnæði og gátu hvílt sig yfir helgi. Þegar þau höfðu svo hjólaði í Mývatnssveit sagði gigtin hjá mömmu hingað og ekki lengra og þau tóku þá erfiðu ákvörðun að segja þetta gott í bili.








Í byrjun júlí fórum við hjónin í ferð sem upphaflega átti að vera viku fjölskylduferð í bústað í Skorradal en varð á endanum eins sólarhings ferðalag okkar tveggja. Þetta var virkilega velheppnuð ferð. Við byrjuðum í Skorradal og gistum þar eina nótt. Daginn eftir pökkuðum við saman og fórum vestur á Snæfellsnes að Hallbjarnareyri. Við höfðum tekið hjólin með okkur og hjóluðum frá Hallbjarnareyri niður að tóftum við sjóinn. Gengum svo niður í fjöru, Elías var með myndavélina sína og var að prófa sig áfram með allskonar stillingar og myndefni og ég náði að tína smá blóðberg í te. Eftir að við komum til baka að Hallbjarnareyri ákváðum við að fara inn Hraunsfjörðinn. Þar ókum við eins langt og okkur fannst bíllinn komast, tókum þá niður hjólin og hjóluðum eins langt inn með firðinum og hjólin komust, skildum þau svo eftir og gengum inn að fossum tveimur sem eru í botni fjarðarins. Í bakaleiðinni stillti lóuþræll sér upp til myndatöku og leyfði Elíasi að fara ótrúlega nálægt sér áðu en hann svo lét sig hverfa. Svona ferð get ég hugsað mér að fara aftur. Láta bílinn keyra eftir stóru aðalgötunum og taka svo niður hjólið og hjóla fáfarnari leiðir. Veðrið auðvitað skemmdi ekki fyrir.













Hjólaferð fjölskyldunnar var farin seint í júlí. Með þeim ferðum, en þetta er í annað skipti sem við skipuleggjum svona ferð, erum við að vona að ættingjar sjái dásemdir hjólreiða og hversu auðvelt og gaman það er að hjóla. Þetta er dagsferð og við reynum að velja leið sem er þægileg og hentar flestum, en er samt svolítil áskorun og lengri leið en menn almennt halda að þeir geti hjólað. Ferðahraði miðast við hópinn og við stoppum hér og þar á leiðinni. Myndir og frásögn í blogginu hér á undan.


Í ágúst fórum við í gönguferð upp á Úlfarsfell. Það var skýjað en þurrt til að byrja með. Við lögðum bílnum við skógræktina og gengum eftir stíg þar sem svo leiddi okkur upp upp upp. Einhverjir voru með efasemdir um að við kæmumst sömu leið niður aftur þar sem það var svo bratt. Og svo byrjaði að dropa úr lofti og við ákváðum að fara ekki sömu leiðina niður og við fórum upp heldur fara frekar til hliðar og niður þar sem var meira aflíðandi. Þetta var hressandi og skemmtilegur dagur.





Þetta er auðvitað ekki allt sem við gerðum í sumar, hérna vantar t.d. að segja frá skemmtilegasta ættarmóti sem a.m.k. nokkrir höfðu farið á. Hjólaferð með Guðlaugu mágkonu að Gljúfrasteini. Og fleira skemmtilegt, en maður getur auðvitað ekki sagt frá öllu.

19. júlí 2011

Hjólatúr fjölskyldunnar 2011

Hjóluðum af stað frá Kópavogsbrautinni og sem leið lá yfir Arnarnesið, í gegnum eða framhjá Garðabæ og út á Álftanes. Veðrið lék við okkur, glampandi sól en svolítill vindur.
Það er gaman að hjóla í góðravina hóp. Við vorum þrjú með kerrur aftan í hjólunum, svona meira upp á sportið heldur en nauðsyn og ég hafði ekki reynt kerruna mína nema bara rétt um kílómeters leið. Það var gaman að finna hvað kerra liggur vel á götunni.

Við stoppuðum aðeins í hrauninu á leiðinni og skoðuðum gróður og röbbuðum aðeins. Þarna hefði aldeilis verið flott að setjast niður og snæða nestið, en við vorum bara svo nýlögð af stað að menn voru almennt ekki tilbúnir í svoleiðis. Svo áfram héldum við.





Hér erum við komin á áfangastað og fundum þennan fína bekk að setjast á og borða það sem í við höfðum smurt og tekið með. Það var þó helst til of mikill vindur þarna og kalt alveg niðri við sjóinn.

En eftir að hafa borðað hófst mikil hjólakeppni. Hún fólst í því að fara sem hægast fyrirfram ákveðna vegalengd án þess að stíga niður fæti.





Brautin var það mjó að aðeins tveir kepptu í einu og var þetta einföld útsláttarkeppni.







Hér er svo úrslita rimman, ég og Þórhallur bróðir kepptum og eins og sést sigraði hann með yfirburðum þar sem ég var komin langt fram úr allt of fljótt.




Svo hjóluðum við til baka sömu leið og þá var enn heitara þar sem við höfðum vindinn í bakið.




En við Eyrún höfðum lært það af hjólatúrnum á síðast ári að bera á okkur sólarvörn áður en lagt var af stað og erum þess vegna fallega brúnar í dag í stað þess að vera frekar rauðar eins og síðast :)





Tvær stórar brekkur þurfti að fara upp í bakaleiðinni en að öðru leiti var leiðin mjög svo þægileg.






Hér er svo yfirlitskort af leiðinni sem við fórum. Samtals voru þetta 20 km. Þessi leið er tiltölulega þægileg og ætti að henta flestum hjólreiðamönnum, stórum sem smáum og ég er strax farin að hlakka til fjölskylduhjólaferðarinnar á næsta ári og vona að þá komist fleiri með en í ár.





Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...